Kjartan og Kristján komnir með 1. dan

Þeir félagar Kjartan Logi Hreiðarsson og Kristján Daðason báðir úr JR þreyttu 1. dan gráðupróf í kvöld og stóðust það með glæsibrag. Þeir tóku prófið saman og voru uke hjá hvor öðrum. Kristján tók 1. kyu 2013 eða fyrir átta árum en Kjartan 2018. Prófdómarar voru þeir Björn Halldórsson (JG) 5. dan og Garðar Skaftason (UMFS) 4. dan. Það er gaman að geta þess að afi Kjartans, Kjartan Svavarsson er einnig svartbelti í judo og einnig langafi hans Svavar Carlsen en hann var árið 1970 fyrsti Íslandsmeistarinn í judo. Kjartan Hreiðarsson er því fjórði ættliðurinn sem æfir og keppir í íþróttinni. Til hamingju með áfangann strákar.

Frá vinstri. Kjartan Hreiðarsson og Kristján Daðason
Kjartan Svavarsson og Kjartan Hreiðarsson
Garðar Skaftason, Kjartan Hreiðarsson, Kristján Daðason og Björn Halldórsson

Nýskráning í Sportabler

Sportabler er vef – og snallsímaforrit sem Judofélag Reykjavíkur er að taka í notkun og gerir skipulagningu og samskipti í starfinu skilvirkari og einfaldari. Kerfið er ætlað þjálfurum, iðkendum, foreldrum og starfsmönnum íþróttafélaga.

Þetta ferli fyrir neðan á einungis við þá sem eru ekki með Sportabler aðgang. Ef þú ert með Sportabler aðgang þarftu ekki kóða til að sjá nýja flokka. Það er nóg fyrir þjálfara/íþróttastjóra JR að bæta iðkandanum við í flokkinn og þá kemur dagskráin sjálfkrafa inn hjá foreldra/leikmanni.

Forsenda þess að geta skráð sig í Sportabler er að þjálfari hafi skráð leikmann með kennitölu í flokkinn.

Hér eru skrefin að skráningu.
1. Skrá í hóp: Fara á www.sportabler.com eða í appstore/playstore til að ná í appið (IOS)/(Android)(mælum með appinu).  Þegar þú opnar appið sérðu neðst á síðunni Nýr notandi? Skráðu þig í hóp. 

2. Setja inn kóða flokksins/hópsins: Þið fáið kóðann frá þjálfara eða leikmanni/aðstandanda sem er nú þegar skráður í flokkinn. Næsta skref er að stimpla kóðann inn. ATH þið getið líka stimplað inn kóðann í gegnum tölvu á sportabler.com—>Innskrá—> Skráning í flokk með kóða ef það hentar betur.

3. Fylla inn skráningaupplýsingar (Velja “Ég er leikmaður” / “Ég er foreldri”eftir því sem við á). Leikmaður setur inn sitt netfang (Netfang leikmanns), foreldri setur inn sitt netfang (Netfang foreldris). Ekki blanda þessum skráningum saman. 

4. Staðfesta netfang í tölvupósti sem þið fáið frá Sportabler: Smella á “hér” þá opnast nýr gluggi (Skref 5). Muna eftir að athuga ruslpóst/spam folder.

5. Búa til lykilorð  Veljið ykkur lykilorð. Samþykkja þarf skilmála Sportabler og hvetjum við ykkur til þess að kynna ykkur þá.

6. Allt klárt ! Skrá sig inn og þá ætti “Mín dagskrá” að taka á móti ykkur. Hér er svo hægt að sjá stutt kynningarmyndband um kerfið.

Spurningar, vandræði eða útskýringar, hafið samband við þjónustuver Sportabler eða í gegnum sportabler@sportabler.com

Hér fyrir neðan eru kóðar flokka til að skrá sig inn í Sportabler.
Veljið þann flokk sem iðkandi stundar.

