Úrslit Afmælismóts JR 2021

Jólamót/Afmælismót JR í kvenna og karlaflokkum var haldið föstudaginn 17. desember. Þetta er innanfélagsmót sem fyrst var haldið 2006 og var það nú haldið í fimmtánda skipti en það féll niður 2020 vegna Covid 19. Keppendur voru í færra lagi í ár eða aðeins tólf, sem sagt fámennt en góðmennt. Þyngdarflokkar voru sameinaðir og keppt var í fjórum flokkum, einum kvennaflokki +57 kg og þremur karlaflokkum, -66,-90 og +90 kg. Keppt er um farandbikara sem orðnir eru sögulegir en þeir eru áletraðir nöfnum fyrrum sigurvegara sem voru okkar bestu judomenn þess tíma. Tvö ný nöfn bætast nú á bikarana en Helena Bjarnadóttir sigaði í +57 kg flokki og Ingólfur Rögnvaldsson -66 kg flokki en hann hafði ekki áður keppt á þessu móti en það höfðu hinsvegar þeir Logi Haraldsson -90 kg og Þormóður Jónsson +90 kg gert en þeir voru að sigra í þriðja og fjórða skiptið. Starfsmenn voru þeir Þorgrímur Hallsteinsson sem sá um klukku og stigatöflu og Eiríkur Kristinsson um dómgæsluna og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Hér eru úrslitin og nokkrar myndir frá mótinu og vidoklippa.

Ekki æfing á morgun- jólafrí í öllum flokkum

Ákveðið hefur verið vegna mikillar fjölgunar Covid-19 smita að fella niður síðustu æfingar fyrir jól hjá 15 ára og eldri sem voru á dagskrá á morgun, þriðjudag og miðvikudag og er því komið jólafrí í öllum aldursflokkum. Æfingar hefjast aftur á nýju ári mánudaginn 3. janúar.

Ef mikil stemming verður fyrir því (15 ára og eldri) að æfa á milli jóla og nýárs þ.e. dagana 27, 28 og 29 des. og Covid-19 stoppar það ekki þá verður það tilkynnt hér.

Árni Lund og Ingunn Rut judomenn ársins

Á uppskeruhátíð Judosambands Íslands sem haldin var í dag 18. desember var tilkynnt að Árni Pétur Lund og Ingunn Rut Sigurðardóttir bæði úr JR hafi verið valin judomenn ársins 2021 og Matthías Stefánsson úr ÍR var valinn sá efnilegasti í U21 árs aldursflokki.

Árni Pétur Lund úr Judofélagi Reykjvíkur sem keppir jafnan í -81 kg flokki var valin judomaður ársins 2021 og er það í fyrsta skiptið sem hann hlýtur þann heiður. Árni vann öll þau mót sem hann tók þátt í hér á landi en helsti árangur hans á árinu er þriðja sæti á Opna Finnska meistaramótinu, gullverðlaun á RIG, Íslandsmeistari bæði í -81 kg flokki og Opnum flokki, gull á Reykjavíkurmeistaramótinu og Íslandsmeistari með liði sínu JR í sveitakeppni JSÍ.

Ingunn Rut Sigurðardóttir úr Judofélagi Reykjavíkur sem keppti ýmist í -63 kg eða -70 kg flokki var valin judokona ársins 2021 og hlýtur hún nú þann heiður í þriðja skiptið. Ingunn var stigahæst allra kvenna á árinu og sigraði í þremur mótum af fjórum í mótröð JSÍ. Helsti árangur Ingunnar er þriðja sætið á Opna Finnska meistaramótinu, gullverðlaun á RIG, Íslandsmeistari bæði í -70 kg flokki og Opnum flokki og gull á Reykjavíkurmeistaramótinu.

Matthías Stefánsson úr Judodeild ÍR var valinn efnilegasti judomaður ársins 2021 í U21 árs. Helsti árangur Matthíasar sem keppti ýmist í -90 kg eða -100 kg þyngdarflokki var þriðja sætið á Opna Finnska meistaramótinu í -90 kg karla og þriðja sæti í -90 kg U21 árs. Hann varð í öðru sæti á Baltic Sea Championships í -90 kg U21 árs, Íslandsmeistari í -100 kg flokki karla og Íslandsmeistari -100 kg í U21 árs aldursflokki.

