Æfingar eru vel sóttar

Æfingar barna í 10 bekk og yngri hafa verið vel sóttar. Æfingar eru fimm daga vikunnar kl. 17:30-18:30. Á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum eru júdoæfingar í JR en á þriðjudögum og fimmtudögum eru útiæfingar sem haldnar eru við leiksvæðið við Gufunesbæ í Grafarvogi svo það verður æfing þar í dag. Þegar vel viðrar og vel liggur á mannskapnum verður boðið í grill eins og gert var síðasta fimmtudag. Hér neðar eru myndir frá æfingum í síðustu viku og æfingunni í gær.

Fyrsta æfing eftir samkomubann

Æfingar barna í 10 bekk og yngri eru hafnar og var vel mætt á fyrstu æfingu í gær eftir samkomubann en bæði iðkendur og þjálfarar voru greinilega orðnir spenntir að geta hafið æfingar á ný. Æft verður út júní til að vinna upp tapaðan tíma og verða þær á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum kl. 17:30-18:30. Við ætlum einnig að fjölga æfingum og bæta við þriðjudögum og fimmtudögum á sama tíma fyrir þá sem vilja og hafa tök á að mæta en þetta verða útiæfingar hlaup, þrek, leikir, tækniæfingar og gæti veður því haft áhrif á hvort þær verði eða falli niður en það verður þá tilkynnt. Einnig verða útiæfingarnar ekki endilega á sama stað en það verður tilkynnt hverju sinni hvar hún verður.

Fyrsta æfing verður í dag og verður hún við leiksvæðið við Gufunesbæ í Grafarvogi frá 17:30-18:30. Þó þetta sé hlaupa/þrek æfing að mestu þá ætlum við að taka smá tækniæfingu líka svo hafið með ykkur júdojakkann og belti .

Hér eru nokkra myndir frá æfingunni í gær

Æfingar barna hefjast í dag

Æfingar barna 6-15 ára hefjast í dag og verða æfingar á sömu dögum og á sama tíma. Fyrsta æfingin er í dag kl. 17:30.

Í dag taka í gildi nýjar reglur hvað varðar takmarkanir á samkomum vegna farsóttar sem Í dag taka í gildi nýjar reglur hvað varðar takmarkanir á samkomum vegna farsóttar sem heilbrigðisráðherra birti þann 21. apríl. Takmörkunin á samkomum tók gildi 4. maí 2020 kl. 00.00 og gildir til 1. júní 2020 kl. 23.59. Stjórnvöld endurmeta þörf á takmörkuninni eftir því sem efni standa til, þ.e. hvort unnt sé að aflétta henni fyrr eða hvort þörf sé á að framlengja gildistíma hennar. Takmörkun á samkomum tekur til landsins alls.

Meira geitahlaup

Það var vel mætt á hlaupa/þrekæfinguna í dag, veðrið var í góðu lagi, smá gola og nánast þurrt og flestir voru að bæta sig og ná betri tíma. Af gefnu tilefni var að sjálfsögðu minnt á að virða tveggja metra regluna bæði á hlaupum og í myndatöku. Þeir sem mættu í dag voru Árni Lund, Oddur Kjartans, Þórarinn Rúnars, Andri Ævars, Ingunn Rut, Ingólfur Rögnvalds, Kjartan Hreiðars, Daníel Árna og Logi Haralds og nutum þau aðstoðar Halldórs Guðbjörnssonar sem var ekki bara margfaldur Íslandsmeistari í júdo heldur einnig margfaldur Íslandsmeistrari í hlaupum áður en hann hóf að æfa júdo. Hér eru myndir af hópnum en það vantar Loga sem þurfti að fara fyrr.

Frá vinstri, Árni, Oddur, Þórarinn, Andri, Halldór, Ingunn, Ingólfur, Kjartan og Daníel.

Geitahlaup

Það var vel tekið á því í Geitahlaupðinu um helgina en aðeins farnar þrjár ferðir. Árni Lund var fljótastur að þessu sinni og besti tíminn hjá honum var 1:56. Næsta æfing verður í dag.

