Úrslit páskamóts JR og Góu 2023

Páskamót JR og Góu 2023 fór fram laugardaginn 15. apríl en það er jafnan haldið fyrstu helgina eftir páska. Páskamótið sem er eitt vinsælasta mót ársins hjá yngri judo iðkendunum og jafnframt það fjölmennasta er æfingamót og fá allir þátttakendur verðlaun að því loknu. Mótið hófst kl. 12 hjá börnum 7-10 ára og lauk því um kl. 14 en þá hófst keppni í aldursflokkum 11-14 ára en fyrr um morguninn höfðu börn í aldursflokki 5-6 ára sýnt kunnáttu sína á judo keppnisreglum og hvernig á að bera sig að í keppni. Þátttakendur voru voru rúmlega sjötíu frá eftirfarandi klúbbum, Judodeild Ármanns, Judodeild Grindavíkur, Judodeild Selfoss, Judodeild ÍR, Judodeild Tindastóls, Judofélagi Garðabæjar og Judofélagi Reykjavíkur. Með keppendunum komu að sjálfsögðu þjálfarar og aðstoðarmenn og auk þeirra fjöldinn allur af aðstandendum og var stemmingin góð á staðnum og keppnin skemmtilegt með fullt af flottum viðureignum. Dómarar mótsins voru nokkrir af okkar bestu judomönnum í U18 og U21 árs og stóðu þau sig frábærlega en það voru þau Helena Bjarnadóttir, Jónas Guðmundsson, Mikael Ísaksson, Skarphéðinn Hjaltason og Weronika Komendera sem dæmdu.  Streymt var frá mótinu en hér eru úrslitin, myndir frá mótinu og stutt video klippa.