Fleiri viðurkenningar voru veittar í dag og fékk Þorgrímur Hallsteinsson silfurmerki JSÍ fyrir margra ára sjálfboðaliða störf fyrir JSÍ en hann hefur sinnt ýmsum störfum á nánast öllum mótum JSÍ undanfarin ár en oftast sem mótsstjóri. Judofélag Reykjanesbæjar sem stofnað var á árinu fékk hvatningarverðlaun en JRB átti fulltrúa á flestum mótum innanlands og er ört vaxandi í barna og unglingastarfi. Daníel Árnason öflugasti keppandi JRB veitti verðlaununum móttöku. Dómari ársins var valin Marija Dragic Skúlason. Sérstaka viðurkenningu fékk Sveinbjörn Jun Iura fyrir þrautseigju og keppniselju en hann hafði sett stefnuna á Ólympíuleikana í Tokyo og hafði lagt mikið á sig til að ná lágmörkunum með þátttöku í úrtökumótum um allan heim frá 2018-2021 en því miður gekk það ekki eftir og var hann í 65. sæti heimslistans þegar úrtökutímabilinu lauk.

Heiðursgráðanir á árinu hlutu þeir Kári Jakobsson og Runólfur Gunnlaugsson en þeir voru gráðaðir í 3. dan og fengu diploma því til staðfestingar á Íslandsmótinu 2021.

Diploma fyrir dangráðanir 2019-2021 fengu eftirtaldir.
1. dan.
Arnar Freyr Ólafsson, Craig Douglas Clapcott, Kjartan Logi Hreiðarsson, Kristján Daðason
2. dan
Vilhelm Halldór Svansson
3. dan
Bergur Pálsson, Egill Blöndal, Gísli Fannar Egilson, Jóhann Másson
4.dan
Garðar Hrafn Skaftason

Síðustu æfingar fyrir Jól 2021

Síðasta æfing fyrir jól hjá 4-6 ára verður laugardaginn 18. desember kl. 10 en hjá 7-10 ára og 11-14 ára föstudaginn 17. des. en þá verður sameiginleg æfing með báðum þessum aldursflokkum og er mæting kl. 17. Að lokinni æfingu verður boðið í jólakaffi/gos og kökur. Reglulegar æfingar hefjast svo aftur 3. janúar 2022 samkvæmt stundaskrá.  Mánudaginn 3. janúar hefjast æfingar hjá 11-14 ára, þriðjudaginn 4. janúar hefjast æfingar hjá 7-10 ára og laugardaginn 8. janúar hefjast svo æfingar hjá 4-6 ára. Síðasta æfing fyrir jól hjá 15 ára og eldri verður 22. des. og hefjast æfingar aftur hjá þeim á nýju ári mánudaginn 3. janúar. Hugsanlega verða haldnar aukaæfingar fyrir 15 ára og eldri dagana 27, 28 og 29 desember og verður það þá auglýst hér síðar.

Jóla/afmælismót JR karla og kvenna 2021

Jólamót/Afmælismót JR í kvenna og karlaflokkum verður haldið á morgun föstudaginn 17. desember og hefst kl. 18:30. Þetta er innanfélagsmót sem fyrst var haldið 2006 og er það nú haldið í fimmtánda skipti en það féll niður 2020 vegna Covid 19. Ekki þarf að skrá sig fyrirfram, þeir sem mæta á æfingu á morgun geta keppt og keppendum verður raðað í flokka að lokinni vigtun. Í kvennaflokkum hefur verið keppt í -57 kg og +57 kg en í karlaflokkum -66, -73, -81, -90 og +90 kg. Keppt er um farandbikara sem orðnir eru sögulegir en þeir eru áletraðir nöfnum fyrrum sigurvegara sem sumir hverjir eru hættir keppni og voru okkar bestu judomenn þess tíma. Það hefur verið frekar létt yfir þessu móti og enginn að kippa sér upp við það þó að áhorfendur eða jafnvel dómarinn “rétti sínum manni hjálparhönd” í miðri viðureign en alltaf fer þó réttur sigurvegari af velli. Hér eru úrslitin og myndir frá mótinu 2019.

Íþróttamenn Reykjavíkur 2021

Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) valdi tíu íþróttamenn til að heiðra fyrir góðan árangur á árinu sem er að líða, fimm konur og fimm karla. Árni Pétur Lund hlotnaðist sá heiður að vera einn af fimm körlum sem voru tilnefndir fyrir árið 2021. Til hamingju Árni. ÍBR tilnefndi einnig meistaraflokk karla Judofélags Reykjavíkur sem eitt af þeim liðum sem komu til greina að hljóta nafnbótina íþróttalið ársins 2021.

