Leiðrétting- síðustu æfingar á vorönn

Í tilkynningu á judo.is þann 19. maí var ekki farið rétt með dagsetningar. Tilkynnt var að síðasta æfing barna 5-6 ára og 7-10 ára yrði fimmtudaginn 28. maí en það er laugardagur en þarna átti að vera 26. maí. Bent hefur verið á að fimmtudagurinn 26. maí sé uppstigningardagur og allmargir sem munu ekki komast þann dag svo ákveðið hefur verið að síðasta æfing á vorönn barna 5-6 ára og 7-10 ára verði næsta þriðjudag þ.e. 24. maí og þá verðum við með sameiginlega æfingu fyrir þessa aldursflokka frá kl. 17:30-18:30.

Síðasta æfing hjá 11-14 ára verður mánudagurinn 30. maí og síðasta æfing samkvæmt vorannar stundaskrá hjá framhaldi 15 ára og eldri verður þriðjudaginn 31. maí.

Meistaraflokkur æfir hinsvegar í sumar, líkast til fram í miðjan júlí (nánar tímasett síðar) og er öllum úr framhaldi 15 ára eldri og iðkendum sem eru 13 og 14 ára úr 11- 14 ára aldursflokki velkomið að mæta á þær æfingar en þær verða á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum kl. 18:30-20.

Beltapróf og síðustu æfingar á vorönn

Á undanförnum æfingum hafa verið haldin beltapróf fyrir yngstu iðkendur JR. Festir hafa lokið því en þó eru nokkrir eftir sem vor fjarverandi þegar prófin fóru fram sem vonandi ná að klára á næstu æfingum áður en vorönninni lýkur. Það verður æfing í dag og á þriðjudaginn hjá 7-10 ára eins og venjulega og æfing á laugardaginn hjá 5-6 ára. Síðasta æfing á vorönn barna 5-6 ára og 7-10 ára verður síðan fimmtudaginn 28 maí en þá verðum við með sameiginlega æfingu fyrir þessa aldursflokka verður hún frá kl. 17:30-18:30.

Síðasta æfing hjá 11-14 ára verður mánudagurinn 30. maí og síðasta æfing samkvæmt vorannar stundaskrá hjá framhaldi 15 ára og eldri verður þriðjudaginn 31. maí.

Meistaraflokkur æfir hinsvegar í sumar, líkast til fram í miðjan júlí (nánar tímasett síðar) og er öllum úr framhaldi 15 ára eldri og iðkendum sem eru 13 og 14 ára úr 11- 14 ára aldursflokki velkomið að mæta á þær æfingar en þær verða á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum kl. 18:30-20.

Til upplýsingar um beltakerfi JSÍ. Börn 10 ára og yngri fá strípur á beltin sín en á árinu sem þegar þau verða 11 ára þá fá þau ný belti við hverja gráðun (beltapróf). Litirnir á strípunum segja til um aldur judoka og fjöldi strípa segja til um hve lengi hann hefur æft en það er gefin ein strípa fyrir hverja önn og eru annirnar tvær á ári. Hér er má sjá litakerfi belta fyrir 10 ára og yngri og 11 ára og eldri.

Íslandsmót yngri 2022

Íslandsmót í yngri aldursflokkum verður haldið hjá Judodeild Ármanns í Laugardal laugardaginn 21. maí og hefst það með keppni í aldursflokkum U13 , U15 og U18 kl. 11:15 og lýkur þeirri keppni um kl. 12:30. Keppni í U21 árs aldursflokki hefst svo kl. 13:00 og mótslok eru áætluð um kl. 14:00.

Vigtun fyrir alla fer fram í JR 20. maí frá kl 17-18. Einnig er hægt að koma í vigtun á mótsdegi á mótsstað frá kl. 10:00-10:30 fyrir U13, U15 og U18 og kl. 11:30-12:00 fyrir U21. Aldursflokkur U21 má koma í vigtun á sama tíma og yngri flokkar ef það hentar þeim betur.

Hér eru úrslitin frá 2021.

