EM 2020 úrslit

Þá hafa þeir Sveinbjörn Iura og Egill Blöndal lokið keppni á Evrópumeistaramótinu sem fram fór í Prag dagana 19-21 nóv. Sveinbjörn Iura drógst á móti Marcel Cercea frá Rúmeníu í -81 kg. flokknum. Þetta var hörku viðureign og jöfn, báðir fengu refsistig eftir eina mínútu fyrir aðgerðarleysi og tæpri mínútu síðar fék Marcel aftur refsistig og nú fyrir ólögleg handtök en Sveinbjörn hafði pressað vel á hann og var kominn í góða stöðu. Marcel var kominn með tvö shido og hefði tapað glímunni ef hann fengi eitt til viðbótar og sótti nú stíft á Sveinbjörn en hann varðist með því að halda í beltið hjá Marcel og ýta honum frá sér en hélt of lengi og fékk sitt annað shido. Marcel var nú öllu ákveðnari og pressaði Sveinbjörn að endimörkum keppnissvæðiðsins og reyndi að fá hann til að stíga út fyrir það en þá hefði Sveinbjörn fengið sitt þriðja shido og tapað. Sveinbjörn reyndi að verjast því en við það opnaðist hann og Marcel var fljótur að átta sig og sópaði undan honum fótunum með Deashi harai og skoraði waza-ari og vann á því að lokum því ekki var meira skorað þegar glímutíminn rann út. Egill Blöndal mætti ofjarli sínum í -90 kg flokki en hann mætti Beka Gviniashvili gríðasterkum keppanda frá Georgíu. Hann er fyrrum heimsmeistari juniora og margfaldur verðlaunahafi á Grand Slam og Grand Prix mótunum og situr nú í 10 sæti heimslistans. Beka var öllu sterkari í tökunum og varð viðureign þeirra ekki löng því hann skoraði Ippon eftir skamman glímutíma en endaði sjálfur í þriðja sæti í flokknum síðar um daginn.

Evrópumótið er eitt allra sterkasta mótið sem haldið er ár hvert og engir veikir hlekkir þar. Í judo er keppt í fjórtán þyngdarflokkum, sjö kvennaflokkar og sjö karlaflokkar. Af þessum fjórtán flokkum eru tíu stigahæstu keppendur í heiminum í dag frá Evrópu og skiptist hnífjafnt á milli kynja, fimm í kvennaflokkum og fimm í karlaflokkum. Í hinum fjórum flokkunum sem eftir eru á Evrópa keppendur í fjórða og fimmta sæti í kvennaflokkum og öðru og þriðja sæti í karlaflokkum. Allir stigahæstu keppendur karla voru með á þessu Evrópumeistaramóti og þrjár af stigahæstu keppendum kvenna.

Flott æfing í dag hjá 11-14 ára

Það var líf og fjör hjá 11-14 ára hópnum í dag á fyrstu æfingu sem haldin var eftir að samkomubanni var aflétt en liðnar eru rúmar sex vikur frá síðustu æfingu. Næsta æfing er á morgun kl. 17:30 hjá börnum 7-10 ára. Þar sem að ekki er búist miklum fjölda fyrstu vikuna þá var ákveðið að leyfa aldurshópnum 11-14 ára að koma einnig á þá æfingu svo að það verður sameiginleg æfing á morgun fyrir 7-10 ára og 11-14 ára kl. 17:30-18:45. Hér eru nokkrar myndir frá æfingunni í dag.

Evrópumeistaramótið 2020 í Prag

Í morgun lögðu af stað til Tékklands þeir Sveinbjörn Iura og Egill Blöndal en þeir munu taka þátt í Evrópumeistaramótinu sem hefst á morgun í Prag og stendur yfir í þrjá daga. Þormóður Jónsson verður þeim til aðstoðar en hann þurfti að vera kominn til Prag í gær til að ganga frá öllum undirbúningi. Eins og áður sagði hefst keppnin á morgun en Sveinbjörn keppir á föstudaginn í -81 kg flokki og Egill á laugardaginn í -90 kg flokki og hefst keppnin kl. 9 að morgni á okkar tíma alla dagana.

