Andlát: Eysteinn Þorvaldsson

Eysteinn Þorvaldsson félagi í Judofélagi Reykjavíkur og fyrrum formaður Judosambands Íslands lést á hjúkr­un­ar­heim­il­inu Skjóli í Reykja­vík 8. sept­em­ber sl., 88 ára að aldri. Eysteinn var einn af upphafsmönnum judo á Íslandi. Hann var virkur iðkandi með svartbeltagráðuna 3. dan en kom jafnframt mjög mikið að félagsmálum og stjórnunarstörfum og var til fjölda ára í forsvari fyrir íþróttina. Hann kom að undirbúningi og stofnun Judosambandsins og var kosinn fyrsti formaður þess 28. janúar 1973. Hann gengdi formennsku samfleytt frá 1973-1983 eða í tíu ár og stýrði starfsemi sambandsins af mikilli röggsemi og sanngirni.

Eysteinn var heiðraður með ýmsum hætti fyrir áratuga störf í þágu judohreyfingarinnar og var meðal annars sæmdur gullmerki JSÍ árið 2002, heiðurskrossi ÍSÍ 2013 og gerður að heiðursformanni JSÍ 2014.

Judomenn þakka Eysteini Þorvaldssyni að leiðarlokum áralanga samveru og kveðja góðan vin og félaga með söknuði og virðingu og senda ástvinum hans hugheilar samúðarkveðjur.

Jóhann Másson formaður JSÍ og Eysteinn Þorvaldsson heiðursformaður JSÍ 2014

Barna Judo 5-6 ára

JR mun hefja æfingar fyrir börn á aldrinum 5-6 ára á næstunni. Æft verður einu sinni í viku á laugardögum frá kl. 10-11. Æfingarnar eru ekki hefðbundið judo þar sem iðkendur takast á það kemur síðar. Æfingarnar eru fyrst og fremst í formi ýmiskonar leikja, jafnvægisæfingar og samhæfing handa og fóta og börnin læra að detta án þess að meiða sig svo eitthvað sé nefnt og þannig er lagður grunnur að framhaldsæfingum í judo. Þjálfarar eru Ingunn Rut Sigurðardóttir, Guðmundur B. Jónasson og Bjarni Á. Friðriksson. Allir 5-6 ára byrjendur fá júdobúning frá JR. Nánari upplýsingar og skráning.

Æfingar að hefjast í öllum aldursflokkum

Æfingar hefjast aftur á morgun að loknu sumarfrí. Á morgun eru æfingar fyrir byrjendur og framhald 11-14 ára kl. 17:30 og meistaraflokkur kl. 18:30. Á þriðjudaginn er svo æfing hjá 7-10 ára, byrjendur og framhald kl. 17:30 og framhald fullorðinna (15 og eldri) kl. 18:30. Við munum hefja æfingar hjá börnum 5-6 ára næsta laugardag og byrjendum fullorðinna mánudaginn 7. september. Nánari upplýsingar og skráning.

NÁMSKEIÐIN AÐ HEFJAST – SKRÁNING Á JUDO.IS

Haustönnin hefst 31. ágúst og er skráning hafin í öllum aldursflokum á byrjenda og framhaldsnámskeiðin. 

Sex vikna byrjendanámskeið fyrir fullorðna þ.e. 15 ára og eldri og bæði kynin hefst mánudaginn 7. september og lýkur 15. október. Æfingar á mánudögum og miðvikudögum kl. 20-21 og fimmtudögum kl. 18:30-20. Næsta námskeið hefst svo 19. október og lýkur 26. nóvember. Að loknu byrjendanámskeið fara þátttakendur í framhaldsflokk

Byrjenda og framhaldsnámskeið 11-14 ára hefst mánudaginn 31. ágúst. Byrjenda og framhaldsnámskeið 7-10 ára hefst þriðjudaginn 1. september.
Byrjendanámskeið barna 5-6 ára hefst laugardaginn 5. september.

Æfingar hjá meistaraflokki hefjast mánudaginn 31. ágúst og æfingar hjá framhaldi 15 ára og eldri hefjast þriðjudaginn 1. september.

Hér er skráningarform en einning er hægt að hafa samband í síma 588-3200 eða senda tölvupóst á netfangið jr@judo.is

Snertingar heimilar á æfingum en beðið eftir grænu ljósi frá ÍSÍ

Snertingar heimilar á æfingum og í keppnum íþróttafólks en við verðum að bíða enn um sinn meðan gengið er frá hvernig æfingum skuli háttað.

Í auglýsingu heilbrigðisráðherra segir að ÍSÍ skuli setja sérsamböndum sínum nánari reglur í samráði við sóttvarnalækni, meðal annars um einstaklingsbundnar sóttvarnir, sótthreinsun búnaðar, framkvæmd æfinga og keppna.

JSÍ er búið að senda ÍSÍ umbeðin gögn varðandi framkvæmd judo æfinga og er beðið eftir svari og leyfi frá þeim sem vonandi berst ekki seinna en í fyrramálið. Við getum því ekki hafið æfingar fyrr en við fáum grænt ljós frá ÍSÍ og mun það verða tilkynnt hér um leið og það berst.

