Íslandsmeistaramót karla og kvenna 2024

Íslandsmeistaramót karla og kvenna 2024 verður haldið laugardaginn 27. apríl í Laugardalshöllinni. Allir bestu judomenn og konur landsins verða með. Mótið hefst kl. 10 með forkeppni í öllum þyngdarflokkum sem ætti að ljúka um kl. 12 og úrslitin í þeim flokkum hefjast svo kl. 13:00 og opinn flokkur karla og kvenna strax á eftir og mótslok áætluð um kl. 15:00. Hér verður hægt að fylgjast með í beinni útsendingu og hér má svo sjá úrslitin. Hlekkir á beina útsendingu og úrslit verða settir hér inn á keppnisdegi. Dagskráin verður uppfærð ef á þarf að halda að loknum skráningarfresti sem er mánudagurinn 22. apríl .

JR með 17 gull á ÍM yngri 2024

Íslandsmeistaramótið í yngri aldursflokkum fór fram Laugardaginn 13. apríl. Keppt er í aldursflokkum U13, U15, U18 og U21 árs. Keppendur voru sjötíu og fimm frá eftirfarandi níu klúbbum, Ármanni, Grindavík, ÍR, JR,JS, JRB, KA, UMFS og Tindastóli og hefur fjöldi keppenda á mótinu farið vaxandi. Mótið var velheppnað, fullt af spennandi og flottum viðureignum sem flestar enduðu með fullnaðarsigri. Þátttakendur frá JR voru þrjátíu og fimm og unnu þeir alls sautján gullverðlaun, ellefu silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun, til hamingju með frábæran árangur. Keppt var á tveimur völlum og streymdi JSÍ frá mótinu. Hér eru úrslitin og stutt videoklippa frá keppninni og myndir.

Íslandsmeistaramót yngri 2024

Íslandsmót í yngri aldursflokkum (U13 , U15, U18 og U21) verður haldið hjá Judodeild Ármanns í Laugardal, laugardaginn 13. apríl og hefst kl. 11:00 og áætluð mótslok verða um kl. 14:30.

Keppni U13, U15 og U18 hefst kl. 11 og ætti að ljúka um kl. 13. Keppni í aldursflokki U21 hefst svo hefst svo kl. 13:00 og mótslok um kl 14:30.

Vigtun fyrir alla aldursflokka er hjá JR föstudaginn 12. apríl frá kl. 17-18:00 og einnig á keppnistað á keppnisdegi fyrir þá sem það vilja frekar frá kl. 9:00 – 10:00 og er það einnnig fyrir alla aldursflokka.

Úrslit páskamóts JR og Góu 2024

Páskamót JR og Góu 2024 var haldið laugardaginn 6. apríl en það jafnan haldið fyrstu helgina eftir páska. Páskamótið er eitt vinsælasta mót ársins hjá yngri judo iðkendunum og jafnframt það fjölmennasta en mótið er opið öllum klúbbum. Á þessu móti eru margir að stíga sín fyrstu skref í keppni og fá allir þátttakendur verðlaun að því loknu. Aldursflokkum 7-10 ára var tvískipt og kepptu 7-8 ára börn frá 12-13 og 9-10 ára börn frá 13-14 en þá hófst keppni í aldursflokkum 11-14 ára sem lauk um kl. 15. Til þess að allir fái keppni þarf stundum að blanda saman aldursflokkum sem og stúlkum og drengjum en í sömu þyngdarflokkum. Á æfingu 5-6 ára barna hjá JR fyrr um morgunin var haldið lítið mót fyrir þau og þeim kennt hvernig á að bera sig að í keppni og skilja dómarann og stóðu þau sig afar vel.

Þátttakendur á mótinu í ár voru frá fjórum eftirfarandi klúbbum, Judodeild Ármanns, Judodeild Selfoss, Judodeild Tindastóls og Judofélagi Reykjavíkur en skráðir keppendur voru sjötíu og fjórir en á mótsdegi mættu ekki og eða afboðuðu sig sextán keppendur ýmist vegna veikinda eða af öðrum ástæðum. Með keppendunum komu að sjálfsögðu þjálfarar og auk þeirra fjöldinn allur af foreldrum og eða aðstandendum. Stemmingin var góð og keppnin mjög skemmtileg og fullt af flottum viðureignum.

