Norðurlandamótið 2019 hefst á morgun

Það verða átján keppendur frá Íslandi sem munu keppa á Norðurlandamótinu 2019 sem haldið verður í Rovaniemi í Finnlandi 18. og 19. maí. Tíu þeirra munu keppa í fleiri en einum aldursflokki en keppt verður er í U18, U21, seniora og Veterans flokkum. Hópurinn fór í gær í þrennu lagi til Finnlands og ásamt keppendum voru einnig með í för tveir dómarar, þeir Björn Sigurðarson og Birkir Jóakimsson sem munu á mótinu, landsliðsþjálfararnir Jón Þór Þórarinsson og Hermann Unnarsson og Jóhann Másson formaður JSÍ sem mun sitja þing NM sem haldið er samhliða mótinu að venju. Hér er dagskráin en á morgun laugardaginn 18. maí hefst keppnin eldsnemma í fyrramálið eða kl. 6 að íslenskum tíma (tímamismunur +3 tímar) í aldursflokki U18 og kl. 12 í flokkum kvenna og karla. Á sunnudaginn verður svo keppt í U21 árs, Veterans og liðakeppni. Hér er drátturinn og keppnisröðin en hægt verður að fylgjast með keppninni í beinni útsendingu. Myndin hér neðar er af einum hópnum sem fór utan í gær.

Voru gráðaðir í gær

Þeir félagar Ævar Smári Jóhannsson og Eyjólfur Orri Sverrisson voru báðir gráðaðir í gær af Guðmundi Birni Jónassyni og stóðu þeir sig með sóma. Ævar hóf að stunda judo um áramótin en hann fékk áhugann og vildi prófa þegar hann fylgdist með syni sínum Andra og dóttur sinni Soffíu Huld sem hann keyrði reglulega á æfingar í JR og nú fimm mánuðum síðar tók hann sína fyrstu gráðu 5. kyu. Þess má geta að faðir hanns Jóhann æfði einnig judo á sínum yngri árum svo judoið er vel kynnt innan fjölskyldunnar. Eyjólfur Orri æfði judo fyrir rúmum tveimur áratugum en tók sér svo langt frí og byrjaði aftur á síðasta ári en var þá búinn að taka einhverjar gráður. Judoið blundaði alltaf í honum og ákvað hann að endurnýja kynnin af því en vildi byrja uppá nýtt þar sem svo langt var um liðið og tók því gula og appelsínu gula beltið aftur. Á myndinni sem fylgir með eru tveir af bestu keppendum JR í dag í unglingaflokki þeir Andri Fannar sonur Ævars og Kjartan Logi Hreiðarsson langa afabarn Svavars Carlsen fyrsta Íslandsmeistarans í judo en það var árið 1970 svo íþróttin gengur víða í ættir.

F.v. Eyjólfur Orri, Guðmundur Björn, Andri Fannar, Ævar Smári og Kjartan Logi

Úrslit EM lögreglumanna 2019

Bjarni Skúlason hefði getað verið heppnari með dráttinn en hann mætti Boris Georgiev frá Búlgaríu í fyrstu viðureign og varð að játa sig sigraðan þegar 26 sekúndur voru eftir af viðureigninni en Boris vann flokkinn síðar um daginn. Boris þessi er jafnframt Búlgaríumeistari síðastliðin tvö ár í -100 kg flokki. Bjarni mætti næst Urii Panasenkov frá Rússlandi og tapaði á refsistigum gegn honum þegar 24 sekúndur voru eftir af viðureignini en Urii keppti síðar um bronsverðlaunin. Bjarni stóð sig með sóma eins og hans var von og vísa og sýndi að það gengur enginn í gegnum hann þótt tuttugu ár skilji á milli. Hér eru úrslitin en myndband frá mótinu verður birt hér þegar það berst.

Arnar Marteinsson og Bjarni Skúlason á EM lögreglumanna 2019

Bjarni Skúla keppir á EM á morgun

Bjarni Skúlason keppir á morgun á Evrópumeistaramóti lögreglumanna í Györ í Ungverjalandi. Mótið er haldið fjórða hvert ár og árið 2015 varð Bjarni í sjöunda sæti í -100 kg flokki. Mótið hófst í dag og á morgun keppir Bjarni í -100 kg flokki. Honum til aðstoðar er hinn öflugi judomaður og vinur okkar Arnar Marteinsson. Því miður er ekki mikið um upplýsingar um mótið en hér má sjá öll úrslitin. Hér er myndband frá 2015 og þar má sjá Bjarna (5:40 mín) taka glæsilegt Tai otoshi kast og í þjálfaraboxinu má sjá Gísla Þorsteinsson margfaldan íslandsmeistara og fyrsta Norðurlandameistara Íslendinga. Ef það verður bein útsending frá mótinu verður linkur settur inn hér. Gangi ykkur félögum vel í Györ.

