Gólfglíma 30 +

Hjá JR eru haldnar gólfglímuæfingar fyrir aldursflokkinn 30 ára og eldri og hafa þær verið vel sóttar. Þessar æfingar eru bæði fyrir konur og karla, byrjendur og lengra komna og engin efri aldurstakmörk. Æft er á þriðjudögum kl. 17:00-18:00 og laugardögum kl. 11-12. Æfingarnar eru í rólegri kantinum og fyrst og fremst gólfglíma en líka standandi tækniæfingar fyrir þá sem það vilja en fyrst og fremst er þetta mjög frjálst og hver og einn getur æft á sínum hraða. Með tilkomu 30+ þá eru iðkendur í klúbbnum í dag á aldrinum fimm ára til sjötíu og fimm ára sem er ákaflega jákvætt því þeir eldri búa að mikilli reynslu til að miðla til hinna yngri. Ef þú hefur einhverntíma æft judo hvernig væri þá að máta gamla gallann og taka þátt eða bara koma og spjalla. Það eru allir velkomnir að prófa, það kostar ekkert.

Beltapróf hjá 5-6 ára

Í gær laugardaginn 12. nóvember tóku nokkur börn í æfingahópnum 5-6 ára beltapróf og fengu strípu í beltið sitt. Sum börnin voru að fara í sitt fyrsta beltapróf en önnur í sitt annað, þriðja og fjórða og jafnvel sitt fimmta eins og Auður María og Alex Garðar en þau voru að taka sitt fimmta beltapróf og fengu sína fimmtu strípu í beltið sem þýðir að þau eru búin að æfa judo í fimm annir eða frá haustinu 2020. Öll börnin stóðu sig með sóma og fengu þau strípu (fjólubláa) í beltið sitt. Litirnir á strípunum segja til um aldur barns og fjöldi strípa segja til um hve lengi hefur verið æft en það er gefin ein strípa fyrir hverja önn og eru annirnar tvær á ári. Það voru ekki allir mættir á laugardaginn og verður því annað beltapróf fyrir þau sem ekki komust, næst þegar þau mæta.

Börn 10 ára og yngri fá strípur á beltin sín en þegar þau verða 11 ára þá fá þau ný belti. Hér má sjá litakerfi belta fyrir 10 ára og yngri og 11 ára og eldri.

Reykjavíkurmeistaramótið 2022 – Úrslit

Reykjavíkurmeistaramótið 2022 var í umsjón Judofélags Reykjavíkur og fór það fram föstudaginn 11. nóv. Keppendur eru eingöngu frá Reykjavíkurfélögunum þremur, Judofélagi Reykjavíkur, Judodeild ÍR og Judodeild Ármanns. Ekki stóð til að keppa í U11 en þar sem mikið var um afföll og ljóst var að verðlaunapeningar ónýttust þá var ákveðið að leyfa þeim sem mættir voru á æfingu í U11 að taka þátt í mótinu. Keppt var því í aldursflokkum U11, U15, U21 og karla flokkum og voru keppendur alls þrjátíu og einn. Vegna veikinda var töluvert um að keppendur afboðuðu sig svo það var til þess að aldursflokkar U13 og U15 voru sameinaðir og í U15 voru stúlkum og drengjum blandað saman til að allir fengju keppni. Einnig var -81 kg flokkur og -90 kg flokkur settir saman í U21 árs og senioraflokki. Viðureignirnar voru margar mjög jafnar og spennandi og fóru allnokkrar í gullskor. Hér eru úrslitin og myndir frá mótinu og videoklippa.

Reykjavíkurmeistaramótið breytt dagskrá

Ákveðið hefur verið að færa Reykjavíkurmeistaramótið 2022 fram um einn dag og verður það því haldið föstudaginn 11. nóvember. Keppt verður í öllum aldursflokkum þ.e. U13, U15, U18, U21 og karla og kvennaflokkum og lágmarksgráða er gult belti, 5. kyu.

