Sveinbjörn Iura keppti í morgun á Tel Aviv Grand Slam og mætti hann Bretanum Stuart Mcwatt í 81 kg flokknum í annari umferð en báðir sátu hjá í fyrstu umferð. Því miður þá tapaði Sveinbjörn þeirri viðureign en Stuart var sterkari í tökunum og átti þar af leiðandi fleiri sóknir og náði að skora úr einni þeirra um miðja viðureign og hélt þeirri stöðu út glímutímann. Þeir voru þó báðir komnir með refsistig, Sveinbjörn fyrir sóknarleysi snemma í glímunni og Stuart alveg í lok glímunnar þegar hann lagðist í vörn til að halda sínu en Sveinbjörn náði þá ágætis tökum og sótti stíft en full seint. Stuart sem er í 54. sæti heimslistans mætti næst Sami Chouchi frá Belgíu sem er í 24 sæti heimslistans og vann hann en Samir þessi hafði áður slegið út núverandi heimsmeistara Saki Muki (2. sæti Wrl.) frá Ísrael svo það er nokkuð ljóst að Stuart er öflugri en búist var við og eitthvert sæti á heimslista segir ekki allt og er hann nú kominn í átta manna úrslit. Hér má sjá viðureign þeirra Sveinbjörns og Stuarts og öll úrslit mótsins.
Sveinbjörn keppir á Tel Aviv Grand Slam
Tel Aviv Grand SLAM 2021 hefst á morgun fimmtudaginn 18. febrúar og stendur í þrjá daga. Sveinbjörn Iura sem er í 70 sæti heimslistans verður á meðal þátttakenda en hann lagði af stað til Ísraels s.l. laugardag ásamt Þormóði Jónssyni sem verur honum til aðstoðar. Vegna strangra Covid-19 öryggisráðstafanna og stopulla flugsamgangna urðu þeir að fara þetta snemma en það eru miklar kröfur gerðar til þátttakenda hvað varðar smitvarnir og umgengni á mótsstað og hóteli. Þátttakendur eru 422 frá 5 heimsálfum og 60 þjóðum, 248 karlar og 174 konur.
Sveinbjörn keppir næsta föstudag í 81 kg flokki en það er næst fjölmennasti flokkurinn á mótinu og eru keppendur þar þrjátíu og níu. Þann dag hefst mótið kl. 8:30 á okkar tíma en Sveinbjörn á sextándu viðureign á velli 3. svo hún væri þá um kl. 9:30. Dregið var í dag og mætir Sveinbjörn keppanda frá Bretlandi, Stuart Mcwatt sem er í 54. sæti heimslistans. Mótið verður í beinni útsendingu og fyrsti keppnisdagurinn á morgun fimmtudag og hefst kl. 7:30 á okkar tíma. Til að fylgjast með í beinni þarf að hafa (IJF account) og er hann frír og notast aftur og aftur. Hér er keppnisröðin og drátturinn. Góða skemmtun.
Úrslit Afmælismóts JSÍ 2021 í yngri flokkum
Afmælismót JSÍ í aldursflokkum U13, U15, U18 og U21 árs var haldið í æfingasal Judofélags Reykjavíkur laugardaginn 13. febrúar. Margir keppendur okkar JR- inga voru að taka þátt í sínu fyrsta móti og stóðu þeir sig afar vel. Í hús komu þrettán gullverðlaun af nítján sem er nákvæmlega sama hlutfall og 2020 en auk þess sjö bronsverðlaun og tólf silfurverðlaun. Keppendur voru fimmtíu og tveir frá sjö klúbbum og voru KA menn á meðal þátttakenda að þessu sinni en þeir komust ekki suður í fyrra vegna veðurs. Þetta var skemmtilegt mót og fullt af flottum og spennandi viðureignum. Dómgæslan var vel mönnuð en það voru þau Björn Sigurðarson, Craig Clapcott, Daníel Ólason, Marija Skúlason og Sævar Sigursteinsson sem stóðu vaktina að þessu sinni og leystu það verkefni vel af hendi og það gerðu þeir Ari Sigfússon og Skarphéðinn Hjaltason einnig en mótsstjórn og stiga og tímagæsla var í þeirra höndum. Hér eru úrslit mótsins, nokkrar myndir frá því og verðlaunahöfum.
Bein útsending frá AM yngri
Keppni U13/U15 hefst kl. 12 og lýkur um kl. 13 og keppni U18/U21 hefst kl. 14:00 og lýkur um kl. 16:30. Vegna sóttvarnarreglna verða áhorfendur ekki leyfðir en það verður streymt mótinu.
