Þrenn gullverðlaun á EM smáþjóða

Evrópumeistaramót Smáþjóða (GSSE) í Judo fór fram í dag, 5. nóvember Í Luxembourg. Þetta var í fyrsta skipti sem mót þetta var haldið og því voru fyrstu Evrópumeistarar Smáþjóða krýndir í dag. Fram að þessu hafa iðulega níu þjóðir keppt á GSSE en það eru Andorra, Ísland, Kýpur, Liechtenstein, Luxembourg, Malta, Monako, Svartfjallaland og San Marino. Í þessu móti eru ekki eru skráðir keppendur frá Svartfjallalandi né Monako en hinsvegar eru Færeyingar með keppendur og einnig Úkranía svo þátttökuþjóðirnar voru níu og keppendur alls 109.

Íslensku keppendurnir voru tíu og kepptu fimm þeirra í karlaflokki og fimm í U18 aldursflokki. Í karlaflokki náðu lengst þeir Egill Blöndal og Karl Stefánssonar en þeir unnu báðir til gullverðlauna. Egill mætti Raphael Schwendinger frá Lichtenstein í úrslitum í -90 kg flokki og sigraði örugglega með armlás eftir u.þ.b þrjár mínútur og það sama gerði Karl í +100 kg flokki en hann sigraði Edvard Johannesen frá Færeyjum í úrslitum. Kjartan Hreiðarsson vann fyrstu viðureign í -73 kg flokki gegn Lichtenstein en tapaði næstu gegn Kýpur. Hann mætti öðrum keppanda frá Kýpur um bronsverðlaunin en varð að játa sig sigraðan og endaði Kjartan því í 5. sæti. Aðalsteinn Björnsson keppti einnig í karlaflokki -73kg en komst ekki áfram þar. Ingólfur Rögnvaldsson keppti í -66 kg flokki og byrjaði vel og leiddi fyrstu viðureign gegn Konstantinos Georgiou frá Kýpur með wazaari en þegar aðeins um 20 sek voru eftir af glímunni náði Konstantinos að skora ippon. Þar sem Konstantinos fór í úrslit síðar um daginn fékk Ingólfur uppreisnarglímu og mætti Fridi Carlson frá Færeyjum. Sú glíma var svipuð þeirri fyrri, Ingólfur var sterkari aðilinn og leiddi viðureignina með wazaari og var í lítilli hættu en Fridi komst óvænt inn í bragð (Osotogari) og skoraði ippon og þar með var Ingólfur úr leik og endaði í 7. sæti. Skarphéðinn Hjaltason keppti í -90 kg flokki og byrjaði vel gegn Raphael Schwendinger frá Lichtenstein og skoraði fljótlega á hann wazarri en Raphael náði að svara fyrir sig og komst inn í bragð og skoraði einnig wazaari og náð síðan í framhaldi að halda Skarphéðni í gólfinu. Skartphéðinn mætti næst Petur Petersen frá Færeyjum og sigrar hann á ippon eftir rúma mínútu. Skarphéðinn keppti næst um bronsverðlaunin gegn Valerian Ogbaidze frá Möltu og varð að lúta í lægra haldi gegn honum.

Í keppni unglinga U18 var það frammistaða Aðalsteins Karls Björnssonar og Darons Hancock sem stóð upp úr. Þeir mættust úrslitum í U18 -73kg flokki en höfðu áður lagt af velli keppendur frá Möltu og Andorra. Aðalsteinn tryggði sér gullverðlaunin eftir hörku viðureign gegn Daron sem tók þá silfurverðlaunin en þeir þekkjast orðið nokkuð vel enda æfingafélagar og glímur þeirrra oft afar jafnar. Mikael Ísaksson keppti einnig í U18 -73 kg flokki en komst ekki áfram að þessu sinni.

Í U18 -66 kg kepptu þeir Romans Psenicijs og Nökkvi Viðarsson. Romans tapaði gegn Iakovos frá Kýpur en fékk ekki uppreisn þar sem Iakovos tapaði næstu viðureign og Romans því úr leik. Nökkvi sat hjá í fyrstu umferð en mætti síðan keppanda frá Kýpur, Konstantinos og tapaði gegn honum. Konstantinos vann hins vegar allar sínar viðureignir og sigraði í flokknum síðar um daginn sem þýddi það að Nökkvi fékk uppreisn og sigraði keppanda frá Andorra í næstu viðureign á ippon með fallegu sópi en tapaði svo í baráttunni um bronsið gegn keppanda frá Lichtenstein og endaði Nökkvi því í 5. sæti.

Hér eru öll úrslitin og video frá keppninni og hér neðar eru myndir af íslensku keppendunum af heimasíðu EJU.