Gleðileg Jól

Judofélag Reykjavíkur óskar öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Sjáumst hress á því næsta en æfingar hefjast aftur samkvæmt stundaskrá 3. janúar.

Ingimundur Kárason 1. kyu

Ingimundur Kárason tók gráðuna 1. kyu (brúnt belti) 20. desember sl. og gerði það með glæsibrag en liðin eru allmörg ár síðan hann tók bláa beltið. Ingimundur hefur verið mjög virkur í fjölmennum hópi gólfglímumanna 30+ í JR og var Atli Þórðarson sem einnig æfir í þeim hópi, Uke hjá Ingimundi en Atli tók einmitt sjálfur gráðuna 1. kyu í nóvember s.l. Þess má til gamans geta að Ingimundur er sonur hins eina og sanna Kára Jokobssonar margfalds Íslandsmeistara JR inga hér á árum áður.

Judomenn JR 2022 og sjálfboðaliði ársins

Tilkynnt var um val á Judomanni ársins 2022 hjá Judofélagi Reykjavíkur föstudaginn 16. desember. Judomaður JR var valinn í fyrsta skipti árið 2019  og er verður sá fyrir valinu sem bestum árangri hefur náð á árinu í senioraflokki. Þá er einnig valinn judomaður ársins í U21 árs aldursflokki og sá efnilegasti í U18/21 en hann getur aðeins verið valinn einu sinni. Við valið er ekki einungis tekið mið af árangri heldur einnig ástundun, framkomu og virðingu fyrir íþróttinni. Aðeins er valinn einn judomaður ársins hverju sinni, kona eða karl og það sama á við í U21 og þann efnilegasta. Sjálfboðaliðar hvers félags eru ákaflega mikilvægir fyrir starfsemi þess en þeir eru oft ekki mjög sjáanlegir og því ekki margir sem taka eftir þeirra störfum. Því var ákveðið að bæta úr því og taka upp þann sið að velja einn sjálfboðaliða úr hópi fjölmargra og heiðra hann samhliða því er judomenn ársins verða heiðraðir.

Zaza Simonishvili er Judomaður JR 2022 og er það í annað sinn sem hann hlýtur þann heiður en hann var einnig judomaður JR 2020. Zaza sem keppir jafnan í -73 kg flokki stóð sig vel á árinu og er hér hans helsti árangur. Norðurlandameistari í -73 kg flokki og gullverðlaun á sama móti með sveit Íslands í liðakeppninni. Sigurvegari í -73 kg flokki á Reykjavík Judo Open (RIG) og Íslandsmeistari í -73 kg flokki og í opnum flokki og jafnframt sá léttasti sem hefur sigrað þann flokk.

Kjartan Hreiðarsson sem er 19 ára var valinn Judomaður JR 2022 í U21 árs aldursflokki og er það í þriðja sinn sem hann hlýtur þann titil en hann varð einnig fyrir valinu 2019 og 2020.  Helsti árangur Kjartans á árinu í U21 árs aldursflokki eru bronsverðlaun á Norðurlandameistaramótinu í -73 kg flokki, silfur á Íslandsmeistaramótinu í – 81 kg flokki og gull með sveit JR í liðakeppninni. Gullverðlaun á Afmælismóti JSÍ -81 kg flokki og einnig gullverðlaun á Vormóti og Haustmóti JSÍ í -73 kg flokki og Reykjavíkurmeistari í sama flokki. Auk þess vann hann fjölda verðlauna í senioraflokkum eins bronsverðlaun í -73 kg á Reykjavík Judo Open, silfur á Íslandsmeistaramótinu í -73 kg og brons í opna flokknum og var í sigursveit JR í liðakeppninni. Gull á Haustmóti JSÍ -73 kg flokki og Reykjavíkurmeistari í sama flokki og að lokum gullverðlaun í liðakeppni karla á Norðurlandameistaramótinu.

Daron Karl Hancock sem er 16 ára var valinn efnilegasti Judomaður JR 2022. Hann stóð sig vel á árinu og er hér stiklað á hans helsta árangri en hann keppti í -73 kg flokki. Á evrópumeistaramóti smáþjóða (EM/GSSE) varð hann í öðru sæti í aldursflokki U18, á Norðurlandameistaramótinu var hann í 7. sæt í U18 og í 5. sæti í U21 árs aldursflokki. Hann fékk silfurverðlaun á Íslandsmeistaramótinu og á Vormóti JSÍ í U18 og U21 árs vann hann einnig til silfurverðlauna. Daron stóð sig einnig vel í senioraflokkum en hann varð í 7. sæti á Reykjavík Judo Open, fékk bronsverðlaun á Íslandsmeistaramóti karla og varð í 7. sæti í opna flokknum. Auk þess var hann í bronsverðlaunasveit JR í liðakeppni karla á Íslandsmeistaramótinu og fékk silfur í liðakeppni U21 árs.

Helgi Einarsson var valinn sjálfboðaliði ársins 2022. Það voru margir tilnefndir en aðeins einn skyldi útnefndur og valið því erfitt því allir voru vel að heiðrinum komnir. Helgi hefur komið að starfseminni með ýmsum hætti en hann á börn sem æfa hjá félaginu og hafa gert í mörg ár. Helgi hefur verið rútubílstjóri í æfinga og keppnisferðum, aðstoðarfararstjóri í ferðum bæð innanlands og erlendis, hjálpað til við mótahald, dýnuburð, kaffiveitingar og fleira sem til hefur fallið og meira segja komið færandi hendi með húsgögn í setustofuna.

