JR með 10 gull á Haustmóti yngri 2020

Haustmóti JSÍ í yngri aldursflokkum (U13/U15/U18/U21 árs) fór fram í gær laugardaginn 3. október. Þátttakendur voru þrjátíu og fjórir frá fjórum klúbbum auk þess sem einn keppti undir merkjum JSÍ. Judofélag Reykjavíkur sendi tuttugu og tvo keppendur sem stóðu sig vel og uppskáru tíu gullverðlaun, átta silfur og tvenn bronsverðlaun. Margir okkar keppenda voru að keppa í fyrsta skipti og stóðu sig frábærlega en aðrir komnir með töluverða keppnisreynslu. Sjá mátti margar flottar viðureignir, sumar jafnar og spennandi en aðrar enduðu með öruggum sigri og jafnvel óvæntum. Sem betur fer er slysatíðni lág í judo en það kemur þó fyrir að einhver meiðist en Andri Fannar sem keppti í sameinuðum flokki -90/-100 kg lenti illa á öxl snemma í fyrstu viðureign og varð að hætta keppni en hann verður vonandi mættur aftur til leiks fljótlega.

Vegna Covid takmarkana voru engir áhorfendur leyfðir og voru skilaboðum um það komið á framfæri til iðkenda og í gegnum facebook og heimasíðu félagsins en auðvitað eins og gengur komust þau ekki til skila til allra. JSÍ ætlaði að að streyma beint frá mótinu þar sem áhorfendur voru ekki leyfðir en því miður gekk það ekki eftir vegna netvandamála. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður og skilyrða vegna covid reglna tókst mótið með ágætum.

Hér  eru úrslitin og myndir af verðlaunahöfum. Fleiri myndir og einnig video munu birtast á judo.is og facebook næstu daga.

Daron Hancock skorar ippon með flottu Osoto-gari í U15-66 kg flokki

Haustmót yngri – Mikilvægar upplýsingar

Vegna Covid-19 reglna þá verða áhorfendur því miður ekki leyfðir á mótinu á morgun. Til stendur að streyma beint frá mótinu sem hefst kl. 13:00 á YouTube ef hægt er og er þá tengillinn hér ef það gengur.

Allir keppendur og þjálfarar eiga að koma inn um inngang D sjá mynd hér að ofan. Girt verður fyrir alla umferð niður og upp úr keppnissalnum.

Eitt klósett er fyrir keppendur, bæði karla og konur og er það staðsett í búningsklefa karla.

Ekki er ætlast til að iðkendur noti búningsklefa. Heldur er mælt með að keppendur mæti klæddir í judogalla en einnig verður hægt að skipta um fatnað bakvið þar til gerð skilrúm í keppnissal.

Keppendur skulu halda sig á upphitunarsvæði á meðan mótið fer fram og fara þaðan á keppnisvöll þegar þeir eru kallaðir upp. Upphitunarsvæði mun skiptast í tvo hluta (U13 og U15) annarsvegar og (U18 og U21) hinsvegar.

Vigtun mun fara fram á upphitunarsvæðum og skulu keppendur halda sig á sínum upphitunarsvæðum á meðan vigtun stendur yfir.

Einnig er minnt á grímunotkun allra sem starfa við mótið. 

Sjá heimasíðu JSÍ

Æfingar barna 4-6 ára.

JR hóf æfingar fyrir börn á aldrinum 5-6 ára í byrjun september. Þar sem töluvert var spurt um æfingar fyrir fjögurra ára börn var ákveðið að hafa breyta aldursmörkunum í 4-6 ára. Æfingar eru einu sinni í viku á laugardögum frá kl. 10-11 og eru þær fyrst og fremst í formi ýmiskonar leikja, jafnvægisæfinga og samhæfing handa og fóta og börnin læra að detta án þess að meiða sig svo eitthvað sé nefnt og þannig er lagður grunnur að framhaldsæfingum í judo. Þjálfarar eru Ingunn Rut Sigurðardóttir, Guðmundur B. Jónasson og Bjarni Á. Friðriksson. Allir 4-6 ára byrjendur fá júdobúning frá JR. Nánari upplýsingar og skráning.