Börn 4-6 ára, kóði 72221H
Börn 7-10 ára, kóði O2176E
Börn 11-14 ára, kóði AJFKJV
Byrjendur 15 ára og eldri, kóði 6OJL7E
Framhald 15 ára og eldri, kóði OSESPT
Meistaraflokkur JR, kóði YDZ1VB
Old Boys, kóði STVBNR

Páskamót JR og Góu – Úrslit

Páskamót JR og Góu var haldið föstudaginn 30. apríl og laugardaginn 1. maí en því hafði verið frestað vegna samkomubanns. Mótið fór nú fram í sextánda sinn og var öllum judoklúbbum opið eins og venjulega en það var fyrst haldið árið 2005 en féll niður í fyrra vegna Covid-19 og af sömu ástæðu þá var því núna skipt í þrjá hluta. Á föstudaginn var keppt í aldursflokki 11-14 ára, á laugardaginn í aldursflokki 7-10 ára en fyrr um morgunin höfðu börn í aldursflokki 4-6 ára sýnt kunnáttu sína á æfingu hvernig á að bera sig að í keppni. Þátttakendur voru því sextíu og fimm frá fjórum félögum, Judodeild Grindavíkur, Judodeild Selfoss, Judodeild ÍR og Judofélagi Reykjavíkur. Þetta var frábær skemmtun, margar stórglæsilegar viðureignir sáust og börnin sem voru að keppa í fyrsta skiptið voru vel undirbúin fyrir mótið og kunnu meira og minna allra reglur og framkomu. Ekki má gleyma að minnast á dómarana en það voru nokkrir af okkar bestu og reynslumestu judomönnum í yngri kantinum (13-18 ára) sem sáu um dómgæsluna og stóðu þau sig alveg frábærlega en það voru þau Kjartan Hreiðarsson, Skarphéðinn Hjaltason, Aðalsteinn Björnsson, Daron Hancock og Helena Bjarnadóttir sem dæmdu. Mótstjórar voru þeir Ari Sigfússon og Jóhann Másson. Hér eru úrslitin hjá 11-14 ára og hér hjá 7-10 ára.

Börn 4-6 ára ásamt þjálfurum
Keppendur 7-10 ára
Keppendur 11-14 ára

Páskamót JR 2021

Síðbúið Páskamót JR og Góu verður nú haldið í sextánda sinn en það var fyrst haldið 2005 en féll niður 2020 vegna Covid-19. Vegna samkomubanns hefur ekki verið hægt að halda það fyrr en nú og að þessu sinni verður það haldið í tvennu lagi vegna Covid-19. Mótið fer fram í JR eins og venjulega og keppni hjá aldursflokki 11-14 ára (U13 og U15) verður haldin föstudaginn 30. apríl, vigtun frá 16:30-17:00 og mótið hefst svo kl. 17:00 og mótslok áætluð kl. 18:30. Keppni hjá aldursflokki 8-10 ára (U9, U10 og U11) verður haldin laugardaginn 1. maí, vigtun frá 12:00-12:30 og mótið hefst svo kl. 13:00 og mótslok áætluð kl. 14:30. Mótið er opið öllum klúbbum, skráningarfrestur til miðnættis 28. apríl en skráning fer fram í gegnum skráningarkerfi JSÍ. Hér eru úrslitin frá 2019.

Keppni lokið á EM

Þá er keppni okkar manna lokið á EM í Lissabon. Árni Lund keppti í gær í -81 kg flokki og mætti þar heimsmeistaranum í flokknum Sagi Muki frá Ísrael. Árni byrjaði ágætlega en var samt kanski fullmikið að flýta sér og í annars ágætri sókn þegar hann fór í seoinaga náði Sagi mótbragði á Árna og fékk ippon fyrir kastið og Árni þar með fallinn úr keppni. Þó svo að glíman hafi verið stutt þá fer hún í reynslubankann hjá Árna sem er bara rétt að byrja að stíga sín fyrstu skref á stóra sviðinu. Egill Blöndal keppti í dag í -90 kg flokki og mætti þar Milan Randl frá Slóvakíu. Þetta var hörkuviðureign og var Egill öllu betri og með yfirhöndina þegar glíman fór í gullskor því Milan var kominn með eitt shido. Í gullskorinu fékk Milan fljótlega annað shido og hefði tapað á því þriðja en tóks hinsvegar að skora wazaari og þar með var keppninni á EM lokið hjá Agli eins og hjá Árna daginn áður. Hér má sjá glímuna hans Árna og hér er glíman hans Egils og öll úrslitin á EM eru hér.

