Vormót yngri 2022 á Akureyri

Vormót JSÍ 2022 yngri verður haldið á Akureyri 12. mars í KA heimilinu. Keppt verður í flokkum U13, U15 frá 10-12 og U18 og U21 frá 12 og mótslok áætluð um kl. 14:00. Farið verður með rútu kl. 14:00 föstudaginn 11. mars frá Ármúlanum og komið til baka daginn eftir líklega um kl. 21. en nánari tímasetning síðar. Gisting á hóteli með uppábúin rúm. Kostnaður, rúta og gisting um 17.000 kr. fer þó eftir fjölda þátttakenda gæti hækkað eitthvað eða lækkað kemur í ljós að loknum skráningarfresti. JR greiðir keppnisgjöldin fyrir alla. Með hópnum fara tveir til fjórir þjálfarar frá JR. Myndin hér ofar er frá brottför frá JR á vormótið fyrir nokkrum árum.

Svavar Carlsen látinn

Fallinn er í valinn JR- ingurinn Svavar Marteinn Carlsen mikil öðlingur og judogarpur en hann lést laugardaginn 19. Febrúar 2022. Svavar var tvímælalaust einn af frumbyggjum judoíþróttarinnar á Íslandi sem og lyftingaíþróttarinnar en þar hafði hann verið mjög virkur í keppni. Hann átti sinn feril í judoíþróttinni á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Þá var blómaskeið judosins á Íslandi og menn gerðu garðinn frægan á erlendi grund. Svavar byrjaði tiltölulega seint að æfa, en hann hætti líka seint og tók sín síðustu verðlaun á Íslandsmeistaramóti rúmlega fertugur. Geri aðrir betur. Hann var fyrsti Íslandsmeistarinn í judo en það var árið 1970 í opnum flokki og hann varð jafnframt fyrstur Íslendinga til að vinna til verðlauna á Norðurlandamóti er hann vann til silfurverðlauna á stofnári Judosambands Íslands 1973. Hann var um langt árabil ósigrandi í sínum flokki og ókrýndur konungur judosins á Íslandi. Íslandsmeistari var hann margsinnis bæði í þungavigt og opnum flokki og vann auk þess til fjölda annara verðlauna á öðrum innlendum sem erlendum mótum. Verðlaunagripir hans verða örugglega ekki taldir á fingrum beggja handa.

Svavar var skemmtilegur í viðkynningu og góður félagi og það sem meira var, hann var judomaður af Guðsnáð.

Mikill kappi hefur nú kvatt þennan heim og fundið sér annan keppnisvöll í nýjum heimkynnum. Blessuð sé minning hans.

Við félagar hans í Judofélagi Reykjavíkur minnumst hans með söknuði og virðingu og þökk fyrir allt sem hann gerði fyrir judoíþróttina á Íslandi og sendum ástvinum hans hugheilar samúðarkveðjur.

Góumót JR 2022 – Úrslit

Góumót JR, sem er æfingamót iðkenda 7-10 ára þar sem allir keppendur fá verðlaun, var haldið sl. laugardag (26. feb.) og voru keppendur frá JR, Judodeild Grindavíkur, Judodeild ÍR, Judodeild Ármanns, JRB (Judofélag Reykjanesbæjar) og Judodeild Selfoss. Á síðasta Góumóti voru keppendur tuttugu og einn í aldursflokkum U8-U11 en í ár voru þeir fjörtíu og sjö sem er ánægjulegt og sýnir gróskuna í barna og unglingastarfi flestra klúbba í dag. Keppendur um helgina hefðu getað verið fleiri því allnokkrir sem skráðir voru til leiks forfölluðust á síðustu stundu af ýmsum ástæðum, meðal annars út af covid smitum. Mótið var fyrst haldið árið 2009 og var nú haldið í þrettánda skiptið en það féll niður 2020 vegna Covid 19. Þátttaka á mótinu í gegnum tíðina hefur jafnan verið góð en hér er hægt að sjá þátttökuna frá 2012 til dagsins í dag. Eins og áður sagði er Góumótið fyrir 7-10 ára en undantekning var gerð 2019 og 2021 og keppti þá einnig aldursflokkur 11-14 ára.

Margir þátttakendanna voru að taka þátt í sínu fyrsta móti og stóðu þeir sig mjög vel sem og aðrir keppendur og höfðu þjálfarar þeirra í nógu að snúast við að undirbúa þá og hafa tilbúna þegar þeir voru kallaðir upp. Börnunum er raðað saman eftir aldri og þyngd eins og venja er og keppa stúlkur og drengir stundum saman í flokkum ef þannig stendur á og einnig þarf stundum að færa keppendur á milli aldursflokka til að þyngd keppenda sé sem jöfnust. Þau sem sáu um dómgæsluna eru ungir og óreyndir sem dómarar en eru hinsvegar á meðal bestu yngri keppnismanna landsins og leystu þau verkið vel af hendi. Dómarar voru þau Aðalsteinn Björnsson, Helena Bjarnadóttir, Jónas Guðmundsson, Nökkvi Viðarsson og Kjartan Hreiðarsson sem hélt utan um dómgæsluna. Svo var það Ari Sigfússon og Skarphéðinn Hjaltason sáu um góða og örugga mótsstjórn. Mótið var frábær skemmtun og börnin sýndu oft á tíðum ótrúlega flott judo. Hér neðar eru myndir frá mótinu og stutt videoklippa en hér eru úrslitin.