Aldursflokkur U13 og U15 hefja keppni kl. 17:00 og mótslok áætluð kl. 18:00 og er vigtun frá kl. 16:00 til 16:30. á keppnisdegi.

Keppni í U18 og U21 hefst svo kl. 18:00 og keppni í senioraflokki kl. 19:00 og mótslok áætluð um kl. 20:00. Vigtun í U18/U21 og seniorafloki verður frá kl. 17:00 til 17:30 á keppnisdegi.

Sveitakeppnin 2022

Íslandsmótið 2022 í sveitakeppni (liðakeppni) verður haldið í Laugardalshöllinni laugardaginn 19. nóvember. Í sveitakeppni er keppt í karla og kvennaflokkum og í aldursflokkunum U15 (11-14 ára), U18, U21 og senioraflokki en þó hefur ekki alltaf verið næg þátttaka til að keppni hafi farið fram í öllum flokkum. JR mun senda karlalið í U15, U18, U21 og senioraflokka en því miður náum við ekki að manna kvennasveitir að þessu sinni en það stendur til bóta og vonandi náum við því 2023. Mótið hefst kl. 13 og mótslok áætluð um kl. 16 en nánari tímasetning að lokinni skráningu. Skráningarfrestur er til miðnættis 14. nóvember og vigtun fer fram hjá JR föstudaginn 18. nóv. frá 18 -19. Myndin sem hér fylgja eru af verðlaunasveitum JR frá keppninni 2021 og hér eru úrslitin frá 2019 en keppnin féll niður 2020 vegna Covid-19.

Þrenn gullverðlaun á EM smáþjóða

Evrópumeistaramót Smáþjóða (GSSE) í Judo fór fram í dag, 5. nóvember Í Luxembourg. Þetta var í fyrsta skipti sem mót þetta var haldið og því voru fyrstu Evrópumeistarar Smáþjóða krýndir í dag. Fram að þessu hafa iðulega níu þjóðir keppt á GSSE en það eru Andorra, Ísland, Kýpur, Liechtenstein, Luxembourg, Malta, Monako, Svartfjallaland og San Marino. Í þessu móti eru ekki eru skráðir keppendur frá Svartfjallalandi né Monako en hinsvegar eru Færeyingar með keppendur og einnig Úkranía svo þátttökuþjóðirnar voru níu og keppendur alls 109.

Íslensku keppendurnir voru tíu og kepptu fimm þeirra í karlaflokki og fimm í U18 aldursflokki. Í karlaflokki náðu lengst þeir Egill Blöndal og Karl Stefánssonar en þeir unnu báðir til gullverðlauna. Egill mætti Raphael Schwendinger frá Lichtenstein í úrslitum í -90 kg flokki og sigraði örugglega með armlás eftir u.þ.b þrjár mínútur og það sama gerði Karl í +100 kg flokki en hann sigraði Edvard Johannesen frá Færeyjum í úrslitum. Kjartan Hreiðarsson vann fyrstu viðureign í -73 kg flokki gegn Lichtenstein en tapaði næstu gegn Kýpur. Hann mætti öðrum keppanda frá Kýpur um bronsverðlaunin en varð að játa sig sigraðan og endaði Kjartan því í 5. sæti. Aðalsteinn Björnsson keppti einnig í karlaflokki -73kg en komst ekki áfram þar. Ingólfur Rögnvaldsson keppti í -66 kg flokki og byrjaði vel og leiddi fyrstu viðureign gegn Konstantinos Georgiou frá Kýpur með wazaari en þegar aðeins um 20 sek voru eftir af glímunni náði Konstantinos að skora ippon. Þar sem Konstantinos fór í úrslit síðar um daginn fékk Ingólfur uppreisnarglímu og mætti Fridi Carlson frá Færeyjum. Sú glíma var svipuð þeirri fyrri, Ingólfur var sterkari aðilinn og leiddi viðureignina með wazaari og var í lítilli hættu en Fridi komst óvænt inn í bragð (Osotogari) og skoraði ippon og þar með var Ingólfur úr leik og endaði í 7. sæti. Skarphéðinn Hjaltason keppti í -90 kg flokki og byrjaði vel gegn Raphael Schwendinger frá Lichtenstein og skoraði fljótlega á hann wazarri en Raphael náði að svara fyrir sig og komst inn í bragð og skoraði einnig wazaari og náð síðan í framhaldi að halda Skarphéðni í gólfinu. Skartphéðinn mætti næst Petur Petersen frá Færeyjum og sigrar hann á ippon eftir rúma mínútu. Skarphéðinn keppti næst um bronsverðlaunin gegn Valerian Ogbaidze frá Möltu og varð að lúta í lægra haldi gegn honum.

