Vinur okkar Hugo Lorain sem var þjálfari hjá JR frá ágúst 2017 til júní 2018 er kominn í stutta heimsókn og mun hann sjá um nokkrar æfingar í JR næstu daga. Meistaraflokksæfingin kl. 18:30 í dag verður í umsjón hans og er hún opinn öllum klúbbum og eru landsliðsmenn bæði í U18/21 og seniora sérstaklega hvattir til að mæta. Á föstudaginn mun Hugo ásamt Jóni Þór sjá um landsliðsæfinguna kl. 18:30. Hér neðar eru nokkar myndir af Hugo á æfingum og í keppni hér á landi en hann keppti meðal annars á RIG 2018 og vann gull í -100 kg flokki og 2019 varð hann í öðru sæti.
Kyu gráðanir í JR
Nú standa yfir gráðanir í öllum aldursflokkum hjá JR og í gær 2. desember fóru níu krakkar í aldursflokknum 11-14 ára í gráðun og tóku sex þeirra 5. kyu (gult belti), einn tók 4. kyu (appelsínugult belti og tveir tóku 3. kyu (grænt belti) og stóðu þeir sig allir með sóma.
Sveinbjörn með brons í Hong Kong
Sveinbjörn Iura keppti í nótt á Hong Kong Asian Open og sat hann hjá í fyrstu umferð en mætti svo Kamon Saithongkaew frá Thailandi og sigraði Sveinbjörn hann eftir 44 sekúndur. Næst mætti hann David Gabaidze frá Rússlandi og var það hörkuviðureign sem lauk með sigri Rússans eftir tæpar þrjár mínútur og höfðu þá báðir fengið sitthvort refsistigið. Þar sem Sveinbjörn var kominn í átta manna úrslit fékk hann uppreisnarglímu og mætti þar Alex Jacobson (USA) sem hann sigraði eftir aðeins 35 sekúndur og var þar með kominnn í keppni um bronsverðlaunin. Þar átti hann að mæta Sangjun Lee frá Kóreu en þurfti ekki að eigast við hann þar sem sá hefur líklega meitt sig í glímunni þar á undan og mætti ekki og Sveinbjörn fékk bronsverðlaunin. Til hamingju Sveinbjörn. Hér eru úrslitin í 81 kg flokknum og öll úrslitin hér.
Sveinbjörn keppir á Hong Kong Asian Open
Hong Kong Asian Open hófst í dag og er Sveinbjörn Iura á meðal þátttakenda en hann keppir á morgun. Keppnin hefst kl. 10 að morgni í Hong Kong sem er þá á okkar tíma kl. 2 eftir miðnætti í kvöld laugardag. Hér er keppendalistinn í -81 kg flokknum en dregið var í gær. Sveinbjörn sem er í 87. sæti heimslistans situr hjá í fyrstu umferð en mætir svo annað hvort Kamon Saithongkaew frá Thailandi eða Tsz Yeung Chu frá Hong Kong. Þátttakendur eru 188 frá 5 heimsálfum og 32 þjóðum og eru karlarnir 112 og konurnar 76. Því miður er ekki hægt að fylgjast með í beinni útsendingu en hægt er að fylgjast með framvindunni hér.
Góðmálmar á Södra Open 4 2019
Það var flottur árangur hjá Íslendingum á Södra Open 4 sem var haldið í dag í Haninge í suður Svíþjóð en keppt var í barna, unglinga og fullorðinsflokkum. Frá JR fóru tólf keppenur í aldursflokum U9, U13 og U15 og unnu þeir til sjö verðlauna. Mikael Ísaksson P13-9 og Fannar Þormóðsson U9-4 náðu lengst þeirra en þeir unnu báðir til gullverðlauna og sigruðu alla sína andstæðinga örugglega. Fannar, (sonur Þormóðs Jónssonar) er líklegast yngsti JR-ingurinn til að vinna til gullverðlauna erlendis. Hann er 7 ára og var að keppa á sínu fyrsta erlenda móti og vann allar viðureignirnar á ippon. Silfurverðlaun unnu þau Emma Thueringer U11-5, Helena Bjarnadóttir F13-4, Matas Naudziunas P13-11 og Orri Helgason U11-8 og Daron Hancock fékk bronsverðlaunin í P15-50. Auk ofangreindra kepptu eftirfarandi en náðu ekki í verðlaun að þessu sinni þau Aðalsteinn Björnsson P15-46, Daníela Kucyte F15+63, Elías Þormóðsson P13-3, Jónas Guðmundsson P13-5 og Romans Psenicnijs P13-7.
Aftari röð fv. Matas, Mikael, Aðalsteinn, Ásta, Helena, Daniela og Guðmundur.
Júdodeild Njarðvíkur var með sex keppendur á sínum vegum og unnu þeir til sjö verðlauna. Mariam Badawy vann gullverðlaunin í F13-1, Jóhannes Pálsson vann gullverðlaun í P15+73 og silfurverðlaun í P18+90, Daníel Árnason vann gullverðlaun í U21-55 og silfur í U18-55 og Ingólfur Rögnvaldsson vann silfur í P18-66 og H21-66. Auk ofangreindra kepptu einnig þeir Andres Palma H-81 og H-ÖV og Helgi Guðmundsson P13-9 en náðu ekki í verðlaun að þessu sinni.
