Baku Grand Slam 2023

Í vikunni lögðu af stað til Baku í Aserbaijan þeir Kjartan HreiðarssonHrafn Arnarsson og Karl Stefánsson ásamt Zaza Simonishvili landsliðsþjálfara og munu þeir keppa á laugardag og sunnudag en keppnin hófst í dag og stendur til 24. september. Keppendur eru 446 frá sextíu og einni þjóð og á meðal þeirra eru flestir stigahæstu menn og konur heims í dag. Á morgun keppa þeir Kjartan og Hrafn og Karl keppir svo á sunnudaginn og hefst keppnin báða dagana kl. 5:30 á okkar tíma en þá er klukkan í Baku 9:30. Kjartan sem keppir í -73 kg flokki situr hjá í fyrstu umferð en mætir svo í annari umferð annaðhvort Begench Soltanov frá Turkmenistan (TKM) eða Kyprianos Andreu frá Kýpur (CYP). Hrafn sem keppir í -81 kg flokki mætir Esposito Antonio frá Ítalíu (ITA). Kjartan á 19. glímu á velli eitt sem gæti verið um kl. 7 og Hrafn á 5. glímu á velli þrjú. Karl keppir í +100 kg flokki og mætir hann Cesarino Joao frá Brasilíu (BRA) og er það 8. glíma á velli þrjú. Fylgjast má með keppninni í beinni útsendingu á JudoTv.

Evrópumeistaramót juniora 2023

Evrópumeistaramót juniora 2023 hófst í dag en það fer fram 7-9 sept. í Haag í Hollandi. Þangað lögðu af stað í gær ásamt Zaza Simonishvili landsliðsþjálfara þrír keppendur sem hann valdi til þátttöku en það eru þeir Kjartan Hreiðarsson -73 kg og Böðar Arnarsson -81 kg sem keppa á morgun föstudaginn 8. sept. og Skarphéðinn Hjaltason -90 kg sem keppir á laugardaginn. Keppendur eru 366 frá 43 þjóðum 209 karlar og 157 konur. Það er óhætt að segja að þeir hefðu getað verið heppnari með mótherja en Kjartan drógst á móti Fabrizio frá Ítalíu sem er í 14. sæti heimslistans og eiga þeir níundu glímu á velli eitt. Böðvar mætir Maddaloni á velli tvö í tólftu glímu en hann varð í öðru sæti á EM 2022 og Skarphéðinn mætir Evrópumeistaranum frá 2022 Talibov frá Azerbaijan á velli tvö í áttundu glímu. Keppnin hefst kl. 8:30 á okkar tíma og fylgjast má með henni í beinni útsendingu á JudoTV.

JSÍ með æfingabúðir í JR um helgina

Um helgina verða æfingabúðir hjá Judofélagi Reykjavíkur og er öllum klúbbum velkomið að mæta. Æfingarnar: Föstudaginn 1. september kl 18:00 Laugardaginn 2. september kl 11:00 Laugardaginn 2. september kl 17:00 Æfingarnar verða um tveggja tíma langar. Fréttin er af heimasíðu JSÍ.

Frábært námskeið með Manuel Lombardo

Það ver vel sótt námskeiðið með Manuel Lombardo um helgina en þátttakendur voru rúmlega þrjátíu frá fimm klúbbum. Megnið af námskeiðinu fóru í tækniæfingar sem voru alveg frábærar en Manuel sem er einn af bestu judomönnum heims um þessar mundir (8. sæti heimslistans) kom þeim vel til skila. Þátttakendurnir sem voru mjög áhugasamir, soguðu til sín fræðin og munu örugglega geta nýtt sér eitthvað af því sem þeir sáu á komandi tímum ef þeir halda áfram að æfa það sem farið var í. Við hjá JR þökkum Manuel fyrir komuna og George Bountakis og Judofélagi Suðurlands fyrir þeirra aðkomu að heimsókn Manuels.

Manuel Lombardo með æfingu í JR

Manuel Lombardo verður með æfingu í JR sunnudaginn 27. ágúst og hefst hún kl. 14:00 og er hún opin öllum klúbbum. Eins og flest ykkar vita hefur Manuel unnið til fjölda verðlauna á sterkustu mótum heims eins og Grand Prix og Grand Slam og meðal annars hann hefur í tvígang unnið silfurverðlaun á heimsmeistaramóti seniora og nú síðast í maí og varð Evrópumeistari í -73 kg flokki 2021. Manuel hefur verið í fríi hér á landi og hefur Judofélag Suðurlands haft veg og vanda af því að fá hann til að vera með þessa æfingu og hafi þeir þökk fyrir. Hvetjum við alla judomenn yngri sem eldri til að mæta á sunnudaginn og læra af einum besta judomanni heims í dag en hér má sjá flott tilþrif með honum.

Heimsmeistaramót Cadets 2023

Heimsmeistaramót 2023 Cadets (15-17 ára) er haldið dagana 23-26 ágúst í Zagreb í Króatíu. Þar eru við með þrjá fulltrúa sem keppa allir á morgun föstudaginn 25. ágúst. Það eru þau Weronika Komendera sem keppir í -57 kg flokki og þeir Mikael Ísaksson og Arnar Arnarsson sem báðir keppa í -81 kg flokki og með þeim er Zaza Simonishvili landsliðsþjálfari. Keppendur eru 576 frá sextíu og fjórum þjóðum 316 karlar og 260 konur. Weronika drógst á móti Honda Riko frá Japan og eiga þær áttundu glímu á velli tvö. Mikael á þriðju glímu á velli eitt og mætir Aurelio Marco frá Mexikó og Arnar á sextándu glímu á sama velli mætir Bendeliani Giorgi sterkum keppanda frá Georgíu sem er í 8. sæti heimslista cadets. Keppnin hefst kl. 7 á okkar tíma og fylgjast má með henni í beinni útsendingu á JudoTV.

