Keppni lokið í Glasgow

Því miður komust okkar menn ekki áfram í dag á European Judo Open í Glasgow. Sveinbjörn mætti Victor Busch frá Svíþjóð og gat sú viðureign farið á báða bóga en þeir hafa lent saman áður og skipst á að vinna. Victor hafði betur núna en viðureign þeirra hafði staðið í þrjár mínútur og hvorgur náð að ógna sem neinu nemur þegar Victor nær að skora Wazaari og aðeins ein mínúta eftir. Sveinbjörn reyndi sem hann gat til að jafna og í einni sókn sinni sem tókst ekki vel og lítið var eftir af glímutímanum lentu þeir í gólfglímu og komst Victor í fastatak og Sveinbjörn varð að játa sig sigraðan. Egill mætti Frakkanum Guillaume Riou og byrjaði vel því hann var kominn yfir eftir aðeins þrjátíu sekúndur er hann skoraði Wazaari með vel útfærðu Kata guruma og ekki langt frá því að klára glímuna í framhaldi af kastinu með armlás. Þetta kom Frakkanum örugglega á óvart og var hann öllu beittari  eftir þetta og varð Egill að taka á honum stóra sínum og bjargaði sér oft snilldarlega úr erfiðri stöðu í gólfglímunni. Þegar tæpar tvær mínútur eru eftir jafnar Frakkinn þegar hann skorar Wazaari með Sumi gaeshi og gerði síðan út um glímuna þegar hann skorar annað Wazaari þegar um tuttugu sekúnur eru eftir af viðureigninni. Næstu verkefni hjá Agli og Sveinbirni verða í Asíu því þeir munu halda til Japans innan skamms ásamt þeim Breka Berhardssyni og Ægi Valssyni og verða þar við æfingar í umþað bil tvo mánuði og keppa á Grand Slam í Osaka 23. nóvember og 1. desember á Hong Kong Asian Open.

Egill og Sveinbjörn keppa í Glasgow

Egill Blöndal (-90 kg) og Sveinbjörn Iura (-81 kg) eru komnir til Skotlands ásamt Jóni Þór Þórarinssyni landsliðsþjálfara og þar munu þeir taka þátt í European Judo Open í Glasgow þann 7. okt. Búið er að draga og sitja þeir báðir hjá í fyrstu umferð. Eftir góðan árangur á heimsmeistaramótunu í september þá flugu þeir upp heimslistann svo um munaði og eru komnir í 110 og 112 sæti. Vegna þessa þá er þeim forraðað á þessu móti, hvor í sínum flokki en það er gert við átta efstu menn heimslistans sem eru á meðal þátttakenda. Sveinbjörn mætir annaðhvort Svía eða Spánverja en Egill mætir Frakka. Hér er drátturinn, hér er keppnisröðin og hér er bein útsending. Keppnin hefst kl. 9 að Íslenskum tíma og á Sveinbjörn áttundu glímu á velli 1 og Egill á tuttugustu og fyrstu glímu á velli 2.

Bein útsending með lýsinguVöllur 1 –  Völlur 2 –  Völlur 3

Haustmót yngri 2018 – Úrslit

Haustmóti JSÍ í yngri aldursflokkum þ.e. U21/U18/U15/U13 var haldið í Grindavík í dag laugardaginn 6. okt. Keppendur voru fimmtíu og sex og er það enn á ný fjölgun keppenda frá því fyrra þrátt fyrir að færri félög hafi tekið þátt að þessu sinni. Mótið var vel skipulagt hjá UMFG og umgjörð og aðstaða keppenda og starfsmanna góð. Dómararnir stóðu sig meða sóma að venju en það voru þeir Birkir Hrafn Jóakimsson, Breki Bernharðsson og Daníel Leó Ólason sem sáu um dómgæsluna. Keppnin hófst kl. 10:30 í aldursflokkum U13/U15 og kl. 11:30 í U18/U21 og mótslok voru kl. 14:30. Viðureignirnar urðu sjötíu og fimm og unnust sjötíu þeirra á ippon. Hér  eru úrslitin.

Haustmót yngri 2018

Frá Haustmótinu 2017, nær er Gunnar Jóhannesson og fjær Jón Hlíðar Guðjónsson

Haustmót JSÍ í yngri aldursflokkum þ.e. U21/U18/U15/U13 verður haldið í íþróttahúsinu Röstinni í Grindavík laugardaginn 6. okt. næstkomandi. Vegna mikillar þátttöku verðum við að byrja örlítið fyrr en við ætluðum en sextíu og fimm keppendur eru skráðir til leiks og hefst mótið kl. 10:30 í aldursflokkum U13 og U15  og lýkur þeim flokkum um kl. 11:30. Þá hefst keppni í aldursflokkum U18 og U21 árs og ætti henni að ljúka um kl. 15:00. Vigtun fyrir U13 og U15 er frá 9:30-10:00 og geta U18 og U21 líka vigtað sig þá en annars er þeirra vigtun frá 10:30-11:00.  Hér er keppendalistinn.

Ægir með gull í Dublin

Ægir Valsson gerði sér lítið fyrir og tók gullið á Dublin Open í dag. Ægir sem ætlaði sér að keppa í -90 kg flokki þurfti að keppa við sér þyngri menn þar sem -90 og +90 kg flokkarnir voru sameinaðir.  Í flokknum voru sex keppendur og sigraði Ægir þá alla örugglega en úrslitaviðureignin var strembin en þar keppti hann gegn Írskum þungavigtara sem Ægir sigraði að lokum og gullið var hans. Til hamingju Ægir.

Haustmót JSÍ 2018 – Yngri flokkar

Gullverðlaunahafar JR á Haustmóti JSÍ yngri flokka 2017

Haustmót JSÍ í yngri aldursflokkum þ.e. U21/U18/U15/U13 verður haldið í Grindavík laugardaginn 6. okt. næstkomandi, sjá nánar hér
Skráningarfrestur til miðnættis þriðjudagsins 2. okt.
Myndin er af Hákoni Garðarssyni, Kjartani Hreiðarssyni og Skarphéðni Hjaltsyni en þeir unnu allir gullverðlaun á Haustmótinu 2017.