Í júlí munu reglulegar judoæfingar í meistaraflokki og framhaldi 15+ vera á mánudögum, miðvikudögum og fimmtudögum kl 18-19:30, Ef áhugi er á því að æfa einnig á þriðjudögum og föstudögum þá verður það hægt en ákveðið hverju sinni á æfingu daginn áður.
Æfa í Georgíu í sumar
Á þriðjudaginn lögðu af stað til Georgíu þeir Aðalsteinn Björnsson, Jónas Guðmundsson, Mikael Ísaksson og Skarphéðinn Hjaltason ásamt Zaza Simonishvili sem er frá Georgíu og munu þeir æfa í judoklúbbum í Tbilisi út júlí. Margir af bestu judomönnum heims koma einmitt frá Georgíu sem á marga evrópu, heims og Ólympíumeistara og eiga strákarnir örugglega eftir að sjá til og jafnvel æfa með einhverjum þeirra eins og Aðalsteinn í fyrra sumar þegar hann æfði meðal annars með Beka Gviniashvili og Luka Maisuradze.
Helena keppti á EM cadett
Evrópumeistaramót Cadett 2025 (aldursflokkur 15-17 ára) fór fram í Skopje í Makedoníu dagana 26-28 júní. Þetta er eitt sterkasta mót sem haldið er í heiminum ár hvert í þessum aldursflokki og voru keppendur 421, karlar 217 og konur 204. Að þessu sinni var aðeins einn keppandi frá Íslandi en Helena Bjarnadóttir keppti í -70 kg flokki og þjálfari með henni var María D. Skúlason. Helena átti fyrstu viðureign í flokknum og mætti Alina Chekmareva (IJF) sem er í 33 sæti heimslistans. Þetta var hörkuviðureign sem var mjög jöfn og hvorugar náðu skori í venjulegum glímutíma sem er fjórar mínútur og var það ekki fyrr en á annari mínútu í gullskori sem Alinu tókst að skora og innbyrða sigur þar með. Alina datt út í næstu umferð gegn franskri stúlku sem er efst á heimslistanaum og þar með var engin uppreisnarglíma í boði fyrir Helenu og hún úr leik. Hér neðar eru myndir fræa glímunni hennar gegn Alinu. Hér eru nánari upplýsingar um mótið og hægt að sjá myndbönd frá því.


Aðalfundur JR 2025
Aðalfundur JR var haldinn 24. júní. Jón Hlíðar Guðjónsson formaður JR setti fundinn og bauð fundargesti velkomna. Gengið til dagskrár og kosnir fastir starfsmenn fundarins. Jóhann Másson var kosinn fundarstjóri og Eyjólfur Orri Sverrisson ritari. Fráfarandi stjórn flutti starfsskýrslu og lagði fram reikninga. Umræður um skýrslu og reikninga og fyrirspurnum svarað. Starfsskýrsla og reikningar bornir undir atkvæði og samþykktir samhljóða. Engar tillögur lágu fyrir fundinum en undir liðnum önnur mál báru ýmis áhugaverð mál á góma og samþykkt var að að vísa nokkrum þeirra til stjórnar til frekari útfærslu. Næst var komið að kosningu stjórnar og skoðunarmanns. Jón Hlíðar Guðjónsson var endurkjörinn formaður og aðrir í stjórn voru kosin þau Daníela Rut Daníelsdóttir, Eyjólfur Orri Sverrisson, Magnús Jóhannsson og Alfreð Atlason og í varastjórn Ari Sigfússon og Jóhann Másson og skoðunarmaður Runólfur Gunnlaugsson. Jóhann Másson gaf ekki kost á sér í aðalstjórn og Höskuldur Einarsson gaf ekki kost á sér í stjórn að sinni en hann hefur setið í stjórn JR í yfir tuttugu ár og þakkar JR honum fyrir hans framlag og vinnu fyrir félagið allan þann tíma. Endurkjörinn formaður, Jón Hlíðar þakkaði fundargestum fyrir komuna og góða fundarsetu og sleit fundi.
Gunnar, Jónas og Orri komnir með 1. dan
Þeir félagar Gunnar Ingi Tryggvason, Jónas Björn Guðmundsson og Orri Snær Helgason þreyttu gráðupróf fyrir 1. dan í gær og stóðust það með glæsibrag. Orri er á sextánda ári og er einn af fáum sem hafa náð svartabeltinu á þeim aldri en Gunnar og Jónas eru á sautjánda ári. Allir hafa þeir æft judo í mörg ár eða frá 6-10 ára aldri en Jónas byrjaði 6 ára gamall. Þeir hafa alltaf verið mjög áhugasamir um keppni og tekið þátt í flestum mótum sem í boði eru bæði hér heima og nokkrum erlendis og staðið sig vel og voru t.d. allir í verðlaunasæti á ÍM karla 2025 og eru núverandi Íslandsmeistarar í U18 í hver í sínum þyngdarflokki. Til hamingju með áfangann.


