Sveitakeppni JSÍ 2023 – úrslit

Íslandsmótið 2023 í sveitakeppni (liðakeppni klúbba) fór fram í Laugardalshöllinni laugardaginn 18. nóv. Sveitakeppni karla var fyrst haldin árið 1974 og eru því fimmtíu ár frá því hún var fyrst haldin en hún féll niður 1993, 2002 og 2020 og var þetta því 47 keppnin. Fyrst var keppt í Sveitakeppni kvenna 1999. Hér má sjá hvaða lið hafa unnið þessa keppni.

JR sem hefur tekið þátt í keppninni frá upphafi sendi átta sveitir til leiks en það voru tvær karlasveitir í U15, U18, U21 og senioraflokki karla. Einnig var ein kvennasveit seniora tilbúin en vantaði mótherja svo það var engin keppni fyrir hana. Því miður var aðeins eitt félag sem einnig sendi þátttakendur í keppnin en það var Judodeild UMFS sem var með seniora karlasveit.

Á síðasta ársþingi var samþykkt að hvert félag mætti fá lánsmann hvort heldur innlendan eða erlendan til þess að auka líkurnar á því að ná lágmarksfjölda í sveit og gera mótið fjölmennara og sterkara en það dugði ekki til. Í ár voru aðeins tvö félög með keppendur í þessari sögulegu og mest spennandi keppni hvers árs sem sveitakeppnin hefur jafnan verið og var þetta 50 ára afmæli keppninnar. Margir klúbbar eiga langt í land með að ná sama þátttökufjölda og fyrir covid og þurfa verulega að taka sig á en þá voru 16-20 sveitir sem öttu kappi saman frá 5-6 klúbbum, bæði í kvenna og karlasveitum og öllum aldursflokkum og nokkrir klúbbar jafnvel með tvær sveitir í aldursflokki.

Bæði sveit UMFS og JR notuðu tækifærið og voru með lánsmann í karlasveitunum. Sveit UMFS fékk Gísla Egilson úr JG og JR fékk Damian Troianschi frá Portugal sem hefur æft hjá félaginu síðan í haust. Í karlaflokki sigraði sveit JR-A og í öðru sæti var sveit Judodeildar UMFS og bronsverðlaunin fóru til JR-B. Í aldursflokkum U15, U18 og U21 árs voru tvær sveitir í hverjum aldursflokki JR-A og JR-B og sigraði JR-A í öllum flokkum. Dómarar voru þau Yoshihiko Iura, Björn Sigurðarson og Jón Kristinn Sigurðsson og mótsstjórar þeir Ari Sigfússon og Þorgrímur Hallsteinsson sem allir leystu sitt verkefni vel af hendi nú sem endranær.

JR varð Íslandsmeistari karla í tuttugusta og annað skipti og tíunda árið í röð. Hér eru úrslitin 2023, karlar U21 karlar U18 karlar U15 drengir og videoklippa frá mótinu og fleiri myndir væntanlegar.