Nú styttist í Norðurlandamótið sem haldið verður hér á landi um helgina í Íþróttahúsinu Digranes í Kópavogi. Keppendur eru um þrjúhundruð og tuttugu frá öllum Norðurlöndunum og er þetta fjölmennasta norðurlandamótið í judo sem haldið hefur verið hér á landi. Fyrir utan keppni í karla og kvenna flokkum þá verður einnig keppt í U21 árs og U18 ára aldursflokkum og auk þess í aldursflokkum 30 ára og eldri og að lokum verður keppt í blandaðri liðakeppni. Á laugardaginn verður keppt í senioraflokkum karla og kvenna og einnig í aldursflokkum karla og kvenna U18. Á sunnudaginn verður svo keppti í aldursflokki U21 árs karla og kvenna og Veterans þ.e. 30 ára og eldri. Að lokum verður svo liðakeppni seniora í blönduðum sveitum karla og kvenna í eftirfarandi þyngdarflokkum, -57, -73 -70, -90, +70 og +90. Keppnisplan/schedule
Helena og Daníel með silfur og brons
Það voru átján keppendur frá Íslandi sem tóku þátt í Copenhagen Open 2022 um helgina og voru þeir frá JR, JRB, KA og Selfossi. Á föstudaginn var kepptum við í aldursflokki U18 og í dag í aldursflokkum U15 og 18 ára og eldri. Þetta var fjölmennt og sterkt mót, keppendur um 750 sem komu víða að. Okkar keppendur stóðu sig misvel eins og gengur og allflestir unnu eina eða fleiri viðureignir en það voru þau Helena Bjarnadóttir úr JR og Daníel Árnason úr JRB sem komust lengst. Helena keppti til úrslita í U15 ára aldursflokki +57 kg þar sem keppendur voru ellefu. Hún vann þar þrjár viðureignir með yfirburðum en tapaði þeirri fjórðu í úrslitum og fékk silfurverðlaunin. Daníel keppti í karlaflokki -60 kg en þar voru keppendur sextán. Hann vann fyrstu tvær viðureignirnar en tapaði í undanúrslium og keppti því um bronsverðlaunin síðar um daginn og sigraði og tók bronsverðlaunin. Þau Weronika Komandera sem keppti í U15-52 kg og Ingólfur Rögnvaldsson sem keppti í karlaflokki -66 kg komust næstlengst en þau höfnuðu í sjöunda sæti. Ingólfur gerði sér lítið fyrir og vann þar fjórar af sex viðureignum en þar sem flokkurinn var það fjölmennur (40 manns) dugði þessi glæsilegi árangur hans ekki til að landa verðlaunum. Til hamingju öll með árangurinn. Hér eru úrslitin og myndir frá mótinu.
Páskafrí hjá JR
Það er komið páskafrí hjá JR. Æfingar hefjast aftur samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 19. apríl. Það gæti þó verið að það verði æfing annan í páskum fyrir 15 og eldri og verður það þá auglýst hér.
Gleðilega páska.
Copenhagen Open 2022
Copenhagen Open 2022 hefst næsta föstudag og verður fjöldi keppenda frá Íslandi úr nokkrum klúbbum á meðal þátttakenda og keppa í aldursflokkum U15, U18 og +18 ára. Frá JR fara þau Aðalsteinn Björnsson, Daron Hancock, Mikael Ísaksson, Nökkvi Viðarsson, Helgi Hrafnsson og Romans Psenicnijs, Weronika Komandera og Helena Bjarnadóttir sem keppa í U18 á föstudaginn og á laugardaginn keppa þær Helena og Weronika aftur og þá í aldursflokki U15 sem og Logi Andersen. Aðrir frá JR eru Kjartan Hreiðarsson, Ingólfur Rögnvaldsson, Skarphéðinn Hjaltason sem einnig keppa á laugardaginn í aldursflokki 18 ára og eldri. Á myndinni hér að ofan sem tekin var að lokinni æfingu á mánudaginn eru nokkrir keppenda JR sem fara til Danmerkur ásamt þjálfurum en hópurinn leggur af stað í fyrramálið. Að loknu móti taka svo við æfingabúðir á sunnudag og kemur hópurinn svo heim á mánudaginn. Hér má sjá úrslitin og hér er svo heimasíða mótsins og facebook síðan.
Páskamót JR 2022
Páskamót JR og Góu verður nú haldið í sautjánda sinn og er það opið öllum klúbbum eins og venjulega. Vegna tíðra móta næstu helgar langt fram í maí verður mótið haldið í þrennu lagi dagana 28-30. apríl. Fimmtudaginn 28. apríl eru það aldursflokkar 7-10 ára og er mæting í vigtun frá 16-16:30 og mótið hefst svo kl. 17:00 og lýkur kl. 18:30. Sama dagskrá er föstudaginn 29. apríl fyrir U13 og U15 (11-14 ára) mæting í vigtun frá 16-16:30 og mótið hefst svo kl. 17:00 og lýkur kl. 18:30. Laugardaginn 30. apríl er eingöngu innanfélagsmót JR fyrir börn 5-6 ára og haldið á æfingatíma þeirra frá 10-11. Skráningarfrestur er til miðnættis 25. apríl og fer skráning fram í gegnum skráningarkerfi JSÍ. Hér eru úrslitin 2021 hjá 11-14 ára og hér hjá 7-10 ára.
