Frá æfingum með Hugo Lorain

Hugo Lorain sem var þjálfari hjá JR 2017/2018 kom í stutta heimsókn í síðustu viku og var með æfingar hjá 11-14 ára og framhalds og meistaraflokki. Æfingarnar sem voru opnar öllum klúbbum voru vel sóttar og mættu þegar mest var hjá meistaraflokki tæplega fjörtíu manns. Æfingarnar voru skemmtilegar og jafnframt erfiðar en þær samanstóðu af tækni, þrek og úthaldsæfingum og voru þátttakendur virkilega ánægðir og sáttir að þeim loknum. Hér neðar eru nokkrar myndir frá æfingunum og videoklippa. Takk fyrir komuna Hugo.

Úrslit Afmælismóts JR 2021 – yngri flokkar

Afmælismót JR í yngri aldursflokkum var haldið í gær laugardaginn 23. okt. Þátttakendur voru rúmlega fimmtíu og komu þeir frá sex judoklúbbum. Fyrir utan keppendur frá JR þá voru keppendur frá Judodeild Ármanns, Judodeild Selfoss, Judodeild ÍR, Judodeild Grindavíkur og frá yngsta judofélagi landsins, Judofélagi Reykjanesbæjar (JRB) komu níu keppendur sem stóðu sig afar vel og urðu í öðru sæti á eftir JR. Þrátt fyrir að mótið hæfist ekki á tilsettum tíma sökum breytinga á skráningu keppenda og endurröðun sem því fylgdi og síðan bilun í tölvu að þá tókst það nokkuð vel og lauk því um kl. 16 eða hálftíma á eftir áætlun. Starfsmenn mótsins voru þeir Ari Sigfússon og Jóhann Másson sáu um undirbúning, vigtun, og mótsstjórn og nokkrir af okkar bestu judomönnum í dag og landsliðsmenn í U18 og U21 árs sáu um önnur störf og leystu þau vel af hendi en það voru þeir Skarphéðinn Hjaltason sem hafði umsjón með klukku og stigagjöf og þeir Andri Fannar Ævarsson, Aðalsteinn Karl Björnsson og Nökkvi Viðarsson sáu um dómgæsluna. Mótið var skemmtilegt, fullt af góðum viðureignum og gaman að fylgjast með tilvonandi judo meisturum en margir hverjir sýndu mjög flott tilþrif. Á æfingu barna fyrr um morguninn sýndu JR iðkendur 4-6 ára getu sína og kunnáttu og fengu öll gullverðlaun að lokinni æfingu .

Hér eru myndir frá mótinu og verðlaunahöfum en einhverjir þurftu að fara áður en verðlaunaafhendingin hófst og vantar því nokka á myndirnar. Hér eru úrslitin og video klippa frá mótinu.

Afmælismót JR í yngri flokkum

Afmælismót JR 2021 í yngri aldursflokkum verður haldið næsta laugardag þ.e. laugardaginn 23. október og hefst það kl. 13:00.
Mótið er opið öllum klúbbum, engin lágmarksgráða og keppt í eftirfarandi aldursflokkum.
Aldursflokkar: U9, U10 og U11 (8, 9 og 10 ára) fæðingarár, 2013, 2012, 2011.
Aldursflokkar: U13 (11-12 ára) og U15 (13-14 ára) fæðingarár, 2010, 2009 og 2008 og 2007.

Húsið opnar kl. 12:00 á laugardaginn og verða krakkarnir þá vigtaðir frá kl. 12:00 til 12:30.
Mæta tímanlega í vigtun því eftir að henni lýkur kl. 12:30 eru þeir afskráðir sem mættu ekki.

Keppnin hefst svo kl. 13:00 og ætti að ljúka um kl. 15:30.
Börn 8-10 ára frá 13:00-14:00 og börn 11-14 ára frá 14:00-15:30
Tímasetningar gætu breytst svo nánari tímasetning verður tilkynnt að lokinni skráningu.

Skráning til miðnættis 21. október í skráningarkerfi JSÍ.
Keppnisgjald 1.000 kr greiðist af félagi viðkomandi keppanda.

