Þeir Alexander Heiðarsson og Hrafn Arnarsson munu næstu þrjár helgar keppa á Junior European Judo Cup sem haldin eru nú víðsvegar um Evrópu. Samhliða þessum mótum verða svo haldnar alþjóðlegar æfingabúðir sem þeir munu taka þátt í. Þeir lögðu af stað í gær og fyrsta mótið er í Prag og keppir Alexander á morgun laugardaginn 20. júlí í -66 kg flokki og mætir hann Ian Stoermer frá þýskalandi og Hrafn keppir á sunnudaginn í – 81 kg flokki og mætir Alex Barto frá Slóvakíu. Hér er drátturinn og hægt að fylgjast með í beinni útsendingu. Eftir mót og æfingabúðir í Prag þá keppa þeir næst á European Judo Cup í Berlín 27-28 júlí og viku æfingabúðir af þeim loknum en þá heldur Hrafn heim á leið en Alexander tekur eitt mót til viðbótar viku seinna, European Judo Cup í Poznan í Póllandi og kemur svo heim. Með strákunum í för er Garðar Skaptason sem verður þeim til halds og trausts fyrstu tvö mótin og í Póllandi verður Heiðar Jónsson aðstoðarmaður Alexanders.
Frá æfingu aldursflokka 8-14 ára
Það er líf og fjör hjá krökkunum í aldursflokkunum 8-14 ára og hafa æfingarnar í sumar verið vel sóttar. Í fyrradag tók Hilmar Þ. Hákonarson gráðuna 5. kyu (gult belti ).
Budapest Grand Prix um helgina
Veislan heldur áfram og nú er komið að Budapest Grand Prix sem hefst á morgun, föstudaginn 12 júlí og stendur í þrjá daga. Þátttakendur eru 550 allt heimsklassa keppendur sem koma frá 5 heimsálfum og 82 þjóðum, 344 karlar og 206 konur. Að þessu sinni verða engir íslendingar á meðal þátttakenda en Egill Blöndal og Sveinbjörn Iura keppa næst í Zagreb 26-28 júlí. Á morgun verður keppt í W: -48 kg, -52 kg, -57 kg, M: -60 kg, -66 kg. Á laugardaginn í W: -63 kg, -70 kg, M: -73 kg, -81 kg og á sunnudaginn í W: -78 kg, +78 kg, M: -90 kg, -100 kg, +100 kg. Hér er drátturinn og hér er keppnisröðin. Mótið verður í beinni útsendingu og hefst kl. 08:30 á okkar tíma. Góða skemmtun.
Keppni lokið hjá Agli og Sveinbirni í Montreal
Það gekk ekki nógu vel hjá okkar mönum á Grand Prix Montreal. Sveinbjörn Iura tapaði fyrir Alexandre Arencibia frá Kanada í 81kg flokknum eftir jafna og öfluga viðureign en Alexandre náði skori (Kata guruma) snemma í glímunni og hélt því forskoti út glímutímann þrátt fyrir harða atlögu Sveinbjörns til að jafna leikinn. Egill Blöndal byrjaði vel gegn Geronimo Saucedo frá Mexico í 90 kg flokknum og leiddi eftir að hafa skorað wazaari þegar viðureignin var hálfnuð en glíman hafði verið jöfn og líklegt að Egill héldi sínu. Geronimo reyndi hvað hann gat til að jafna og sótti stíft og bar það árangur þegar rúm ein mínúta var eftir af glímutímanum er Egill gætti ekki nógu vel að sér og Geronimo skoraði ippon með uchimata kasti. Þar með lauk keppni þeirra félaga í Montreal og við tekur þátttaka í alþjóðlegum æfingabúðum frá 8-12 júlí og svo keppa þeir næst á Grand Prix Zagreb í Króatíu 26-28 júlí.