Andlát: Eysteinn Þorvaldsson

Eysteinn Þorvaldsson félagi í Judofélagi Reykjavíkur og fyrrum formaður Judosambands Íslands lést á hjúkr­un­ar­heim­il­inu Skjóli í Reykja­vík 8. sept­em­ber sl., 88 ára að aldri. Eysteinn var einn af upphafsmönnum judo á Íslandi. Hann var virkur iðkandi með svartbeltagráðuna 3. dan en kom jafnframt mjög mikið að félagsmálum og stjórnunarstörfum og var til fjölda ára í forsvari fyrir íþróttina. Hann kom að undirbúningi og stofnun Judosambandsins og var kosinn fyrsti formaður þess 28. janúar 1973. Hann gengdi formennsku samfleytt frá 1973-1983 eða í tíu ár og stýrði starfsemi sambandsins af mikilli röggsemi og sanngirni.

Eysteinn var heiðraður með ýmsum hætti fyrir áratuga störf í þágu judohreyfingarinnar og var meðal annars sæmdur gullmerki JSÍ árið 2002, heiðurskrossi ÍSÍ 2013 og gerður að heiðursformanni JSÍ 2014.

Judomenn þakka Eysteini Þorvaldssyni að leiðarlokum áralanga samveru og kveðja góðan vin og félaga með söknuði og virðingu og senda ástvinum hans hugheilar samúðarkveðjur.

Jóhann Másson formaður JSÍ og Eysteinn Þorvaldsson heiðursformaður JSÍ 2014

Barna Judo 5-6 ára

JR mun hefja æfingar fyrir börn á aldrinum 5-6 ára á næstunni. Æft verður einu sinni í viku á laugardögum frá kl. 10-11. Æfingarnar eru ekki hefðbundið judo þar sem iðkendur takast á það kemur síðar. Æfingarnar eru fyrst og fremst í formi ýmiskonar leikja, jafnvægisæfingar og samhæfing handa og fóta og börnin læra að detta án þess að meiða sig svo eitthvað sé nefnt og þannig er lagður grunnur að framhaldsæfingum í judo. Þjálfarar eru Ingunn Rut Sigurðardóttir, Guðmundur B. Jónasson og Bjarni Á. Friðriksson. Allir 5-6 ára byrjendur fá júdobúning frá JR. Nánari upplýsingar og skráning.

Æfingar að hefjast í öllum aldursflokkum

Æfingar hefjast aftur á morgun að loknu sumarfrí. Á morgun eru æfingar fyrir byrjendur og framhald 11-14 ára kl. 17:30 og meistaraflokkur kl. 18:30. Á þriðjudaginn er svo æfing hjá 7-10 ára, byrjendur og framhald kl. 17:30 og framhald fullorðinna (15 og eldri) kl. 18:30. Við munum hefja æfingar hjá börnum 5-6 ára næsta laugardag og byrjendum fullorðinna mánudaginn 7. september. Nánari upplýsingar og skráning.

NÁMSKEIÐIN AÐ HEFJAST – SKRÁNING Á JUDO.IS

Haustönnin hefst 31. ágúst og er skráning hafin í öllum aldursflokum á byrjenda og framhaldsnámskeiðin. 

Sex vikna byrjendanámskeið fyrir fullorðna þ.e. 15 ára og eldri og bæði kynin hefst mánudaginn 7. september og lýkur 15. október. Æfingar á mánudögum og miðvikudögum kl. 20-21 og fimmtudögum kl. 18:30-20. Næsta námskeið hefst svo 19. október og lýkur 26. nóvember. Að loknu byrjendanámskeið fara þátttakendur í framhaldsflokk

Byrjenda og framhaldsnámskeið 11-14 ára hefst mánudaginn 31. ágúst. Byrjenda og framhaldsnámskeið 7-10 ára hefst þriðjudaginn 1. september.
Byrjendanámskeið barna 5-6 ára hefst laugardaginn 5. september.

Æfingar hjá meistaraflokki hefjast mánudaginn 31. ágúst og æfingar hjá framhaldi 15 ára og eldri hefjast þriðjudaginn 1. september.

Hér er skráningarform en einning er hægt að hafa samband í síma 588-3200 eða senda tölvupóst á netfangið jr@judo.is

Snertingar heimilar á æfingum en beðið eftir grænu ljósi frá ÍSÍ

Snertingar heimilar á æfingum og í keppnum íþróttafólks en við verðum að bíða enn um sinn meðan gengið er frá hvernig æfingum skuli háttað.