Í keppni unglinga U18 var það frammistaða Aðalsteins Karls Björnssonar og Darons Hancock sem stóð upp úr. Þeir mættust úrslitum í U18 -73kg flokki en höfðu áður lagt af velli keppendur frá Möltu og Andorra. Aðalsteinn tryggði sér gullverðlaunin eftir hörku viðureign gegn Daron sem tók þá silfurverðlaunin en þeir þekkjast orðið nokkuð vel enda æfingafélagar og glímur þeirrra oft afar jafnar. Mikael Ísaksson keppti einnig í U18 -73 kg flokki en komst ekki áfram að þessu sinni.

Í U18 -66 kg kepptu þeir Romans Psenicijs og Nökkvi Viðarsson. Romans tapaði gegn Iakovos frá Kýpur en fékk ekki uppreisn þar sem Iakovos tapaði næstu viðureign og Romans því úr leik. Nökkvi sat hjá í fyrstu umferð en mætti síðan keppanda frá Kýpur, Konstantinos og tapaði gegn honum. Konstantinos vann hins vegar allar sínar viðureignir og sigraði í flokknum síðar um daginn sem þýddi það að Nökkvi fékk uppreisn og sigraði keppanda frá Andorra í næstu viðureign á ippon með fallegu sópi en tapaði svo í baráttunni um bronsið gegn keppanda frá Lichtenstein og endaði Nökkvi því í 5. sæti.

Hér eru öll úrslitin og video frá keppninni og hér neðar eru myndir af íslensku keppendunum af heimasíðu EJU.

Reykjavíkurmeistaramótið 2022

Reykjavíkurmeistaramótið 2022 verður í umsjón JR og haldið laugardaginn 12. nóvember. Vigtun á keppnisdegi frá kl. 11:30 til 12:00 og mótið hefst svo kl. 13:00 og mótslok áætluð um kl. 16:00. Keppt verður í öllum aldursflokkum þ.e. U13, U15, U18, U21 og karla og kvennaflokkum og lágmarksgráða er gult belti, 5. kyu . Lokaskráningardagur er mánudagurinn 7. nóv. í gegnum skráningarkerfi JSÍ. Nánari upplýsingar og tímasetning hér á síðunni að lokinni skráningu.

Evrópumeistaramót Smáþjóða (GSSE)

Á morgun leggur fjölmennurt hópur keppenda af stað til Luxembourg þar sem þeir munu taka þátt í Evrópumeistaramóti Smáþjóða (GSSE) 2022 og þetta í fyrsta skipti sem mótið er haldið. Þjóðirnar níu sem keppt hafa á GSSE fram að þessu eru Andorra, Ísland, Cyprus, Liechtenstein, Luxembourg, Malta, Monaco, Montenegro og San Marino. Ekki eru skráðir keppendur frá Montenegro né Monaco að þessu sinni en hinsvegar eru frændur okkar Færeyingar með keppendur og einnig Ukranía svo þátttökuþjóðirnar verða níu og keppendurnir alls 109. Einstaklingskeppni fer fram 5. nóv. og liðakeppni 6. nóv. en íslenski hópurinn tekur aðeins þátt í einstaklingskeppninni.