Dómarar mótsins og aðstoðarmenn þjálfara voru nokkrir af okkar bestu judomönnum í U18 og U21 aldursflokkum og stóðu þau sig frábærlega eins og þeirra er von og vísa en það voru þau Aðalsteinn Björnsson, Jónas Guðmundsson, Skarphéðinn Hjaltason og Weronika Komendera sem dæmdu og Gunnar Ingi Tryggvason og Orri Helgason voru þjálfurum til aðstoðar en þjálfarar JR voru þeir Guðmundur Jónasson, Zaza Simonishvili og Bjarni Friðriksson. Mótsstjórn var á höndum þeirra Ara Sigfússonar og Jóhanns Mássonar. Hér eru úrslitin, myndir af verðlaunahöfum og frá mótinu og stutt video klippa.

Copenhagen Open-Skarphéðinn með silfur

Það voru ellefu keppendur frá Íslandi auk þjálfara og fararstjóra sem tóku þátt í Copenhagen Open 2024 dagana 29. og 30 mars s.l. og voru þeir frá tveimur klúbbum, JR og KA. Fyrir KA keppti Samir Jónsson í U18 -66 kg og fyrir JR í sama aldursflokki kepptu þau Emma Thueringer -48 kg, Elías Þormóðsson og Orri Helgason í -60 kg, Gunnar Tryggvason og Jónas Guðmundsson í -66 kg, Mikael Ísaksson -81 kg og Viktor Kristmundsson +81 kg og Jóhann Jónsson keppti í U15 -66 kg. Í aldursflokki 18+ kepptu þeir Daron Hancock -73 kg og Skarphéðinn Hjaltason -90 kg og auk þeirra kepptu aftur þeir Elías Þormóðsson, Gunnar Tryggvason og Mikael Ísaksson. Þjálfarar og fararstjórar í ferðinni voru Bjarni Friðriksson, Guðmundur Jónasson, Þormóður Jónsson, Brigitta Gera, Helgi Einarsson og Ísak Jónsson.

Copenhagen Open er fjölmennt og sterkt alþjóðlegt mót, keppendur tæplega 800 sem komu víða að. Okkar keppendur stóðu sig misvel eins og gengur og unnu allflestir eina eða fleiri viðureignir en bestum árangri náði að þessu sinni Skarphéðinn Hjaltason sem keppti til úrslita í -90kg flokki 18 ára og eldri. Hann tapaði þeirri viðureign að lokum eftir harðan bardaga en til þess að komast í úrslitin þá hafði hann unnið þrjár viðureignir á undan með yfirburðum en hann sigraði alla andstæðinga sína með glæsilegum köstum. Skarphéðinn hefur aldrei verið betri en nú en hann kom vel undirbúinn, einbeittur og öruggur með sig. Fleiri stóðu sig einnig vel en Jóhann Jónsson -66 kg í U15 og Viktor Kristmundsson +81 kg í U18 kepptu um bronsverðlaun í sínum flokkum en urðu að játa sig sigraða. Daron átti flottar glímur í -73 kg flokki og vann þar tvær viðureignir á ippon og virkaði feyki sterkur, fékk uppreisn og endaði í níunda sæti. Elías vann þrjár viðureignir og endaði einnig í 9. sæti og Orri vann tvær viðureignir. Fleira væri hægt að tiltaka en heilt yfir stóðu krakkarnir sig öll vel og stóðu fyllilega fyrir sínu og eru reynslunni ríkari. Hér má finna úrslitin og hér er linkur á YouTube rás mótsins báða keppnisdagana og frá öllum keppnisvöllum með nafnalista og tímasetningu svo auðvelt er að leita og finna ákveðnar viðureignir og hér er einnig stutt videoklippa. Til hamingju með árangurinn.

Copenhagen Open 2024

Copenhagen Open 2024 hefst föstudaginn 29. mars og verður fjöldi keppenda frá Íslandi á meðal þátttakenda og keppa þeir í aldursflokkum U15, U18 og +18 ára. Frá JR fara eftirfarandi tíu keppendur en það eru þau Jóhann Jónsson sem keppir í U15 og í U18 keppa þau Emma Thueringer, Orri Helgason, Mikael Ísaksson, Gunnar Tryggvason, Jónas Guðmundsson, Elías Þormóðsson og Viktor Kristmundsson, og keppa flest þeirra einnig í 18+ sem og þeir Daron Hancock og Skarphéðinn Hjaltason og með okkur úr KA kemur Samir Jónsson og mun hann bæði keppa í U18 og 18+.

