Keppni lokið á EM

Þá er keppni okkar manna lokið á EM í Lissabon. Árni Lund keppti í gær í -81 kg flokki og mætti þar heimsmeistaranum í flokknum Sagi Muki frá Ísrael. Árni byrjaði ágætlega en var samt kanski fullmikið að flýta sér og í annars ágætri sókn þegar hann fór í seoinaga náði Sagi mótbragði á Árna og fékk ippon fyrir kastið og Árni þar með fallinn úr keppni. Þó svo að glíman hafi verið stutt þá fer hún í reynslubankann hjá Árna sem er bara rétt að byrja að stíga sín fyrstu skref á stóra sviðinu. Egill Blöndal keppti í dag í -90 kg flokki og mætti þar Milan Randl frá Slóvakíu. Þetta var hörkuviðureign og var Egill öllu betri og með yfirhöndina þegar glíman fór í gullskor því Milan var kominn með eitt shido. Í gullskorinu fékk Milan fljótlega annað shido og hefði tapað á því þriðja en tóks hinsvegar að skora wazaari og þar með var keppninni á EM lokið hjá Agli eins og hjá Árna daginn áður. Hér má sjá glímuna hans Árna og hér er glíman hans Egils og öll úrslitin á EM eru hér.

EM 2021 – Árni Lund mætir heimsmeistaranum

Evrópumeistaramótið 2021 hófst í dag 16. apríl og stendur í þrjá daga en það fer fram í Lissabon í Portugal. Þátttakendur eru 359 frá 45 þjóðum, 210 karlar og 149 konur og á meðal keppenda eru þeir Árni Lund sem keppir í -81 kg flokki og Egill Blöndal sem keppir í -90 kg flokki og með þeim í för er landsliðsþjálfarinn Jón Þór Þórarinsson. Sveinbjörn Iura átti einnig að keppa á mótinu en greindist nýlega jákvæður af covid-19 á Grand Slam móti í Tyrklandi missir hann því af EM.

Í dag er keppt í þremur léttustu flokkum kvenna, -48, -52 og -57 kg og tveimur léttustu flokkum karla, -60 og -66 kg. Á laugardaginn verður keppt í -63 og -70 kg flokkum kvenna og -73 og 81 kg flokkum karla þar sem Árni verður á meðal keppenda og að lokum þá verður á sunnudaginn keppt í -78 og +78 kg flokkum kvenna og -90, -100 og +100 kg flokkum karla þar sem Egill verður á meðal keppenda.

Dregið var í gær og er óhætt að segja að Árni hafi ekki beint haft heppnina með sér en hann mætir Saki Muki frá Ísrael, ríkjandi heimsmeistara og margföldum verðlaunahafa á Grand Slam mótunum. Það verður að segjast eins og er að líkurnar eru ekki Árna megin en hver veit. Árni hefur aldrei keppt á þetta sterku móti, er óþekktur og gæti vel komið á óvart og er alveg líklegur til þess.

Egill mætir Milan Randl frá Slóvakíu sem er í 40. sæti heimslistans og verður það eflaust töff viðureign og allt getur gerst en Egill er orðinn reynslunni ríkari með meðal annars tvö Evrópumeistaramót seniora og þrjú heimsmeistaramót seniora að baki.

Mótið hefst kl. 9 á okkar tíma og er í beinni útsendingu. Til að horfa á þarf að hafa (IJF account) og er hann frír og notast aftur og aftur. Hér er keppnisröðin og drátturinn í öllum flokkum og hér er linkur á mótið á heimasíðu EJU. Hér neðar eru nokkrar myndir af Árna á æfingum í JR og frá RIG 2021 og NM 2019 en Árni er ríkjandi Norðurlandameistari í -81 kg flokki.