Æfing barna 4-6 ára á laugardag
Æfingu hjá börnum 4-6 ára á laugardaginn verður ekki frestað til sunnudags eins og til stóð vegna Afmælismóts JSÍ. Það verður því æfing á laugardaginn sem hefst kl. 10 eins og venjulega.
Afmælismót JSÍ – breytt tímasetning U13/U15
Afmælismót JSÍ – yngri flokkar – Breytt tímasetning hjá U13 og U15.
Afmælismót JSÍ í yngri aldursflokkum verður haldið hjá Judofélagi Reykjavíkur laugardaginn 13. febrúar. Gert var ráð fyrir að hefja keppni kl. 10 í aldursflokkum U13 og U15 og kl. 14 í aldursflokkum U18 og U21.
Þar sem skráning var frekar dræm í aldursflokkum U13 og U15 þá mun keppnin hjá þeim færast til og hefjast kl. 12 og ljúka um kl. 13 og vigtun á keppnisstað frá kl. 11:15 til 11:45. Athugið að vikmörk í aldursflokkum U13 og U15 er 1. kg.
Tímasetning í aldursflokkum U18 og U21 er óbreytt og hefst keppnin kl. 14:00 og vigtun á keppnisdegi frá 13:00 til 13:30. Einnig geta keppendur í U18/U21 vigtað sig á keppnisstað föstudagskvöldið 12. feb. frá 19 til 20.
Vegna sóttvarnarreglna verða áhorfendur ekki leyfðir en það verður streymt frá mótinu og hér er linkur það.
Afmælismót JSÍ – yngri flokkar
Afmælismót JSÍ 2021 í yngri aldursflokkum verður haldið 13. febrúar í Judofélagi Reykjavíkur og hefst það kl. 10:00 í aldursflokkum 11-14 ára þ.e. U13 og U15 og lýkur henni um kl. 12:00. Vigtun á keppnisstað (JR) frá 9-9:30.
Keppni hjá U13 og U15 hefst kl 10 og er til 12
Keppni hjá U18 og U21 hefst kl 14
Vigtun U13 og U15 fer fram á keppnisstað á keppnisdegi kl 9 – 9:30 Vikmörk eru 1 kg í aldursflokkum U13 og U15
Vigtun U18 og U21 fer fram á keppnisstað á keppnisdegi kl 13-13:30 einnig geta keppendur í U18 og U21 viktað sig kl 19-20 á föstudeginum á keppnisstað.
Muna blár og hvítur júdobúningur eða bara hvítur. Ekki bara blár búningur
Ath samkvæmt sóttvarnarreglum JSÍ 12. janúar þá eru áhorfendur ekki leyfðir.
Hér eru nánari upplýsingar.
JR með fimm gullverðlaun á RIG 2021
Það voru fimmtán þátttakendur frá Judofélagi Reykjavíkur sem kepptu á Reykjavík Judo Open sem haldið var 30. jan. 2021 í Laugardalshöllinni og þar af voru sex þeirra á aldrinum 15-16 ára að keppa á sínu fyrsta senioramóti og stóðu þeir sig frábærlega. JR-ingar unnu fimm gullverðlaun, þrenn silfurverðlauna og þrenn bronsverðlaun.
Viðureignirnar á mótinu voru flestar bæði spennandi og skemmtilegar og auk þess enduðu margar þeirra á fallegu og hreinu ippon kasti. Eitt flottasta og best útfærða kastið er þó líkast til í úrslitaviðureigninni í +100 kg flokki á milli þeirra Bjarna Skúlasonar og Karls Stefánssonar en þar er Bjarni með frábæra tímasetningu (RUV spilari, tími 01.03) þegar hann fer eldsnöggt inn í tai-otoshi og Karl liggur á bakinu eins og hendi væri veifað og Bjarni skorar ippon.
