Frestun á Vignisbikarnum

Því miður þarf að fresta um óákveðinn tíma Vignisbikarnum sem halda átti á morgun sunnudaginn 10. nóvember í Júdodeild Ármanns. Tilkyning og frekari upplýsingar um mótið verður send út til klúbba þegar ný dagsetning hefur verið ákveðin.

Vignisbikarinn 2019

Sunnudaginn 10. nóvember næstkomandi heldur Júdódeild Ármanns júdómót í Skelli til að heiðra minningu fallins félaga, Vignis Grétars Stefánssonar. Mótið byrjar kl. 10:00 og verður keppt í aldursflokkunum U9, U11, U13 og U15.
Þátttökugjald er 1.000 krónur og aðgangseyrir fyrir eldri en 12 ára er 500 krónur. Allur ágóði af mótinu rennur í Framtíðarsjóð Vignissona, þeirra Sindra Dan og Snævars Dan.
Skráning sendist á vignisbikarinn@gmail.com. Skráningu þarf helst að skila fyrir laugardaginn 9. nóvember.

Sveinbjörn komst ekki áfram á Perth Open

Því miður féll Sveinbjörn úr keppni í nótt á Perth Oceania Open þegar hann tapaði fyrir  Nicholas Delpopolo frá USA. Þetta var snörp viðureign sem lauk með sigri Nicholas þegar hann náði sterkum handtökum og fór eldsnöggt í sode tsurukomi goshi og skoraði Ippon. Meðfylgjandi er video klippa frá kastinu. Nicholas féll einnig úr keppni í næstu umferð er hann tapaði fyrir Aslan Lappinagov frá RUS en hann er í 9 sæti heimslistans. Mótið var gríðasterkt og í 81 kg flokknum voru fjölmargir Grand Slam verðlaunahafar og meðal annara Vedat Albayrak bronsverðlaunahafi frá HM frá 2018 sem er núna í 4. sæti heimslistans en hann varð að sætta sig við tap í þriðju umferð. Frá Ástralíu fer Sveinbjörn til Japans og mun æfa þar næstu vikur og taka síðan þátt í Osaka Grand Slam 22-24 nóvember.

Reykjavíkurmeistaramótið 2019 – Úrslit

Reykjavíkurmeistaramótið 2019 var haldið í dag hjá Júdofélagi Reykjavíkur. Keppendur voru frá Reykjavíkurfélögunum þremur þ.e. Júdodeild Ármanns, Júdodeild ÍR  og Júdofélagi Reykjavíkur. Keppt var í aldursflokkum U13, U15, U18 og karlaflokki og voru keppendur alls tuttugu og einn sem var í slakara lagi eins og reyndar undanfarin ár og þarf eitthvað að gera svo iðkendur taki þátt í þessu móti sem og öðrum. Í aldursflokkum U13 og U15 voru þyngdarflokkar eitthvað sameinaðir til að allir þátttakendur fengu keppni en það varð auðvitað til þess að sumir urðu að glíma við eitthvað þyngri mótherja en þeir létu það ekki á sig fá og stóðu sig með sóma. Viðureignirnar voru mjög jafnar og spennandi og fóru allnokkrar í gullskor. Svo jafnar voru sumar viðureignirnar að í eitt skiptið í U13 þegar viðureign var búin að standa í rúmar sex mínútur sem alla jafnan er bara tvær mínútur var hún stöðvuð og ákveðið var að notast við hlutkesti til að ákvarða sigurvegara. Í U18 var keppt í tveimur þyngdarflokkum en U21 og karlaflokkur í -73 og -81 kg voru sameinaðir í einn flokk þ.e. -81 kg flokk karla og sigraði Kjartan Hreiðarsson þann flokk nokkuð örugglega. Hér eru úrslitin og nokkrar myndir frá mótinu.

Sveinbjörn keppir í nótt í Ástralíu

Sveinbjörn Iura keppir um kl. 2:30 í nótt (4. nóv.) á Perth Oceania Open í Ástralíu og á hann níundu viðureign en keppnin hófst í dag og klárast á morgun. Sveinbjörn fór upp um 11 sæti heimslistans á síðasta Grand Slam móti og er núna í 80. sæti. Hann mætir Nicholas Delpopolo frá USA sem er í 52 sæti heimslistans í -73 kg en hann er nýfarinn að keppa í -81 kg flokki og er þar í 149 sæti. Hér er drátturinn og hér neðar er hægt að fylgjast með í beinni útsendingu á þremur völlum og er 81 kg flokkurinn á velli 1.

Völlur 1.Völlur 2.Völlur 3.

Reykjavíkurmeistaramótið 2019

Reykjavíkurmeistaramótið 2019 er í umsjón JR í ár og verður haldið sunnudaginn 3. nóvember og hefst kl. 14:00 og mótslok áætluð um kl. 16:00. Kepp verður í aldursflokkum U13, U15, U18, U21 og karla og kvennaflokkum. Eins og nafnið bendir til er þetta mót eingöngu fyrir Reykjavíkurfélögin sem eru Ármann, ÍR og JR. Þeir sem ætla að keppa láti sinn þjálfara vita og félag viðkomandi keppanda sér síðan um að skrá hann í mótið og er lokaskráningardagur fimmtudagurinn 31. okt. í gegnum skráningarkerfi JSÍ.