Evrópumeistaramótið er eitt allra sterkasta mótið sem haldið er ár hvert, þar er hver einasti keppandi góður judomaður og engir veikir hlekkir. Þátttakendur eru 345 frá 40 þjóðum, 209 karlar og 136 konur. Dregið verður í dag kl. 17:00 í beinni útsendingu.
Hér er drátturinn og keppnisröðin og tengill á beina útsendingu frá keppninni. Til að fylgjast með Evrópumeistaramótinu í beinni þarf að hafa IJF account og er hægt að stofna hann hér ef það hefur ekki þegar verið gert og kostar það ekkert.

Æfing hjá 15 ára og yngri á morgun

Eins og komið hefur fram í fréttum þá geta æfingar barna og unglinga 15 ára og yngri hafist á morgun 18. nóvember. Fyrsta æfing verður því á morgun kl. 17:30 hjá 11-14 ára, á fimmtudaginn kl. 17:30 hjá 7-10 ára og á laugardaginn kl. 10:00 hjá 4-6 ára. Nú þarf bara að taka til judobúninginn og láta judovini ykkar vita.

Börnum og ungmennum heimilt að æfa á ný

Börnum og ungmennum 15 ára og yngri verður heimilt að æfa á ný frá og með 18. nóvember og er það gleðiefni en einhver bið verður enn um sinn hjá þeim sem eldri eru.

Íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf barna í leik- og grunnskólum verður heimilt á ný bæði inni og úti miðvikudaginn 18. nóvember, samkvæmt breytingum á samkomutakmörkunum. Börn á leikskóla og grunnskólaaldri geta hafið æfingar með og án snertingar. Vakin er athygli á því að í minnisblaði sóttvarnalæknis sem hér fylgir að neðan segir að íþróttastarf barna og ungmenna verði leyft en án áhorfenda. Í minnisblaði sóttvarnalæknis kemur fram að næstu tilslakanir verði gerðar 2. desember næstkomandi.

Miðað við reglur í skólahaldi

Breytingarnar sem eru kynntar nú taka gildi miðvikudaginn 18. nóvember og eru eftirfarandi: Æfingar, íþróttastarf, æskulýðs- og tómstundastarf barna á leik- og grunnskólaaldri verður heimilt jafnt inni og úti. Til að slíkt starf geti farið fram eru engar takmarkanir settar varðandi blöndun milli hópa. Fjöldamörk í hverju rými fara eftir reglugerð um takmarkanir á skólastarfi. Leikskólabörn og börn í 1.–4. bekk grunnskóla mega vera 50 saman að hámarki en nemendur í 5.–10. bekk að hámarki 25 saman.

Starfsemi og þjónusta sem krefst snertingar milli fólks verður leyfð með þeim skilyrðum að notast sé við andlitsgrímur. Þetta á við um s.s. hárgreiðslustofur, nuddstofur, öku- og flugkennslu og sambærilega starfsemi. Hámarksfjöldi viðskiptavina á sama tíma er 10 manns.

Í skólastarfi á framhaldsskólastigi mega nemendur og starfsmenn vera að hámarki 25 í hverju rými í stað 10 áður en ber að nota andlitsgrímur sé ekki unnt að halda 2 metra fjarlægð.

Veitt er undanþágu frá grímuskyldu þeim sem ekki geta notað grímur, t.d. af heilsufarsástæðum eða ef viðkomandi skortir þroska eða skilning til að bera grímu. Þeir sem fengið hafa COVID-19 eru einnig undanþegnir grímuskyldu geti þeir sýnt gilt vottorð þess efnis.

Minnisblað sóttvarnalæknis

Viðbót sóttvarnalæknis við minnisblaðið

Reglugerðir frá heilbrigðisráðherra sem gefa línur varðandi íþróttastarf á næstunni.

Engar judoæfingar enn um sinn

Íþróttastarf um allt land leggst af til 17. nóvember

Ríkisstjórnin kynnti nýjar sóttvarnaráðstafanir í dag. Reglur eru hertar og ná jafnt til barna sem fullorðinna.

