Úrslit Afmælismóts JSÍ 2019

Afmælismót JSÍ í yngri flokkum, U13, U15, U18 og U21 var haldið laugardaginn 9. febrúar í JR. Keppendur voru um áttatíu frá öllum klúbbum landsins og stóð mótið frá kl. 10 til 15. Þarna sáust margar spennandi og skemmtilegar viðureignir, glæsileg köst og flott gólfglíma. Við JR- ingar vorum með 20 keppendur og gekk okkar bara nokkuð vel en við unnum til átta gullverðlauna, fimm silfurverðlauna og sex bronsverðlauna. Hér eru myndir af verðlaunahöfum og aðrar myndir frá mótinu og úrslitin.

Sveinbjörn komst í 32 manna úrslit í París

Sveinbjörn Iura keppti í dag á Paris Grand Slam í -81 kg flokki. Hans fyrsta viðureign var gegn Royal Rakotoarivonyfrá Madagascar og sigraði hann örugglega. Royal fékk shido eftir um það bil þrjátíu sekúndur fyrir varnartilburði og mínútu síðar skoraði Sveinbjörn wazaari á hann. Þegar viðureignin var hálfnuð fékk Royal sitt annað shido og nú fyrir sóknarleysi og mínútu síðar sitt þriðja shido og einnig fyrir sóknarleysi og var þar með búinn að tapa. Nú var Sveinbjörn kominn í 32 manna útslátt og hans næsta viðureign var gegn Ítalanum Antonio Esposito sem er í 20 sæti heimslistans. Það var hörð barátta hjá þeim um tökin og átti hvorugur þeirra hættulega sókn fyrstu eina og hálfu mínútuna en einhverra hluta vegna var bara dæmt shido á Sveinbjörn fyrir sóknarleysi. Sveinbjörn hleypti krafti í sóknina og reyndi að sækja og ógna þó svo hann hefði ekki fullkomin tök og skyndilega stoppar dómarinn og dæmir á hann shido fyrir false-attack. Alveg furðulegur dómur, Sveinbjörn var ekki að reyna að bjarga sér úr slæmri stöðu eða neitt þvílíkt var bara að reyna að ná andstæðingnum úr jafnvægi og reyndi seionage sem hann fann að gekk ekki og stóð strax upp en fær á sig shido fyrir þessa tilraun. Ekki sanngjarnt að mínu mati. Viðureignin hélt áfram og baráttan um tökin hélt áfram. Báðir reyndu að sækja úr litlum sem engum tökum án árangurs og viðureignin var í járnum. Þegar rúm mínúta var eftir fékk Sveinbjörn sitt þriðja shido og aftur fyrir false -attack sem að ég get ekki verið ósammála og þar með var hann búinn að tapa viðureigninni. Árangur Sveinbjörns í dag þ.e. að komast í 32 manna úrslit gefur honum 120 punkta til viðbótar á heimslistann sem ætti að fleyta honum nær takmarkinu að komast á Ólympíuleikana. Auðvita þarf að skoða líka hvernig öðrum gekk og hvernig menn raðast upp þegar búið er að uppfæra heimslistanum en Sveinbjörn var í dag í 86. sæti og verður spennandi að sjá hvernig staðan verður á morgun þegar listinn hefur verið uppfærður.

Paris Grand Slam 2019

Paris Grand Slam hefst á morgun og þann 10. feb. þ.e næsta sunnudag mun Sveinbjörn Jun Iura  sem er í París ásamt Jóni Þór Þórainssyni landsliðsþjálfara keppa í -81 kg flokknum. Keppendur eru frá 94 þjóðum, 336 karlar og 237 konur eða alls 573 keppendur. Búið er að draga og mætir Sveinbjörn keppanda frá Madagascar. Þetta er þokkalegur dráttur fyrir Sveinbjörn og á hann ágætis möguleika á að komast í aðra umferð þó svo að að ekkert sé öruggt því allt getur gerst. Keppnin verður í beinni útsendingu og hefst kl. 9:00 að morgni að Íslenskum tíma.