Norðurlandamótið 23-24 apríl 2022
Nú styttist í Norðurlandamótið sem haldið verður hér á landi 23 og 24 apríl næstkomandi. Þetta verður líklega fjölmennasta norðurlandamótið í judo sem haldið hefur verið hér á landi en erlendir þátttakendur eru rétt um þrjúhundruð. Fyrir utan keppni í karla og kvenna flokkum þá verður einnig keppt í U21 árs og U18 ára aldursflokkum og auk þess í aldursflokkum 30 ára og eldri og eru allmargir skráðir þar. Skráning Íslendinga er ekki komin en skráningarfrestur er til miðnættis mánudagsins 11. apríl.
Afhending viðurkenninga vegna 2021
Föstudaginn 8. apríl fór fram síðbúin afhending viðurkenninga ÍSÍ til íþróttafólks sérsambanda ÍSÍ 2021 en Árni Pétur Lund og Ingunn Rut Sigurðardóttir bæði úr JR voru judomenn ársins 2021 og fengu sína viðurkenningu frá ÍSÍ. Meira hér.
Heimsókn frá BJJ
Það var frekar fámennt á 30+ gólfglímuæfingunni síðasta laugardag og hafa fermingarnar kanski eitthvað haft með það að gera en við fengum tvo góða gesti sem æfa BJJ í heimsókn sem bætti upp fámennið og þökkum við þeim félögum fyrir komuna.
Copenhagen Open 2022 – upplýsingar
Upplýsingar varðandi ferðina á Copenhagen Open 14.-18. apríl
Ferðin út. Við ætlum að hittast í brottfararsal Keflavíkurflugvallar í síðasta lagi kl 4:30 þann 14. apríl. Farastjóri mun halda utanum alla miða. Flogið verður með flugi OG900 kl 06:30 til Kaupmannahafnar og komutími þar er áætlaður kl 11:30. Rúta sækir okkur á flugvöllinn.
Ferðin heim. Rúta sækir okkur á hótelið kl 9:30 um morguninn og keyrir okkur á flugvöllinn. Við eigum flug kl 12:30 flugnúmer OG901 og er áætlaður komutími í Keflavík kl. 13:55.
Hótel. Hótelið heitir Next House Copenhagen. Morgunmatur er ekki innifalin.
Upplýsingar um mótið. Sjá hér.
Vigtun. Þeir sem keppa á föstudeginum (U18) vigta sig á milli kl. 15-21 á fimmtudeginum. Þeir sem keppa á laugardeginum (U15 og +18 ára) vigta sig á milli kl. 15-20 á föstudeginum nema þeir sem kepptu á föstudeginum þeir þurfa ekki að koma aftur í vigtun. Muna að hafa skilríki/vegabréf meðferðis í vigtun
Judogallar. Allir keppendur nema þeir sem keppa í bara U15 verða að vera með hvítan og bláan galla. Gallar þurfa ekki að vera “RED label”. Mælt er með að keppendur hafi baknúmer á gallanum sínum, en það er ekki skylda á þessu móti.
Æfingabúðir. Á sunnudeginum eru tvær æfingar, fyrri æfinginn frá 9-11 og sú seinni frá 16-18.
Covid. Ekki þarf að gera neinar ráðstafanir vegna covid, hvorki á leiðinni út né heim.
Önnur mikilvæg atriði. Athygli er vakin á því að ef barn undir 18 ára aldri er að ferðast án foreldris þarf að fylla út samþykkisyfirlýsingu.
Börn þurfa að hafa þetta meðferðis í ferðina. Eyðublað
Evrópska sjúkatryggingakortið. JSÍ mælir með því að allir sem keppa erlendis séu með meðferðis evrópska sjúkratryggingakortið. Allar upplýsingar um hvernig sótt er um slíkt kort má nálgast hér.
Vormót seniora 2022 – Úrslit
Vormót JSÍ í seniora flokkum var haldið í dag, laugardaginn 26. mars í JR. Keppendur voru nítján frá eftirfarandi fimm klúbbum, JR (Judofélagi Reykjavíkur), JRB (Judofélagi Reykjanesbæjar), JG (Judofélagi Garðabæjar), JDÁ (Judodeild Ármanns) og UMFS (Judodeild Selfoss). Þetta var stutt og skemmtilegt mót sem hófst kl. 13 og lauk kl. 14:30. Það voru margar flottar og spennandi viðureignir sem litu dagsins ljós og glæsileg ippon köst og stundum óvænt úrslit. Í hlut JR- inga í dag komu tvenn gullverðlaun, tvenn silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun. Hér eru myndir frá mótinu, stutt videoklippa og hér eru svo úrslitin.