Nýjar reglur um takmörkun á samkomum vegna COVID-19 taka gildi föstudaginn 14. ágúst 2020. Helsta breytingin er sú að þrátt fyrir meginregluna um 2 metra nálægðartakmörkun verða snertingar heimilar milli íþróttafólks á æfingum og í keppnum.

Aftur á móti skal virða 2 metra regluna í búningsklefum og á öðrum svæðum utan keppni og æfinga. Aðrir, meðal annars þjálfarar, starfsmenn og sjálfboðaliðar, skulu ávallt virða 2 metra regluna.

Fjöldatakmörk miðast áfram við 100 manns að hámarki. Eins og fram kemur í auglýsingu ráðherra er rík áhersla lögð á einstaklingsbundnar sóttvarnir og almennar smitvarnir með tíðum og reglubundnum þrifum þar sem fólk kemur saman.

Börn fædd árið 2005 eða síðar eru áfram undanskilin ákvæðum 3. gr. auglýsingarinnar sem snúa að fjöldatakmörkun og 4. gr. um almenna nálægðartakmörkun.

Í auglýsingu heilbrigðisráðherra segir að ÍSÍ skuli setja sérsamböndum sínum nánari reglur í samráði við sóttvarnalækni, meðal annars um einstaklingsbundnar sóttvarnir, sótthreinsun búnaðar, framkvæmd æfinga og keppna.

Að öðru leyti gildir áfram meginreglan um 2 metra nálægðarmörk. Við aðstæður þar sem eðli starfsemi krefst meiri nálægðar milli einstaklinga en tveggja 2 metra og í almenningssamgöngum þar sem ferð varir í 30 mínútur eða lengur skal nota andlitsgrímu. Hjúkrunarheimilum, öðrum heilbrigðisstofnunum og sambærilegum stofnunum er gert skylt að setja reglur um starfsemi sína, svo sem um heimsóknir utanaðkomandi að heimilum og stofnunum.

Auglýsing um takmörkun á samkomum vegna farsóttar
Minnisblað sóttvarnalæknis til ráðherra, dags. 11. ágúst
Viðbót við minnisblað sóttvarnalæknis, dags. 12. ágúst

NM frestað til næsta vors

Frétt af heimasíðu JSÍ.
Norðurlandameistarmótinu í Júdo sem átti að fara fram 12-13 september í Laugardalshöll hefur verið frestað. Búist var við um 300 júdomönnum víðsvegar frá Norðurlöndunum. Ástæðan er sú að Covid-19 veirufaraldurinn er því miður aftur í vexti á Íslandi og nýlega hafa auknar takmarkanir verið kynntar varðandi fjöldasamkomur. Ákvörðunin var tekin af formönnum Júdosambanda Norðurlandanna í sameiningu, en stefnt er að því að halda næsta Norðurlandameistaramót á Íslandi í apríl 2021.

English

The Judo Nordic Championships which was to be held 12th-13th of September in Reykjavík, Iceland has been postponed. 300 Judokas from all the Nordic countries were expected to take part in the tournament. The situation in Iceland in relation to the Covid-19 epidemic is not good at the moment and the outbreak is again on the rise. Therefore restrictions on social gatherings, such as sporting events, have been increased as of late. The decision to postpone the tournament was made by the presidents of the all the Judo Federations of the Nordic Countries in unison. Also it was agreed upon that the next Judo Nordic Championship will be held in Reykjavik, Iceland in April, 2021.

Tilmæli vegna íþróttastarfs fullorðinna eftir hertar reglur

Samkomur voru takmarkaðar á hádegi í gær. Yfirvöld hafa vegna þessa gefið út tilmæli um íþróttastarf fullorðinna.

Hertar aðgerðir um takmörkun á samkomum vegna farsóttar tóku gildi í gær, föstudaginn 31. júlí og gilda þau til 13. ágúst næstkomandi. Hertar aðgerðir miða að því að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins.

Tilmæli hafa jafnframt borist frá yfirvöldum um áhrif hertra aðgerða á íþróttastarf fullorðinna (þ.e. þeirra sem eru fæddir árið 2004 og eldri).

Tilmælin í hnotskurn:

  1. Að gert verði hlé á æfingum og keppni í íþróttum með snertingu til 13. ágúst næstkomandi eða þar til núgildandi auglýsing um takmarkanir á samkomum fellur úr gildi.
  2. Að æfingar og keppni í íþróttum án snertingar haldi áfram eftir því sem hægt er, að virtum reglum um fjöldatakmarkanir og nálægðarmörk skv. auglýsingu heilbrigðisráðherra.
  3. Að sameiginlegur búnaður verði sótthreinsaður milli notkunar/notenda.

Hertar aðgerðir sem tóku gildi í 31. júlí:

Fjöldasamkomur, þar sem fleiri en 100 einstaklingar koma saman, eru óheimilar á gildistíma auglýsingarinnar. Reglurnar gilda jafnt um opinber rými og einkarými. Íþróttaviðburðir eru þar með taldir.

