Úrslit Jóla/afmælismóts JR 2022 – yngri og eldri

Jólamót/Afmælismót JR í kvenna og karlaflokkum var haldið föstudaginn 16. desember. Þetta er innanfélagsmót sem haldið hefur verið á meistaraflokksæfingu föstudegi um miðjan desember og var það fyrst haldið 2006. Þátttakendur á þessu móti eru allir þeir sem mæta á æfinguna og vilja keppa og þurfti því ekki að skrá sig til keppni fyrirfram. Í kvennaflokkum er keppt í -57 kg og +57 kg en í karlaflokkum -66, -73, -81, -90 og +90 kg og eins og undanfarin ár voru flokkar sameinaðir til að fá sem flestar viðureignir og sá sem sigrar fær nafn sitt letrað á þann bikar sem tilheyrir hans þyngdarflokki. Kvennaflokkurinn -57 og +57 var sameinaður og karlaflokkarnir -73 og -81 kg og -90 og +90 kg. Keppt er um farandbikara sem orðnir eru sögulegir en þeir eru áletraðir nöfnum fyrrum sigurvegara sem voru okkar bestu judomenn þess tíma. Hér er videoklippa frá mótinu og úrslitin 2022,  2021 og 2019.

Á síðustu æfingu fyrir Jól hjá iðkendum 11-14 ára á föstudaginn var einnig haldið Jólamót með þeim sem mættu á æfinguna og vildu keppa og eru úrslitin hér.

Judomaður JR verður valinn í kvöld

Judomaður JR 2022 verður valinn í fjórða skiptið í kvöld en það var fyrst gert 2019 og verður valið tilkynnt á Jólamóti/Afmælismóti JR senioar í kvöld kl. 18. Ekki er aðeins valinn judomaður ársins heldur einnig judomaður ársins í U21 árs aldursflokki og sá efnilegasti í aldursflokki U18/U21 árs. Við valið er ekki einungis tekið mið af árangri heldur einnig ástundun, framkomu og virðingu fyrir íþróttinni. Einungis er valinn einn judomaður ársins og er það annaðhvort kona eða karl hverju sinni og það sama á við í U21 og þann efnilegasta. Í ár ætlum við líka að velja sjálfboðaliða ársins en það verður í fyrsta skipti sem það er gert.

Jólaæfing barna 5-6 og 7-10 ára

Síðasta æfing fyrir jól hjá börnum 5-6 ára og 7-10 ára var haldin í gær og var vel mætt en þó vantaði nokkur börn. Þetta var ekki hefðbundinn judoæfing heldur mestmegnis farið í leiki en þó var líka smá gólfglíma. Áður en farið var í Jólakaffið var börnunum afhent viðurkennig fyrir önnina. Þau börn sem komust ekki í gær geta sótt sína viðurkenningu í JR eða fengið hana afhenta þegar þau mæta næst.

Síðustu æfingar fyrir Jól

Síðasta æfing fyrir jól hjá börnum 5-6 ára og 7-10 ára verður á fimmtudaginn 15. des. en þá verður sameiginleg æfing með þessum aldursflokkum og hefst hún kl. 17 og verður hún að mestu í leikjaformi. Æfingin hjá börnum 5-6 ára sem hefði átt að vera laugardaginn 17. des. fellur því niður. Að lokinni æfingu verður farið í setustofuna þar sem í boðið verða drykkir , kökur, ávextir og ýmslegt fleira og kaffi fyrir þá fullorðnu.

Síðasta æfing hjá 11-14 ára verður á föstudaginn 16. des. Að lokinni æfingu kl. 18 verður boðið í jólakaffi/drykki og veitingar í setustofunni og þau sem ekki eru að flýta sér geta þá horft á Jólamót/Afmælismót JR í karla og kvennaflokkum sem hefst um kl. 18:15.

Síðasta æfing fyrir áramót hjá 15 ára og eldri verður á miðvikudaginn 21. des. Hugsanlega verða haldnar aukaæfingar fyrir þennan aldurshóp dagana 27, 28 og 29 desember og verður það þá auglýst hér síðar.

Æfingar hefjast svo aftur á nýju ári sem hér segir. Byrjenda og framhaldsnámskeið 11-14 ára og 15 ára og eldri hefjast mánudaginn 2. janúar. Gólfglíma, byrjendur/framhald 30 ára og eldri hefst þriðjudaginn 3. janúar og æfingar barna 5-6 ára hefjast laugardaginn 7. janúar.

