Úrslit páskamóts JR og Góu 2024

Páskamót JR og Góu 2024 var haldið laugardaginn 6. apríl en það jafnan haldið fyrstu helgina eftir páska. Páskamótið er eitt vinsælasta mót ársins hjá yngri judo iðkendunum og jafnframt það fjölmennasta en mótið er opið öllum klúbbum. Á þessu móti eru margir að stíga sín fyrstu skref í keppni og fá allir þátttakendur verðlaun að því loknu. Aldursflokkum 7-10 ára var tvískipt og kepptu 7-8 ára börn frá 12-13 og 9-10 ára börn frá 13-14 en þá hófst keppni í aldursflokkum 11-14 ára sem lauk um kl. 15. Til þess að allir fái keppni þarf stundum að blanda saman aldursflokkum sem og stúlkum og drengjum en í sömu þyngdarflokkum. Á æfingu 5-6 ára barna hjá JR fyrr um morgunin var haldið lítið mót fyrir þau og þeim kennt hvernig á að bera sig að í keppni og skilja dómarann og stóðu þau sig afar vel.

Þátttakendur á mótinu í ár voru frá fjórum eftirfarandi klúbbum, Judodeild Ármanns, Judodeild Selfoss, Judodeild Tindastóls og Judofélagi Reykjavíkur en skráðir keppendur voru sjötíu og fjórir en á mótsdegi mættu ekki og eða afboðuðu sig sextán keppendur ýmist vegna veikinda eða af öðrum ástæðum. Með keppendunum komu að sjálfsögðu þjálfarar og auk þeirra fjöldinn allur af foreldrum og eða aðstandendum. Stemmingin var góð og keppnin mjög skemmtileg og fullt af flottum viðureignum.

Dómarar mótsins og aðstoðarmenn þjálfara voru nokkrir af okkar bestu judomönnum í U18 og U21 aldursflokkum og stóðu þau sig frábærlega eins og þeirra er von og vísa en það voru þau Aðalsteinn Björnsson, Jónas Guðmundsson, Skarphéðinn Hjaltason og Weronika Komendera sem dæmdu og Gunnar Ingi Tryggvason og Orri Helgason voru þjálfurum til aðstoðar en þjálfarar JR voru þeir Guðmundur Jónasson, Zaza Simonishvili og Bjarni Friðriksson. Mótsstjórn var á höndum þeirra Ara Sigfússonar og Jóhanns Mássonar. Hér eru úrslitin, myndir af verðlaunahöfum og frá mótinu og stutt video klippa.