Keppa á Montreal Grand Prix um helgina
Egill Blöndal, Sveinbjörn Iura og Jón Þór Þórarinsson landsliðsþjálfari lögðu af stað í gær til Kanada en Montreal Grand Prix hefst á morgun, föstudaginn 5 júlí og stendur í þrjá daga. Þátttakendur koma frá 6 heimsálfum og 50 þjóðum, 136 karlar og 113 konur alls 249 keppendur. Það vekur athygli að það er aðeins einn Frakki á meðal þátttakenda en það er þó engin aukvisi. Það er enginn annar en Teddy Riner tífaldur heimsmeistari í þungavigt en hann hefur ekki keppt í eitt og hálft ár og er að hefja keppni á ný til að stimpla sig inn á Ólympíuleikana 2020 og verður örugglega skemmtilegt að fylgjast með honum en hans fyrsta viðureign er á sama velli og Egill og þremur glímum á eftir honum. Sveinbjörn keppir á laugardagin í 81 kg flokki þar sem keppendur eru 27 og Egill á sunnudaginn í 90 kg flokki þar sem keppendur eru 18. Búið er að draga og hér er keppnisröðin. Sveinbjörn fær ungan en öflugan andstæðing en hann mætir bronsverðlaunahafa Juniora frá HM 2018 Alexandre Arencibia frá Kanada og er það fjórða viðureign á velli 1 . Egill var tiltölulega heppninn með andstæðing þó ekkert sé öruggt í þeim efnum en hann mætir Geronimo Saucedo frá Mexico og á hann þriðju viðureign á velli 2. Montreal Grand Prix verður í beinni útsendingu og hefst kl. 11:30 í Kanada eða kl. 15:30 á okkar tíma. Að loknu móti taka þeir Egill og Sveinbjörn svo þátt í alþjóðlegum æfingabúðum frá 8-12 júlí.
Sveinbjörn komst því miður ekki áfram á EM
Þá er keppni lokið hjá Sveinbirni Iura á Evrópumótinu að þessu sinni. Því miður komst hann ekki áfram en hann tapaði viðureign sinni gegn Ivaylo Ivanov frá Búlgaríu en Ivaylo komst hins vegar alla leið í úrslitin og endaði með silfrið. Sveinbjörn fékk shido eftir tæpa mínútu fyrir að fara út fyrir völlinn og stuttu seinna var skorað á hann wazaari. Þegar glímutíminn var um það bil hálfnaður náði Búlagarinn góðu kasti og sigraði á ippon og þar með var keppninni lokið hjá Sveinbirni. Hér eru öll úrslitin og viðureignin hans Sveinbjörns má sjá hér fljótlega. Á morgun verður keppt í -78kg og +78kg kvenna og í -90kg, -100kg, +100kg flokkum karla og á þriðjudag verður keppt í liðakeppni.
Sveinbjörn keppir á morgun á EM í Minsk.
Evrópuleikarnir eru haldnir í Minsk þessa dagana og hefst Evrópumeistaramótið í júdo nú um helgina. Við erum því miður aðeins með einn keppanda að þessu sinni á meðal 393 þátttakanda. Staða Sveinbjörns Iura á heimslistanum í -81 kg flokknum gaf honum keppnisrétt en hann var í 31 sæti af 38 keppenda kvóta. Egill Blöndal stefndi einnig á þátttöku í -90kg flokknum þar sem kvótinn var 35 keppendur en þar sem hann var það lengi frá keppni vegna meiðsla gékk það ekki upp. Dregið var í gær og hófst keppnin í dag laugardag í kvennna flokkum -48kg, -52kg, -57kg og karlaflokkum -60kg, -66kg. Á sunnudaginn verður keppt í -63kg og -70kg flokkum kvenna og -73kg og -81kg flokkum karla. Á mánudaginn verður svo keppt í -78kg og +78kg kvenna og í -90kg, -100kg, +100kg flokkum karla og á þriðjudag verður liðakeppnin. Sveinbjörn keppir á morgun í –81 kg flokknum og er óhætt að segja að hann hefði getað verið heppnari með dráttinn en hann mætir Ivaylo Ivanov frá Búlgaríu sem er í tólfta sæti heimslistans, silfur og gullverðlaunahafi á Grand Slam og Grand Prix mótum 2018 og 2019. Keppnin verður í beinni útsendingu og hefst kl. 7:30 að íslenskum tíma. Keppnisröðin er hér en Sveinbjörn á tuttugustu viðureign á velli þrjú sem ætti að vera um kl. 8:40. Faðir Sveinbjörns, Yoshihiko Iura er honum til aðstoðar.