Æfingar falla niður annan í Hvítasunnu
Ársþing JSÍ 2025
Á 54. ársþingi Judosambands Íslands sem haldið var í dag og hófst kl. 11 fór fram kosning um formann en tveir voru í framboði þeir Björn Sigurðarson og fráfarandi formaður Gísli Egilson og var Gísli endurkjörinn formaður til næstu tveggja ára. Einnig átti að kjósa um tvo stjórnarmenn og voru aðeins tveir tilnefndir þau Daníela Rut Daníelsdóttir og Eyjólfur Orri Sverrisson og voru því sjálfkjörin sem og þrír varamenn í stjórn þeir Logi Haraldsson, Ásgeir Erlendur Ásgeirsson og Ásbjörn Blöndal. Í aganefnd og skoðunarmenn reikninga voru endurkjörnir sömu menn og á síðasta starfsári. Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ sat þingið og ávarpaði það. Undir liðnum önnur mál voru fluttar nokkrar ræður sem fyrirspurnir og svör beint úr sætum. Þar sem engar tillögur eða lagabreytingar höfðu borist var þetta stutt og laggott þing sem var undir öruggri stjórn Valdimars Leó Friðrikssonar og sleit nýkjörinn formaður þinginu um kl. 13.
Gull og tvö brons á Smáþjóðaleikunum
Smáþjóðaleikarnir 2025 voru haldnir í Andorra dagana 26. til 31. maí og voru níu íslenskir keppendur í judo á meðal þátttakenda auk þjálfara og flokksstjóra. Þau sem kepptu að þessu sinni voru Kjartan Hreiðarsson (-100 kg) Aðalsteinn Karl Björnsson og Skarphéðinn Hjaltason (-90 kg), Böðvar Arnarsson og Mikael Ísaksson (-81 kg) Gylfi Jónsson (-73 kg) Helena Bjarnadóttir (-63 kg), Weronika Komendera (-57 kg) og Eyja Viborg (-52 kg). Flokksstjóri var Gísli Egilson og þjálfarar þeir Þormóður Árni Jónsson og Zaza Simonishvili. Aðalsteinn Björnsson sem keppti á síðustu Smáþjóðaleikum í -73 kg flokki hefur verið að bæta sig gríðarlega á síðustu mánuðum og keppti núna í -90 kg flokki. Hann sigraði með miklum yfirburðum og er hann líklegast sá yngsti til þessa, aðeins 18 ára gamall, til að vinna til gullverðlauna á Smáþjóðaleikum í judo. Þetta voru einu gullverðlaunin sem við fengum að þessu sinni og kominn tími til en síðast unnum við gullverðlaun á Smáþjóðaleikunum 2017 í San Marinó. Helena Bjarnadóttir stóð sig einnig virkilega vel og vann til bronsverðlauna í -63 kg flokki kvenna og hún ásamt Weroniku Komendera og Eyju Viborg unnu einnig bronsverðlaun í liðakeppni kvenna. Kjartan Hreiðarsson og Eyja Viborg kepptu um bronsverðlaunin í sínum flokkum en lutu því miður í lægra haldi og Skarphéðinn varð í fjórða sæti en aðrir komust ekki áfram.
Hér og hér er samantekt af árangri Íslendinga í judo á Smáþjóðaleikunum frá því þeir voru fyrst haldnir í San Marino árið 1985 og hafa þeir unnið til alls 105 verðlauna. Hér eru pdf skjöl með úrslitum í einstaklingskeppninni og liðakeppninni í Andorra og á vef IJF má einnig finna úrslitin í einstaklings og liðakeppninni. Á vef EJU er flott viðtal við Aðalstein sem tekið var við hann að loknu móti.
Myndirnar hér neðar eru af heimasíðu EJU (Evrópu judosambandið).




































Smáþjóðaleikarnir 2025 í Andorra
Smáþjóðaleikarnir verða haldnir í Andorra dagana 26. til 31. maí. Níu Íslenskir þátttakendur í judo verða á meðal keppenda en það eru þau Kjartan Hreiðarsson (-100 kg) Aðalsteinn Karl Björnsson og Skarphéðinn Hjaltason (-90 kg), Böðvar Arnarsson og Mikael Ísaksson (-81 kg) Gylfi Jónsson (-73 kg) Helena Bjarnadóttir (-63 kg), Weronika Komendera (-57 kg) og Eyja Viborg (-52 kg) Með þeim í för er Gísli Egilson flokkstjóri og þjálfarar þeir Þormóður Árni Jónsson og Zaza Simonishvili. Góða ferð og gangi ykkur vel.
Þriðjudaginn 27. maí er einstaklingskeppnin og hefst hún samkvæmt núverandi áætlun (sem gæti breyst) kl. 8:30 að íslenskum tíma og úrslit kl. 14 og liðakeppnin verður svo 29. maí og hefst kl. 8:30 og úrslit kl. 11. Hér er hægt að horfa á keppnina og einnig á JudoTV. Á vef IJF er hægt að sjá dráttinn og fylgjast með framvindu keppninnar. Einstaklingskeppnin og liðakeppnina.


Vorönn 2025 lokið hjá yngri aldursflokkum
Sameiginleg æfing yngri flokka JR þ.e. barna 5-6 ára, 7-10 ára og 11-14 ára var haldin þriðjudaginn 20. maí sem var aðallega í formi leikja. Að æfingu lokinni voru börnunum afhent viðurkenningarskjöl fyrir þátttökuna á vorönninni og síðan var sest í setustofuna þar sem boðið var uppá veitingar. Það vantaði allmarga iðkendur á æfinguna og hafði kanski frábært veður eitthvað með það að gera og því komust ekki öll viðurkenningarskjölin til skila en hægt er að nálgast þau í JR eftir helgi. JR vill þakka foreldrum og eða aðstandendum fyrir samveruna í vetur og aðstoðina í dag sem og iðkendum öllum og vonumst til þess að sjá ykkur aftur sem flest á haustönninni sem hefst um miðjan ágúst en það verður auglýst hér þegar nær dregur.