Eins og áður sagði voru flestar viðureignirnar spennandi og skemmtilegar og væri hægt að tilgreina margar en viðureign þeirra Sveinbjörns Iura og Árna Lund í -81 kg flokki var sú viðureign sem beðið var eftir. Þeir félagar hafa æft mikið saman og gjörþekkja hvorn annan og var viðureignin hnífjöfn frá uppphafi til enda. Þegar venjulegum keppnistíma lauk hafði hvorgur skorað en Sveinbjörn var með eitt refsistig en Árni tvö og mátti hann ekki fá það þriðja því þá myndi hann tapa viðureigninni. Í framlengingu (gullskori) pressar Sveinbjörn á Árna þannig að hætta er á að hann stígi út fyrir keppnissvæðið sem má ekki en við það gæti hann fengið sitt þriðja refsistig en Árni var klókur og þegar Sveinbjörn pressaði þá sneri hann sér snöggt inn í seoi-nage og Sveinbjörn sveif yfir hann og Árni fékk waza-ari fyrr kastið og gullverðlaunin voru hans. (RUV spilari, tími 01.22)
Sigurvegarar í öðrum flokkum unnu nokkuð örugglega, Daníel Árnason í -60 kg flokki og Ingólfur Rögnvaldsson í -66 kg flokki unnu viðureignir sínar á ippon og það gerði Kjartan Hreiðarsson einnig í -73 kg flokki en hann mætti gríða einbeittur til leiks, Egill Blöndal -90 kg var eins og kóngur í ríki sínu og sigraði með yfirburðum sem og Ingunn Rut Sigurðardóttir gerði í -70 kg flokki. Í mótslok vor Ingunn Rut Sigurðardóttir og Árni Pétur Lund valin judokona og maður mótsins.
Þetta var í níunda skiptið sem JSÍ stóð að þessu móti í samvinnu við ÍBR og hafa erlendir þátttakendur jafnan verið fjölmennir fram að þessu og á meðal þeirra Ólympíu og heimsmeistarar en í ár var því miður lítið um þá vegna Covid-19 en flestir okkar sterkustu keppendum vor þó með. Judosamband Íslands gaf þó engan afslátt af framkvæmd mótsins og umgjörðin hefur líklega aldrei verið flottari. Nýr glæsilegur keppnisvöllur var vígður, streymt var frá öllu mótinu á youtube og RÚV var með beina útsendingu frá úrslitum. Fjöldi sjálfboðaliða stóð vaktina og allar stöður voru vel mannaðar eins og dómarar, mótsstjórn, tíma og stigaverðir, gæslumenn og sóttvarnarfulltrúar svo eitthvað sé nefnt. Vel gert JSÍ.
Úrslit: 2013, 2014, 2015, 2016, 2017, 2018, 2019, 2020, 2021
Gert klárt fyrir JUDO RIG 2021
Það var vaskur hópur manna sem að tók til hendinni i kvöld og standsetti keppnissvæðið fyrir Reykjavík Judo Open sem haldið verður á morgun í Laugardalshöllinni. Vel gekk að setja niður nýja keppnisvöllinn sem verður vígður á morgun og koma upp þeim búnaði sem þarf til að keyra mótið. Þormóður Jónsson bar hitann og þungann af framkvæmdinni og Davíð Áskelsson sá að venju um tölvubúnaðinn með aðstoð góðra félaga. Hér neðar eru nokkar myndir frá standsetningunni í kvöld.
Hér er keppendalistinn og JSÍ mun streyma frá mótinu og úrslitin verða í beinni útsendingu á RÚV frá kl. 15-16:30.
Reykjavík Judo Open 2021
Reykjavík Judo Open verður haldið í Laugardalshöllinni 30. janúar þ.e. næstkomandi laugardag og hefst það kl. 12:00 með forkeppni en úrslitin verða svo frá kl. 15-16:30. Því miður verða engir áhorfendur leyfðir en JSÍ mun streyma frá mótinu svo hægt verður að fylgjast með því þar og úrslitin verða einnig í beinni útsendingu á RÚV frá kl. 15-16:30. Þetta verður í níunda skiptið sem JSÍ stendur að þessu móti í samvinnu við ÍBR og hafa erlendir keppendur verið fjölmennir á mótunum fram að þessu og á meðal þeirra Ólympíu og heimsmeistarar en í ár verður því miður lítið um erlenda keppendur þar sem Covid-19 kemur í veg fyrir það. Flestir okkar bestu judomanna verða þó með og má búst við spennandi og skemmmtilegri keppni. Vigtun keppenda fer fram hjá Judofélagi Reykjavíkur föstudaginn 29. janúar, óopinber vigtun frá 15-18 og opinber vigtun frá 18-19. Allar upplýsingar má finna á heimasíðu Judosambands Íslands
Ásta Lovísa – Brons 2020 Daníel Dagur – Brons 2020 Ingólfur Rögnvalds – Brons 2020 Zaza Simonishvili – Gull 2020 Ingunn Rut – Gull 2020
Nokkrir verðlaunahafar frá Reykjavík Judo Open 2020