GRAND SLAM HUNGARY 2020 hefst föstudaginn 23. október og stendur í þrjá daga. Þetta er fyrsta mót Alþjóða Judosambandsins (IJF) síðan í febrúar eða frá því að Coronuveirufaraldurinn reið yfir heimsbyggðina. Það eru miklar kröfur gerðar til þátttakenda hvað varðar smitvarnir og umgengni á mótsstað og hóteli. Meðal annars þurfa allir að framvísa vottorði um að hafa farið í tvær skimanair með 48 tíma millibili og hafa reynst neikvæðir og má vottorðið ekki vera eldra en fimm daga gamalt. Einnig er ekki heimilt að ferðast neitt nema á milli hótels og keppnisstaðar sem er við hlið hótelsins svo í raun eru allir þátttakendur í hálfgerðri sóttkví. Þátttakendur eru 408 allt heimsklassa keppendur sem koma frá 4 heimsálfum og 61 þjóðum, 256 karlar og 152 konur. Á meðal þátttakenda verður okkar maður Sveinbjörn Iura og mun Þormóður Árni Jónsson verða honum til aðstoðar. Sveinbjörn keppir á laugardaginn og hefst keppnin þá kl. 9 að morgni á okkar tíma. Dregið verður á fimmtudaginn en í 81 kg flokknum eru skráðir fjörtíu og níu keppendur. Dráttinn má sjá hér og keppnisröðina hér. Mótið verður í beinni útsendingu og fyrsti keppnisdagur er á föstudaginn og hefst kl. 8 að morgni á okkar tíma. Til að fylgjast með í beinni þarf að hafa (IJF account) hann er frír. Góða skemmtun.
Framlenging æfingahlés í JR
Í tilkynningu frá Almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins í gær segir meðal annars að sóttvarnaryfirvöld og almannavarnir hafa hvatt alla og höfuðborgarsvæðið sérstaklega til að halda áfram að koma í veg fyrir hópamyndun, nánd og blöndun aðila úr ólíkum áttum næstu vikur. Markmiðið er að draga úr dreifingu og vexti veirunnar og vinna gegn auknu álagi á heilbrigðiskerfið. Judofélag Reykjavíkur mun fara að þessum tilmælum og verður því áframhald á æfingahléi hjá félaginu. Til stendur að þessi ákvörðun verður endurskoðuð að viku liðinni, í takt við álit sóttvarnalæknis. Tilkynninguna má lesa hér.
Ítrekun-æfingahlé hjá öllum aldursflokkum
Af gefnu tilefni er það áréttað að það er æfingahlé til 19. október hjá JR í öllum aldursflokkum eins og kom fram í tilkynningu 6. okt. síðastliðinn.
Myndir frá Haustmóti yngri 2020
Æfingahlé að beiðni yfirvalda
Vegna mikillar aukningar á Covid-19 smitum síðustu daga hafa Íþróttafélög verið hvött af yfirvöldum til að gera hlé á starfi sínu næstu tvær vikurnar og mun Judofélag Reykjavíkur að sjálfsögðu fara að þeim tilmælum. Það verða því engar æfingar í JR í öllum flokkum fyrr en mánudaginn 19. október nema annað verði ákveðið í millitíðinni og verður það þá tilkynnt hér.
Keppnisíþróttir með snertingu áfram leyfðar
Judoæfingar eru áfram leyfðar með sama hætti og verið hefur. Það verða því æfingar á morgun og næstu daga samkvæmt stundaskrá þar til annað verður ákveðið.
Heilbrigðisráðherra hefur nú staðfest nýjar reglugerðir um takmarkanir á samkomuhaldi og skólastarfi sem kveða á um hertar aðgerðir til að sporna við útbreiðslu COVID-19. Þetta kemur fram í tilkynningu en reglugerðirnar taka gildi á miðnætti.
Hámarksfjöldi þeirra sem mega koma saman verður 20 manns, með nokkrum undantekningum þó.
Undantekningar frá 20 manna hámarki
Keppnisíþróttir með snertingu verða leyfðar með hámarksfjölda 50 einstaklinga að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
Áhorfendur á íþróttaleikjum: Óheimilt er að hafa áhorfendur á íþróttaviðburðum innandyra. Utandyra er heimilt að hafa áhorfendur, allt að 100 í hverju rými, að því gefnu að gestir sitji í númeruðum sæti sem skráð eru á nafn og noti andlitsgrímu.