Sveinbjörn varð að hætta við þátttöku á GS í Tyrklandi

Frétt af heimasíðu JSÍ

Sveinbjörn Iura sem átti að keppa átti í morgun á Grand Slam Antalya var ekki á meðal þátttakenda en hann greindist með covid-19 veiruna ásamt nokkrum öðrum keppendum og varð því að hætta við þátttöku en eitthvað var um Covid smit á Grand Slam Tblisi um síðustu helgi (sjá hér) og einhver lönd hættu þá við þátttöku. Nánari upplýsingar liggja ekki fyrir að sinni.

Sveinbjörn keppir á GS í Tyrklandi

Antalya Grand Slam 2021 hefst á morgun 1. apríl kl. 7:00 á okkar tíma og stendur í þrjá daga. Þátttakendur eru 442 frá 5 heimsálfum og 93 þjóðum, 270 karlar og 172 konur. Sveinbjörn Iura sem er í 64 sæti heimslistans er á meðal þátttakenda og er Yoshihiko Iura faðir hans honum til aðstoðar. Sveinbjörn keppir á föstudaginn í 81 kg flokki en það er fjölmennasti flokkurinn á mótinu og eru keppendur þar fjörtíu og átta. Þann dag hefst mótið kl. 7:45 og á Sveinbjörn sextándu viðureign á velli 1. svo hún væri þá um kl. 9:00. Dregið var í dag og mætir Sveinbjörn keppanda frá Ukraníu, Hievorh Manukian sem er í 196. sæti heimslistans (Wrl). Ef að vel gengur og hann vinnur UKR þá er hann kominn í 32 manna úrslit og mætir þá keppanda frá Grikklandi, Athanasios Milonelis (179 Wrl) sem hann þarf að sigra til að komast í 16 sæti sem er það sama og hann komst í á GS í Tblisi síðustu helgi. Mótið er í beinni útsendingu og til að horfa á þarf að hafa (IJF account) og er hann frír og notast aftur og aftur. Hér er keppnisröðin og drátturinn í öllum flokkum.

Sveinbjörn komst í 16 manna úrslit

Þá eru tveir af þremur keppnisdögum lokið á Tbilisi Grand Slam 2021Sveinbjörn Iura keppti í dag og mætti Theodoros Demourtsidis frá Grikklandi í þrjátíu og tveggja manna útslætti. Þetta var hörkuviðureign og spennandi þar sem ekkert var gefið eftir. Eftir venjulegan glímutíma hafði hvorugur skorað en Sveinbjörn hafði verið öllu sterkari og var Theodoros kominn með tvö rerfsistig en Sveinbjörn ekkert. Glíman fór því í gullskor og sigraði Sveinbjörn örugglega með fastataki eftir rúmar tvær mínútur og þar með kominn í sextán manna úrslit. Þar mætti hann Sami Chouchi frá Belgíu sem er í 19. sæti heimslistans en varð að lúta í lægra haldi fyrir honum þegar glíman var umþað bil hálfnuð og lauk þar með keppni á mótinu en Sami gerði sér lítið fyrir og fór alla leið í úrslitin og stóð uppi sem sigurvegari í lok dagsins. Þessi góði árangur Sveinbjörns í dag gefur honum 160 punkta og færist hann því að öllum líkindum upp um tíu sæti á heimslistanum og gæti þá verið í kringum 64 sæti en nýr listi verður birtur á mánudaginn. Hér neðar er videoklippa þegar Sveinbjörn kastar Grikkjanum og fer beint í fastatak í framhaldi af því. Hér má sjá báðar glímurnar hans Sveinbjörns og öll úrslit mótsins.