Íþróttastarf verður óheimilt og sundlaugum lokað um allt land næstu 2-3 vikurnar eða til 17. nóvember, samkvæmt nýjum hertum sóttvarnaráðstöfunum sem taka gildi á miðnætti í kvöld. Til viðbótar þrengjast fjöldatakmarkanir úr 20 manns í 10. Einungis börn fædd 2015 og yngri eru undanþegin 2 metra reglu og grímuskyldu.

Ríkisstjórnin gerði grein fyrir hertum sóttvarnareglum í dag sem byggja að stórum hluta á minnisblaði sóttvarnalæknis. Ríkisstjórnin fundaði um tillögurnar í morgun.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði samfélagssmit töluvert útbreidd og þurfi því að herða aðgerðir.

Í minnisblaði sóttvarnalæknis kemur fram að smit í samfélaginu sé enn mikið, þrátt fyrir hertar sóttvarnaaðgerðir sem gripið var til 20. október. Því sé hætta á að hópsýkingar brjótist út og valdi enn meira álagi á heilbrigðiskerfið sem sé mikið fyrir.

Íþróttastarf óheimilt

Reglugerð heilbrigðisráðherra var birt samhliða blaðamannafundinum. Þar er áréttað frekar að íþróttir, þar með talið æfingar og keppnir, barna og fullorðinna hvort sem er innan- eða utandyra, með eða án snertingar eru óheimilar. Einstaklingsbundnar æfingar án snertingar eru heimilar, svo sem útihlaup og sambærileg hreyfing.

Sund- og baðstöðum sem og líkamsræktarstöðvum skal lokað.

Undanþágur frá alþjóðlegum keppnisleikjum

Ráðherra getur þó veitt undanþágur frá takmörkun á samkomum vegna samfélagslega ómissandi innviða sem mega ekki stöðvast en líka undanþágu frá íþróttastarfi fyrir einstaka viðburði, svo sem vegna alþjóðlegra keppnisleikja hér á landi, enda sé gætt fyllstu sóttvarnaráðstafana að öllu leyti.

Tekið er sérstaklega fram í reglugerð ráðherra að við veitingu undaþágu skuli leitast við að grípa til annarra aðgerða þannig að gætt sé að smitvörnum eins og kostur er.

Lesa má frekar um hertar sóttvarnaráðstafanir í frétt heilbrigðisráðuneytis

Reglugerð um samkomutakmarkanir vegna farsóttar

Minnisblað sóttvarnalæknis

Sveinbjörn hefur lokið keppni í Budapest

Þá eru tveir af þremur keppnisdögum lokið á GRAND SLAM HUNGARY 2020. Í 81 kg flokknum drógst Sveinbjörn Iura á móti Damian Szwarnowiecki frá Póllandi. Eins og við var búist þá var þetta hörku viðureign og jöfn og var Sveinbjörn síst lakari aðilinn þó svo að Damian hafi staðið uppi sem sigurvegari að loknum fullum glímutíma. Hér má sjá viðureignina og öll úrslit og neðar er umfjöllun sem tekin er af heimasíðu JSÍ af viðureign Sveinbjörns og Damian.

Sveinbjörn Iura og Damian Szwarnowiecki – Grand Slam Hungary 2020

Af heimasíðu JSÍ.

Budapest Grand Slam fór fram um helgina. Gert var hlé á mótaseríu Alþjóða Judosambandsins (IJF) vegna Covid-19 veirufaraldarins og var þetta fyrsta mótið í tæpa átta mánuði. Mótið var gríðar sterkt eins og venja er þegar um er að ræða Grand Slam mót. Keppendur voru 407 talsins frá 61 löndum. Karlar voru 256 og konur 151.

Sveinbjörn Jun Iura var eini fulltrúi Íslands og kepptí -81kg flokki. -81 kg flokkurinn var gríðar sterkur. 43 keppendur voru skráðir til leiks og er vert að taka fram að ellefu af tuttugu stigahæstu mönnum heimslista IJF voru meðal þátttakenda flokksins.