Jóla/Afmælismót JR 2022

Jólamót/Afmælismót JR í kvenna og karlaflokkum verður haldið föstudaginn 16. desember og hefst um kl. 18:15. Þetta er innanfélagsmót sem fyrst var haldið 2006 og er það nú haldið í sextánda skipti en það féll niður 2020 vegna covid. Ekki þarf að skrá sig fyrirfram því allir sem mæta á æfingu á föstudaginn geta keppt og verður keppendum raðað í flokka að lokinni vigtun. Í kvennaflokkum hefur verið keppt í -57 kg og +57 kg en í karlaflokkum -66, -73, -81, -90 og +90 kg en hugsanlega verða flokkar sameinaðir en það fer eftir þátttöku. Keppt er um farandbikara sem orðnir eru sögulegir en þeir eru áletraðir nöfnum fyrrum sigurvegara sem sumir hverjir eru hættir keppni en voru okkar bestu judomenn þess tíma. Hér eru úrslitin 2021 og 2019.

Íþróttamenn Reykjavíkur 2022

Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) heiðraði í dag Reykvíska íþróttamenn og félög fyrir góðan árangur á árinu sem er að líða. Framkvæmdastjórn ÍBR velur íþróttakarl, íþróttakonu og íþróttalið Reykjavíkur 2022 en átta konur og átta karlar auk nokkurra Reykvískra liða voru tilnefnd. Árni Pétur Lund úr JR hlotnaðist sá heiður að vera einn af þeim íþróttamönnum sem tilnefndir fyrir árið 2022 og einnig var karlalið meistaraflokks Judofélags Reykjavíkur eitt af þeim liðum sem tilnefnd voru sem íþróttalið ársins 2022.

Helsti árangur Árna á árinu er Íslandsmeistaratitill þriðja árið í röð í -81 kg flokki, silfurverðlaun á Norðurlandameistaramótinu og á Reykjavík International Games 2022 (RIG) varð Árni í þriðja sæti. Karlalið meistaraflokks Judofélags Reykjavíkur varð Íslandsmeistari í liðakeppni JSÍ 2022. Var það í tuttugusta og fyrsta skipti og jafnframt níunda árið í röð sem JR sigrar í þeirri keppni sem haldin hefur verið frá 1974.

Það voru þau Andrea Kolbeinsdóttir frjálsíþóttakona úr ÍR og Snorri Einarsson skíðagöngumaður úr Ulli sem valin voru íþróttamenn Reykjavíkur 2022 og meistaraflokkur Vals í handknattleik var valið lið ársins 2022. Judofélag Reykjavíkur óskar öllum ofangreindum til hamingju með kjörið.

Judodagur á Selfossi

Laugardaginn 26. nóvember stóð Judodeild Selfoss fyrir judodegi fyrir yngstu iðkendurna (6-10 ára) og var viðburðurinn opinn öllum klúbbum. Hugmyndin var að halda sameiginlega judoæfingu og svo smá leiki í íþróttahúsinu og borða síðan saman að lokum. Þátttakendur voru fimmtíu og fyrir utan Judodeild Selfoss voru þátttakendur frá Judodeild Grindavíkur, Judofélagi Reykjanesbæjar og Judofélagi Reykjavíkur en frá JR voru þeir fimmtán. Æfingin sem haldin var í íþróttahúsi Vallaskóla hófst kl. 14:00 á upphitun með ýmsum leikjum. Að upphitun lokinni var þátttakendum skipt í þrjá hópa eftir aldri á þrjár stöðvar. Hver hópur var í ákveðin tíma á hverri stöð og færði sig síðan á þá næstu. Einn hópurinn æfði gólf og standandi glímu á judodýnunum sem voru fyrir miðju íþróttahúsi á meðan var sá næsti að æfa standandi tækni í öðrum enda hússins og voru þar notaðar mjúkar þykkar kastdýnur til að æfa hin ýmsu kastbrögð og þriðji hópurinn fór í hinn enda hússins en þar voru allskonar íþróttaáhöld til að æfa sig á. Að æfingu lokinni sem var um kl. 15:00 bauð Judodeild Selfoss öllum í pizzu og svaladrykki. Einar Otto Antonsson þjálfari barna á Selfossi hafði veg og vanda að viðburðinum stjórnaði honum fagmannlega en honum til aðstoðar voru aðrir þjálfarar frá Selfossi og öllum gestaklúbbunum. Þetta var frábært framtak hjá Judodeild Selfoss og vel heppnað og áttu börnin frábæran dag á Selfossi og hlakka til að koma aftur að ári. Hér er videoklippa frá æfingunni. Takk fyrir okkur.