Brot úr fyrri glímu Sveinbjörns á Tblisi Grand Slam 2021

Sveinbjörn keppir á Tbilisi Grand Slam

Tbilisi Grand Slam 2021 hófst í dag 26. mars og stendur í þrjá daga. Þátttakendur eru 464 frá 5 heimsálfum og 80 þjóðum, 253 karlar og 211 konur.  Sveinbjörn Iura sem er í 72 sæti heimslistans er á meðal þátttakenda og er Yoshihiko Iura faðir hans honum til aðstoðar. Sveinbjörn keppir á morgun laugardag í 81 kg flokki en það er næst fjölmennasti flokkurinn á mótinu og eru keppendur þar fjörtíu og þrír. Mótið hefst kl. 6:00 í fyrramálið á okkar tíma og á Sveinbjörn tuttugustu viðureign á velli 1. svo hún væri þá um kl. 7:30. Dregið var í gær og mætir Sveinbjörn keppanda frá Grikklandi, Theodoros Demourtsidis sem er í 419. sæti heimslistans. Þó svo að Sveinbjörn sé ofar á heimslistanum þá er Theodoros sýnd veiði en ekki gefinn. Þetta er ungur keppandi en mjög öflugur og sigraði hann t.d. Svíann Robin Pacek á Evrópumeistarmótinu í Prag í fyrra en Robin er í 26 sæti listans. Mótið er í beinni útsendingu og til að horfa á hana þarf að hafa (IJF account) og er hann frír og notast aftur og aftur. Hér er keppnisröðin og drátturinn í öllum flokkum.

Æfingahlé til 15. apríl vegna Covid-19

Íþróttastarf verður óheimilt um allt land næstu 3 vikurnar eða til 15. apríl samkvæmt nýjum sóttvarnaráðstöfunum sem taka gildi á miðnætti í kvöld. Það verða því engar æfingar hjá JR næstu vikurnar en nánar hér neðar.

Hertar takmarkanir á samkomubanni vegna Covid-19

Vegna hópsýkinga og fjölgunar á Covid-19 smitum í samfélaginu þá hafa stjórnvöld gripið til hertra sóttvarnaaðgerða.
Hópsýkingarnar eru allar af völdum breska afbrigðis kórónaveirunnar sem er mun meira smitandi en flest önnur afbrigði og veldur frekar alvarlegum veikindum. Sóttvarnalæknir leggur áherslu á að hertar aðgerðir taki nú til barna allt frá grunnskólaaldri þar sem sýnt þykir að breska afbrigðið veldur meiri einkennum hjá eldri börnum en önnur afbrigði veirunnar.

Heilbrigðisráðuneytið hefur birt nýja reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, sem tekur gildi á miðnætti og mun gilda í þrjár vikur eða til 15. apríl.  Helstu þættir sem varða íþróttastarfið eru eftirfarandi:

Nándarregla verður áfram tveir metrar og reglur um grímuskyldu óbreyttar. Sem fyrr verða börn fædd 2005 og síðar undanþegin grímuskyldu en falla undir fjölda- og nálægðartakmarkanir. Börn í leikskólum eru undanþegin tveggja metra reglunni og fjöldatakmörkunum.

  • Almennar fjöldatakmarkanir miðast við 10 manns og ná til allra sem fæddir eru 2014 eða fyrr.
  • Sund- og baðstaðir verða lokaðir.
  • Heilsu- og líkamsræktarstöðvar verða lokaðar.
  • Íþróttir barna og fullorðinna, þar með taldar æfingar og keppni innan- eða utandyra, sem krefjast meiri nálægðar en tveggja metra á milli einstaklinga eða þar sem hætta er á snertismiti vegna sameiginlegs búnaðar, eru óheimilar.  

Sjá nánar reglugerð heilbrigðisráðuneytis:

Reglugerð heilbrigðisráðuneytis sem gildir frá 25. mars 2021

Vormót seniora 2021 – Úrslit

Vormót JSÍ í karla og kvenna flokkum var haldið í dag og fór það fram í æfingasal JR. Nokkuð var um veikindi og fækkaði því keppendum þó nokkuð á síðustu stundu en keppendur voru frá Judodeild Ármanns, Judodeild Grindavíkur, Judodeild ÍR, Judofélagi Reykjavíkur, Judodeild Selfoss og Judodeild Tindastóls. Mótið sem var skemmtilegt með fullt af flottum og spennandi viðureignum og glæsilegum köstum hófst kl. 13 og lauk um kl. 15. Hér eru videoklippur frá mótinu, fyrri hluti og seinni hluti og hér neðar eru myndir af verðlaunahöfum og fleiri myndir frá mótinu og hér eru svo úrslitin.