Naoki Murata látinn

Naoki Murata vinur okkar og fyrrum landsliðsþjálfari lést 9. apríl s.l. á sjötugasta og fyrsta aldursári en hann var fæddur 21. Júlí 1949. Hann kenndi júdo og þjálfaði í fjölmörgum löndum í gegnum tíðina og vorum við Íslendingar svo lánsamir að njóta hans frábæru starfskrafta og kunnáttu. Naoki kom fyrst til Íslands 1975 og var landsliðsþjálfari 1976-1977 og fór meðal annars með keppendur á fyrstu Ólympíuleika sem Íslenskir júdomenn tóku þátt í en það var í Montreal 1976.

Naoki hélt reglulega sambandi eftir að hann fór aftur til Japans og sendi ýmsan fróðleik eins og bækur, blöð, dagatöl og fleira. Í keppnis- og æfingaferðum landsliðsmanna okkar til Japans var Naoki þeim ávalt innan handar og afar hjálplegur. Hann kom nokkrum sinnum aftur til Íslands og tók þá gjarnan æfingu með okkur, nú síðast fyrir tveimur árum og við það tækifæri var honum veitt gullmerki JSÍ.

Naoki Murata sem er 8. Dan var mikils virtur fræðimaður, skrifaði og kom að útgáfu fjölda júdo bóka, hélt fyrlestra og námskeið víða um heim á vegum júdosambanda, var forstöðumaður Kodokan Judo safnsins í Tokyo og varaforseti Japanese Academy of Budo.

Við eigum Naoki Murata mikið að þakka. Hann lagði grunn að árangri fjölmargra Íslenskra júdomanna sem að stóðu sig vel á alþjóðlegum mótum síðar meir.

Blessuð sé minning hans.

Hér er stutt myndband frá heimsókn Naoki Murata 2018