Reykjavík Judo Open 2023-Úrslit

Reykjavík Judo Open 2023 var haldið 28. janúar 2023 á 50 ára afmælisdegi JSÍ. Þátttakendur voru tæplega sextíu frá tólf þjóðum en vegna óveðurs og niðurfellingar á flugi til Íslands komust ekki allir erlendu þátttakendurnir sem skráðir voru. JR ingar sem voru fjölmennir á mótinu unnu tvenn gullverðlaun, ein silfurverðlaun og þrenn bronsverðlaun og auk þess voru nokkrir sem kepptu um bronsverðlaun en urðu að játa sig sigaða. Þeir JR ingar sem unnu til verðlauna voru, Zaza Simonishvili sem sigraði í -73 kg flokki og varð einnig í þriðja sæti í opnum flokki. Ingunn Sigurðardóttir sigraði í -78 kg flokki og varð í fimmta sæti í opnum flokki. Romans Psenicnijs vann silfurverðlaunin í -66 kg flokki, Helena Bjarnadóttir varð í þriðja sæti í -63 kg flokki og í fimmta sæti í opnum flokki og Árni Lund varð í þriðja sæti í -90 kg flokki.
Hér eru úrslitin / results og tengill á útsendingu RÚV frá mótinu og streymi JSÍ.

Úrslit:
20132014201520162017201820192020202120222023

Reykjavík Judo Open 2023

Judosamband Íslands (JSÍ) sem er 50 ára í ár heldur nú í ellefta sinn Reykjavík Judo Open í samvinnu við RIG (Reykjavik International Games). Þetta er opið alþjóðlegt mót fyrir karla og konur og fer það fram í Laugardalshöllinni laugardaginn 28. janúar sem er jafnframt stofndagur JSÍ. Mótið hefst með forkeppni frá 9:00 til 12:00. Brons, úrslitaglímur og opinn flokkur verða svo á dagskrá frá kl. 13:00 til 15:00. Á þetta mót hafa komið afar sterkir þátttakendur frá fjölmörgum löndum bæði heims og Ólympíuverðlaunahafar. Fyrir utan Íslendinga á mótinu í ár koma keppendur frá ellefu þjóðum sem eru CZE, BRA, DEN, ESP, FAR, FRA, GBR, GEO, GER, NOR og UKR. Sýnt verður beint frá keppninni hjá RÚV frá kl. 13:00 -15:00 en auk þess mun JSÍ streyma frá öllu mótinu og verða tenglar fljótlega settir hér inn á síðuna. Upplýsingar um vigtun og fleira er að finna á heimasíðu JSÍ og hér er keppendalistinn.

Úrslit: 2013201420152016201720182019202020212022, 2023

Mótinu lokið í Bielsko-Biala

Alþjóðlega unglingamótinu í Bielsko-Biala í Póllandi lauk í gær. Því miður náðum við ekki að vinna til verðlauna að þessu sinni en krakkarnir fengu margar glímur sem sumar unnust en aðrar ekki og fer það allt saman í reynslubankann þeirra. Fyrir mótið var æft með Pólskum klúbbi, farið var í skoðunarferð í gamla námu sem nú er vinsæll ferðamannastaður og farið í Flyspot sem er einskonar fallhlífastökk innanhúss í vindgöngum. Að loknu móti tók við eins dags æfingabúðir ásamt flestum þátttakendum mótsins. Þrátt fyrir að komast ekki á pall þá var ferðin mjög vel heppnuð og hlakkar krakkana til að taka þátt í fleiri judoviðburðum og æfingabúðum erlendis sem eru framundan en þangað til að æfa mikið og vera vel undirbúin fyrir þau verkefni. Hér eru úrslitin og myndasafn frá ferðinni

Keppa í Póllandi á laugardaginnn

Í gær lagði af stað til Póllands hópur keppenda úr JR í aldursflokkum U13/U15/U18 og munu þau keppa næsta laugardag á International Judo Tournament For Children and the Youth í Bielsko-Biala og sunnudaginn eftir mót taka þau þátt í eins dags æfingabúðum. JR ingar tóku þátt í þessu móti árið 2020 og unnu þar margar viðureignir og Danielė Kucyte vann til bronsverðlauna. Þau se,m taka þátt að þessu sinni eru Fannar Þormóðsson í U13, Orri Helgason í U15 og í U18 eru þau Aleksander Perkowski, Tristan Sverrisson, Elías Þormóðsson, Jónas Guðmundsson og Weronika Komendera og kepptu þau þrjú síðastnefndu einnig árið 2020. Þetta mót er fjölmennt og sterkt en síðast var keppt á tíu völlum og keppendur um tólfhundruð frá Tékklandi, Hollandi, Slóvakíu, Úkraníu, Ungverjalandi, Íslandi og auðvitað Póllandi. Þjálfarar og fararstjórar í ferðinni eru þeir Guðmundur Björn Jónasson, Janusz Komendera og Helgi Einarsson.

Þormóður og Gunnar komnir með 4. dan

Gunnar Jóhannesson (UMFG) og Þormóður Jónsson (JR) þreyttu nú nýverið gráðupróf fyrir 4. dan og voru þeir uke hjá hvor öðrum. Katan fyrir 4. dan er Kime No Kata og er hún byggð upp af átta brögðum í krjúpandi stöðu og tólf í standandi stöðu og sýnir vörn og gagnsókn og er notkun hnífs og sverðs í hluta hennar. Prófið stóðust þeir með glæsibrag og óskum við þeim til hamingju með gráðuna. Hér er mynd af þeim félögum að lokinni gráðun.

F.v. Þormóður Jónsson og Gunnar Jóhannesson

Æfingabúðir Pajulahti í Finnlandi

Frétt af heimasíðu JSÍ. Hópur ungmenna úr unglingalandsliðum U18 og U21 eru nú við æfingar í Pajulahti, Finnlandi. Ásamt unglingalandsliði Íslands taka Finnar, Svíjar, Danir og Eistar þátt æfingabúðunum að þessu sinni. Æfingabúðirnar eru liður í undirbúning landsliðs fyrir þau mót sem eru framundan eru, en næst á dagskrá er Reykjavik Judo Open 2023 þann 28. janúar. Í hópnum að þessu sinni eru þau Aðalsteinn Björnsson, Mikael Ísaksson, Skarphéðinn Hjaltason, Helena Bjarnadóttir, Kjartan Hreiðarsson og Daron Hancock. Þjálfari og fararstjóri er Zaza Simonishvili.

Raysan og Konstantinos með 2. og 5. kyu

Þeir félagar Konstantinos Vergopoulos og Heully Raysan Santos Dantas sem æft hafa hjá JR um alllangt skeið þreyttu gráðupróf nú nýlega og var Konstantinos að taka gráðuna 5. kyu (gult belti) og Raysan tók gráðuna 2. kyu (blátt belti) og óskum við þeim til hamingju með áfangann.

Benjamín og Fannar komnir með gula beltið

Benjamín Birgir Blandon og Fannar Frosti Þormóðsson tóku próf fyrir gulabeltið í dag og stóðu sig með sóma enda búnir að æfa í mörg ár og búnir að bíða lengi eftir þessum áfanga því gulabeltið er ekki hægt að fá fyrr en á ellefta ári. Benjamín byrjaði að æfa níu ára gamall eða fyrir tveimur árum en Fannar byrjaði sex ára og er því búinn að æfa judo í fimm ár og var kominn með allar þær strípur sem hægt var að fá í gamla beltið sitt. Til hamingju með áfangann strákar.