Keppa á Evrópumeistaramóti Juniora

Í dag lögðu af stað til Tékklands þeir Ingólfur Rögnvaldsson og Kjartan Hreiðarsson úr JR ásamt landsliðsþjálfara Zaza Simonishvili til að taka þátt í Evrópumeistaramóti Juniora sem haldið er í Prag í vikunnni en það hefst fimmtudaginn 15. september. Dregið verður í öllum flokkum á miðvikudaginn og þá kemur í ljós hverjum þeir mæta en keppendur eru 353 í karla og kvennaflokkum frá 39 þjóðum. Ingólfur keppir í -66 kg flokki á fimmtudaginn og Kjartan í -73 kg flokki á föstudaginn. Hér og hér er hægt að sjá allrar upplýsingar um mótið og fylgjast með í beinni útsendingu .

Haustdagskráin hefst 22. ágúst

Full starfsemi hefst aftur samkvæmt stundaskrá mánudaginn 22. ágúst með æfingum hjá meistaraflokki, byrjendum og framhaldi 15 ára og eldri og börnum 11-14 ára. Æfingar barna 7-10 ára hefjast svo þriðjudaginn 23. ágúst sem og Gólfglíma 15 ára og eldri og að lokum hefjast svo æfingar barna 5-6 ára laugardaginn 27. ágúst. 

Byrjendur fá frían prufutíma og er í góðu lagi að mæta í tímann með síðar íþróttabuxur og bol en Judobúninga er hægt að fá hjá JR.

Helstu upplýsingar eins og æfingatímagjöld og þjálfarar má finna hér.
Frekari upplýsingar í síma 588-3200 eða senda tölvupóst á netfangið jr@judo.is

Hér er hægt að skrá sig og ef ákveðið er að halda áfram að loknum prufutíma þá er gengið frá lokaskráningu og námskeiðsgjaldi hér.

Hayward Nishioka heimsótti JR

Hayward Nishioka 9. dan sem er mjög virtur judomaður frá Los Angeles kom í óvænta heimókn í JR í gær. Hayward sem er fyrrum heimsklassa keppandi, var tvisvar sinnum í fimmta sæti á heimsmeistaramóti, gullverðlaunahafi á Pan-Ameríkuleikum og margfaldur Bandarískur meistari. Hann var einnig alþjóðlegur dómari og dæmdi ekki bara í Ameríku heldur einnig í Asíu og Evrópu og hann hefur verið aðalþjálfari Bandaríkjana á nokkrum viðburðum. Hayward er einnig með svart belti Karate og Kendo. Hayward sem er áttræður hefur komið víða við á löngum ferli. Hann hefur kennt judo yfir 40 ár, skrifað fjölda bóka um judo, æft með þeim bestu á sínum tíma eins og Ólympíumeistaranum Anton Geesink, leikið í hasarmyndum þar sem judo/karate kom við sögu og var persónulegur vinur Bruce Lee og æfði oft með honum og hefur verið tekinn inn í US Judo Hall of Fame. Það var ákaflega ánægjulegt að hitta Hayward og fá tækifæri á því að spjalla við hann um liðna tíð. Takk fyrir komuna Hayward.

Keppni lokið á EYOF 2022

Þá eru EYOF leikunum 2022 lokið. Judokeppnin hófst 26 júlí og lauk 30 júlí með blandaðri liðakeppni þar sem Azerbaijan fór með sigur af hólmi. Þeir Skarphéðinn Hjaltason, JR og Jakub Tomczyk, UMFS kepptu 28. júlí og drógust báðir á móti mjög sterkum andstæðingum í fyrstu umferð. Jakub mætti Stanislav Korchemliuk frá Úkraníu í -81 kg flokki og tapaði Jakub þeirri viðureign en Stanislav stóð uppi sem sigurvegari í lok dags og það var eins hjá Skarphéðni en hann tapaði gegn Miljan Radulj frá Serbíu í fyrstu umferð og sigraði Miljan -90 kg flokkinn síðar þann dag. Bæði Skarphéðinn og Jakub fengu uppreisnarglímu, Skarphéðinn mætti keppanda frá UKR og Jakub keppanda frá Tyrklandi en því miður töpuðust þær einnig og þar með var þátttöku okkar manna á mótinu lokið. EYOF er gríðasterkt judomót og ekkert sjálfgefið að vinna viðureign á því en það vissu þeir félagar sem lögðu sig alla fram en það dugði ekki að þessu sinni. Eins og áður hefur komið fram þá hafa allmargir fyrrum sigurvegarar á EYOF unnið verðlaun á stórmótum eins og t.d. Ólympíuleikum ekki svo löngu seinna og verður því áhugavert að fylgjast með sigurvegurum frá EYOF 2022 á komandi árum. Zaza Simonishvili landsliðsþjálfari var strákunum okkar til aðstoðar í þessari ferð.

