Íslandsmót yngri 2018 – Úrslit

Íslandsmót í aldursflokkum U13/U15/U18/U21 (einstaklings og sveitakeppni) var haldið hjá Júdodeild Ármanns laugardaginn 14. apríl. Í einstaklingskeppninni voru þátttakendur 107 frá níu klúbbum og í sveitakeppninni voru fjórar sveitir í U15 og U18 og fimm sveitir í U21 árs. Keppnin var spennandi og skemmtileg í öllum aldursflokkum og frábær skemmtun bæði í einstaklingskeppninni sem og sveitakeppninni. Selfyssingar unnu flest gullverðlaunin í einstaklingskeppninni og í sveitakeppninni sigraði sveit Selfoss í U15 en JR ingar sigruðu bæði í U18 og U21 árs. Hér eru úrslitin í einstaklingskeppninni.

Hér eru úrslitin í sveitakeppninni.

U15
1. Selfoss A
2. JR
3. Selfoss B
U15 Riðill U15 Viðureignir

U18
1. JR
2. Selfoss
3. Njarðvík
U18 Riðill  U18 Viðureignir

U21
1. JR
2. KA
3. Ármann
U21 Riðill  U21 Viðureignir

Páskamót JR 2018 úrslit

Páskamót JR var haldið laugardaginn 7. apríl og var þátttakan góð en keppendur voru tæplega sjötíu frá sex klúbbum, Ármanni, Grindavík, ÍR, Selfossi, Þrótti og JR. Því miður vantaði nokkra klúbba í ár en samt var þátttakan meiri en í fyrra og greinilegt að það er fjölgun í íþróttinni og sem dæmi að þá voru ÍR ingar aðeins þrír í fyrra en voru núna fjórfalt fleiri og Þróttarar sem voru níu í fyrra og voru í kringum miðju hvað varðar þátttökufjölda voru núna fjölmennastir eða fjórtán alls. Páskamótið sem hefur verið eitt vinsælasta mót ársins hjá yngri júdó iðkendunum og jafnframt eitt fjölmennasta mót ársins fór vel fram og keppendur virkilega góðir og sýndu þeir hrein og flott judo brögð. JR þakkar þjálfurum og þátttakendum fyrir daginn sem og öllum öðrum sem veittu aðstoð við framkvæmd  mótsins. Hér eru úrslitin 2018.

Páskamót JR 2018

Páskamót JR sem verið hefur eitt vinsælasta mót ársins hjá yngri judo iðkendunum og jafnframt eitt fjölmennasta mót hvers árs verður haldið í laugardaginn 7. apríl og er skráning á það til miðnættis miðvikudaginn 4. apríl. Mótið hefst kl. 10 hjá aldurshópnum 8-10 ára og stendur til kl. 12 og þá hefst keppni í aldursflokknum 11-14 ára sem ætti að ljúka um kl. 14.  Vigtun er á keppnisstað frá 9-9:30 fyrir alla aldurshópa. Keppendur í aldursflokknum 11-14 ára geta líka mætt í vigtun frá 11-11:30.  Þeir sem mæta ekki í vigtun á réttum tíma verða afskráðir svo keppnin geti hafist á réttum tíma. Nánari upplýsingar hér.

Judo um Páskana hjá 8-15 ára

Páska æfingabúðir fyrir aldurshópinn 8-15 ára verða haldnar í JR dagana 29/3, 30/3, 31/3 og 2/4 og kosta ekki neitt. Hver æfing verður í einn og hálfa klukkutíma og hefst kl. 16:00 ofangreinda daga. Þeir sem vilja og hafa tök á því að taka þátt í þeim eru beðnir um að láta þjálfara JR vita eða senda póst á jr@judo.is. Þjálfarar verða ekki af verri endanum en eftirtaldir aðilar munu sjá um æfingarnar. Bjarni Skúlason, Emil Þór Emilsson, Guðmundur Björn Jónasson, Jón Þór Þórarinnson, Marija Dragic Skúlason og Þormóður Árni Jónsson.

Breytt dagsetning á Íslandsmóti seniora

Íslandsmót seniora sem átti að halda 28. apríl næstkomandi hefur verið fært til. Þar sem Evrópumótið fer fram á sama degi og nokkrir af okkar sterkustu judo mönnum verða þar á meðal keppenda hefur verið ákveðið að færa Íslandsmótið aftur um eina viku. Það verður því haldið 5. maí á sama stað þ.e. í Laugardalshöllinni og síðan eins og gert var ráð fyrir þá verða æfingabúðirnar daginn eftir. Æfingabúðirnar verða haldnar hjá JR eða Judodeild Ármanns, tilkynnt síðar.

Dagskrá Vormóts eldri á Akureyri

Mótið verður haldið í KA heimilinu Dalsbraut 1. Keppnin byrjar kl. 10:00 á laugardaginn og mótslok áætluð um kl. 12:30.  Vigtun verður á  föstudagskvöldið frá kl. 21:00 til 22:00 hjá Judodeild KA við Laugargötu. Að móti loknu á keppnisstað verður sameiginleg/landsliðs æfing sem Jón Þór Þórarinsson og Anna Soffía Víkingsdóttir sjá um og stendur hún í einn til tvo klukkutíma og hefst um kl. 13:00 til 13:30 en það verður tilkynnt á mótinu. Hér er keppendalistinn/úrslit.

