EM 2021 – Árni Lund mætir heimsmeistaranum

Evrópumeistaramótið 2021 hófst í dag 16. apríl og stendur í þrjá daga en það fer fram í Lissabon í Portugal. Þátttakendur eru 359 frá 45 þjóðum, 210 karlar og 149 konur og á meðal keppenda eru þeir Árni Lund sem keppir í -81 kg flokki og Egill Blöndal sem keppir í -90 kg flokki og með þeim í för er landsliðsþjálfarinn Jón Þór Þórarinsson. Sveinbjörn Iura átti einnig að keppa á mótinu en greindist nýlega jákvæður af covid-19 á Grand Slam móti í Tyrklandi missir hann því af EM.

Í dag er keppt í þremur léttustu flokkum kvenna, -48, -52 og -57 kg og tveimur léttustu flokkum karla, -60 og -66 kg. Á laugardaginn verður keppt í -63 og -70 kg flokkum kvenna og -73 og 81 kg flokkum karla þar sem Árni verður á meðal keppenda og að lokum þá verður á sunnudaginn keppt í -78 og +78 kg flokkum kvenna og -90, -100 og +100 kg flokkum karla þar sem Egill verður á meðal keppenda.

Dregið var í gær og er óhætt að segja að Árni hafi ekki beint haft heppnina með sér en hann mætir Saki Muki frá Ísrael, ríkjandi heimsmeistara og margföldum verðlaunahafa á Grand Slam mótunum. Það verður að segjast eins og er að líkurnar eru ekki Árna megin en hver veit. Árni hefur aldrei keppt á þetta sterku móti, er óþekktur og gæti vel komið á óvart og er alveg líklegur til þess.

Egill mætir Milan Randl frá Slóvakíu sem er í 40. sæti heimslistans og verður það eflaust töff viðureign og allt getur gerst en Egill er orðinn reynslunni ríkari með meðal annars tvö Evrópumeistaramót seniora og þrjú heimsmeistaramót seniora að baki.

Mótið hefst kl. 9 á okkar tíma og er í beinni útsendingu. Til að horfa á þarf að hafa (IJF account) og er hann frír og notast aftur og aftur. Hér er keppnisröðin og drátturinn í öllum flokkum og hér er linkur á mótið á heimasíðu EJU. Hér neðar eru nokkrar myndir af Árna á æfingum í JR og frá RIG 2021 og NM 2019 en Árni er ríkjandi Norðurlandameistari í -81 kg flokki.