Hér er hægt að fylgjast með mótinu. Seniors og U18 og bein útsending. Til að horfa á beina útsendingu þarf að hafa (IJF account) sem er frír og notast aftur og aftur.

Íslenski hópurinn

U18 landslið: Nökkvi Viðarsson -66kg, Romans Psenicnijs -66kg, Daron Hancock -73kg, Aðalsteinn Björnsson -73kg, Mikael Ísaksson -73.

Seniora landslið: Ingólfur Rögnvaldsson -66kg, Kjartan Hreiðarsson -73kg, Egill Blöndal -90kg, Skarphéðinn Hjaltason -90kg, Karl Stefánsson +100.

Þjálfarar og farastjórar: Jóhann Másson, formaður JSÍ/fararstjóri, Þormóður Árni Jónsson, framkvæmdatjóri JSÍ/farastjóri, Zaza Simonisvhili, landsliðsþjálfari.

JR með 11 gull á Haustmóti JSÍ 2022

Haustmóti JSÍ í öllum aldursflokkum (U13/U15/U18/U21 árs og senioraflokkum) fór fram laugardaginn 22. október. Keppendur voru fimmtíu og fimm frá sjö klúbbum. Judofélag Reykjavíkur var með tuttugu og tvo keppendur sem stóðu sig býsna vel og unnu þeir ellefu gullverðlaun, fimm silfur og fimm bronsverðlaun. Mótið fór vel fram, dómgæsla og mótsstjórn hin besta og úrslitin svona nokkuð eftir bókinni. Fullt var samt af hörkuviðureignum eins og t.d fyrri glíma þeirra Aðalsteins Björnssonar og Kjartans Hreiðarssonar í U21 árs flokki -73kg en þar sigraði Kjartan að lokum eftir hnífjafna viðureign en vann hinsvegar örugglega í viðureign þeirra í karlaflokki síðar um daginn. Sömu sögu má segja af þeim Romans Psenicnijs og Nökkva Viðarssyni í U18 -66 kg flokki en sú viðureign var einnig hnífjöfn og fór í gullskor og endaði eftir 12 mínútna glímu með sigri Romans. Þeir glímdu aftur saman síðar um daginn í -66 kg þyngdarflokki karla og aftur fór viðureignin í gullskor og nú var það Nökkvi sem sigraði og einnig eftir 12 mínútna glímu og er það sennilega Íslandsmet að sömu aðilar eigist við í samtals í 24 mínútur sama daginn. Helena Bjarnadóttir sem er 14 ára átti að keppa í aldursflokki U15 en þar sem enginn mótherji var þar gegn henni mátti hún keppa í eldri aldursflokki og gerðu sér lítið fyrir og sigraði bæði í U21 -70 kg og seniora flokki kvenna -70 kg og var það vel gert hjá svona ungum iðkanda. Aðrir klúbbar sem unnu til gullverðlauna voru Ármenningar og JG með með þrjú gullverðlaun hvort félag og Selfoss, KA og Tindastóll með eitt hvort. Óskum við öllum verðlaunahöfum til hamingju með árangurinn.

Hér eru úrslitin og video klippa frá keppninni og hér neðar myndir frá mótinu.

Haustmót JSÍ 2022

Haustmót JSÍ 2022 í öllum aldursflokkum, U13/U15/U18/U21 og senioraflokkum verður haldið laugardaginn 22. okt. Íþróttahúsi Grindavíkur.

Aldursflokkar U13, U15 hefja keppni kl. 10:00 sem lýkur um kl. 11:00. Keppni U18 hefst kl. 12 og strax að þeirri keppni lokinni hefst keppni í U21 árs aldursflokki. Keppni í senioraflokki er svo áætluð að hefjist um kl. 14.

Vigtun í JR föstudaginn 21. okt. frá 18-19 eða á keppnisdegi á mótsstað frá 9:00 til 9:30 fyrir alla aldursflokka en keppendur í aldursflokkum U18 og eldri geta líka vigtað sig þann dag frá kl. 11-11:30.