Vormót JSÍ 2018 yngri flokkar

Vormót JSÍ í yngri aldursflokkum (U13/U15/U18/U21) verður haldið í húsakynnum JR í Ármúla 17 laugardaginn 17. mars. Keppni U13 og U15 (57 viðureignir) hefst kl. 10 og lýkur um kl 12 og þá hefst keppni U18 (29 viðureignir) sem lýkur um kl. 14 og þá tekur við U21 (20 viðureignir) sem lýkur þá um kl 15:00 og mótslok 15:30. Vigtun á keppnisdegi á mótsstað frá 9-9:30 hjá U13 og U15 og kl. 11-11:30 hjá U18 og U21. Miðað við að allir skráðir keppendur mæti þá verður keppni fyrir þá alla. Hér er keppendalistinn/úrslit

Muna blár og hvítur búningur er í góðu lagi eða bara hvítur en EKKI bara blár búningur

Komust í aðra umferð á Prag Open

Það voru 299 keppendur frá 41 þjóð sem tóku þátt í Prag Open 2018 nú um helgina og voru keppendur frá Íslandi fimm en þeir Logi Haraldsson -81 kg flokki og Þormóður Jónsson +100 kg flokki komust báðir í aðra umferð en aðrir unnu ekki viðureign. Logi Haraldsson átti fyrstu glímuna í dag og sigraði Salvatore D Arco frá Ítalíu með vel útfærðu bragði í gólfglímunni en Logi var undir og lítill tími til stefnu en Ítalinn hafði skorað wazaari. Þegar um tíu sekúndur voru eftir af viðureigninni plataði Logi Ítalann sem hélt sig vera í öruggri stöðu í gólfglímunni en Logi snéri honum á bakið og komst í fastatak þegar um ein sekúnda var eftir og hélt honum þar föstum. Þarna sást það enn og aftur að glíman er ekki búin fyrr en bjallan glymur og allt getur gerst fram að því. Í annari glímu mætti hann Pólverjanum Damian Szwarnowiecki sem var efstur á heimslistanum í 81 kg flokknum í dag. Logi barðist vel og var ekkert síðri aðilinn framan af en hann gleymdi sér eitt augnablik og Pólverjinn náði góðu taki á Loga komst í gott bragð (Sumi gaeshi) og sigraði örugglega á ippon og Logi þar með fallin úr keppni. Þormóður Jónsson sigraði örugglega Artyom Bagdasarov frá UZB á Ippon með Uchimata sukashi. Hann mæti síðan Frakkanum Messie Katanga, brons verðlaunahafa frá HM juniora 2015. Messie sem er mikið þyngri en Þormóður náði að stýra glímunni svo Þormóður komst aldrei inn í hana og tapaði hann á þremur shido og féll þar með úr keppni eins og Logi. Árni Lund (-81 kg) sem er yngstur okkar keppenda og með minnstu keppnisreynsluna stóð sig mjög vel þrátt fyrir að hafa tapað fyrir Christ Gengoul frá Frakklandi en það var eftir fullan glímutíma. Hann var síst lakari aðilinn og honum var ekkert ógnað af Frakkanum. Árni sótti stíft en í einni sókninni náði Christ mótbragði og skoraði wazaari og það skor réði úrslitum. Egill Blöndal glímdi líka mjög vel en var full fljótfær og seildist of langt í handtökunum sem Almas Kkrashev (KAZ) nýtti sér eldsnöggt og skoraði ippon með Sasae Tsuri Komi Ashi.  Breki Bernharðsson sem einnig keppti í -81 kg flokknum eins og Logi og Árni átti ekki góðan dag en hann tapaði fyrir Oleksandr Koshliak (UKR) sem komst í þriðju umferð. Þrátt fyrir að komast ekki lengra en í fyrstu og aðra umferð þá var þetta góður skóli fyrir þá og hluti af undirbúningi fyrir komandi mót eins og NM og EM. Á morgun fara þeir svo í OTC æfingabúðirnar í Nymburk og verða þar fram eftir vikunni þar sem þeir munu æfa með flest öllum þátttakendunum frá mótinu um helgina. Hér eru úrslin.

Hugo með silfur og kominn í 1. deild

Hugo og liðið hans  SO GIVORS urðu í öðru sæti í dag í 2. deild i sveitakeppni klúbba (Championnat De France Par Equipes De Clubs 2eme Division) sem haldið var í  Institut Du Judo í París. Það voru fjörtíu lið sem kepptu og var fyrst keppt með riðla  fyrirkomulagi og þrjú lið í riðli og 28 lið komust áfram sem síðan kepptu með útsláttar fyrirkomulagi. Í riðlinum varð SO Givers í fyrsta sæti eftir sigur á Montpellier Judo Olympic og JC Coulommier. Í útslættinum unnu þeir næstu fjögur lið og töpuðu að lokum í úrslitum gegn  Judo 83 Toulon. Silfurverðlaun í dag þýðir að þeir eru komnir í 1. deild og í hóp bestu liða Frakklands. Til hamingju Hugo og SO Givers.

Hugo keppir um helgina

Vinur okkar og þjálfari Hugo Lorain keppir um helgina í París í sveitakeppni með liði sínu á CHAMPIONNAT DE FRANCE SENIORS PAR ÉQUIPES DE CLUB 2D. Ef ég hef skilið hann rétt þá er þetta keppni um það að reyna að komast með liðið í fyrstu deild. Keppt verður bæði á morgun laugardag og sunnudaginn 4. mars og hefst keppnin kl. 8 að Íslenskum tíma. Því miður veit ég ekki hvort hann keppir báða dagana né klukkan hvað en mun setja það hér inn um leið og ég fæ fekari upplýsingar. Hér er hægt að horfa á mótið i beinni útsendingu. Áfram Hugo.