Afmælismót JR yngri flokkar

Afmælismót JR í yngri flokkum var haldið síðastliðinn föstudag (25. okt.) Því miður var þátttakan ekki mjög mikil að þessu sinni og aðeins um þriðjungur iðkenda mætti en vetrarfrí í skóla hafði sitt að segja og voru margir sem afboðuðu sig vegna ferðalaga og annara ástæðna. En mótið var samt spennandi og skemmtilegt og gaman að fylgjast með upprennandi júdostjörnum sem sýndu flott tilþrif. Hér eru úrslitin og myndir af verðlaunahöfum og video klippa frá mótinu.

U11 -38 kg
U13 -38 kg
U15 -66 kg

Ingunn og Kjartan með silfur á Opna Finnska

Ingunn Sigurðardóttir og Kjartan Hreiðarsson unnu til silfurverðlauna á Opna Finnska í Turku í dag. Keppendur okkar komu seint á keppnisstað í gær þar sem það stóð illa á flugi og höfðu því lítinn tíma til að ná vigt en það gerðu þó allir nema Ingunn og Kjartan sem voru tæplega kíló yfir og urðu því að keppa í næsta þyngdarflokki ofar. Það kom þó ekki að sök þegar upp var staðið því þau náðu flottum árangri og unnu til silfurverðlauna í þeim flokkum, Ingunnn í -78 kg flokki og Kjartan í U18 -81 kg flokki. Kjartan átti að keppa aftur síðar um daginn í U21 árs -81 kg en hætti við þátttöku þar sem hann lenti illa í úrslitaglímunni í U18 og var ekki búinn að jafna sig. Aðrir keppendur komust ekki á pall að þessu sinni en unnu þó nokkrar viðureignir. Á morgun taka keppendur okkar þátt í alþjóðlegum æfingabúðum sem haldnar eru í tengslum við mótið og koma svo heim á mánudaginn. Myndir frá mótinu verða settar hér inn um leið og þær berast.

Kjartan Hreiðarsson með silfur á Opna Finnska 2019
Ingunn Sigurðardóttir með silfur á Opna Finnska 2019
Ingunn á æfingu í JR

Kjartan á æfingu í JR

Opna Finnska 2019

Níu keppendur frá Íslandi keppa á Opna Finnska 2019 í Turku í Finnlandi í dag 26. október og keppt er í aldursflokkum U18, U21 og seniora flokki. Keppendur okkar eru Daníel Árnason B18-55 og M21-55, Ingólfur Rögnavaldsson B18-66 og M21-66, Gylfi Edduson B18-66 og M21-66, Kjartan Hreiðarsson, B18-81 og M21 -81, Skarphéðinn Hjaltason B18-81 og M21-81, Oddur Kjartansson M21-81 og M-81, Logi Haraldsson M-81, Hrafn Arnarsson M21-90 og M-90 og Ingunn Sigurðardóttir -W78 kg. Með þeim í för er Jón Þór Þórarinsson landsliðsþjálfari og Þormóður Jónsson aðstoðarþjálfari og fararstjóri. Á sunnudaginn verður svo tekið þátt í alþjóðlegum æfingabúðum sem haldnar eru í tengslum við mótið. Hér er drátturinn og keppnisröðin og bein útsending.

Hér er Völlur 1 og hér er Völlur 2 og hér er Völlur 3

Komust í aðra umferð á Abu Dhabi GS.

Þá er Abu Dhabi Grand Slam lokið en þeir Egill Blöndal og Sveinbjörn Iura kepptu í dag og í gær og komust báðir í aðra umferð. Sveinbjörn mætti Sacha Denanyoh frá TOG og sigraði hann örugglega en Sacha fékk þrjú shido á innan við tveim mínútum og tapaði þar með viðureigninni. Næst mætti Sveinbjörn Vedat Albayrak frá Tyrklandi en hann er í 5. sæti heimslistans. Sveinbjörn byrjaði af krafti og leit ágætlega út en það dugði ekki til og tapaði hann viðureigninni eftir umþað bil eina mínútu og lauk þar með keppni. Egill átti að glíma við Dmytro Berezhny frá UKR en hann mætti ekki, hefur líklega ekki náð vigt svo Egill fór beint í aðra umferð. Þar mætti hann Kukolj Aleksandar  frá Serbíu en hann er fyrrum Evrópumeistari og er í 9. sæti heimslistans. Þetta var hörkuviðureign sem lauk því miður með sigri Kukolj eftir umþað bil tvær mínútur og þar með var keppni Egils lokið á þessu móti eins og Sveinbjörns. Egill kemur heim að loknu þessu móti en Sveinbjörn verður áfram úti og keppir næstu helgi (3-4 nóv.) í Ástralíu á Perth Oceania Open og síðan 22-24 nóv. á Osaka Grand Slam og kemur svo heim að því loknu.