Úrslit ÍM seniora 2022

Íslandsmót karla og kvenna 2022 var haldið laugardaginn 7. maí í íþróttahúsinu Digranes í Kópavogi. Keppendur voru fimmtíu og einn frá átta klúbbum. Keppt var í sex þyngdarflokkum karla og tveimur þyngdarflokkum kvenna og í opnum flokki karla og kvenna. Þetta var hörkumót og margar jafnar viðureignir sem sumar hverjar fóru í gullskor eins og t.d. opinn flokkur karla en þar áttust við þeir Zaza Simonishvili (-73kg) úr JR og Egill Blöndal (-90kg) úr UMFS. Zaza sigraði að lokum eftir rétt rúmlega sex mínútna glímu og er hann jafnframt sá léttasti frá upphafi til að vinna opna flokkinn á Íslandi. Nokkrir flokkar unnust þó nokkuð örugglega og voru fimm aðilar sem að vörðu titlana frá 2021. Þetta var góður dagur fyrir JR en JR- ingar urðu Íslandsmeistarar í fimm flokkum. Ingunn Rut Sigurðardóttir sigraði í -70 kg flokki og var það í þriðja skipti í röð sem hún vinnur þann flokk, Ingólfur Rögnvaldsson sigraði annað árið í röð í -66 kg flokki og það gerði einnig Zaza Simonishvili í -73 kg flokki og Árni Pétur Lund sigraði þriðja árið í röð í -81 kg flokki og eins og áður sagði sigraði Zaza einnig opinn flokk karla. Egill Blöndal, UMFS, sigraði í fimmta árið í röð -90 kg flokkinn, Þór Davíðsson, UMFS, sigraði -100kg flokkinn og var það í fjórða skiptið sem hann gerir það en ekki í röð því hann hefur inn á milli keppt í -90 eða +100 kg flokki og orðið meistari í þeim flokkum. Karl Stefánsson , JDÁ, sigraði +100 kg flokkinn og var þetta hans annar Íslandsmeistaratitill en hann sigraði einnig 2019. Anna Soffía Víkingsdóttir úr KA, sem keppti síðast á ÍM 2017 kom sá og sigraði og vann bæði í -78 kg flokkinn og opna flokkinn og var það jafnframt hennar nítjándi Íslandsmeistaratitill.

JSÍ streymdi frá mótinu, sjá tengla hér neðar, og hér er videoklippa frá því og hér eru úrslitin.

Íslandsmót seniora 2022 – Mat 1 Íslandsmót seniora 2022 – Mat 2

Hér neðar eru myndir af verðlaunahöfum, nokkrar myndir frá keppninni og myndir frá uppsetningu mótsins, tæknibúnaði og dýnum og frágangur að loknu móti.

Íslandsmót karla og kvenna 2022

Íslandsmót seniora 2022 verður haldið laugardaginn 7. maí í íþróttahúsinu Digranes í Kópavogi. Mótið hefst kl. 10 með forkeppni í sex þyngdarflokkum karla (-66, -73, -81,-90, -100 og +100) og tveimur þyngdarflokkum kvenna (-70 og -78) og lýkur henni um kl. 12 og verður þá gert smá hlé. Úrslitin hefjast kl. 13 og standa þau í um eina klukkustund. Keppni í opnum flokkum karla og kvenna hefst um kl. 14 eða strax að lokinni verðlaunaafhendingu fyrir ofangreinda þyngdarflokka.

JSÍ streymir frá mótinu, sjá tengla hér neðar og hér eru úrslitin.

