Tvö gull til JR á Reykjavík Judo Open 2020

Ingunn Rut Sigurðardóttir og Zaza Simonishvili sigruðu örugglega á Reykjavík Judo Open sem haldið var á laugardaginn. Ingunn sigraði alla sína andstæðinga í -78 kg flokknum á ippon og það gerði Zaza einnig í -73 kg flokki og Ásta Lovísa Arnórsdóttir tók bronsið í -57 kg flokki. Líklega var einna mest spennandi að fylgjast með úrslitaviðureigninni hjá Zaza gegn Yoan Tutunarov frá Noregi en Yoan komst yfir þegar um tvær mínútur voru liðnar og glímutíminn hálfnaður. Viðureignin hafði verið mjög jöfn og nú var að duga eða drepast fyrir Zaza og yrði hann að taka áhættu því nú gæti Yoan farið í passlega vörn til að halda sínu. Þegar ein mínúta var eftir bar sókn Zaza árangur og skoraði hann ippon með glæsilegu kasti við mikinn fögnuð áhorfenda. Hér neðar eru myndir af verðlaunahöfum, öll úrslitin og hér er linkur á video af öllum brons og úrslitaglímum.

Þetta var í áttunda skiptið sem JSÍ heldur Reykjavík Judo Open í samstarfi við ÍBR. Mótið gekk vel í alla staði, umgjörðin flott og vel haldið á öllum málum. Fjöldi sjálfboðaliða mætti og stóð vaktina og allar stöður voru vel mannaðar hvort heldur það voru dómarar, mótsstjórn, tíma og stigaverðir eða önnur þau störf sem sinna þurfti. Vel gert JSÍ.

Result/úrslit: 2013201420152016201720182019, 2020