Sveinbjörn komst ekki áfram á GS Osaka

Því miður tapaði Sveinbjörn Iura glímunni sinni gegn Akmal Murodov frá Tajikistan á Osaka Grand Slam í nótt og féll þar með úr keppni. Þetta var hörkuviðureign og hart barist um tökin. Sveinbjörn fékk shido eftir umþað bil eina mínútu fyrir “false attack” eða bjarga sér úr slæmri stöðu með því að henda sér á magann. Þegar um 2:40 mín voru eftir átti Sveinbjörn ágæta rispu í gólfglímunni en Akmal slapp frá honum og stuttu síðar náði hann góðum tökum á Akmal sem varðist með því að grípa í beltið hjá Sveinbirni og ýta honum frá sér (hefði átt að fá refsistig eins og Sveinbjörn fékk stuttu síðar ef dómarinn hefði verið samkvæmur sjálfum sér) en Sveinbjörn komst samt í Osoto gari og henti honum en Akmal náði að snúa sér á magann og slapp með skrekkinn, Sveinbjörn fékk sitt annað refsistig þegar um tvær mínútur voru eftir fyrir ólöglega vörn en hann hélt í belti andstæðings og hélt honum þannig frá sér. Næstu fimmtíu sekúndurnar börðust þeir hart um tökin og gaf hvorugur tommu eftir en þar sem þeim tókst ekki að skapa sér færi á þessum tíma og sækja inn í bragð þá stöðvaði dómarinn viðureignina og gaf báðum refsistig fyrir aðgerðarleysi og var það þriðja refsistig Sveinbjörns og þar með var hann búinn að tapa viðureigninni. Hér má sjá öll úrslitin og hér er glíman hans Sveinbjörns. Næsta mót hjá Sveinbirni verður þátttaka á Hong Kong Asian Open um næstu helgi og keppir hann sunnudaginn 1. desember.