Á vegum JSÍ voru þrjár stúlkur sem kepptu á Södra Open. Heiðrún Pálsdóttir úr UMFN sigraði í D+78 og fékk silfur í D21+78 en Hekla Dís Pálsdóttir KA varð í þriðja sæti í sömu flokkum. Ásta Lovísa Arnórsdóttir úr JR varð í þriðja sæti í D-63.
Eitthvað var um það að flokkar voru sameinaðir þannig að menn urðu þá að keppa flokk uppfyrir sig og þá við töluvert þyngri andstæðinga sem er oft afar erfitt og ósanngjarnt. Þetta er stundum gert til þess að keppendur, sem jafnvel eru komnir langt að, fái fleiri en eina viðureign þegar flokkar eru fámennir. Hér neðar eru myndir frá ferðinni, úrslitin og líklegast verður hægt að skoða myndbönd hér á næstunni frá mótinu.
Sveinbjörn komst ekki áfram á GS Osaka
Því miður tapaði Sveinbjörn Iura glímunni sinni gegn Akmal Murodov frá Tajikistan á Osaka Grand Slam í nótt og féll þar með úr keppni. Þetta var hörkuviðureign og hart barist um tökin. Sveinbjörn fékk shido eftir umþað bil eina mínútu fyrir “false attack” eða bjarga sér úr slæmri stöðu með því að henda sér á magann. Þegar um 2:40 mín voru eftir átti Sveinbjörn ágæta rispu í gólfglímunni en Akmal slapp frá honum og stuttu síðar náði hann góðum tökum á Akmal sem varðist með því að grípa í beltið hjá Sveinbirni og ýta honum frá sér (hefði átt að fá refsistig eins og Sveinbjörn fékk stuttu síðar ef dómarinn hefði verið samkvæmur sjálfum sér) en Sveinbjörn komst samt í Osoto gari og henti honum en Akmal náði að snúa sér á magann og slapp með skrekkinn, Sveinbjörn fékk sitt annað refsistig þegar um tvær mínútur voru eftir fyrir ólöglega vörn en hann hélt í belti andstæðings og hélt honum þannig frá sér. Næstu fimmtíu sekúndurnar börðust þeir hart um tökin og gaf hvorugur tommu eftir en þar sem þeim tókst ekki að skapa sér færi á þessum tíma og sækja inn í bragð þá stöðvaði dómarinn viðureignina og gaf báðum refsistig fyrir aðgerðarleysi og var það þriðja refsistig Sveinbjörns og þar með var hann búinn að tapa viðureigninni. Hér má sjá öll úrslitin og hér er glíman hans Sveinbjörns. Næsta mót hjá Sveinbirni verður þátttaka á Hong Kong Asian Open um næstu helgi og keppir hann sunnudaginn 1. desember.
Sveinbjörn á Osaka Grand Slam
Osaka Grand Slam hefst á morgun og er Sveinbjörn Iura á meðal þátttakenda og er faðir hans Yoshihiko Iura honum til aðstoðar. Sveinbjörn keppir á laugardaginn og hefst keppnin kl. 10 að morgni í Japan sem er þá kl. 1 eftir miðnætti á morgun föstudag. Dregið var í dag og eru keppendur í 81 kg flokknum fimmtíu. Sveinbjörn sem er í 79. sæti heimslistans mætir Akmal Murodov frá Tajikistan sem er í 58 sæti heimslistans svo þetta gæti orðið jöfn og spennandi viðureign þar sem þeir eru þetta nálægt hvor öðrum á WRL. Ef vel gengur í fyrstu umferð verður róðurinn erfiður í 32 manna úrslitum því andstæðingurinn þar verður Antonie Valois-Fortier frá Kanada en hann situr í 8. sæti heimslistans. Þátttakendur eru 486 frá 5 heimsálfum og 87 þjóðum. Karlarnir eru 280 og konurnar eru 206. Hér er keppnisröðin og á Sveinbjörn 5 viðureign á velli 1 og hér er hægt að horfa á beina útsendingu.
Södra Open 4 í Svíþjóð næsta laugardag
Södra Open 4 verður haldið 23. nóv. næstkomandi í Haninge í suður Svíþjóð. Frá JR fara tólf keppenur í aldursflokum U9, U13 og U15. Með þeim farar nokkrir foreldrar og þjálfarar og er telur hópurinn alls nítján manns. Á þessu móti verða einnig sjö keppendur frá UMFN og þrír keppendur úr kvennalandsliðinu á vegum JSÍ og er Ásta Lovísa Arnórsdóttir úr JR þar á meðal. Þjálfari JR og fararstjóri eru Guðmundur Jónasson og Þormóður Jónsson. Þátttakendur eru rúmlega 360 frá fjórum löndum. Hér er keppendalistinn og gert er ráð fyrir að hægt verði að fylgjast með beinni útsendingu hér.
