Sveinbjörn keppir á morgun á EM í Minsk.

Evrópuleikarnir eru haldnir í Minsk þessa dagana og hefst Evrópumeistaramótið í júdo nú um helgina. Við erum því miður aðeins með einn keppanda að þessu sinni á meðal 393 þátttakanda. Staða Sveinbjörns Iura á heimslistanum í -81 kg flokknum gaf honum keppnisrétt en hann var í 31 sæti af 38 keppenda kvóta. Egill Blöndal stefndi einnig á þátttöku í -90kg flokknum þar sem kvótinn var 35 keppendur en þar sem hann var það lengi frá keppni vegna meiðsla gékk það ekki upp. Dregið var í gær og hófst keppnin í dag laugardag í kvennna flokkum -48kg, -52kg, -57kg og karlaflokkum -60kg, -66kg. Á sunnudaginn verður keppt í -63kg og -70kg flokkum kvenna og -73kg og -81kg flokkum karla. Á mánudaginn verður svo keppt í -78kg og +78kg kvenna og í -90kg, -100kg, +100kg flokkum karla og á þriðjudag verður liðakeppnin. Sveinbjörn keppir á morgun í –81 kg flokknum og er óhætt að segja að hann hefði getað verið heppnari með dráttinn en hann mætir Ivaylo Ivanov frá Búlgaríu sem er í tólfta sæti heimslistans, silfur og gullverðlaunahafi á Grand Slam og Grand Prix mótum 2018 og 2019. Keppnin verður í beinni útsendingu og hefst kl. 7:30 að íslenskum tíma. Keppnisröðin er hér en Sveinbjörn á tuttugustu viðureign á velli þrjú sem ætti að vera um kl. 8:40. Faðir Sveinbjörns, Yoshihiko Iura er honum til aðstoðar.