Hugo verður á æfingu í JR

Vinur okkar Hugo Lorain sem var þjálfari hjá JR 2017/2018 er væntanlegur í stutta heimsókn vikunni. Hann mun mæta á æfingu hjá framhaldsflokki á fimmtudag kl. 18:30 og föstudag kl. 17:15 hjá 11-14 ára og 18:30 hjá meistaraflokki. Æfingarnar verða opnar öllum og eru landsliðsmenn seniora og U18/21 sérstaklega hvattir til að mæta báða dagana. Hér neðar eru nokkar myndir af Hugo á æfingum og í keppni en hann keppti meðal annars á RIG 2018 og vann þar gullverðlaunin í -100 kg flokki.

Æfingahelgi með Færeyingum

Dagana 9-10 október voru haldnar æfingar í JR með frændum okkar frá Færeyjum en hingað komu sautján keppendur í aldursflokkunum U15 og U18 auk þjálfara og foreldra. Því miður var töf á fluginu hjá þeim á föstudeginum svo ekki varð að sameiginlegri æfingu þann daginn en í staðinn var sunnudeginum bætt við þannig að æfingarnar urðu þrjár, tvær á laugardegi og ein á sunnudegi og voru þær mjög vel sóttar en um fjörtíu voru á æfingunni þegar mest var. Æfingahelgin var mjög vel heppnuð og ákaflega ánægjulegt að fá þessa heimsókn frá Færeyjum sem við þurfum að endurgjalda einhven daginn. Takk fyrir komuna Færeyingar.

Opna Finnska 2021 – Upplýsingar

Upplýsingar varðandi ferð á Opna Finnska 28.-31. október

Athugið að börn undir 18 ára aldri sem ferðast ein eða í fylgd ættingja, íþrótta- eða skólahópa þurfa að hafa meðferðis frá foreldrum samþykkisyfirlýsingu, sjá nánar hér.

Ferðin út

Við ætlum að hittast á brottfararsal Keflavíkurflugvallar í síðasta lagi kl 5:30 þann 28. október. Farastjóri mun halda utanum alla miða fyrir alla.

Flogið verður með flugi FI306 kl 07:35 til Stokkhólms, og svo verður skipt um vél og fer sú vél kl 16:40. Komutími til Finnlands er áætlaður kl 18:40. Því næst verður ferðast með rútu til Turku og tekur ferðalagið sirka tvær klukkustundir.

Ferðin heim

Rúta mun sækja okkur á hótelið kl 3:30 um morgunin og keyra okkur á flugvöllin. Við eigum flug kl 7:45 flugnúmer AY0801til Stokkhólms. Tengiflugið fer svo í loftið í Stokkhólmi kl 12:55 flugnúmer : FI307 og er áætlaður komutími 15:10 til Keflavíkur.

Hótel

Hótelið sem verður dvalið á er á heitir Original Sokos Hotel Kupittaa. Morgunmatur er innifalin og er staðsett hliðina á keppnishöllinni og lestarstöðinni.

Vigtun

Vigtað er inn á föstudeginum kl 19-21:30. Keppendur þurfa að sýna vegabréf

Judogallar

Allir keppendur nema þeir sem keppa bara í U15 verða að vera með hvítan og bláan galla. Gallar þurfa ekki að vera “RED label”. Mælt er með að keppendur hafi baknúmer á gallanum sínum, en það er ekki skylda á þessu móti.

Ráðstafanir vegna Covid

Á leiðinni út:

Allir fæddir 2006 og síðar þurfa ekki að gera neinar ráðstafanir.

Allir aðrir þurfa að forskrá sig fyrir komuna til Finnlands.

Allir aðrir þurfa að hafa meðferðis bólusetningarvottorð eða vottorð sem sýnir fram á að aðili hafi sýkst af covid-19.

Aðili sem er fæddur 2005 eða fyrr þarf að fara í 3 daga sóttkví við komu til Finnlands ef hann er ekki bólusettur.

Á heimleiðinni:

Allir fæddir 2005 og síðar þurfa ekki að gera neinar ráðstafanir.

Allir aðrir þurfa að forskrá sig fyrir komuna til landsins .