Ferðaáætlun. Út föstudaginn 22. nóv. Flug FI 306 kl. 7:35 lent í Stokkhólmi 11:45. Tekinn bílaleigubíll á Arlanda flugvelli og keyrt til Haninge sem er um það bil 60 km suður af Arlanda. Gist á Hotel Quality Hotel Winn Haninge og er íþróttahöllin um 2 km frá hótelinu. Allir keppa á laugardegi og farið heim á sunnudegi kl. 21:20 með flugi FI 313 og lent í Keflavík kl. 23:45.
Sveitakeppni JSÍ úrslit – JR með fjögur gull
Íslandsmót 2019 í sveitakeppni JSÍ fór fram í gær og var það haldið hjá Júdofélagi Reykjavíku. Ákveðið var að halda keppnina sama dag í öllum aldursflokkum en ekki í sitthvoru lagi eins gert hefur verið fram að þessu og var því keppt í U15, U18, U21 og senioraflokki. Því miður gátu ekki öll félög sent sveitir í þessa sögulegu og mest spennandi keppni hvers árs sem sveitakeppnin jafnan er og skipar einn stærstan sess í sögu hvers félags. KA var ekki með að þessu sinni og Júdodeild Ármanns ekki heldur og munar um minna og aðeins ein kvennasveit (JR) var skráð til leiks svo ekki var keppt í senioraflokki kvenna. Keppnin var engu að síður ákaflega skemmtileg eins og jafnan er í sveitakeppni og voru margar spennandi viðureignir og allmargar fóru í gullskor því keppendur voru oft það jafnir. Í U15 voru fjórar drengjasveitir og tvær stúlknasveitir og voru þær frá eftirtöldum klúbbum, JR, Njarðvík, Selfossi og Þrótti. Í drengjasveitunum sigraði sveit JR, í öðru sæti var sveit Selfoss og Þróttarar urðu í þriðja sæti. JR ingar sigruðu einnig í keppni stúlkna og Njarðvík varð í öðru sæti. Ekki var keppt í U18 en þar var bara ein sveit skráð til leiks með fullmannaða sveit. Í U21 voru tvær sveitir skráðar til leiks og sigraði sveit JR sveit Selfyssinga sem varð þá í öðru sæti. Í sveitakeppni karla voru þrjár sveitir og þar af tvær frá JR og ein frá Selfossi og fóru leikar eins og í fyrra þannig að JR-A sigraði, sveit Selfoss varð í öðru sæti og JR-B í því þriðja. JR er því Íslandsmeistari karla 2019 og er það í sjöunda skipti í röð og í nítjánda skipti alls. Með sigrinum núna var met frá 1974-1980 jafnað en JR ingar þeirra daga sigruðu einnig sjö ár í röð. Keppnin var fyrst haldin árið 1974 og var þetta í 44 skiptið sem keppt er en hún féll niður 1993 og 2002. JR og Júdodeild Ármanns hafa sigrað nítján sinnum hvort félag, Júdodeild KA fimm sinnum og UMFK einu sinni, sjá hér. Hér neðar eru öll úrslitin 2019.
Karlar riðill Karlar viðureignir
U21 karlar riðill U21 karlar viðureignir
U15 drengir riðill U15 drengir viðureignir
U15 stúlkur riðill U15 stúlkur viðureignir
Sveitakeppnin 2019 á laugardaginn
Íslandsmeistaramótið 2019 í sveitakeppni (liðakeppni) verður haldið laugardaginn 16. nóv. í JR. Keppt verður í aldursflokkunum U15 (11-14 ára), U21 og senioraflokki. Mótið hefst kl. 11 og lýkur um kl. 13. Keppendur mæti ekki seinna en 10:30. Vigtun á föstudaginn í JR frá 18 -19 og einnig verður hægt að vigta sig á laugardagsmorguninn frá 9:30-10.
Í karlaflokki verða tvær sveitir frá JR og ein frá Selfossi, í U21 verður sveit frá JR og Selfossi og í U15 verða fjórar sveitir og eru þær frá JR, Selfossi, Njarðvík og Þrótti. Hér neðar eru myndir af verðlaunahöfum JR frá sveitakeppninni 2018.
Fv. Aðalsteinn Björnsson, Karel Karelsson, Mikael Ísaksson, Hrafn Þorbjarnarson, Skarphéðinn Hjaltason Fv. Emil Ingimundarson, Hákon Garðarsson, Kjartan Hreiðarsson, Ísak Hermannsson, Andri Ægisson, og þjálfari Hugo Lorain Fv. Kjartan Hreiðarsson, Oddur Kjartansson, Árni Lund, Hákon Garðarsson, Ísak Hermannsson,
Andri Ægisson, og Hugo LorainFv. Dofri Bragason, Oddur Kjartansson, Ísak Hermannsson, Ari Sigfússon, Jóhann Másson, Kjartan Hreiðarsson, Hákon Garðarsson, Þormóður Jónsson, Árni Lund og Viktor Bjarnason.