Heimsmeistaramót Juniora 2021

World Championships Juniors 2021 fer fram dagana 6. til 10. október í Olbia á Sardiníu í Ítalíu og verða þeir Ingólfur Rögnvaldsson og Kjartan Hreiðarsson á meðal þátttakenda og eru þeir að keppa á sínu fyrsta heimsmeistaramóti. Þeim til aðstoðar er Gísli Egilson þjálfari og fararstjóri í ferðinni. Þátttakendur eru 507 frá 5 heimsálfum og 73 þjóðum, 294 karlar og 213 konur. Ingólfur keppir miðvikudaginn 6. okt. í -66 kg flokki sem er fjölmennasti flokkurinn en þar eru skráðir keppendur fimmtíu og átta og Kjartan keppir daginn eftir í -73 kg flokki þar sem keppendur eru ekki mikið færri eða fimmtíu og einn. Dregið verður á morgun í beinni útsendingu og keppnin hefst svo á miðvikudaginn kl. 7:00 að íslenskum tíma og verður hún vonandi einnig í beinni útsendingu. Upplýsingar um dráttinn, keppnisröðina, beina útsendinguna og fleira má finna hér.  Til að horfa á beina útsendingu þarf að hafa (IJF account) sem er frír og notast aftur og aftur. Keppnisröðin – Drátturinn  – Bein útsending

Síðasta æfing áður en haldið var af stað til Ítalíu.

Haustmót JSÍ 2021 – JR með níu gull

Haustmóti JSÍ í öllum aldursflokkum (U13/U15/U18/U21 árs og senioraflokkum) fór fram í gær laugardaginn 2. október. Þátttakendur voru fjörtíu og átta frá átta klúbbum. Judofélag Reykjavíkur var með um helming keppenda eða tuttugu og fjóra sem stóðu sig vel og unnu níu gullverðlaun, átta silfur og sex bronsverðlaun. Margir okkar keppenda voru að keppa í fyrsta skipti og stóðu sig frábærlega sem og hinir sem meiri reynslu hafa. Ánægjulegt var að sjá hversu miklum framförum margir okkar keppenda eru að taka eins og t.d. Alli Kalli, Nökkvi, Daron, Helena og Weronika svo einhver nöfn séu nefnd en fleiri mætti nefna. Nokkrir af okkar sterkustu keppendum gátu ekki verið með að þessu sinni eins og Árni Lund, Zaza Simonishvili og Andri Fannar og þeir Kjartan Hreiðars og Ingólfur Rögnvalds voru lagðir af stað til Ítalíu til að taka þátt í heimsmeistaramóti U21 árs sem haldið verður í vikunni. Þeir Eyjólfur Orri (karlar -90) og Garðar Sigurðsson (karlar -81) létu sig hinsvegar ekki vanta þrátt fyrir að vera eitthvað eldri en andstæðingarnir en þeir æfa vel og eru í fínu formi og eiga heiður skilið fyrir þátttökuna. Hermann Unnarsson sem ekki hefur keppt í mörg ár ákvað að taka þátt og þrátt fyrir mikla keppnisreynslu þá dugði það ekki til því æfingaleysið setti strik í reikninginn og Jakub frá Selfossi sigraði 81 kg flokk karla en hann hafði einnig sigrað sama flokk í U21 árs. Daníel úr JRB átti góðan dag og vann einnig tvöfalt er hann sigraði 66 kg flokkinn í U21 og karlaflokk. Hannes úr KA sem keppti í U21 -81 kg meiddist því miður og ákvað að hætta keppni en var þá búnn að sigra allar sínar viðureignir og átti aðeins eina eftir. Það varð til þess að allar hans glímur þurkuðust út og aðrir færðust til í flokknum en vegna rangs innsláttar í tölvu voru röng úrslit tilkynnt á mótinu en það hefur verið leiðrétt. Mikið var af spennandi og flottum viðureignum sem oft enduðu með fallegu ippon kasti eða þá með uppgjöf í gólfglímunni og var gaman að sjá hversu snjallir og útsjónarsamir margir eru orðnir þar. Hægt er að sjá flestar glímurnar á YouTube en hér eru úrslitin og hér neðar myndir af verðlaunahöfum. Fleiri myndir og video munu birtast á judo.is og facebook næstu daga.