Glæsileg frammistaða í Luxembourg
Þá er fimmta Challenge International de la Ville de Differdange mótinu lokið í Luxembourg. Keppendur, þjálfarar og foreldrar alls tuttugu og tveir aðilar flugu til Brussel og keyrðu þaðan í bílaleigubílum til Luxemborgar og eru væntanleg aftur heim á morgun. JR- ingar voru með tíu keppendur og unnu þeir til fimm verðlauna, fjögur gull og eitt brons og urðu einnig í fjórða til fimmta sæti í nokkrum flokkum. Glæsileg frammistaða það. Emma Thueringer og Orri Helgason unnu gullverðlaun í U11, Helena Bjarnadóttir og Matas Naudziunas unnu gullverðlaun í U13 og Daniele Kucyte vann bronsverðlaunin í U15 ára. Þau Elías Þormóðsson, Jónas Guðmundsson, Romans Psenicnijs, Daron Hancock og Aðalsteinn Björnsson stóðu sig einnig mjög vel og unnu nokkrar viðureignir en það dugði þeim þó ekki til verðlauna. Marija Dragic Skúlason dæmdi á mótinu og stóð sig vel og fékk þar dýrmæta reynslu sem mun nýtast henni í dómgæslu hér heima. Þjálfarar JR þeir Guðmundur B. Jónasson, Þormóður Árni Jónsson og Bjarni Skúlason eiga hrós skilið fyrir frammistöðu barnanna en þeir hafa sinnt þjálfun þeirra af ótrúlega mikilli elju og áhuga. Foreldrum barnanna skal einnig hrósað en þeir hafa verið mjög virkir og tekið þátt í starfinu hér heima með ýmsum hætti og einnig þegar þeir hafa haft tök á fylgt keppendum á erlend mót og aðstoðað þjálfarana við að halda utan um hópinn og eiga þeir þakkir skildar fyrir það. Til hamingju með árangurinn.
Keppa í Luxembourg um helgina
Fjölmennt lið úr yngsta aldursflokki JR lagði af stað í dag til Luxemborgar. Þar munu þau keppa á alþjóðlegu móti sem haldið verður á morgun, laugardaginn 8. júní í Differdange. Þau kepptu á þessu móti í fyrsta skipti í fyrra og náðu þá glæsilegum árangri en þá unnu þau fimm gullverðlaun í aldursflokki U11 ára. Mótið heitir Challenge International de la Villa Differdange og er fyrir bæði kynin í aldursflokkum U9 – U11 – U13 – U15 og U18. Við keppum í aldursflokkum U11, U13 og núna einnig í U15. Í fyrra vorum við með sex keppendur en í ár verða þeir tíu og þeim fylgja þjálfarar og foreldrar en hópurinn telur alls tuttugu og tvo aðila. Keppendur okkar í U11 eru þau Emma Thueringer og Orri Helgason, í U13 eru þau Helena Bjarnadóttir, Elías Þormóðsson, Jónas Guðmundsson, Matas Naudziunas og Romans Psenicnijs og í U15 þau Daniele Kucyte, Daron Hancock og Aðalsteinn Björnsson. Því miður komust þau Weronika Komendera og Mikael Ísaksson ekki með að þessu sinni en þau voru með í fyrra. Þetta er í fimmta sinn sem þetta mót er haldið og hefur keppendum og þátttökuþjóðum fjölgað verulega frá því að það var fyrst haldið2015 en þá voru keppendur 107 frá þremur þjóðum (LUX, FRA, GER) og keppt á tveimur völlum. Í fyrra var keppt á fjórum völlum og þátttökuþjóðirnar orðnar tíu og keppendur vel yfir þrjúhundruð.
Keppni lokið á Smáþjóðaleikunum
Þá er keppni lokið á Smáþjóðaleikunum að þessu sinni og unnum við til fernra verðlauna, eitt silfur og þrjú brons en það voru þeir Alexander Heiðarsson -60 kg, Árni Pétur Lund -81 kg og Þór Davíðsson -100 kg sem unnu til bronsverðlauna en Egill Blöndal -90 kg vann silfurverðlaunin. Breki Bernhardsson -73 kg keppti um bronsverðlaunin en tapaði þeirri viðureign og varð í fimmta sæti og í liðakeppninni urðu bæði karla og kvennaliðin í fimmta sæti. Hér eru öll úrslitin í einstaklingskeppninni og liðakeppninnni.