Frétt um JR í fréttablaði í Halberstadt

Hannah Duve sem heimsótti okkur í febrúar s.l. og tók æfingu með krökkunum í aldursflokki 11-14 ára sendi okkur meðfylgjandi frétt úr svæðisdagblaði í Halberstadt í Þýskalandi þar sem hún býr en þar er sagt frá heimsókn hennar til JR. Á heimasíðu júdoklúbbsins sem hún æfir með má sjá fjölda frétta um hana og greinilegt að hún er að standa sig vel. Hún meiddist á öxl nýverið á æfingu svo hún getur lítið æft sem stendur en vonast til að verða orðin góð í maí svo hún geti tekið þátt í meistaramótinu í Saxlandi.

Beltagráðun í JR hjá yngri iðkendum

Nokkrar gráðanir hafa verið í JR síðustu daga í aldursflokknum 11-14 ára og hafa flestir verið að taka fyrri hluta belta þ.e hálft gult eða hálft appelsínugult belti og svo framvegis og nokkrir 15 ára og eldri tóku heil belti. Í aldursflokknum 10 ára og yngri tóku nokkur börn beltapróf og fá þau strípur sem eru málaðar þversum á beltin og sýna þær hvé gömul börnin eru og hve lengi þau hafa æft júdo en þegar þau ná ellefu ára aldri fara þau úr hvítu belti í hálft gult og síðar á árinu í gult belti. Hér er mynd af nýgráðuðum júdodrengjum og stúlkum sem tekin var á æfingu í gær.

Mótum aflýst vegna Corona vírusins

Nú er byrjað að aflýsa judóviðburðum vegna Coronavírusins og hefur þremur mótum þegar verið aflýst. Fyrst var það Senior Europen Judo Cup í Swiss og Cadett European Judo Cup í Zagreb sem halda átti helgina 7-8 mars og svo var Rabat Grand Prix í Marrakó aflýst í dag en Sveinbjörn Iura átti einmitt að keppa á því næstu helgi en hann lagði af stað í ferðalagið í morgun. Hann fór því ekki lengra en til Parísar og mun í staðinn æfa þar og fara þaðan eftir viku til suður Ameríku en hann ætlar að keppa á Pan American Open í Santiago í Chile 14-15 mars og í Lima í Perú 21-22 mars ef að þeim mótum verður ekki aflýst líka. Það þarf því að fylgjast vel með hvort viðburðum sé aflýst því fyrirvarinn er nánast enginn.

Logi, Kjartan, Hrafn og Breki til Tékklands

Logi Haraldsson, Kjartan Hreiðarsson, Hrafn Arnarsson og Breki Bernhardsson fara í fyrramálið til Tékklands og taka þar þátt í OTC æfingabúðunum í Nymburk. Þeir verða þar við æfingar í viku þar sem æft verður tvisvar á dag ásamt fjölmörgum af bestu júdomönnum og konum heims og koma þeir aftur heim næstu helgi. Þátttaka þeirra í æfingabúðunum er meðal annars liður í undirbúningi fyrir norðurlandamótið sem verður í Reykjavík 25 og 26 apríl næstkomandi. Árni Lund og Egill Blöndal áttu einnig að fara en komust ekki að þessu sinni og Sveinbjörn Iura er áleið til Marrakó þar sem hann tekur þátt í Rabat Grand Prix næstu helgi.

