Páskamót JR 2023

Páskamót JR og Góu verður nú haldið í átjánda sinn laugardaginn 15. apríl og er mótið opið öllum klúbbum eins og venjulega. Skráningarfrestur er til miðnættis þriðjudagsins 11. apríl og sjá klúbbarnir um að skrá þátttakendur ekki foreldrar. Keppt verður í aldursflokkum 7-10 ára frá kl. 12-14 (vigtun frá 11-11:30) og 11-14 ára frá 14-16 (vigtun frá 13-13:30). Ef breytingar verða á dagskránni þá verða þær birtar hér að loknum skráningarfresti. Sama dag verður Páskamót JR fyrir börn 5-6 ára haldið á æfingatíma þeirra frá 10-11 og er það eingöngu innanfélagsmót.

Meistaraflokksæfing fellur niður í dag

Í dag verður haldin sameiginleg æfing með öðrum klúbbum hjá Judodeild UMFS á Selfossi kl. 18:00 og mun JR taka þátt í þeirri æfingu og fellur því meistaraflokksæfingin hjá okkur niður í dag. Þar sem einhverja vantar far þá ætlum við að hittast í JR kl. 16:45 og sameinast um bíla.

Stanislaw Buczkowski-takk fyrir komuna

Stanislaw Buczkowski öflugur og góður judomaður frá Póllandi sem æft hefur með okkur í JR síðastliðna þrjá mánuði, hefur lokið dvöl sinni á Íslandi í bili að minnsta kosti og er farinn aftur heim. Það var frábært að fá hann í klúbbinn og virkilega gott fyrir okkar bestu iðkendur að æfa með honum og þökkum við honum fyrir komuna og bjóðum hann velkominn aftur næst þegar hann á leið um. Á myndunum hér neðar er Stanislaw að glíma við Kjartan Hreiðarsson á æfingu og með landa sínum Janusz Komendera sem æft hefur með og keppt fyrir JR í fjölmörg ár.

Í heimsókn hjá Judofélagi Suðurlands

Nokkrir iðkendur úr JR heimsóttu í gær Judofélag Suðurlands (JS) sem er yngsta judofélag landsins en það hóf nú nýlega starfsemi. Aðalþjálfari félagsins er George Bountakis 6. dan frá Grikklandi og byrjar hann með krafti en á vegum JS í gegnum George hafa þrír judomenn frá Grikklandi verið við æfingar hjá JS. Um helgina tóku þeir þátt í Vormóti JSÍ og var mikill fengur í því fyrir okkar judomenn að fá tækifæri á því að keppa við þá og æfa með þeim að móti loknu en þeir eru allir á top tíu lista í Grikklandi. Næsta föstudag munu JR ingar svo sækja Judodeild UMFS heim en þann dag verður opin sameiginleg æfing haldin hjá þeim og fellur því föstudagsæfingin hjá okkur niður þann dag. Hér stutt videoklippa og nokkrar myndir frá heimsókninni til JS.

Vormót JSÍ seniora 2023 úrslit

Vormót JSÍ í seniora flokkum var haldið laugardaginn 25. mars í JR og hófst það kl. 13 og mótslok voru kl. 16. Keppendur voru tuttugu og níu frá eftirfarandi klúbbum. Judofélagi Garðabæjar (JG), Judofélagi Reykjavíkur (JR), Ármanni, Judodeild Selfoss (UMFS), Judodeild KA og Judofélagi Suðurlands (JS) sem er nýstofnað félag. Líklega er þetta eitt sterkasta Vormót JSÍ í senioraflokki sem haldið hefur verið þar sem á meðal þátttakenda vor þrír gríða öflugur og góðir judomenn frá Grikklandi og unnu þeir allir sína flokka en þeir kepptu í -73, -81 og -90 kg flokki. Grikkir þessir eru í heimsókn og við æfingar hjá Judofélagi Suðurlands en þjálfari þar er Grikkinn George Bountakis 6. dan. JR ingar unnu gullverðlaun í kvennaflokki -63 kg og karlaflokkum -60 og -66 kg og Ármann sigraði í +100 kg. Streymt var frá mótinu sem hægt er að skoða hér og hér eru úrslitin og hér er videoklippa frá keppninni.