Sveinbjörn raðaðist upp á móti Damian Szwarnowiecki frá Póllandi í fyrstu umferð. Áttust þarna við tveir örvhentir Judomenn og einkenndist viðureign þeirra af mjög jafnri gripabaráttu. Hvorugur náði sterkum gripum en Szwarnowiecki sótti samt sem áður í veikar vinstri seonage sóknir sem skiluðu ekki skori, með þessu móti náði hann samt sem áður að draga Sveinbjörn í gólfglímu. Swarnowieck er gríðarlega góður gólfglímumaður og er aðallega þekktur fyrir sérstaka útfærslu af sangaku hengingartaki. Swarnowiecki gerði harða atlögu að Sveinbirni í gólfinu og var búinn að ná fastataki á einum tímapunkti en Sveinbjörn varðist vel og náði að losa sig. Glíman fór að miklu leiti fram í gólfglímu og átti Sveinbjörn tækifæri að snúa glímunni í gólfinu sér í vil. Þegar um tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma náði Swarnowiecki að skora wasaari með vinstra osoto-makikomi. Ekki var meira skorað í viðureigninni og dugaði því þetta Swarnowiecki til sigurs og var Sveinbjörn þar með úr leik. Hér má sjá glímu Sveinbjarnar og Swarnowiecki.

Búið að draga á Grand Slam Hungary

Þá er búið að draga á GRAND SLAM HUNGARY 2020. Í 81 kg flokknum eru 43 keppendur og drógst Sveinbjörn Iura á móti keppanda frá Póllandi, Damian Szwarnowiecki sem er í 42. sæti heimslistans. Þetta verður töff glíma og erfið því Damian er sterkur andstæðingur. Svo eitthvað sé tiltekið úr afrekaskrá hans þá varð hann Evrópumeistari árið 2012 í -73 kg flokki og bæði í U21 árs og U23 ára, hann varð í fimmta sæti á heimsmeistaramóti seniora í Baku 2018 og fékk bronsverðlaun á Marrakech Grand prix 2019.

Fyrsti keppnisdagurinn er á morgun föstudag og hefst keppnin kl. 8 að morgni á okkar tíma en á laugardaginn þegar Sveinbjörn keppir þá hefst það aðeins seinna eða kl. 9 og á hann fimmtu glímu. Hér er drátturinn og keppnisröðin og hér er hægt að fylgjast með í beinni útsendingu. Til að fylgjast með í beinni þarf að hafa IJF account hann er frír.

Sveinbjörn Iura -2018

Sveinbjörn keppir á Grand Slam í Budapest

GRAND SLAM HUNGARY 2020 hefst föstudaginn 23. október og stendur í þrjá daga. Þetta er fyrsta mót Alþjóða Judosambandsins (IJF) síðan í febrúar eða frá því að Coronuveirufaraldurinn reið yfir heimsbyggðina. Það eru miklar kröfur gerðar til þátttakenda hvað varðar smitvarnir og umgengni á mótsstað og hóteli. Meðal annars þurfa allir að framvísa vottorði um að hafa farið í tvær skimanair með 48 tíma millibili og hafa reynst neikvæðir og má vottorðið ekki vera eldra en fimm daga gamalt. Einnig er ekki heimilt að ferðast neitt nema á milli hótels og keppnisstaðar sem er við hlið hótelsins svo í raun eru allir þátttakendur í hálfgerðri sóttkví. Þátttakendur eru 408 allt heimsklassa keppendur sem koma frá 4 heimsálfum og 61 þjóðum, 256 karlar og 152 konur. Á meðal þátttakenda verður okkar maður Sveinbjörn Iura og mun Þormóður Árni Jónsson verða honum til aðstoðar. Sveinbjörn keppir á laugardaginn og hefst keppnin þá kl. 9 að morgni á okkar tíma. Dregið verður á fimmtudaginn en í 81 kg flokknum eru skráðir fjörtíu og níu keppendur. Dráttinn má sjá hér og keppnisröðina hér. Mótið verður í beinni útsendingu og fyrsti keppnisdagur er á föstudaginn og hefst kl. 8 að morgni á okkar tíma. Til að fylgjast með í beinni þarf að hafa (IJF account) hann er frír. Góða skemmtun.