Úrslit í Sveitakeppni JSÍ 2021

Íslandsmótið 2021 í sveitakeppni fór fram föstudaginn 19. nóv. Upphaflega átti mótið að fara fram á Selfossi 20. nóv en sökum þátttökuleysis annara klúbba en JR þá var það fært til Judofélags Reykjavíkur. Keppt var í öllum aldursflokkum og var JR með þrjár karlasveitir, tvær sveitir í U21 árs, U18 og U15 og auk þess eina kvennasveit og eina stúlknasveit í U15 en ekki var keppni hjá þeim þar sem mótherja vantaði. Því miður sendu önnur félög ekki sveitir að þessu sinni í þessa sögulegu og mest spennandi keppni hvers árs sem sveitakeppnin jafnan er og skipar einn stærstan sess í sögu hvers félags en líklega hafði Covid19 eitthvað um það að segja en vonandi gengur betur næst. Þar sem að önnur félög sendu ekki sveitir þá var þetta innbyrðis keppni milli sveita JR sem var reyndar mjög skemmtileg og ekkert gefið eftir. Í karlaflokki sigraði sveit JR-A og í öðru sæti var JR-B og bronsverðlaunin fóru til JR-C. Það fór eins í öðrum aldursflokkum JR -A sigraði í öllum aldursflokkum og JR-B varð í öðru sæti. Síðast var keppt í sveitakeppninni 2019 en hún féll niður 2020 vegna Covid-19. JR er Íslandsmeistari karla 2021 og er það í áttunda skipti í röð og í tuttugusta skipti alls. Með sigrinum núna var met slegið frá 1974-1980 en JR ingar þeirra daga sigruðu sjö ár í röð. Keppnin var fyrst haldin árið 1974 og var þetta í 45 skiptið sem keppt er en hún féll niður 1993, 2002 og 2020. JR hefur nú sigrað oftast allra félaga eða tuttugu sinnum og þar á eftir kemur Judodeild Ármanns sem hefur sigrað nítján sinnum, Judodeild KA fimm sinnum og UMFK einu sinni, sjá hér. Hér neðar eru úrslitin og myndir frá mótinu.

Karlasveitviðureignir
Karlar U21viðureignir
Karlar U18viðureignir
Drengir U15 viðureignir

Beltapróf hjá 7-10 ára í dag

Í dag tóku átján börn beltapróf í JR og voru það níu stúlkur og níu drengir sem það gerðu. Eins og búast mátti við af þessum frábæra hóp þá stóðu þau sig öll mjög vel og fengu strípu í beltið sitt í viðeigandi lit en liturinn fer eftir aldri barns. Nokkur barnanna voru að fá sína fyrstu strípu en önnur sína aðra eða þriðju strípu. Verkefni þeirra í beltaprófinu var að að sýna tvö kastbrögð og eitt fastatak og hvernig á að komast í fastatakið og losna úr því. Auk þess voru hneigingar rifjaðar upp bæði standandi og sitjandi og merki dómara þegar hann gefur ippon og wazaari. Börn 10 ára og yngri fá strípur á beltin sín en þegar þau verða 11 ára þá fá þau ný belti. Hér má sjá litakerfi belta fyrir 10 ára og yngri og 11 ára og eldri. Ekki voru öll börnin mætt á æfinguna í dag svo að þau sem ekki voru mætt taka sitt beltapróf næst þegar þau mæta en passað verður uppá það að enginn missa af því. Hér neðar er mynd af börnunum að loknu beltaprófi í dag.

Aftari röð v-h. Styrmir, Arnar, Gústav, Freyja, Kári, Orri, Freyr, Elvar, Karólína, Gabríela, Snjólaug. Fremri röð v-h. Elísa, Nói, Röskva, Ólafur, Íris, Anja, María

Beltapróf hjá 4-6 ára

Í gær laugardaginn 13. nóvember tóku nokkur börn í æfingahópnum 4-6 ára beltapróf og voru sum þeirra að fara í sitt fyrsta beltapróf en önnur í sitt annað eða þriðja. Öll stóðu þau sig með sóma og fengu þau strípu (fjólubláa) í beltið sitt. Litirnir á strípunum segja til um aldur barns og fjöldi strípa segja til um hve lengi hefur verið æft en það er gefin ein strípa fyrir hverja önn og eru annirnar tvær á ári. Börnin þurftu að sýna nokkur atriði eins og hvernig á að detta, bæði á magann og á bakið og muna að passa höfuðið og hvernig á að hneigja svo eitthvað sé nefnt. Því miður voru ekki öll börnin mætt á laugardaginn og verður því annað beltapróf fyrir þau sem ekki komust næst þegar þau mæta. Það missir engin af því. Hér neðar er mynd af þeim sem tóku beltaprófið á laugardaginn.

Börn 10 ára og yngri fá strípur á beltin sín en þegar þau verða 11 ára þá fá þau ný belti. Hér má sjá litakerfi belta fyrir 10 ára og yngri og 11 ára og eldri.