EM 2021 – Árni Lund mætir heimsmeistaranum

Evrópumeistaramótið 2021 hófst í dag 16. apríl og stendur í þrjá daga en það fer fram í Lissabon í Portugal. Þátttakendur eru 359 frá 45 þjóðum, 210 karlar og 149 konur og á meðal keppenda eru þeir Árni Lund sem keppir í -81 kg flokki og Egill Blöndal sem keppir í -90 kg flokki og með þeim í för er landsliðsþjálfarinn Jón Þór Þórarinsson. Sveinbjörn Iura átti einnig að keppa á mótinu en greindist nýlega jákvæður af covid-19 á Grand Slam móti í Tyrklandi missir hann því af EM.

Í dag er keppt í þremur léttustu flokkum kvenna, -48, -52 og -57 kg og tveimur léttustu flokkum karla, -60 og -66 kg. Á laugardaginn verður keppt í -63 og -70 kg flokkum kvenna og -73 og 81 kg flokkum karla þar sem Árni verður á meðal keppenda og að lokum þá verður á sunnudaginn keppt í -78 og +78 kg flokkum kvenna og -90, -100 og +100 kg flokkum karla þar sem Egill verður á meðal keppenda.

Dregið var í gær og er óhætt að segja að Árni hafi ekki beint haft heppnina með sér en hann mætir Saki Muki frá Ísrael, ríkjandi heimsmeistara og margföldum verðlaunahafa á Grand Slam mótunum. Það verður að segjast eins og er að líkurnar eru ekki Árna megin en hver veit. Árni hefur aldrei keppt á þetta sterku móti, er óþekktur og gæti vel komið á óvart og er alveg líklegur til þess.

Egill mætir Milan Randl frá Slóvakíu sem er í 40. sæti heimslistans og verður það eflaust töff viðureign og allt getur gerst en Egill er orðinn reynslunni ríkari með meðal annars tvö Evrópumeistaramót seniora og þrjú heimsmeistaramót seniora að baki.

Mótið hefst kl. 9 á okkar tíma og er í beinni útsendingu. Til að horfa á þarf að hafa (IJF account) og er hann frír og notast aftur og aftur. Hér er keppnisröðin og drátturinn í öllum flokkum og hér er linkur á mótið á heimasíðu EJU. Hér neðar eru nokkrar myndir af Árna á æfingum í JR og frá RIG 2021 og NM 2019 en Árni er ríkjandi Norðurlandameistari í -81 kg flokki.

Sveinbjörn varð að hætta við þátttöku á GS í Tyrklandi

Frétt af heimasíðu JSÍ

Sveinbjörn Iura sem átti að keppa átti í morgun á Grand Slam Antalya var ekki á meðal þátttakenda en hann greindist með covid-19 veiruna ásamt nokkrum öðrum keppendum og varð því að hætta við þátttöku en eitthvað var um Covid smit á Grand Slam Tblisi um síðustu helgi (sjá hér) og einhver lönd hættu þá við þátttöku. Nánari upplýsingar liggja ekki fyrir að sinni.

Sveinbjörn keppir á GS í Tyrklandi

Antalya Grand Slam 2021 hefst á morgun 1. apríl kl. 7:00 á okkar tíma og stendur í þrjá daga. Þátttakendur eru 442 frá 5 heimsálfum og 93 þjóðum, 270 karlar og 172 konur. Sveinbjörn Iura sem er í 64 sæti heimslistans er á meðal þátttakenda og er Yoshihiko Iura faðir hans honum til aðstoðar. Sveinbjörn keppir á föstudaginn í 81 kg flokki en það er fjölmennasti flokkurinn á mótinu og eru keppendur þar fjörtíu og átta. Þann dag hefst mótið kl. 7:45 og á Sveinbjörn sextándu viðureign á velli 1. svo hún væri þá um kl. 9:00. Dregið var í dag og mætir Sveinbjörn keppanda frá Ukraníu, Hievorh Manukian sem er í 196. sæti heimslistans (Wrl). Ef að vel gengur og hann vinnur UKR þá er hann kominn í 32 manna úrslit og mætir þá keppanda frá Grikklandi, Athanasios Milonelis (179 Wrl) sem hann þarf að sigra til að komast í 16 sæti sem er það sama og hann komst í á GS í Tblisi síðustu helgi. Mótið er í beinni útsendingu og til að horfa á þarf að hafa (IJF account) og er hann frír og notast aftur og aftur. Hér er keppnisröðin og drátturinn í öllum flokkum.