Beltapróf hjá 5-6 ára og 7-10 ára

Í vikunni tóku sjö börn í aldursflokknum 5-6 ára og 7-10 ára beltapróf þar sem þau misstu af því í síðustu viku. Í aldursflokknum 5-6 ára voru það þeir Nikola Desnica, Marcel Bakowski og Kacper Marcin Kula sem þreyttu prófið og stóðust það með prýði og það sama gerðu þau Benjamín Blandon , Fannar Þormóðsson, Freyja Atladóttir og Sólveig Viðarsdóttir í aldursflokknum 7-10 ára.

Atli Þórðarson 1. kyu

Atli Þórðarson tók gráðuna 1. kyu (brúnt belti ) í dag og gerði það með glæsibrag en hann tók 2. kyu (bláa beltið) 2016 og því var löngu kominn tíma á hann að klára 1. kyu en hann var ekkert að flýta sér. Uke hjá Atla var frændi hans Alfreð Atlason sem einnig er með gráðuna 1. kyu. Þess má til gamans geta að báðir eru þeir með börn hjá JR í aldursflokkum 5-6 ára og 7-10 ára sem að einnig tóku gráðupróf/beltapróf í nóvember og fengu strípur í beltin sín.

Sveitakeppnin 2022 – úrslit

Íslandsmótið 2022 í sveitakeppni (liðakeppni klúbba) fór fram föstudaginn 18. nóv. Upphaflega átti keppnin að fara fram 19. nóv. í Laugardalshöllinni en sökum þátttökuleysis annara klúbba en Judofélags Reykjavíkur þá var hún færð til JR. Sveitakeppnin var fyrst haldin árið 1974 og var þetta í 46 skiptið sem keppnin fór fram en hún féll niður 1993, 2002 og 2020.

JR sem hefur tekið þátt í keppninni frá upphafi sendi karlasveitir í U15, U18, U21 og senioraflokk en náði ekki að manna kvennasveit að þessu sinni. Því miður sendu önnur félög ekki sveitir í þessa sögulegu og mest spennandi keppni hvers árs sem sveitakeppnin jafnan hefur verið og er það annað árið í röð sem það gerist og er það áhyggjuefni. Við eigum langt í land með að ná sama þátttökufjölda og fyrir covid og þurfum við að taka okkur þar á en þá voru 16-20 sveitir sem öttu kappi saman frá 5-6 klúbbum, bæði í kvenna og karlasveitum og öllum aldursflokkum og sumir klúbbar með tvær sveitir í aldursflokki.

Þar sem að önnur félög sendu ekki sveitir þá var þetta innbyrðis keppni milli sveita JR sem var mjög skemmtileg og spennandi þar sem ekkert var gefið eftir. Keppnin gekk stórslysalaust fyrir sig utan þess að í síðustu viðureign mótsins í +90 kg flokki karla varð Þormóður Jónsson fyrir því óhappi að rífa brjóstvöðva í hörkuviðureign gegn Emil Emilsyni sem gerði harða atlögu að Þormóði í gólfglímunni og varð hann að hætta keppni og gefa viðureignina. Í karlaflokki sigraði sveit JR-A og í öðru sæti var JR-B og bronsverðlaunin fóru til JR-C. Það fór eins í U15 og U21 árs aldursflokkum, JR -A sigraði og JR-B varð í öðru sæti en ekki var keppt í U18 þar sem JR hafði bara eina sveit í þeim flokki. Dómarar voru þau Marija Dragic Skúlason, Eiríkur Kristinsson, Jakob Burgel Ingvarsson og Sævar Sigursteinsson og leystu þau sitt verkefni vel af hendi nú sem endranær.

JR varð Íslandsmeistari karla 2022 og er það í tuttugusta og fyrsta skipti og í níunda skipti í röð. Hér má sjá úrslitin 2019 og 2021 en keppnin féll niður 2020 vegna Covid-19 en hér eru svo úrslitin 2022 og videoklippa.

Karlasveit-riðill  – Viðureignir
Karlar U21-riðill  – Viðureignir
Drengir U15-riðill – Viðureignir