Sveinbjörn komst í þriðju umferð

Sveinbjörn Iura keppti í morgun á Dusseldorf Grand Slam. Hann sat hjá í fyrstu umferð en mætti svo Sotelo Angeles frá Peru í annari umferð. Sotelo sótti ýfið meira í fyrstu og eftir umþaðbil mínútu komst hann yfir er hann skoraði wazaari með seoinage kasti. Sveinbjörn var þó ógnandi í gólfglímunni og var í tvígang nærri búin að komast í fastatak í framhaldi af misheppnaðri sókn Sotelo og í þriðja skiptið bar gólfglíman árangur er Sveinbjörn snéri Sotelo á bakið eftir góðan undirbúning og sigraði hann örugglega með öflugu fastataki. Þar með var Sveinbjörn kominn í 32 manna úrslit og mætti þar Tékkanum Jaromir Musil. Þar virkaði Sveinbjörn sterkari aðilinn og náði fínum tökum en í einni sókn hans sem gekk ekki upp lendir hann á maganum og Jaromir kemst í góða stöðu í gólfglímunni og vinnur vel úr henni og kemst í armlás og Sveinbjörn varð að gefast upp eftir öfluga mótspyrnu. Þessi árangur Sveinbjörns í dag gefur honum 120 punkta en nýr heimslisti verður gefinn út á mánudaginn og þá kemur í ljós hver staða hans verður á honum. Það er gaman að geta þess að félagi okkar frá Svíþjóð, Robin Pacek (-81 kg) átti frábæran dag en hann sigraði fimm andstæðinga af sex og tók bronsverðlaunin og eru það fyrstu verðlaun hans á Grand Slam móti. Líklega hefur hann með því komist yfir 2.000 Ol. punkta og nánast tryggt sér farseðilinn á Ólympíuleikanna í sumar en 18 efstu á listanum eru öruggir inn auk þeirra sem komast inn á álfukvóta. Robin var með 1.669 Ol. punkta fyrir þetta mót og inni á leikunum í gegnum álfukvóta sem hann mun þá ekki þurfa að nota og einhver annar fær þann rétt. Hér eru öll úrslitin.

Hér er Sveinbjörn í þann mund að snúa Sotelo á bakið

DUSSELDORF GRAND SLAM 2020

DUSSELDORF GRAND SLAM 2020 hófst í morgun og er Sveinbjörn Iura á meðal keppenda og Jón Þór Þórarinsson landsliðsþjálfari er honum til aðstoðar. Sveinbjörn keppir á morgun laugardag og hefst keppnin kl. 8:30 að íslenskum tíma. Dregið var í gær og eru 67 keppendur í 81. kg flokknum. Sveinbjörn sem er í 88. sæti heimslistans (WRL) mætir Sotelo Angeles frá Peru en hann situr í 74 sæti. Ef vel gengur þá mætir Sveinbjörn að öllum líkindum Tékkanum Jaromir Musil en hann er í 51. sæti. Þátttakendur eru fjölmargir eins og alltaf á þessum Grand Slam mótum en þeir eru 670 frá 5 heimsálfum og 116 þjóðum. Karlarnir eru 401 og konurnar eru 269. Hægt er að horfa á mótið í beinni útsendingu og á Sveinbjörn 25 viðureign á Mat 1 en sjá nánar hér.

Afmælismót JSÍ 2020 – úrslit

Afmælismót JSÍ í yngri aldursflokkum ( U13, U15, U18 og U21 árs) var haldið síðastliðinn laugardag (15. febrúar) hjá Júdofélagi Reykjavíkur. Óhætt er að segja að það hafi gengið vel hjá okkur JR ingum en við unnum til þrettán gullverðlauna af nítján og auk þess tvenn silfurverðlaun. Keppendur voru fimmtíu og fjórir frá sjö klúbbum. KA menn sem einnig voru skráðir til leiks komust því miður ekki suður vegna leiðinadveðurs og var missir af þeim. Mótið var skemmtilegt á að horfa, fullt af flottum og spennandi viðureignum og jafnframt eitthvað um óvænt úrslit. Dómgæslan var vel mönnuð og stóðu dómarar sig að venju með sóma við erfiðar aðstæður. Hér eru úrslit mótsins, myndir af verðlaunahöfum og nokkrar myndir frá keppninni.

Afmælismót JSÍ 2020 í yngri aldursflokkum

Afmælismót JSÍ í yngri aldursflokkum ( U13, U15, U18 og U21 árs) verður haldið laugardaginn 15. febrúar í Júdofélagi Reykjavíkur. Mótið hefst kl. 10:00 í aldursflokkum 11-14 ára þ.e. U13 og U15 og lýkur um kl. 12:00. Vigtun á keppnisstað frá kl. 9-9:30. Muna að mæta tímanlega svo þið missið ekki af þátttöku því vigtun lokar kl. 9:30.

Keppni U18 hefst kl. 12 og lýkur um kl. 13 og keppni U21 hefst kl. 13 og lýkur um kl. 14.

Vigtun fyrir U18 og U21 er frá kl. 11-11:30 en athugið að U18 og U21 geta einnig mætt í vigtun með U13/U15 frá kl. 9-9:30.

Muna blár og hvítur júdobúningur eða bara hvítur. Ekki bara blár búningur.

Afmælismót JSÍ yngri 2020