Aðgerðir hertar vegna Covid-19 – Af heimasíðu UMFÍ
Reglur Judosambands Íslands um sóttvarnir vegna COVID-19 gildistími frá og með 28. september 2020 kl 09:00 til 18. október 2020 kl 23:59.
JR með 10 gull á Haustmóti yngri 2020
Haustmóti JSÍ í yngri aldursflokkum (U13/U15/U18/U21 árs) fór fram í gær laugardaginn 3. október. Þátttakendur voru þrjátíu og fjórir frá fjórum klúbbum auk þess sem einn keppti undir merkjum JSÍ. Judofélag Reykjavíkur sendi tuttugu og tvo keppendur sem stóðu sig vel og uppskáru tíu gullverðlaun, átta silfur og tvenn bronsverðlaun. Margir okkar keppenda voru að keppa í fyrsta skipti og stóðu sig frábærlega en aðrir komnir með töluverða keppnisreynslu. Sjá mátti margar flottar viðureignir, sumar jafnar og spennandi en aðrar enduðu með öruggum sigri og jafnvel óvæntum. Sem betur fer er slysatíðni lág í judo en það kemur þó fyrir að einhver meiðist en Andri Fannar sem keppti í sameinuðum flokki -90/-100 kg lenti illa á öxl snemma í fyrstu viðureign og varð að hætta keppni en hann verður vonandi mættur aftur til leiks fljótlega.
Vegna Covid takmarkana voru engir áhorfendur leyfðir og voru skilaboðum um það komið á framfæri til iðkenda og í gegnum facebook og heimasíðu félagsins en auðvitað eins og gengur komust þau ekki til skila til allra. JSÍ ætlaði að að streyma beint frá mótinu þar sem áhorfendur voru ekki leyfðir en því miður gekk það ekki eftir vegna netvandamála. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður og skilyrða vegna covid reglna tókst mótið með ágætum.
Hér eru úrslitin og myndir af verðlaunahöfum. Fleiri myndir og einnig video munu birtast á judo.is og facebook næstu daga.
Haustmót yngri – Mikilvægar upplýsingar
Vegna Covid-19 reglna þá verða áhorfendur því miður ekki leyfðir á mótinu á morgun. Til stendur að streyma beint frá mótinu sem hefst kl. 13:00 á YouTube ef hægt er og er þá tengillinn hér ef það gengur.
Allir keppendur og þjálfarar eiga að koma inn um inngang D sjá mynd hér að ofan. Girt verður fyrir alla umferð niður og upp úr keppnissalnum.
Eitt klósett er fyrir keppendur, bæði karla og konur og er það staðsett í búningsklefa karla.
Ekki er ætlast til að iðkendur noti búningsklefa. Heldur er mælt með að keppendur mæti klæddir í judogalla en einnig verður hægt að skipta um fatnað bakvið þar til gerð skilrúm í keppnissal.
Keppendur skulu halda sig á upphitunarsvæði á meðan mótið fer fram og fara þaðan á keppnisvöll þegar þeir eru kallaðir upp. Upphitunarsvæði mun skiptast í tvo hluta (U13 og U15) annarsvegar og (U18 og U21) hinsvegar.
Vigtun mun fara fram á upphitunarsvæðum og skulu keppendur halda sig á sínum upphitunarsvæðum á meðan vigtun stendur yfir.
Einnig er minnt á grímunotkun allra sem starfa við mótið.
Haustmót yngri – Breytt dagskrá og staðsetning
Haustmót yngri flokka U13/U15/U18 og U21 verður haldið hjá Judodeild Ármanns laugardaginn 3. okt. næstkomandi. Vigtun allra aldursflokka er frá 12:00 til 12:30 og hefst mótið svo kl. 13:00. Hér eru nánari upplýsingar.
Æfingar barna 4-6 ára.
JR hóf æfingar fyrir börn á aldrinum 5-6 ára í byrjun september. Þar sem töluvert var spurt um æfingar fyrir fjögurra ára börn var ákveðið að hafa breyta aldursmörkunum í 4-6 ára. Æfingar eru einu sinni í viku á laugardögum frá kl. 10-11 og eru þær fyrst og fremst í formi ýmiskonar leikja, jafnvægisæfinga og samhæfing handa og fóta og börnin læra að detta án þess að meiða sig svo eitthvað sé nefnt og þannig er lagður grunnur að framhaldsæfingum í judo. Þjálfarar eru Ingunn Rut Sigurðardóttir, Guðmundur B. Jónasson og Bjarni Á. Friðriksson. Allir 4-6 ára byrjendur fá júdobúning frá JR. Nánari upplýsingar og skráning.