Copenhagen Open-Skarphéðinn með silfur

Það voru ellefu keppendur frá Íslandi auk þjálfara og fararstjóra sem tóku þátt í Copenhagen Open 2024 dagana 29. og 30 mars s.l. og voru þeir frá tveimur klúbbum, JR og KA. Fyrir KA keppti Samir Jónsson í U18 -66 kg og fyrir JR í sama aldursflokki kepptu þau Emma Thueringer -48 kg, Elías Þormóðsson og Orri Helgason í -60 kg, Gunnar Tryggvason og Jónas Guðmundsson í -66 kg, Mikael Ísaksson -81 kg og Viktor Kristmundsson +81 kg og Jóhann Jónsson keppti í U15 -66 kg. Í aldursflokki 18+ kepptu þeir Daron Hancock -73 kg og Skarphéðinn Hjaltason -90 kg og auk þeirra kepptu aftur þeir Elías Þormóðsson, Gunnar Tryggvason og Mikael Ísaksson. Þjálfarar og fararstjórar í ferðinni voru Bjarni Friðriksson, Guðmundur Jónasson, Þormóður Jónsson, Brigitta Gera, Helgi Einarsson og Ísak Jónsson.

Copenhagen Open er fjölmennt og sterkt alþjóðlegt mót, keppendur tæplega 800 sem komu víða að. Okkar keppendur stóðu sig misvel eins og gengur og unnu allflestir eina eða fleiri viðureignir en bestum árangri náði að þessu sinni Skarphéðinn Hjaltason sem keppti til úrslita í -90kg flokki 18 ára og eldri. Hann tapaði þeirri viðureign að lokum eftir harðan bardaga en til þess að komast í úrslitin þá hafði hann unnið þrjár viðureignir á undan með yfirburðum en hann sigraði alla andstæðinga sína með glæsilegum köstum. Skarphéðinn hefur aldrei verið betri en nú en hann kom vel undirbúinn, einbeittur og öruggur með sig. Fleiri stóðu sig einnig vel en Jóhann Jónsson -66 kg í U15 og Viktor Kristmundsson +81 kg í U18 kepptu um bronsverðlaun í sínum flokkum en urðu að játa sig sigraða. Daron átti flottar glímur í -73 kg flokki og vann þar tvær viðureignir á ippon og virkaði feyki sterkur, fékk uppreisn og endaði í níunda sæti. Elías vann þrjár viðureignir og endaði einnig í 9. sæti og Orri vann tvær viðureignir. Fleira væri hægt að tiltaka en heilt yfir stóðu krakkarnir sig öll vel og stóðu fyllilega fyrir sínu og eru reynslunni ríkari. Hér má finna úrslitin og hér er linkur á YouTube rás mótsins báða keppnisdagana og frá öllum keppnisvöllum með nafnalista og tímasetningu svo auðvelt er að leita og finna ákveðnar viðureignir og hér er einnig stutt videoklippa. Til hamingju með árangurinn.