Aftari röð v-h: Adam, Kacper, Styrmir, Þorgeir, Alex, Sigmundur, Huginn.
Fremri röð v-h Auður, Óliver, Elsa og Ea

Sveitakeppnin 2021

Íslandsmótið 2021 í sveitakeppni (liðakeppni) verður haldið laugardaginn 20. nóvember á Selfossi og fer það fram í íþróttahúsi Vallaskóla. Keppt verður í karla og kvennaflokkum í aldursflokkunum U15 (11-14 ára), U18, U21 og senioraflokki og mun JR senda lið í alla aldursflokka. Mótið hefst kl. 11 og mótslok áætluð um kl. 16 en nánari tímasetning að lokinni skráningu. Skráningarfrestur er til miðnættis 15. nóvember. Vigtun fer fram hjá JR föstudaginn 19. nóv. frá 18 -19. Hér neðar eru myndir af verðlaunahöfum frá sveitakeppninni 2019 en 2020 féll hún niður vegna Covid-19.

Reykjavíkurmeistaramótið 2021

Reykjavíkurmeistaramótið 2021 verður í umsjón JR þetta árið og haldið laugardaginn 27. nóvember. Vigtun á keppnisdegi frá kl. 10:00 til 10:30 og mótið hefst svo kl. 11:00 og mótslok áætluð um kl. 14:00. Keppt verður í öllum aldursflokkum þ.e. U13, U15, U18, U21 og karla og kvennaflokkum og lágmarksgráða er gult belti, 5. kyu . Lokaskráningardagur er mánudagurinn 22. nóv. í gegnum skráningarkerfi JSÍ. Nánari upplýsingar og tímasetning hér á síðunni að lokinni skráningu.

Silfur og brons á Opna Finnska

Á Opna Finnska mótinu sem lauk í dag vannst því miður ekkert gull en við unnum til fernra silfurverðlauna og tólf bronsverðlauna. Í senioraflokki vann Ingólfur Rögnvaldsson -66 kg til silfurverðlauna en aðrir sem unnu til verðlauna í senioraflokki voru þau Ingunn Sigurðardóttir -70 kg, Árni Lund -81 kg, og Matthías Stefánsson -90 kg en þau unnu öll til bronsverðlauna. Í U21 árs unnu til bronsverðlauna þeir Ingólfur Rögnvaldsson -66 kg, Kjartan Hreiðarsson -73 kg, Andri Ævarsson -81 kg og Matthías Stefánsson -90 kg og í U18 voru með bronsverðlaun þau Aðalsteinn Björnsson -66 kg, Helenna Bjarnadóttir -70 kg og Jakub Tomczyk -81 kg. Í aldursflokknum U15 unnust þrenn silfurverðlaun og voru það þau Romans Psenicnijs -60 kg, Elías Þormóðsson -46 kg og Helena Bjarnadóttir +63 kg sem fengu silfurverðlaun og Weronika Komandera -52 kg og Mikael Ísaksson -66 kg unnu til bronsverðlauna. Daníel Dagur Árnason ætlaði að keppa í -60 kg flokki varð að keppa flokk uppfyrir sig þar sem ekki var næg þátttaka í hans flokki en því miður varð hann fyrir meiðslum þar og varð að hætta keppni og það gerði Weronika Komandera einnig í U18 -52 kg þar sem hún fann fyrir meiðslum í fæti en hún hafði fyrr um daginn keppt í aldursflokki U15. Hér má finna öll úrslitin og hér neðar eru myndir frá verðlaunaafhendingunni.

Opna Finnska 2021

Fjölmennur hópur íslenskra keppenda lagði af stað í morgun til Finnlands til að taka þar þátt í Opna Finnska sem er árlegt alþjóðlegt mót sem haldið verður næsta laugardag þ.e 30. október. Keppendur eru nítján og með í för eru þjálfararnir Bjarni Skúlason, Egill Blöndal og Þormóður Jónsson sem er jafnframt fararstjóri, Marija Dragic Skúlason sem mun dæma á mótinu og nokkrir foreldrar. Þátttakendur koma frá Rússlandi, Eistlandi, Lettlandi, Svíþjóð, Finnlandi og Íslandi og eru tæplega tvöhundruð. Flestir okkar keppenda keppa í fleiri en einum aldursflokki þegar það er hægt en keppt er í U15, U18, U21 árs og senioraflokki. Öll úrslitn eru hér og hægt er að fylgjast með framvindu mótsins og videostreymi hér frá þremur völlum, tatami 1, tatami 2 og tatami 3. Hér neðar er mynd af hluta af íslenska hópnum frá síðustu æfingu þeirra í JR áður en lagt var af stað en á þá mynd vantar keppendur frá KA og Selfossi. Neðst er síðan mynd af öllum hópnum sem tekin var í dag.