Sextán gull á Vormóti JSÍ yngri 2024

Vormót JSÍ í yngri aldursflokkum (U15, U18, U21 árs) fór fram laugardaginn 16. mars og var það í umsjón Judodeildar KA og voru það þeir Hans Rúnar Snorrason og Sigmundur Magnússon sem að höfðu veg og vanda af því og var framkvæmd öll til fyrirmyndar. Dómarar voru þeir Ari Sigfússon, Gunnar Jóhannesson og Jakob Burgel Ingvarsson og leystu þeir sitt verkefni vel af hendi. Til Akureyrar var farið í tveimur rútum og voru keppendur frá JR tuttugu og fjórir og fjórtán þeirra kepptu í tveimur aldursflokkum. Með þeim voru þjálfararnir Guðmundur Björn Jónasson, Zaza Simonishvili og Þormóður Jónsson og auk þeirra nokkrir feður keppenda sem sáu um aksturinn og fararstjórn þeir Alfreð Atlason, Helgi Einarsson og Hilmar Arnarson. JR- ingar áttu frábæran dag og unnu samtals til sextán gullverðlauna, ellefu silfurverðlauna og sex bronsverðlauna. Til hamingju með árangurinn. Hér eru úrslitin og hér er hægt að horfa á allt mótið sem var í beinni útsendingu og hér er stutt videoklippa frá því.