Sex gull á Íslandsmeistaramótinu 2023

Íslandsmót karla og kvenna 2023 var haldið laugardaginn 22. apríl í Laugardalshöllinni. Keppendur komu frá fimm klúbbum og voru alls fjörtíu og fimm að meðtöldum opnum flokkum karla og kvenna. Keppt var í sjö þyngdarflokkum karla og einum þyngdarflokk kvenna og auk þess var keppt í opnum flokkum. Þetta var hörkumót og margar jafnar og spennandi viðureignir. Ingólfur Rögnvaldsson sigraði félaga sinn Romans Psenicnijs í úrslitum í -66 kg flokki og var það jafnframt þriðja árið í röð sem Ingólfur verður Íslandsmeistari í þeim flokki og vann hann því bikarinn til eignar. Í -73 kg flokki mættust þeir Kjartan Hreiðarsson og æfingafélagi hans Aðalsteinn Björnsson og var það feykilega jöfn og spennandi viðureign sem að Aðalsteinn sigraði að lokum í gullskori eftir um sjö mínútna viðureign og var það jafnframt hans fyrsti Íslandsmeistaratitill í seniora flokki. Árni Lund vann tvöfalt en hann sigraði örugglega bæði -90 kg flokkinn og opna flokkinn. Þetta var hans sjötti Íslandsmeistartitill en hann hefur þrisvar sinnum áður sigrað í -81 kg flokki og núna í annað sinn opinn flokk karla. Helena Bjarnadóttir vann einnig tvöfalt er hún sigraði bæði -70 kg flokkinn og opna flokkinn og var þetta jafnframt hennar fyrstu Íslandsmeistaratitlar í senioraflokki en hún er aðeins 15 ára og var að keppa í fyrsta skipti í þeim aldursflokki á Íslandsmeistaramóti. Þetta var góður dagur hjá JR, sex gullverðlaun, sjö silfur og fimm bronsverðlaun. Aðrir sem urðu Íslandsmeistarar voru, Alexander Eiríksson (JG) í -60 kg flokki og jafnframt hans fyrsti Íslandsmeistaratitill í senioraflokki, Breki Bernhardsson (UMFS) -81 kg, Egill Blöndal (UMFS) -100 kg og Karl Stefánsson (Ármanni) +100 kg. Óskum við öllum Íslandsmeisturunum til hamingju með árangurinn.

Streymt var frá mótinu, hér er stutt videoklippa og hér eru úrslitin.