Judomenn JR 2019, 2020, 2021, 2022

Marija Dragic Skúlason 4. dan

Á uppskeruhátíð JSÍ 17. desember 2022 var Marija Dragic Skúlason heiðursgráðuð í 4. dan fyrir áralöng störf fyrir JSÍ en hún hefur verið einn okkar virkasti dómari til margra ára og alltaf boðin og búin til að dæma á JSÍ mótum sem og öðrum mótum þegar eftir því hefur verið leitað. Til hamingju með gráðunina.

Uppskeruhátíð JSÍ 2022

Á uppskeruhátíð JSÍ 2022 var Karl Stefánsson úr Judodeild Ármanns valin judomaður ársins 2022 og þau efnilegustu voru valin þau Helena Bjarnadóttir og Aðalsteinn Björnsson bæði úr Judofélagi Reykjavíkur. Á uppskeruhátíðinni voru einnig veittar ýmsar viðurkenningar. Nánari upplýsingar hér á vef JSÍ. 

Úrslit Jóla/afmælismóts JR 2022 – yngri og eldri

Jólamót/Afmælismót JR í kvenna og karlaflokkum var haldið föstudaginn 16. desember. Þetta er innanfélagsmót sem haldið hefur verið á meistaraflokksæfingu föstudegi um miðjan desember og var það fyrst haldið 2006. Þátttakendur á þessu móti eru allir þeir sem mæta á æfinguna og vilja keppa og þurfti því ekki að skrá sig til keppni fyrirfram. Í kvennaflokkum er keppt í -57 kg og +57 kg en í karlaflokkum -66, -73, -81, -90 og +90 kg og eins og undanfarin ár voru flokkar sameinaðir til að fá sem flestar viðureignir og sá sem sigrar fær nafn sitt letrað á þann bikar sem tilheyrir hans þyngdarflokki. Kvennaflokkurinn -57 og +57 var sameinaður og karlaflokkarnir -73 og -81 kg og -90 og +90 kg. Keppt er um farandbikara sem orðnir eru sögulegir en þeir eru áletraðir nöfnum fyrrum sigurvegara sem voru okkar bestu judomenn þess tíma. Hér er videoklippa frá mótinu og úrslitin 2022,  2021 og 2019.

Á síðustu æfingu fyrir Jól hjá iðkendum 11-14 ára á föstudaginn var einnig haldið Jólamót með þeim sem mættu á æfinguna og vildu keppa og eru úrslitin hér.

Judomaður JR verður valinn í kvöld

Judomaður JR 2022 verður valinn í fjórða skiptið í kvöld en það var fyrst gert 2019 og verður valið tilkynnt á Jólamóti/Afmælismóti JR senioar í kvöld kl. 18. Ekki er aðeins valinn judomaður ársins heldur einnig judomaður ársins í U21 árs aldursflokki og sá efnilegasti í aldursflokki U18/U21 árs. Við valið er ekki einungis tekið mið af árangri heldur einnig ástundun, framkomu og virðingu fyrir íþróttinni. Einungis er valinn einn judomaður ársins og er það annaðhvort kona eða karl hverju sinni og það sama á við í U21 og þann efnilegasta. Í ár ætlum við líka að velja sjálfboðaliða ársins en það verður í fyrsta skipti sem það er gert.

Jólaæfing barna 5-6 og 7-10 ára

Síðasta æfing fyrir jól hjá börnum 5-6 ára og 7-10 ára var haldin í gær og var vel mætt en þó vantaði nokkur börn. Þetta var ekki hefðbundinn judoæfing heldur mestmegnis farið í leiki en þó var líka smá gólfglíma. Áður en farið var í Jólakaffið var börnunum afhent viðurkennig fyrir önnina. Þau börn sem komust ekki í gær geta sótt sína viðurkenningu í JR eða fengið hana afhenta þegar þau mæta næst.

Síðustu æfingar fyrir Jól

Síðasta æfing fyrir jól hjá börnum 5-6 ára og 7-10 ára verður á fimmtudaginn 15. des. en þá verður sameiginleg æfing með þessum aldursflokkum og hefst hún kl. 17 og verður hún að mestu í leikjaformi. Æfingin hjá börnum 5-6 ára sem hefði átt að vera laugardaginn 17. des. fellur því niður. Að lokinni æfingu verður farið í setustofuna þar sem í boðið verða drykkir , kökur, ávextir og ýmslegt fleira og kaffi fyrir þá fullorðnu.

Síðasta æfing hjá 11-14 ára verður á föstudaginn 16. des. Að lokinni æfingu kl. 18 verður boðið í jólakaffi/drykki og veitingar í setustofunni og þau sem ekki eru að flýta sér geta þá horft á Jólamót/Afmælismót JR í karla og kvennaflokkum sem hefst um kl. 18:15.

Síðasta æfing fyrir áramót hjá 15 ára og eldri verður á miðvikudaginn 21. des. Hugsanlega verða haldnar aukaæfingar fyrir þennan aldurshóp dagana 27, 28 og 29 desember og verður það þá auglýst hér síðar.

Æfingar hefjast svo aftur á nýju ári sem hér segir. Byrjenda og framhaldsnámskeið 11-14 ára og 15 ára og eldri hefjast mánudaginn 2. janúar. Gólfglíma, byrjendur/framhald 30 ára og eldri hefst þriðjudaginn 3. janúar og æfingar barna 5-6 ára hefjast laugardaginn 7. janúar.