Volker Gößling sótti JR heim

Síðastliðinn þriðjudag fengum við óvænta heimsókn en á judoæfingu mætti Volker Gößling 6. dan frá Þýskalandi en hann var staddur hér á landi vegna ráðstefnu sem haldin var hér í vikunni en Volker er í forsvari og aðalþjálfari fyrir DSC Wanne-Eickel – Judo í Þýskalandi. Á þriðjudaginn byrjaði hann á því að taka þátt í Gólfglímuæfingu 30 + og síðan leiðbeindi hann hjá meistaraflokki/framhaldi og sýndi fullt af áhugaverðum atriðum bæði í standandi og gólf tækni. Hér er frétt á heimasíðu DSC Wanne-Eickel – Judo, um heimsón hans til JR. Takk fyrir heimsóknina Volker.

Haustönnin hefst 21 ágúst -Skráning hafin

Full starfsemi hefst aftur samkvæmt stundaskrá mánudaginn 21. ágúst með æfingum hjá meistaraflokki, byrjendum og framhaldi 15 ára og eldri og börnum 11-14 ára. Æfingar barna 7-10 ára hefjast svo þriðjudaginn 22. ágúst sem og Gólfglíma 15 ára og eldri og að lokum hefjast svo æfingar barna 5-6 ára laugardaginn 26. ágúst. Mánudaginn 4. sept. hefst svo nýtt námskeið (Kvennatími) sem bara eru ætlaðar konum 15 ára og eldri og verða æfingarnar í umsjá margfaldra Íslandsmeistara og reynslubolta þeirra Ástu Lovísu Arnórsdóttur og Daníelu Rut Daníelsdóttur.

Byrjendur fá frían prufutíma og er í góðu lagi að mæta í tímann með síðar íþróttabuxur og bol en Judobúninga er hægt að fá hjá JR.

Hér eru helstu upplýsingar eins og æfingatími, gjöldþjálfarar og fleira.
Frekari upplýsingar í síma 588-3200 eða senda tölvupóst á netfangið jr@judo.is

Ef ákveðið er að halda áfram að loknum prufutíma þá er gengið frá skráningu og námskeiðsgjaldi hér.

Zagreb Grand Prix 2023

Í vikunni lögðu af stað til Króatíu þeir Kjartan Hreiðarsson, Hrafn Arnarsson og Karl Stefánsson ásamt Zaza Simonishvili landsliðsþjálfara og munu þeir keppa um helgina á Zagreb Grand Prix seniora sem hófst í dag og stendur til 20. ágúst. Keppendur eru 530 frá áttatíu og þremur þjóðum og á meðal þeirra eru nokkrir allrasterkustu judomenn og konur heims eins og Biloid Daria, Lukas Krpalek og Sagi Muki svo einhverjir séu nefndir. Kjartan sem keppir í -73 kg flokki mætir John Waizenegger (SUI) og Hrafn sem keppir í -81 kg flokki mætir Arab Sibghatullah (IJF) Þeir keppa á morgun laugardaginn 19. ágúst og hefst keppnin kl. 7 á okkar tíma. Kjartan á glímu tvö á velli eitt og Hrafn á sjöttu glímu á velli þrjú. Karl keppir á sunnudaginn í +100 kg flokki og mætir hann Amadou Meite (FRA) og er það sextánda glíma á velli þrjú. Fylgjast má með keppninni í beinni útsendingu á JudoTV.

Keppni lokið á EYOF 2023

EYOF leikunum 2023 er lokið en judokeppnin hófst 23. júlí og lauk 29. júlí með blandaðri liðakeppni þar sem Tyrkir sigruðu en þeir kepptu til úrslita gegn Azerbaijan sem sigraði 2022 og Georgia varð í þriðja sæti. Þeir  Daron Hancock og Mikael Ísaksson báðir úr JR kepptu 27. júlí og drógust báðir á móti sterkum andstæðingum. Daron sem keppti í -73 kg flokki og mætti Adrian Durdevic frá BIH (Bosnia og Herzegovina). Þetta var hörkuviðureign þar sem barist var um tökin og stóð glíman í rúmar þrjár mínútur og var Adrian öllu virkari og náði Daron engum tökum og tapaði að lokum þrem shido. Mikael sem keppti í -81 kg flokki mætti Maj Kavnik frá SLO (Slóveníu). Mikael byrjaði af krafti og lenti fjótlega í gólfglímu og það leit ekki vel út fyrir hann þar á tímabili en hann bjargað sér vel með góðri vörn og dómari stoppar glímuna. Viðureignin hófst aftur og var Mikael ekki nógu vakandi og var skellt stuttu síðar á fallegu Osoto gari. Hvorki Daron né Mikael fengu uppreisnarglímur þar sem andstæðingar þeirra komust ekki nógu langt áfram í keppninni. EYOF er gríðasterkt judomót og ekki sjálfgefið að vinna viðureign á því en það vissu þeir félagar og höfðu undirbúið sig vel en það dugði ekki til að þessu sinni. Zaza Simonishvili landsliðsþjálfari var með strákunum í þessari ferð. Nánari upplýsingar má finna hjá EJU hjá IJF og JudoTV.