Sveinbjörn keppir á Tbilisi Grand Slam

Tbilisi Grand Slam 2021 hófst í dag 26. mars og stendur í þrjá daga. Þátttakendur eru 464 frá 5 heimsálfum og 80 þjóðum, 253 karlar og 211 konur.  Sveinbjörn Iura sem er í 72 sæti heimslistans er á meðal þátttakenda og er Yoshihiko Iura faðir hans honum til aðstoðar. Sveinbjörn keppir á morgun laugardag í 81 kg flokki en það er næst fjölmennasti flokkurinn á mótinu og eru keppendur þar fjörtíu og þrír. Mótið hefst kl. 6:00 í fyrramálið á okkar tíma og á Sveinbjörn tuttugustu viðureign á velli 1. svo hún væri þá um kl. 7:30. Dregið var í gær og mætir Sveinbjörn keppanda frá Grikklandi, Theodoros Demourtsidis sem er í 419. sæti heimslistans. Þó svo að Sveinbjörn sé ofar á heimslistanum þá er Theodoros sýnd veiði en ekki gefinn. Þetta er ungur keppandi en mjög öflugur og sigraði hann t.d. Svíann Robin Pacek á Evrópumeistarmótinu í Prag í fyrra en Robin er í 26 sæti listans. Mótið er í beinni útsendingu og til að horfa á hana þarf að hafa (IJF account) og er hann frír og notast aftur og aftur. Hér er keppnisröðin og drátturinn í öllum flokkum.