Keppa á EYOF 2022

Sunnudaginn 24. júlí hófust í Banská Bystrica í Slóvakíu EYOF leikarnir 2022 eða Ólympíuhátíð æskunnar sem er íþróttahátíð sem haldin er annað hvert ár fyrir aldurshópinn 14-18 ára. Hátíðin í ár átti að fara fram 2021 en var frestað vegna Covid svo það verða aftur EYOF leikar 2023 í Maribor í Slóveníu.  Á leikunum núna eru um 3000 þátttakendur frá 48 evrópuþjóðum og er keppt í tíu íþróttagreinum sem eru ásamt judo, badminton, blak, fimleikar, frjálsar, handbolti, hjólreiðar, körfubolti, sund og tennis og verða íslendingar þátttakendur í öllum greinum nema körfu og blaki. Þetta mót er gríðasterkt og hafa allmargir fyrrum sigurvegarar þess unnið verðlaun á Ólympíuleikum ekki svo löngu seinna eins og t.d. judomaðurinn Ilias Iliadis frá Grikklandi (áður Jarij Zviadauri, GEO) en hann vann gullverðlaun á EYOF 2001 í Murcia þá 15 ára gamall en keppti þá fyrir GEO og hann verður Ólympíumeistari karla tveimur árum síðar í Aþenu 2004 aðeins 17 ára gamall.

Til þess að tenglarnir hér neðar virki sem skyldi þá þarf að stofna (IJF account) sem er frír og notast aftur á næstu IJF viðburðum. Judokeppnin hófst í dag en hún stendur yfir frá 26-30 júlí og er keppt í liðakeppni síðasta daginn. Þátttakendur í judo fyrir Íslands hönd eru þeir Skarphéðinn Hjaltason, JR sem keppir í -90 kg flokki og Jakub Tomczyk, UMFS sem keppir í -81 kg flokki og munu þeir báðir keppa 28. júlí. Með þeim í för er landsliðsþjálfarinn Zaza Simonishvili. Búið er að draga og fá þeir öfluga andstæðinga sem eru báðir ofarlega á heimslistanum í U21 árs aldursflokki. Skarphéðinn mætir keppanda frá Serbíu, Miljan Radulj sem er í 39. sæti listans og Jakub mætir keppanda frá Ukraníu, Stanislav Korchemliuk sem er í 41. sæti listans. Hér er PDF skjal með drættinumn í öllum flokkum.

Hér er linkur á beina útsendingu og frekari upplýsingar. Mæli með að nota IJF Live síðuna til að horfa á beina útsendingu en henni fylgja allar upplýsingar um mótið og keppendur. Til að nota hana þarf að stofna (IJF account) sem er frír og notast aftur og aftur. Keppnin hefst kl. 10 að staðartíma sem er þá kl. 8 að morgni hjá okkur þar sem tímamunurinn er 2 tímar.

Í æfingabúðir í Danmörku

Í nótt fóru fimm íslenskir Judomenn ásamt þjálfara til Danmerkur þar sem þeir munu taka þátt í alþjóðlegum æfingabúðum í Amager en þær eru ætlaðar drengjum og stúlkum fædd 2004-2007. Þessar æfingabúðir eru liður í undirbúniningi fyrir EYOF (European Youth Olympic Festival) sem fram fer  í lok júlí í Slóvakíu og þar verða tveir judomenn frá Íslandi á meðal þátttakenda. Þeir sem taka þátt í æfingabúðunum eru (sjá mynd frá v-h) Zaza Simionishvili, (þjálfari) Skarphéðinn Hjaltason, Nökkvi Viðarsson, Mikael Ísaksson, Daron Hancock og Aðalsteinn Björnsson en þeir hafa verið afar duglegir við æfingar í sumar. (Frétt af heimasíðu JSÍ)