Bjarni á síðustu æfingu (8. maí) fyrir EM í Gyor

Páskamót JR og Góu – úrslit

Páskamótið sem hefur verið eitt vinsælasta mót ársins hjá yngri júdó iðkendunum og jafnframt eitt fjölmennasta mót ársins var haldið laugardaginn 4. maí. Keppendur voru sextíu frá fimm klúbum og fór mótið vel fram og voru keppendur virkilega góðir og sýndu oft á tíðum hrein og flott judo brögð. JR þakkar dómurum, þjálfurum og þátttakendum fyrir daginn sem og öllum öðrum sem veittu aðstoð við framkvæmd mótsins. Hér eru úrslitin 2019.

Páskamót JR og Góu 2019

Páskamót JR verður haldið 4. maí að þessu sinni en það hefur venjulega verið haldið fyrstu helgi eftir Páska en þar sem Íslandsmót seniora var um þá helgi urðum við að færa það aftur um eina viku. Páskamótið sem verið hefur eitt vinsælasta mót ársins hjá yngri judo iðkendunum og jafnframt eitt fjölmennasta mót hvers árs hefst kl. 10 hjá aldurshópnum 8-10 ára og stendur til kl. 12 og þá hefst keppni í aldursflokknum 11-14 ára sem ætti að ljúka um kl. 14.  Vigtun er á keppnisstað frá 9-9:30 fyrir alla aldurshópa. Keppendur í aldursflokknum 11-14 ára geta líka mætt í vigtun frá 11-11:30.  Þeir sem mæta ekki í vigtun á réttum tíma verða afskráðir svo keppnin geti hafist á réttum tíma. Nánari upplýsingar hér.

Úrslit Íslandsmóts karla og kvenna 2019

Frábæru Íslandsmóti karla og kvenna 2019 sem var haldið í Laugardalshöllinni í 27. apríl lauk með því að tíu Íslandmeistarar voru krýndir og þar af voru fjórir sem voru að vinna titilinn í fyrsta sinn. Úrslitin voru nokkuð eftir bókini en þó ekki alveg. Þór Davíðsson vann -100 kg flokkinn og var það hans fjórði titill en ýmist í þeim flokki eða – 90kg. Janusz Komendera vann titilinn í þriðja skiptið en ekki í röð en það geri hinsvegar Ásta Lovísa Arnórsdóttir er hún vann -63 kg flokkinn þriðja árið í röð og nokkuð örugglega og það gerðu einnig þeir Gísli Egilson í -73 kg flokki og Egill Blöndal -90 kg flokki. Egill vann einnig opinn flokk karla og nú í annað sinn. Úrslitaviðureig Egils í opnum flokki var gegn Þór Davíðssyni. Sú viðureign fór í gullskor og endaði með sigri Egils eins og áður hefur komið fram en það sem er eftirminnilegast að líklega settu þeir Íslandsmet í gullskors glímulengd þvi hún varði í 8 mínúrur og 31 sekúndu en áður höfðu þeir glímt í 4 mínútur. Í -81 kg flokknum var búist við hörku úrslitaviðureign milli þeirra félaga Loga Haraldssonar og Árna Péturs Lund en sú viðureign varð í styttra lagi þegar Árni fór eldsnögt í bragð og skoraði ippon og innbyrti sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil. En því var einmitt öfugt farið á ÍM 2017 en þá mættust þeir Logi og Árni í úrslitum og þá vann Logi og einnig sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil. Dofri Bragason -60 kg og Karl Stefánsson +100 kg og Ástrós Hilmarsdóttir en hún keppti í opnum flokki kvenna voru eins og Árni Lund að vinna sína fyrstu Íslandsmeistaratitla. Hér eru úrslitin og nokkar myndir frá mótinu.

Búið að draga á ÍM seniora

Íslandsmót karla og kvenna 2019 verður haldið á morgun í Laugardalshöllinni og hefst kl. 10 með forkeppni sem lýkur um kl. 12. Úrslit hefjast svo kl. 13 og standa þau yfir til um kl. 14 en þá hefst keppni í opnum flokkum sem lýkur um kl. 15:30 og mótslok kl. 16:00. Búið er að draga og er keppendalistinn hér.

Mótið verður í beinni útsendingu á youtube. Völlur 1. og Völlur 2.

Hér neðar eru myndir frá undirbúningi mótsins í höllinni í kvöld.

Dómaranámskeið JSÍ

Það var vel sótt dómaranámskeiðið sem JSÍ hélt í gær en þátttakendur voru tuttugu og þrír. Það voru þeir Björn Sigurðarson og Birkir Jóakimsson sem að sáu um námskeiðið og fóru þeir yfir nokkur myndbönd þar sem og dómar voru skýrðir og reglur áréttaðar og svörðu síðan fyrirspurnum um ýmis vafa atriði.