Allir aðrir þurfa að sýna fram á bólusetningarvottorð. Vottorð um fyrra smit af Covid og vottorð um bólusetningu gegn Covid er hægt að nálgagst á vef Heilsuvera.is undir flipanum Covid-19. Þau eru ókeypis.

Aðili sem er fæddur 2004 eða fyrr og er ekki bólusettur þarf að hann fara í 5 daga sóttkví við komu til landsins og fara í tvo Pcr próf.

Þormóður Á. Jónsson
Framkvæmdastjóri
Judosamband Íslands
S:6923595/5144048

Judoiðkendur frá Færeyjum í heimsókn

Í dag kemur sautján manna hópur ungra judoiðkenda frá Færeyjum til landsins. Flestir eru í aldursflokknum U13 og U15 (11-14 ára) og nokkrir í U18 (15-17 ára). Það verða haldnar þrjár æfingar með þeim í JR. Áætlað er að fyrsta æfingin verði í dag frá kl. 17:00 til 18:30 fyrir U13 og U15 og svo munu Færeyingarnir í U18 mæta á æfinguna kl. 18:30 hjá meistaraflokki. Því miður er töf á fluginu hjá þeim svo líklega ná þeir ekki fyrri æfingunni en þeirri seinni ættu þeir að ná. Á morgun laugardag verða tvær æfingar fyrir báða aldursflokka. Fyrri æfingin verður frá kl. 11:30 til 13:00 og sú seinni frá kl. 17:00 til 18:30. Allir aldursflokkarnir (U13/U15/U18) æfa á sama tíma en þeir glíma að sjálfsögðu ekki saman og verður þeim skipt niður á dýnurnar eftir aldri. Látið ykkur nú ekki vanta, mætið tímanlega og reynið ykkur við frændur ykkar frá Færeyjum. Iðkendur úr öðrum klúbbum í þessum aldursflokkum eru að sjálfsögðu velkomnir og vonumst við til þess að sjá sem flesta.

Hafa lokið keppni á HM juniora

Þá hafa þeir Kjartan Hreiðarsson og Ingólfur Rögnvaldsson lokið keppni á sínu fyrsta heimsmeistaramóti juniora sem haldið er þessa dagana í Olbia á Sardiníu. Því miður þá lutu báðir í lægra haldi gegn andstæðingum sínum eftir stutta viðureign og báðir töpuðu þeir viðureignum sínum í gólfglímunni sem kom á óvart því báðir eru þeir mjög öflugir þar. Þeir hófu keppni í 64 manna útslætti en aðeins 32 komast áfram í aðra umferð. Eins og venja er á heimsmeistaramótum þá er keppt með útsláttarfyrirkomulagi og engar uppreisnarglímur nema fyrir þá sem komast alla leið í átta manna úrslit og er það löng leið. Þó svo að glímurnar hafi ekki orðið fleiri hjá þeim að þessu þessu sinni þá eru þeir reynslunni ríkari og munu án nokkurns vafa mæta sterkari til leiks næst. Hér má sjá viðureignir þeirra (Ingólfur) (Kjartan) og úrslitin í öllum flokkum.

Búið að draga á HM juniora

Þá er búið að draga á Heimsmeistaramóti Juniora 2021 og í -66 kg flokknum drógst Ingólfur Rögnvaldsson gegn David Ickes frá Þýskalandi en hann situr í 112 sæti heimslistans og í -73 kg flokknum mætir Kjartan Hreiðarsson keppanda frá USA Dominic Rodriguez sem er í 13 sæti heimslistas. Keppnin hefst á morgun kl. 7 að íslenskum tíma, keppt verður á þremur völlum og á Ingólfur 10. glímu á velli 3 sem gæti verið um kl. 7:40. Kjartan keppir á fimmtudaginn og þá hefst keppnin kl. 8 að íslenskum tíma og á Kjartan 6. glímu á velli 1. sem gæti verið um kl. 8:25. Upplýsingar um dráttinn, keppnisröðina, beina útsendinguna og fleira má finna hér.  Til að horfa á beina útsendingu þarf að hafa (IJF account) sem er frír og notast aftur og aftur. Keppnisröðin Drátturinn  – Bein útsending