Það voru þau Sandra Sigurðardóttir í Knattspyrnufélaginu Val og Júlían J.K. Jóhannsson í Glímufélaginu Ármanni sem hlutu nafnbótina íþróttakona og maður Reykjavíkur 2021 og Meistaraflokkur karla frá Knattspyrnufélagi Víkings hlaut titilinn liðs ársins 2021. Til hamingu með kjörið. Hér er frétt af heimasíðu ÍBR

Silfur á Baltic Sea Championships

Baltic Sea Championships fór fram dagana 4-5 desember og var það haldið í Orimatilla í Finnlandi. Mótið er eitt það sterkasta sem er haldið á Norðurlöndum og voru skráðir keppendur um fimm hundruð frá þrettán þjóðum. Frá Íslandi voru þátttakendur sex og kepptu tveir þeirra í U18 en hinir fjórir bæði í U21 árs og karlaflokki.

Matthías Stefánsson náði bestum árangri okkar keppenda en hann varð í öðru sæti í U21 árs aldursflokki í -90 kg. Hann keppti í fjögurra manna riðli og sigraði fyrstu tvo andstæðinga sína frá Finnlandi og Svíþjóð örugglega en tapaði gegn þeim þriðja, Karl Baathe frá Svíþjóð sem vann flokkinn. Til hamingju með árangurinn Matti.

Ingólfur Rögnvaldsson var ekki langt frá því að komast á verðlaunapall í U21 árs aldursflokki. Hann keppti í -66 kg þar sem keppendur voru nítján og því keppt með útsláttar fyrirkomulagi. Hann sigraði Pierre Vuillier frá Frakklandi í fyrstu viðureign en tapaði þeirri næstu gegn Olle Hermodsson frá Svíþjóð sem að sigraði flokkinn síðar um daginn. Ingólfur fékk því uppreisnarglímu og sigraði þar Rom Hovav keppanda frá Ísrael en tapaði svo fjórðu viðureign gegn Carl Kont frá Eistlandi sem glímdi því um bronsverðlaunin og vann en Ingólfur varð í sjöunda sæti.

Daníel Árnason keppti seinni keppnisdaginn í U21 árs aldursflokki í -60 kg og í þeim flokki voru tíu keppendur og því keppt með útsláttarfyrirkomulagi. Daníel sigraði fyrstu viðureign örugglega gegn keppanda frá Noregi, Mats Gerhardsen. Í næstu viðureign mætti hann frakkanum David Laborne sem sigraði en Daníel fékk uppreisnarglímu og mætti þar öðrum norðmanni Dennis Bjertnes en varð að játa sig sigraðan og endaði því í sjöunda sæti.

Þrátt fyrir að aðeins ofangreindir hafi unnið viðureignir á mótinu þá stóðu hinir íslensku keppendurnir sig vel gegn sínum andstæðingum og mátti litlu muna hvoru megin sigurinn lenti. Viðureignir voru hnífjafnar og töpuðust á síðustu sekúndum eða í gullskori eftir hörguglímu. Keppendur okkar að þessu sinni eru flestir að stíga sín fyrstu skref í mótum erlendis og hafa því litla keppnisreynslu enda meðalaldurinn aðeins 17 ár en þeir eiga svo sannarlega framtíðina fyrir sér. Hér er linkur á allra glímur okkar manna dagur 1 og dagur 2 og hér eru úrslit mótsins.

Matthías Stefánsson lengst til vinstri með silfur á Baltic Sea Championships 2021

Keppa á Baltic Sea Championships

Um helgina verður Baltic Sea Championships haldið í Orimattilla í Finnlandi og þar munu sex íslenskir keppendur verða á meðal þátttakenda. Það eru þeir Aðalsteinn Björnsson, Daníel Árnason, Ingólfur Rögnvaldsson, Kjartan Hreiðarsson, Matthías Stefánsson og Nökkvi Viðarsson. Fararstjóri og þjálfari í ferðinni er Logi Haraldsson. Baltic Sea Championship er gríðasterkt mót en keppendur rúmlega 500 frá þrettán þjóðum. Fyrir utan keppendur frá Finnlandi og Íslandi þá eru keppendur frá Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Rússlandi, Ísrael, Brasilíu, Austurríki, Frakklamdi, Lettlandi, Eistlandi, Þýskalandi. Keppt er í aldursflokkum, U15, U18, U21 og seniora. Á laugardaginn (4.des) er keppt í U18 og seniora og á sunnudaginn í U15 og U21 árs. Keppt verður á þremur völlum og verður hægt að fylgjast með í beinni útsendingu.  Hér er skráningin og hér munu úrslitin birtast. Til gamans má geta þess að Ægir Valsson vann bronsverðlaun á Baltic Sea Championships 2019 í -90 kg flokki karla.

Frá vinstri. Danni, Alli, Nökkvi, Matti, Ingó, Kjartan og Logi