Íslandsmót karla & kvenna 2022 – Mat 1

Íslandsmót karla & kvenna 2022 – Mat 2

Páskamót JR og Góu 2022 Úrslit

Páskamót JR og Góu 2022 var haldið í þrennu lagi að þessu sinni. Fyrsti hlutinn var haldinn fimmtudaginn 28. apríl og þá kepptu börn 7-10 ára, föstudaginn 29. apríl keppti aldursflokkurinn 11-14 ára og laugardaginn 30. apríl var páskamót barna 5-6 ára. Páskamótið er venjulega haldið fyrstu helgi eftir páska en þar sem að Norðurlandamótið sem haldið var hér á landi að þessu sinni var sett á sömu helgi var páskamótinu frestað um viku. Mótið fór nú fram í sautjánda sinn og var öllum judoklúbbum opið eins og venjulega en það var fyrst haldið árið 2005 en féll niður 2020 vegna Covid-19. Þátttakendur í ár voru sjötíu og fjórir frá eftirfarandi fimm judoklúbbum, Judodeild Ármanns, Judodeild Grindavíkur, Judodeild Selfoss, Judodeild ÍR og Judofélag Reykjavíkur. Með keppendunum komu að sjálfsögðu þjálfarar og aðstoðarmenn og auk þeirra fjöldinn allur af aðstandendum og var stemmingin góð á staðnum. Þetta var skemmtilegt mót, fullt af flottum viðureignum og börnin vel undirbúin og kunnu meira og minna allra reglur og framkomu. Dómarar mótsins með Þormóð Jónsson sér til aðstoðar voru nokkrir af okkar bestu judomönnum í yngri kantinum (14-18 ára) og stóðu þau sig virkilega vel en það voru þau Andri Ævarsson, Skarphéðinn Hjaltason, Aðalsteinn Björnsson, Helena Bjarnadóttir, Jónas Guðmundsson og Weronika Komendera sem dæmdu. Þjálfarar JR voru þau Daníela Daníelsdóttir, Guðmudur B. Jónasson og Zaza Simonishvili og mótstjórnin í höndum Jóhanns Mássonar og Mikael Ísakssonar. Hér eru úrslitin, myndir frá mótinu og stutt video klippa.

Gull, silfur og bronsverðlaun á NM2022

Glæsilegu Norðurlandamóti er lokið en það var haldið dagana 23. og 24. apríl og var það fjölmennasta judomót sem haldið hefur verið hér á landi til þessa. Keppt var í senioraflokkum, U21 árs og U18 ára aldursflokkum og auk þess í aldursflokkum 30 ára og eldri og að lokum var keppt í blandaðri liðakeppni þar sem hvert lið er skipað þremur konum og þremur körlum. Íslendingar unnu fimm gullverðlaun, sjö silfur og átta brons í einstaklingskeppninni auk þess sem lið Íslands sigraði í liðakeppninni. Til gullverðlauna í senioraflokkum unnu þeir Zaza Simonishvili (JR) í -73 kg og Karl Stefánsson (JDÁ) í +100 kg flokki. Silfurverðlaun fengu þau Árni Pétur Lund (JR) í -81 kg og Daníela Daníelsdóttir (JR) +78 kg og Breki Bernhardsson (UMFS) og Egill Blöndal (UMFS) tóku bronsverðlaunin í -90 kg flokki. Í aldursflokki U21 árs unnust engin gullverðlaun en Matthías Stefánsson (ÍR) fékk silfur í -100 kg flokki og bronsverðlaunin í -73 kg flokki fengu þeir félagar Kjartan Hreiðarsson (JR) og Aðalsteinn Björnsson (JR) og Skarphéðinn Hjaltason (JR) í -90 kg flokki. Í aldursflokki U18 unnust aðeins ein verðlaun og var það Aðalsteinn Björnsson (JR) sem fékk bronsverðlaun í -73 kg flokki og jafnframt sín önnur verðlaun á mótinu. Í veterans flokkum þ.e. 30 ára og eldri unnust þrenn gullverðlaun. Bjarni Skúlason (JR) sigraði með algjörum yfirburðum M3-100 kg flokkinn, Jón Þór Þórarinsson (JR) sigraði í M1-90 kg flokki og Davið Kratsch (JR) í M1-73 kg flokki. Silfurverðlaun hlutu þau Máni Andersen (JR) M4-90 kg, Janusz Komendera (JR) M3-66 kg, Piotr Latkowski (UMFG) M4-73 kg og Edda Tómasdóttir (KA) F3-78 kg og bronsverðlaun hlutu þeir Ari Sigfússon (JR) M4-90 kg og Garðar Sigurðsson (JR) í M6-81 kg flokki. Eins og áður sagði þá sigraði Ísland liðakeppnina og var það sjötta gullið sem vannst. Liðið var skipað eftirfarandi mönnum sem skiptust á að keppa. Weronika Komendera -57 kg, Kjartan Hreiðarsson og Zaza Simonishvili -73 kg, Helena Bjarnadóttir -70 kg, Brerki Bernhardsson og Egill Blöndal -90 kg, Daníela Daníelsdóttir og Edda Tómasdóttir +70 kg og Bjarni Skúlason og Karl Stefánsson +90 kg. Fyrir utan ofangreinda voru allmargir okkar manna í 4-7 sæti og því ekki langt frá verðlaunum. Til hamingju öll með frábæran árangur.