Góumótið – Skráningarfrestur framlengdur

Góumót JR 2022 sem opið er öllum klúbbum verður haldið laugardaginn 26. febrúar. Mótið er hugsað sem æfingamót fyrir aldursflokka U9, U10 og U11 (8,9 og 10 ára) og fá allir þátttakendur verðlaun. Ákveðið hefur verið að bæta við aldursflokknum U8 þ.e. flokkur fyrir börn sem fædd eru 2015 og verða því 7 ára á árinu.

Skráningarfrestur hefur verið framlengdur til miðnættis 23. febrúar. Skráning fer fram í skráningarkerfi JSÍ og sjá forsvarsmenn klúbba um allar skráningar.

Úrslit Afmælismóts JSÍ 2022

Afmælismót JSÍ í aldursflokkum U13, U15, U18 og U21 árs var haldið í æfingasal Judofélags Reykjavíkur laugardaginn 19. febrúar. Keppendur voru þrjátíu og níu frá átta klúbbum en þeim fækkaði töluvert þar sem mikið var um forföll á síðustu stundu sem stafaði að mestu vegna Covid veikinda. Töluvert var af keppendum sem voru að spreyta sig í fyrsta skipti og stóðu þeir sig vel sem og aðrir þátttakendur. Mótið var skemmtilegt og fullt af flottum og spennandi viðureignum. JR ingar unnu sjö gullverðlaun, fimm silfur og tvenn bronsverðlaun. Dómgæslan var vel mönnuð en það voru þau Birkir Hrafn Jóakimsson, Daníel Ólason, Gunnar Jóhannesson, Jón Kristinn Sigurðsson og Marija Skúlason og sem stóðu vaktina að þessu sinni og leystu verkefnið vel af hendi og það gerðu einnig þau Ari Sigfússon sem sá um mótsstjórn og stiga og tímagæslu og Bylgja Dögg Sigurðardóttir sem sá um að streyma beint frá mótinu fyrir JSÍ. Hér eru úrslit mótsins, myndir af verðlaunahöfum og frá mótinu og hér kemur fljótlega svo stutt videoklippa.

Afmælismót JSÍ yngri – breytt tímasetning

Judosamband Íslands vill vekja athygli á dagskrá Afmælismóts JSÍ yngri 2022 hefur verið hefur verið uppfærð.

Helstu breytingar:

U13/U15 (11-12 ára / 13-14 ára) Vigtun laugardaginn 19. febrúar frá kl. 11:00-11:30 og keppnin hefst svo kl. 12:00 og mótslok áætluð um kl. 13:00

U18/U21 (15-17 ára / 15-20 ára) Vigtun laugardaginn 19. febrúar frá kl. 12:00 – 12:30 en geta einnig vigtað sig kl 11-11:30 eða á föstudeginum 18. feb. frá kl 18 – 19 í JR.

Keppni hjá U18 hefst kl. 13 og keppni U21 strax að lokinni keppni í U18 sem gæti verið um kl. 13:30 til 14:00. Mótslok eru áætluð um kl. 15:00

JSÍ mun streyma frá mótinu

Góumót JR 2022 – börn 8, 9 og 10 ára

Góumót JR 2022 sem er opið öllum klúbbum verður haldið laugardaginn 26. febrúar næstkomandi. Mótið sem fyrst var haldið árið 2009 hefur jafnan verið fjölmennt en það er hugsað sem æfingamót fyrir aldursflokka U9, U10 og U11 (8,9 og 10 ára) og fá allir þátttakendur verðlaun. Skráning er til miðnættis 21. febrúar í skráningarkerfi JSÍ og sjá forsvarsmenn klúbba um allar skráningar. Húsið opnar kl. 12:00 á laugardaginn og verða krakkarnir vigtaðir á milli kl. 12:00 og 12:30 og mótið hefst svo kl. 13:00 og áætluð mótslok kl. 15:00. Nánari tímasetning að lokinni skráningu. Muna að mæta með börnin á tilgreindum tíma í vigtunina svo enginn missi af þátttöku og mótið geti hafist samkvæmt áætlun. Hér er umfjöllun og myndir frá Góumótinu 2021.

Benas og Tristan tóku beltapróf

Þeir Benas Paskevicius og Tristan Sverrisson tóku beltapróf í vikunni. Benas tók 4. kyu (appelsínugult belti) og Tristan 3. kyu (grænt belti) og stóðu þeir sig með sóma. Til hamingju með áfangann.

Frá vinstri. Tristan Sverrisson og Benas Paskevicius

Fleiri kyu gráðanir

Í janúar lok og í þessari viku fóru fram nokkrar kyu gráðanir í JR. Þann 24. janúar tók Snorri Sveinn Lund 4. kyu (appelsínugult belti) og í dag fóru sex aðilar í 3. kyu (grænt belti) en það voru þau Emma Tekla Thueringer, Edgards Butevics, Orri Snær Helgason, Logi Andersen, Vésteinn Gunnarsson og Vilmar Tsirilakis Vilmarsson og auk þeirra tóku þeir félagar Fannar Frosti Þormóðsson og Benjamín Birgir Blandon sína næstsíðustu strípu sem er blá en þeir eru báðir 10 ára og er það ekki fyrr en á ellefta ári sem þeir fara í kyu gráðun og fá þá gult belti. Til hamingju öll með áfangann.

Fv. Snorri, Vésteinn, Orri, Logi, Edgards, Emma og Vilmar og fyrir framan sitja f.v. þeir Benjamín og Fannar