Vormót JSÍ 2023

Vormót JSÍ 2023 í seniora flokkum hefst á morgun kl. 13:00 en það verður haldið hjá Judofélagi Reykjavíkur. Keppendur eru rúmlega þrjátíu frá sjö klúbbum og þar á meðal eru þrír keppendur frá Grikklandi. Streymt verður frá mótinu og hér má finna úrslitin að móti loknu.

Gísli hefur lokið keppni í Riga

Gísli Egilson hefur lokið keppni á RIGA SENIOR EUROPEAN CUP sem haldið er dagana 18. og 19. mars 2023. Gísli keppti í morgun í 81 kg flokki  og mætti þar Damian Szwarnowiecki keppanda frá Póllandi. Eins og venjulega þá er það keppnisreynslan og barátta um tökin sem skipta höfuðmáli en sá sem er sterkari þar stjórnar glímunni og var Damian öllu sterkari. Snemma í viðureigninni skorar hann wazaari þegar hann komst inn í seoinage kast og skömmu seinna í gólfglímu komst hann í armlás sem Gísli gat ekki losað sig úr og varð að gefast upp. Pólverjinn var þar með kominn í 16 manna úrslit og með sigri í næstu viðureign hefði Gísli fengið uppreisnarglímu en því miður tapaði hann og þar með var keppninni lokið hjá Gísla og hjá Íslandi því hann var eini keppandinnn okkar á mótinu. Það er nokkuð síðan að Gísli tók þátt í svona sterku móti og er hann kanski ekki í sínu besta keppnisformi en það var afar ánægjulegt að sjá hann aftur á þessum slóðum og vonandi mun hann láta meira að sér kveða á næstu mánuðum því hann á mikið inni. Hér má finna viðureign Gísla og Damians og öll úrslit á mótsins.

Gísli Egilson keppir á RIGA SENIOR EUROPEAN CUP

RIGA SENIOR EUROPEAN CUP hófst í dag 18. mars og stendur í tvo daga. Þátttakendur eru 190 frá 4 heimsálfum og 24 þjóðum, 131 karlar og 59 konur. Gísli Egilson er á meðal þátttakenda og keppir hann á morgun í 81 kg flokki og eru keppendur þar tuttugu og tveir. Keppnin hefst kl. 7 í fyrramálið að Íslenskum tíma og á Gísli tíundu viðureign á velli 2. svo hún væri þá um kl. 7:45-8:00. Gísli situr hjá í fyrstu umferð og mætir Damian Szwarnowiecki keppanda frá Póllandi sem er í 167. sæti heimslistans (Wrl). Ef að vel gengur og hann vinnur POL þá er hann kominn í 16 manna úrslit. Mótið er í beinni útsendingu og til að horfa á þarf að hafa (IJF account) og er hann frír og notast aftur og aftur. Hér er keppnisröðin og drátturinn í öllum flokkum og linkur á mótið og frekari upplýsingar.

Níu gullverðlaun á Vormóti JSÍ yngri 2023

Vormót JSÍ í yngri aldursflokkum (U15, U18, U21 árs) var haldið í KA heimilinu á Akureyri í dag, laugardaginn 18. mars og var það í umsjón Judodeildar KA og voru það þeir Hans Rúnar Snorrason, Hermann Torfi Björgólfsson og Sigmundur Magnússon sem að stýrðu því. Dómarar voru þeir Jón Kristinn Sigurðsson og Jakob Burgel Ingvarsson. Hér eru úrslitin og hér er hægt að horfa á allt mótið sem var í beinni útsendingu og hér er stutt videoklippa frá því. Til Akureyrar var farið í lítilli rútu og voru keppendur frá JR þrettán og fjórir þeirra kepptu í tveimur aldursflokkum. Með þeim voru þjálfararnir Guðmundur Björn Jónasson, Zaza Simonishvili og Þormóður Jónsson og sjálfboðaliði ársins 2022 hjá JR Helgi Einarsson sá um aksturinn. JR- ingar áttu frábæran dag og unnu samtals til níu gullverðlauna, fernra silfurverðlauna og þriggja bronsverðlauna. Til hamingju með árangurinn.