Þrátt fyrir þennan stórviðburð í judo hér á landi þá fór því miður lítið fyrir íþróttafréttamönnum á mótinu og var eftir því tekið af áhorfendum sem spurðu margir hvernig á því stæði. En þetta var frábær skemmtun og gaman að fylgjast með eldri og reyndari keppnismönnum sem og okkar yngstu keppnismönnum sem margir hverjir voru að stíga sín fyrstu skref á stórmóti. Framkvæmd mótsins var stórgóð og Judosambandi Íslands til mikils sóma en framkvæmdastjóri sambandsins, Þormóður Jónsson bar hitann og þungann af undirbúningnum sem er ekki lítill fyrir svona mót og á hann heiður skilið fyrir vel unnið verk sem og aðrir sem að undirbúningi komu og allir starfsmenn mótsins sem að lögðu á sig mikla vinnu til þess að sem best mætti til takast.

Nordic Judo Championships 2022 live streaming
23rd of April  mat 1  mat 2  mat 3
24th of April  mat 1  mat 2  mat 3

Hér eru úrslitin í einstaklingskeppninni og hér í liðakeppninni og stutt videoklippa frá keppninni. Hér neðar eru myndir af verðlaunahöfum, frá mótinu og frá uppsetningu þess.

Páskamót JR næsta fimmtudag og föstudag

Páskamót JR og Góu verður nú haldið í sautjánda sinn og er það opið öllum klúbbum eins og venjulega. Vegna tíðra móta næstu helgar langt fram í maí verður mótið haldið í þrennu lagi dagana 28-30. apríl. Fimmtudaginn 28. apríl eru það aldursflokkar 7-10 ára og er mæting í vigtun frá 16-16:30 og mótið hefst svo kl. 17:00 og lýkur kl. 18:30. Sama dagskrá er föstudaginn 29. apríl fyrir U13 og U15 (11-14 ára) mæting í vigtun frá 16-16:30 og mótið hefst svo kl. 17:00 og lýkur kl. 18:30. Laugardaginn 30. apríl er eingöngu innanfélagsmót JR fyrir börn 5-6 ára og haldið á æfingatíma þeirra frá 10-11. Skráningarfrestur er til miðnættis 25. apríl og fer skráning fram í gegnum skráningarkerfi JSÍ. Hér eru úrslitin 2021 hjá 11-14 ára og hér hjá 7-10 ára.

Vigtun fyrir NM 2022

Vigtun fer fram á keppnisstað, Íþróttahúsið Digranes Skálaheiði 2 í Kópavogi og vigtað verður á föstudag og laugardag báða dagana á sama tíma.

Óopinber vigtun er frá 18:30-19:00 og opinber frá 19:00-19:30.

Keppendur sem keppa á laugardaginn (U18 og seniorar) mæta í vigtun á föstudeginum og þeir sem keppa á sunnudaginn (U21 og Veterans) mæta í vigtun á laugardeginum.

Þeir keppendur sem vigtuð sig inn á föstudegi og kepptu á laugardegi og munu einnig keppa á sunnudegi þurfa ekki að vigta sig inn aftur á laugardegi, föstudags vigtin gildir.

Það verður opið í JR eftir hádegi á föstudaginn fyrir þá sem vilja athuga þyngdina eða komast í gufu.

NM 2022 keppnisplan um helgina

Weigh-in
Friday 22nd of April U18 and Seniors at competition venue at Iþrottahusid Digranes
Unofficial weigh-in 18:30 -19:00
Official weigh-in 19:00 -19:30
Saturday 23rd of April U21, Veterans and Teams, at competition venue at Iþrottahusid Digranes
Competitors who have already weight in and competed on Saturday, do not need to weigh in on Sunday as well.
Unofficial weigh-in 18:30 -19:00
Official weigh-in 19:00 -19:30

Gleðilegt sumar

Það verða engar æfingar í dag sumardaginn fyrsta. Á morgun falla allar æfingar niður (nema hjá 11-14 ára) vegna undirbúnings fyrir Norðurlandamótið sem haldið verður á laugardaginn og sunnudaginn í Íþróttahúsinu Digranes, Skálaheiði 2 Kópavogi. Einnig fellur niður gólfglímuæfingin 30 + á laugardaginn. Gleðilegt sumar.