Haustmót JSÍ í Grindavík

Haustmót JSÍ 2021 í öllum aldursflokkum, U13/U15/U18/U21 og senioraflokkum verður haldið laugardaginn 2. okt. Íþróttahúsi Grindavíkur.

Uppfærð tímaáætlun.

Aldursflokkar U13, U15 og U18 hefja keppni kl. 10:00 áætluð mótslok kl. 11:30. Vigtun á keppnisdegi á mótsstað frá 9:00 til 9:30.
Keppendur í aldursflokkum U21 og senioraflokki geta líka vigtað á þessum tíma.

Aldursflokkur U21 árs hefur keppni um kl. 11:30 og mótslok áætluð kl. 13:00. Vigtun á keppnisdegi á mótsstað frá 10:30 til 11:00.
Keppendur í senioraflokki geta líka vigtað á þessum tíma.

Senioraflokkar hefja keppni um kl. 13:00 og mótslok áætluð um kl. 14:30. Vigtun á keppnisdegi á mótsstað frá 12:00 til 12:30.

Vegna sóttvarnarráðstafanna þurfa keppendur og áhofendur að notast við innganginn að aftanverðri byggingunni sem sýndur er á myndinn

Judonámskeiðin að hefjast – skráning hafin

Full starfsemi hefst aftur samkvæmt stundaskrá mánudaginn 23. ágúst. Æfingar barna 4-6 ára hefjast laugardaginn 28. ágúst, æfingar barna 7-10 ára hefjast þriðjudaginn 24. ágúst og einnig Gólfglíma fyrir 30 ára og eldri. Að lokum hefjast æfingar barna 11-14 ára, byrjenda og framhaldsæfingar 15 ára og eldri og meistaraflokkur mánudaginn 23. ágúst. Byrjendur fá frían prufutíma og er í góðu lagi að mæta í tímann með síðar íþróttabuxur og bol. Judobúninga er hægt að fá hjá JR.

Helstu upplýsingar eins og æfingatímagjöld og þjálfarar má finna hér.
Frekari upplýsingar í síma 588-3200 eða senda tölvupóst á netfangið jr@judo.is

Hér er hægt að skrá sig og ef ákveðið er að halda áfram að loknum prufutíma þá er gengið frá lokaskráningu og námskeiðsgjaldi hér.

Fréttir af Gerlev æfingabúðunum

Æfingabúðirnar í Gerlev eru nú hálfnaðar og hefur hópurinn verið duglegir við æfingar. Á æfingum er góð tæknikennsla sem allir hafa lært mikið af. Aðalsteinn, Daron og Nökkvi æfa í yngri hópi sem er fyrir alla fædda 2006 og seinna. Daníel, Gylfi, Ingunn, Jakub, Kjartan, Matthías æfa með eldri hópi sem er fyrir alla fædda 2005 og fyrr. Æft er tvisvar á dag í báðum hópum og nóg úrval af glímufélögum og eru allir duglegir að sækja sér félaga. Í kringum æfingar er alltaf einhver dagskrá eins og fyrirlestrar, mismunandi íþróttakeppnir og ýmislegt annað sem er í boði. Danska landsliðið tekur þátt í æfingabúðunum og einnig eru hópar frá Póllandi, Slóvakíu, Svíþjóð og Tékklandi á meðal þátttakenda. Íslenski hópurinn kemur heim á laugardaginn.