Keppni í U18 verður á föstudaginn og á laugardaginn verður keppt í aldursflokkum U15 og 18+. Myndin hér neðar var tekin að lokinni æfingu í kvöld en hópurinn leggur af stað í nótt ásamt þremur þjálfurum og nokkrum foreldrum. Hér eru upplýsingar um mótið og keppendalistann er hægt að skoða í Registration.

Mótið verður í beinni útsendingu og fréttir og upplýsingar verða settar á facebook síðu JR .

Páskamót JR 2024

Páskamót JR og Góu verður nú haldið í nítjánda sinn laugardaginn 6. apríl og er mótið opið öllum klúbbum eins og venjulega. Skráning í skráningarkerfi JSÍ og er skráningarfrestur til miðnættis þriðjudagsins 2. apríl og sjá klúbbarnir um að skrá þátttakendur ekki foreldrar. Keppt verður í aldursflokkum 7-10 ára frá kl. 12-14 (vigtun frá 11-11:30) og 11-14 ára frá 14-16 (vigtun frá 13-13:30). Ef breytingar verða á dagskránni þá verða þær birtar hér að loknum skráningarfresti. Sama dag verður Páskamót JR fyrir börn 5-6 ára haldið á æfingatíma þeirra frá 10-11 og er það eingöngu innanfélagsmót.

Páskafrí frá og með 28. mars

Það styttist í páskafrí hjá okkur en það verða æfingar í dag, á morgun og miðvikudag en páskafrí hefst svo á skírdag, fimmtudaginn 28. mars. Æfingar hefjast aftur samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 2. apríl. Það gæti þó verið að það verði æfing annan í páskum hjá meistaraflokki og framhaldi 15 ára og eldri og verður það þá auglýst hér og á facebook.

Gleðilega páska.

Vormót JSÍ seniora 2024 úrslit

Vormót JSÍ í seniora flokkum var haldið í dag, laugardaginn 23. mars í JR. Keppendur voru þrjátíu og einn frá níu klúbbum. Keppnin var virkilega skemmtilegt, fullt af glæsilegum og spennandi viðureignum og flottum köstum. Mótið hófst kl. 13 og lauk um kl. 15:30. Það var sérstaklega ánægjulegt að sjá hve margar konur voru á meðal keppenda en undanfarið hefur verið töluverð aukning á þátttöku þeirra í íþróttinni bæði í eldri og yngri aldursflokkum. JR- ingar voru hlutskarpastir að þessu sinni með fjögur gull, tvenn silfurverðlaun og þrjú brons. Í öðru særi var Judodeild Ármanns með tvenn gullverðlaun og í þriðja sæti var yngsta judofélag landsins, Judofélag Suðurlands með ein gullverðlaun, tvenn silfurverðlaun og eitt brons. Hér eru myndir frá mótinu, stutt videoklippa og hér eru úrslitin.

Sextán gull á Vormóti JSÍ yngri 2024

Vormót JSÍ í yngri aldursflokkum (U15, U18, U21 árs) fór fram laugardaginn 16. mars og var það í umsjón Judodeildar KA og voru það þeir Hans Rúnar Snorrason og Sigmundur Magnússon sem að höfðu veg og vanda af því og var framkvæmd öll til fyrirmyndar. Dómarar voru þeir Ari Sigfússon, Gunnar Jóhannesson og Jakob Burgel Ingvarsson og leystu þeir sitt verkefni vel af hendi. Til Akureyrar var farið í tveimur rútum og voru keppendur frá JR tuttugu og fjórir og fjórtán þeirra kepptu í tveimur aldursflokkum. Með þeim voru þjálfararnir Guðmundur Björn Jónasson, Zaza Simonishvili og Þormóður Jónsson og auk þeirra nokkrir feður keppenda sem sáu um aksturinn og fararstjórn þeir Alfreð Atlason, Helgi Einarsson og Hilmar Arnarson. JR- ingar áttu frábæran dag og unnu samtals til sextán gullverðlauna, ellefu silfurverðlauna og sex bronsverðlauna. Til hamingju með árangurinn. Hér eru úrslitin og hér er hægt að horfa á allt mótið sem var í beinni útsendingu og hér er stutt videoklippa frá því.