Ákvæðið um fjöldatakmörkun tekur ekki til barna sem eru fædd árið 2005 og síðar.

Skylt er að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki deila heimili á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi.

Ákvæði um nálægðartakmörkun (4. grein) tekur þó ekki til barna sem eru fædd árið 2005 og síðar.

Sameiginlegur búnaður, s.s. í íþróttastarfi skal sótthreinsaður milli notenda.

Ítarlegri upplýsingar á www.covid.is.

Æfingahlé til 13 ágúst

Á hádegi í dag 31. júlí taka gildi hertar aðgerðir innanlands og á landamærum vegna COVID-19 sem standa í tvær vikur, út 13. ágúst nk. Ákvörðunin er í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis um takmörkun á samkomum vegna farsóttar sem heilbrigðisráðherra hefur samþykkt.  

Meðal þess sem komið hefur fram er að tveggja metra nándarregla skal viðhöfð í allri starfsemi. Hún er ekki lengur valkvæð heldur skyldubundin og þar með eigum við erfitt með að stunda okkar íþrótt. Við förum að sjálfsögðu að fyrirmælum og tökum æfingahlé til 13. ágúst.

Það er þó eitthvað ósamræmi í upplýsingum því það kom fram á upplýsingafundi Almannavarna í dag að íþróttir fullorðinna (keppni) sem krefjast snertingar skyldu taka hlé til 10 ágúst en við munum fylgjast með og tilkynna um það ef það verður reyndin og getum þá kanski hafið æfingar fyrr.

Uppfært 1. ágúst, það verður hlé til 13. ágúst sjá nánar hér.

Ítarlegri upplýsingar á vef Stjórnarráðs Íslands

Búið í Budapest

Strákarnir höfðu ekki lánið með sér í Ungverjalandi á Budapest Grand Prix  en þeir féllu allir úr keppni í fyrstu umferð. Logi var lítið kominn inní glímuna þar sem hann hafði ekki náð ekki góðum handtökum á Nicon Zaborosciuc (MDA) sem virtist vera sterkari í þeim en það var þó ekkert farið að reyna á það að ráði því eftir aðeins rúma mínútu nær hann góðu taki á Loga og fer eldsnöggt inn í bragð með annari hendinni og fylgir vel eftir og Logi endaði á bakinu. Það var eitthvað svipað hjá Agli því þegar viðureignin var um það bil hálfnuð og eftir hörku baráttu þar sem ekki mátti á milli sjá hvor hafði betur þá nær Rafal Kozlowski  frá Póllandi skyndilega að festa hægri hendina á Agli og lagðist svo í seoi-nage en Egill náði ekki að stöðva sóknina og féll á bakið og ippon var dæmt. Það verður að segjast eins og er að bæði köstin þ.e. gegn Loga og Agli voru vel útfærð og falleg. Viðureign Sveinbjörns gegn Medickson Del Orbe (DOM) var nokkuð jöfn og hafði Sveinbjörn yfirhöndina fyrstu tæpar tvær mínúturnar en Medickson var þá kominn með shido fyrir sóknarleysi en þá var komið að Sveinbirni að fá refsistig. Þegar um tvær mínútur eru eftir fær hann sitt fyrsta shido fyrir “False Attack” (gervisókn) og annað aðeins hálfri mínútu síðar. Hann mátti því ekki fá fleiri refsistig því þá væri hann búinn að tapa. Eins og áður sagði voru þeir mjög jafnir og börðust vel og þegar um tuttugu sekúndur eru eftir að viðureigninni þá gerðist það, Sveinbjörn fær sitt þriðja shido og tapaði þar með glímunni.

Sveinbjörn, Logi, Jón Þór og Egill

Budapest Grand Prix 2018

Í morgun lögðu af stað til Budapest þeir Sveinbjörn Iura, Egill Blöndal og Jón Þór Þórarinsson landsliðsþjálfari. Þar munu þeir hitta fyrir Loga Haraldsson sem ásamt þeim tveim fyrstnefndu munu keppa á Budapest Grand Prix um næstu helgi. Keppendur koma frá fimm heimsálfum og níutíu þjóðum og eru þeir alls 626, karlarnir eru 371 og konurnar 255. Logi og Sveinbjörn keppa í -81 kg flokki laugardaginn 11. ágúst og Egill í -90 kg flokki á sunnudaginn og hefst keppni báða dagana kl. 8 að morgni að Íslenskum tíma. Í 81 kg flokknum eru sextíu keppendur og á Logi þriðju viðureign og mætir hann Nicon Zaborosciuc (MDA), Sveinbjörn á níundu eða tuttugustu og þriðju viðureign og mætir hann Medickson Del Orbe (DOM). Egill á tólftu eða tuttugustu og fimmtu viðureign í -90 kg flokknum þar sem keppendur eru fimmtíu og sjö og  mætir hann Rafal Kozlowski  frá Póllandi en hann keppti og vann -90 kg flokkinn á Reykjavík Judo Open 2018. Hér er hægt að fylgjast með mótinu í beinni útsendingu og hér er drátturinn og gamla útgáfan er hér.