Afmælismót yngri 2019 – Dagskrá

Afmælismót JSÍ í yngri aldursflokkum verður haldið á morgun 9. febrúar í Júdofélagi Reykjavíkur og hefst það kl. 10:00 í aldursflokkum 11-14 ára þ.e. U11 og U15 og lýkur henni um kl. 11:30. Vigtun á keppnisstað (JR) frá 9-9:30. Athugið að U18 og U21 geta vigtað sig á sama tíma.

Keppni U18 hefst kl. 12 og lýkur um kl. 14. Vigtun fyrir U18 og U21 er frá kl. 11-11:30.

Keppni U21 hefst kl. 14 og lýkur kl. 16. Vigtun 13-13:30.

Muna blár og hvítur júdobúningur eða bara hvítur. Ekki bara blár búningurAfmælismót JSÍ yngri 2019

Ægir keppti um bronsið á Opna Skoska

Ægir Valsson keppti á laugardaginn í – 90 kg flokknum á Opna Skoska í Glasgow. Það byrjaði vel hjá honum þegar hann vann fyrstu viðureign á ippon. Því miður tapaði hann svo næstu viðureign í gullskori og þar með var möguleikinn á gulli úr sögunni þar sem keppt er með útsláttarfyrirkomulagi en hinsvegar enn möguleiki á bronsverðlaunum. Í uppreisnarglímum vinnur hann næstu tvær örugglega, þá fyrri á tveimur wazaari og þá seinni á ippon. Hann er þar með kominn í keppnina um bronsverðlaunin. Ægir leiddi þá viðureign framan af með wazaari en andstæðingur hans gafst ekki upp og náði góðu skori á Ægi og fékk ippon fyrir það og tók bronsverðlaunin. Ægir var ekki sáttur með framistöðu sína en flensa sem hann náði sér í hefur örugglega haft sín áhrif á hana. Nú er bara að vona að hann verði búinn að jafna sig á flensunni fyrir næsta laugardag þegar hann keppir á Reykjavík Judo Open í Laugardalshöllinni.

IJF dómara og þjálfararáðstefna í Mittersill

JSÍ dómararnir þeir Björn Sigurðarson og Sævar Sigursteinsson taka nú þátt í IJF dómara og þjálfararáðstefnu sem haldin er í Mittersill dagana 13-16 janúar samhliða OTC æfingabúðunum þar. Þar er farið yfir allar helstu áherslur í dómgæslu og dómarareglunum. Þeir félagar munu síðan koma þeim upplýsingum áfram til okkur hinna á dómara og þjálfaranámskeiði JSÍ. Á myndinni sem fylgir má greina þá félaga í hægri röð þeirri öftustu lengst til vinstri.

Á OTC í Mittersill

Stór hópur landsliðsmanna dvelur nú við æfingar í Mittersill í Austurríki. Þetta eru alþjóðlegar æfingabúðir og með þeim sterkustu sem haldnar eru ár hvert. Að venju eru allir bestu judomenn og konur heims á meðal þátttakenda. Þessar æfingabúðir koma sér vel í undirbúningi okkar manna fyrir Reykjavík Judo Open sem haldið verður í Laugardalshöllinni 26. janúar og að sjálfsögðu önnur verkefni sem fyrirhuguð eru í framhaldi af því eins og Grand Slam í París og Dusseldorf og svo Matsumae Cup í Danmörku. Hér neðar er mynd af þátttakendum okkar í Mittersill.

Aftari röð fv. Sveinbjörn, Hrafn, Úlfur, Árni, og Ægir og fremri röð fv. Alexander, Breki og Oddur

Byrjenda og framhaldsnámskeið 2019

Starfssemin hefst á ný á morgun 7. janúar samkvæmt stundaskrá. Ný byrjenda og framhaldsnámskeið eru að hefjast. Námskeiðin eru fyrir konur og karla og í aldursflokkum 8-10 ára, 11-14 ára og 15 ára og eldri. Helstu upplýsingar og skráningarform má finna hér. Myndirnar hér neðar eru frá starfinu og JR-ingum á æfingu og í keppni. Myndband á facebook.

Fyrsta æfing 2019

Það mættu tæplega þrjátíu manns í gær frá fjórum klúbbum á fyrstu æfingu ársins. Hér eru nokkrar myndir sem teknar voru í lok æfingar. Næsta æfing verður á morgun kl. 18:30 og eru allir velkomnir.