Í auglýsingu heilbrigðisráðherra segir að ÍSÍ skuli setja sérsamböndum sínum nánari reglur í samráði við sóttvarnalækni, meðal annars um einstaklingsbundnar sóttvarnir, sótthreinsun búnaðar, framkvæmd æfinga og keppna.

JSÍ er búið að senda ÍSÍ umbeðin gögn varðandi framkvæmd judo æfinga og er beðið eftir svari og leyfi frá þeim sem vonandi berst ekki seinna en í fyrramálið. Við getum því ekki hafið æfingar fyrr en við fáum grænt ljós frá ÍSÍ og mun það verða tilkynnt hér um leið og það berst.

Nýjar reglur um takmörkun á samkomum vegna COVID-19 taka gildi föstudaginn 14. ágúst 2020. Helsta breytingin er sú að þrátt fyrir meginregluna um 2 metra nálægðartakmörkun verða snertingar heimilar milli íþróttafólks á æfingum og í keppnum.

Aftur á móti skal virða 2 metra regluna í búningsklefum og á öðrum svæðum utan keppni og æfinga. Aðrir, meðal annars þjálfarar, starfsmenn og sjálfboðaliðar, skulu ávallt virða 2 metra regluna.

Fjöldatakmörk miðast áfram við 100 manns að hámarki. Eins og fram kemur í auglýsingu ráðherra er rík áhersla lögð á einstaklingsbundnar sóttvarnir og almennar smitvarnir með tíðum og reglubundnum þrifum þar sem fólk kemur saman.

Börn fædd árið 2005 eða síðar eru áfram undanskilin ákvæðum 3. gr. auglýsingarinnar sem snúa að fjöldatakmörkun og 4. gr. um almenna nálægðartakmörkun.

Í auglýsingu heilbrigðisráðherra segir að ÍSÍ skuli setja sérsamböndum sínum nánari reglur í samráði við sóttvarnalækni, meðal annars um einstaklingsbundnar sóttvarnir, sótthreinsun búnaðar, framkvæmd æfinga og keppna.

Að öðru leyti gildir áfram meginreglan um 2 metra nálægðarmörk. Við aðstæður þar sem eðli starfsemi krefst meiri nálægðar milli einstaklinga en tveggja 2 metra og í almenningssamgöngum þar sem ferð varir í 30 mínútur eða lengur skal nota andlitsgrímu. Hjúkrunarheimilum, öðrum heilbrigðisstofnunum og sambærilegum stofnunum er gert skylt að setja reglur um starfsemi sína, svo sem um heimsóknir utanaðkomandi að heimilum og stofnunum.

Auglýsing um takmörkun á samkomum vegna farsóttar
Minnisblað sóttvarnalæknis til ráðherra, dags. 11. ágúst
Viðbót við minnisblað sóttvarnalæknis, dags. 12. ágúst

NM frestað til næsta vors

Frétt af heimasíðu JSÍ.
Norðurlandameistarmótinu í Júdo sem átti að fara fram 12-13 september í Laugardalshöll hefur verið frestað. Búist var við um 300 júdomönnum víðsvegar frá Norðurlöndunum. Ástæðan er sú að Covid-19 veirufaraldurinn er því miður aftur í vexti á Íslandi og nýlega hafa auknar takmarkanir verið kynntar varðandi fjöldasamkomur. Ákvörðunin var tekin af formönnum Júdosambanda Norðurlandanna í sameiningu, en stefnt er að því að halda næsta Norðurlandameistaramót á Íslandi í apríl 2021.

English

The Judo Nordic Championships which was to be held 12th-13th of September in Reykjavík, Iceland has been postponed. 300 Judokas from all the Nordic countries were expected to take part in the tournament. The situation in Iceland in relation to the Covid-19 epidemic is not good at the moment and the outbreak is again on the rise. Therefore restrictions on social gatherings, such as sporting events, have been increased as of late. The decision to postpone the tournament was made by the presidents of the all the Judo Federations of the Nordic Countries in unison. Also it was agreed upon that the next Judo Nordic Championship will be held in Reykjavik, Iceland in April, 2021.