Æfingabúðir í Gerlev í Danmörku

JSÍ hefur valið landsliðshóp (Seniors, U21 og U18) sem leggur af stað í nótt til að taka þátt i æfingabúðum í Danmörku sem fara fram dagana 1. til 7 ágúst í Gerlev sem er í um klukkutíma fjarlægð frá Kaupmannahöfn með lest . Við höfum margoft tekið þátt í þessum æfingabúðum áður og líkað vel en æfingar eru tvær á dag við mjög góðar aðstæður og flottir þjálfarar. Dönsku landsliðin (Seniors, Juniors og Cadett) eru á meðal þátttakenda en auk þeirra er búist við um eitt hundrað þátttakendum víðs vegar úr Evrópu. Þau sem taka þátt að þessu sinni frá Íslandi eru, Gísli Egilson sem er fararstjóri og þjálfari, Ingunn Rut Sigurðardóttir, Matthías Stefánsson, Kjartan Hreiðarsson, Aðalsteinn Björnsson, Daron Hancock, Daníel Árnason, Nökkvi Viðarsson, Jakub Tomczyk og Gylfi Edduson. Fleiri voru valin til fararinnar eins og t.d. Hekla Pálsdóttir, Böðvar Arnarsson, Ingólfur Rögnvaldsson, Vésteinn Bjarnason, Hákon Garðarsson, Birkir Bergsveinsson svo einhverjir séu nefndir en komust ekki eða urðu að hætta við þátttöku.

Ólympíuleikarnir í Tokyo 2020

Ólympíuleikarnir 2020 í Tokyo hófust í dag 23. júlí og munu standa til 8. ágúst. Judokeppnin hefst á morgun og stendur í átta daga. Keppt verður í einum kvennaflokki og einum karlaflokki dag hvern í sjö daga en þyngdarflokkarnir eru sjö hjá hvoru kyni. Áttunda daginn verður svo keppt í liðakeppni og eru þrjár konur og þrír karlar í hverju liði en þar munu tólf þjóðir eigast við.

Keppendurnir eru 393 frá 5 heimsálfum og 128 þjóðum, 201 karlar og 192 konur. Sveinbjörn Iura sem var líklegastur Íslenskra judomanna til að komast á leikana náði því miður ekki að vinna sér inn þátttökurétt og verður því enginn fulltrúi frá Íslandi á meðal keppenda að þessu sinni.

Keppnin hefst alla daga kl. 2 að nóttu á okkar tíma (11 að morgni í Japan) og úrslit fara svo fram kl. 8 að morgni á okkar tíma. Keppt verður á tveimur völlum og er hægt að horfa á mótið beinni útsendingu hjá IJF en til þess þarf að hafa (IJF account) og er hann frír og notast aftur og aftur. Hér er keppnisröðin og drátturinn í öllum flokkum.

Því miður er ekki hægt að horfa á mótið í beinni útsendingu hjá IJF eins og auglýst var hér ofar sökum sjónvarpsréttarákvæða. Mæli með að nota Eurosport eða hlaða niður appi í símann (Eurosport Player) og kostar mánaðar áskrift um 1.000 kr og hægt að fylgjast með öllum íþróttagreinum á leikunum í beinni útsendingu eða skoða síðar.

Dagskrá

Laugardagur 24 júlí 2021     Dagur 1        (Konur -48 kg völlur 1, Karlar -60 kg völlur 2)

Sunnudagur 25 júlí 2021      Dagur 2        ( Konur -52 kg völlur 2, Karlar -66 kg völlur 1)

Mánudagur 26 júlí 2021        Dagur 3        ( Konur -57 kg völlur 1, Karlar -73 kg völlur 2)

Þriðjudagur 27 júlí 2021       Dagur 4        ( Konur -63 kg völlur 2, Karlar -81 kg völlur 1)

Miðvikudagur 28 júlí 2021   Dagur 5        ( Konur -70 kg völlur 1, Karlar -90 kg völlur 2)

Fimmtudagur 29 júlí 2021 Dagur 6        ( Konur -78 kg völlur 2, Karlar -100 kg völlur 1)

Föstudagur 30 júlí 2021        Dagur 7        ( Konur +78 kg völlur 1, Karlar +100 kg völlur 2)

Laugardagur 31 júlí 2021 Dagur 8        Liðakeppnin/blönduð lið