Daníel, Árni, Ingólfur, Andri og Oddur að lokinni æfingu á laugardaginn.

Naoki Murata látinn

Naoki Murata vinur okkar og fyrrum landsliðsþjálfari lést 9. apríl s.l. á sjötugasta og fyrsta aldursári en hann var fæddur 21. Júlí 1949. Hann kenndi júdo og þjálfaði í fjölmörgum löndum í gegnum tíðina og vorum við Íslendingar svo lánsamir að njóta hans frábæru starfskrafta og kunnáttu. Naoki kom fyrst til Íslands 1975 og var landsliðsþjálfari 1976-1977 og fór meðal annars með keppendur á fyrstu Ólympíuleika sem Íslenskir júdomenn tóku þátt í en það var í Montreal 1976.

Naoki hélt reglulega sambandi eftir að hann fór aftur til Japans og sendi ýmsan fróðleik eins og bækur, blöð, dagatöl og fleira. Í keppnis- og æfingaferðum landsliðsmanna okkar til Japans var Naoki þeim ávalt innan handar og afar hjálplegur. Hann kom nokkrum sinnum aftur til Íslands og tók þá gjarnan æfingu með okkur, nú síðast fyrir tveimur árum og við það tækifæri var honum veitt gullmerki JSÍ.

Naoki Murata sem er 8. Dan var mikils virtur fræðimaður, skrifaði og kom að útgáfu fjölda júdo bóka, hélt fyrlestra og námskeið víða um heim á vegum júdosambanda, var forstöðumaður Kodokan Judo safnsins í Tokyo og varaforseti Japanese Academy of Budo.

Við eigum Naoki Murata mikið að þakka. Hann lagði grunn að árangri fjölmargra Íslenskra júdomanna sem að stóðu sig vel á alþjóðlegum mótum síðar meir.

Blessuð sé minning hans.

Hér er stutt myndband frá heimsókn Naoki Murata 2018

Ólympíuleikunum í Tokyo frestað til 2021

Ólympíuleikunum sem áttu að hefjast í sumar í Tokyo hefur verið frestað og munu þeir fara fram sumarið 2021. Óljóst er hvaða áhrif frestunin hefur á þátttökurétt keppenda því margir höfðu þegar tryggt sér þátttökurétt og aðrir voru á þröskuldnum og nokkur úrtökumót voru eftir. Búast má við að Alþjóða Júdosambandið (IJF) bregðist fljótt við og tilkynni hvernig framhaldið muni verða.

Nútíma Ólympíuleikar hafa verið haldnir á fjögurra ára fresti frá árinu 1896 og er þetta í fyrsta skipti í sögunni sem þeim hefur verið frestað en þeim hefur þó þrisvar sinnum verið aflýst en það var 1916 vegna fyrri heimsstyrjaldarinnar og 1940 og 1944 vegna þeirra seinni.

Hér eru tenglar þar sem lesa má nánar um þetta.

IJF

EJU

Tokyo Olympic Games postponed to 2021

JOINT STATEMENT FROM THE INTERNATIONAL OLYMPIC COMMITTEE AND THE TOKYO 2020 ORGANISING COMMITTEE

Jóhann og Gísli með gráðuna 3. dan

Þeir félagar Jóhann Másson (JR) formaður JSÍ og Gísli Egilsson (JDÁ) hafa tekið gráðuna 3. dan og gerðu þeir það með glæsibrag. Þeir tóku prófið saman og voru Uke hjá hvor öðrum. Óskum við þeim til hamingju með áfangann. Hér eru myndir af þeim að lokinni gráðun.

Síðbúnar myndir frá beltaprófum.

Nokkrar gráðanir hafa verið í JR frá áramótum í öllum aldursflokkum og hefur verið venjan að birta myndir af nemendum að loknu prófi en eitthvað hefur það misfarist og hafa ekki allar myndir verið birtar en hér skal bætt úr því. Hér eru myndir af nokkrum JR ingum sem tóku beltapróf á þessu ári.