Smáþjóðaleikarnir 2019

Það eru ellefu keppendur í júdo frá Íslandi sem keppa í dag á Smáþjóðaleikunum sem haldnir eru í Budva í Svartfjallalandi. Keppendur okkar eru Ingunn Sigurðardóttir -70, Ásta Arnórsdóttir -63, Alexander Heiðarsson -60, Dofri Bragason -60, Ingólfur Rögnvaldsson -66, Breki Bernhardsson -73, Gísli Egilson -73, Árni Lund -81, Egill Blöndal -90, Ægir Valsson -90 og Þór Davíðsson -100. Þjálfari er Jón Þór Þórarinsson, aðstoðarþjálfari er Logi Haraldsson og farastjóri Birgir Ómarsson. Í dag verður keppt í einstaklingskeppninni en liðakeppnin verður svo á fimmtudaginn. Því miður er ekki bein útsending frá mótinu en hægt er að fylgjast með framvindu keppninnar hér og hér. Fylgist einnig með JSÍ Instagram sem verður í gangi á mótinu.

Sveinbjörn féll úr keppni í Kína

Því miður tapaði Sveinbjörn Iura viðureigninni á Grand Prix Hohhot í Kína gegn Rigaqi Nai.  Sveinbjörn byrjaði mjög vel og skoraði fljótlega wazaari. Hann virkaði sterkari aðilinn og stjórnaði glímunni en einhvernveginn þá tókst honum ekki að halda einbeitingunni og Rigaqi skoraði líka wazaari og jafnaði viðureignina og skoraði síðan aftur wazaari með seoinage kasti og var þar með búinn að sigra. Sveinbjörn heldur aftur til Japans og mun æfa þar fram í miðjan júní og kemur þá heim en hann mun taka þátt í Evrópuleikunum í Minsk 22-25 júní.

Sveinbjörn keppir á Grand Prix í Kína

Sveinbjörn Iura sem nú er staddur í Japan við æfingar mun taka þátt í Hohhot Grand Prix sem haldið er í Kína en mótið hófst í dag og stendur í þrjá daga og keppir Sveinbjörn á morgun laugardaginn 25. maí. Keppendur eru frá 43 þjóðum 159 karlar og 142 konur eða alls 301 keppandi. Búið er að draga og á Sveinbjörn þriðju viðureign í 81 kg flokknum  á velli 1 og mætir hann Rigaqi Nai frá Kína en hér er keppnisröðin. Keppnin verður í beinni útsendingu og hefst 10 að morgni í Kína sem er kl. 2:00 eftir miðnætti í kvöld að okkar tíma en þeir eru 8 tímum á undan okkur.

Frá Baku 2018

Gull, silfur og brons á NM 2019

Norðurlandamótinu 2019 í Finnlandi lauk í dag og stóðu okkar menn sig misvel eins og gengur en bestum árangri náðu þeir Árni Pétur Lund, Daníel Dagur Árnason og Guðmundur Stefán Gunnarsson en þeir unnu samtals til fernra verðlauna. Í gær var keppt í U18 og seniora flokkum karla og kvenna. Því miður gekk okkar mönnum í U18 ekki nógu vel og komust ekki á pall. Guðmundur S. Gunnarsson stóð sig flott og tók bronsverðlaunin í +100 kg flokki karla en óhætt að segja að Árni Lund hafi verið maður dagsins er hann sigraði sextán manna -81 kg flokk karla með algjörum yfirburðum og glímdi aðeins í umþað bil tvær mínútur í fjórum viðureignum og náði sínum fyrsta Norðurlandameistaratitli í karlaflokki. Í dag sunnudag var keppt í Veterans flokkum, U21 árs flokkum og liðakeppni. Guðmundur Stefán Gunnarsson keppti í Veterans flokki 40-49 ára í +100 kg og sigraði örugglega og tók gullið og sín önnur verðlaun á mótinu, vel gert hjá honum. Fastlega var búist við því að Árni Lund myndi landa öðrum titli og nú í U21 árs -81 kg flokki en það gekk ekki eins vel í dag og í gær. Hann vann þó tvær viðureignir en tapaði tveimur og endaði í sjöunda sæti. Það má þó segja að sigur hafi verið tekinn af honum annari viðureign og jafnvel titill því hann var mun betri aðilinn í þeirri glímu og var yfir. Hann reyndi þegar um tvær mínútur voru eftir, Ippon seoinage sem andstæðingur hans náði að verjast og komst í mótbragð og skoraði gegn Árna og hefði hann alveg mátt fá wazaari fyrir það en ekki ippon þar sem Árni lendir á hliðinni. Dómnum var mótmælt við eftirlitsdómara og óskað eftir að upptaka dómarakerfisins yrði skoðuð eins og venja er þegar vafamál koma upp en þá sögðust þeir ekki hafa upptökuna og sögðu að ekkert væri hægt að gera og niðurstaða eins dómara sem var illa staðsettur á vellinum stæði. Þetta var afar súrt og tók örugglega bitið úr Árna því að vonin um önnur gullverðlaun var búin. Svipað atvik átti sér stað í brons glímunni hans Ingólfs Rögnavaldssonar í U21 árs -66 kg en hann var búinn að standa sig feyki vel og sigra þrjár viðureignir og tapa einni og keppti því um bronsverðlaunin. Þar varð hann fyrir því að honum er kastað og hann lendir nánast á maganum og ekkert skor ætti að vera gefið fyrir það en dómarinn dæmdi skor og það var látið standa þrátt fyrir mótmæli og Ingólfur tapaði bronsviðureigninni og endaði því í fimmta sæti. Daníel Dagur Árnason vann sín fyrstu verðlaun á Norðurlandamóti er hann tók bronsverðlaunin í U21 árs flokki -55 kg en aðrir keppendur okkar komust ekki á pall en voru samt að vinna eina til þrjár viðureignir hver. Í liðakeppninni varð Ísland í öðru sæti á eftir Finnum en hér eru öll úrslitin.

Norðurlandamótið 2019 hefst á morgun

Það verða átján keppendur frá Íslandi sem munu keppa á Norðurlandamótinu 2019 sem haldið verður í Rovaniemi í Finnlandi 18. og 19. maí. Tíu þeirra munu keppa í fleiri en einum aldursflokki en keppt verður er í U18, U21, seniora og Veterans flokkum. Hópurinn fór í gær í þrennu lagi til Finnlands og ásamt keppendum voru einnig með í för tveir dómarar, þeir Björn Sigurðarson og Birkir Jóakimsson sem munu á mótinu, landsliðsþjálfararnir Jón Þór Þórarinsson og Hermann Unnarsson og Jóhann Másson formaður JSÍ sem mun sitja þing NM sem haldið er samhliða mótinu að venju. Hér er dagskráin en á morgun laugardaginn 18. maí hefst keppnin eldsnemma í fyrramálið eða kl. 6 að íslenskum tíma (tímamismunur +3 tímar) í aldursflokki U18 og kl. 12 í flokkum kvenna og karla. Á sunnudaginn verður svo keppt í U21 árs, Veterans og liðakeppni. Hér er drátturinn og keppnisröðin en hægt verður að fylgjast með keppninni í beinni útsendingu. Myndin hér neðar er af einum hópnum sem fór utan í gær.

Voru gráðaðir í gær

Þeir félagar Ævar Smári Jóhannsson og Eyjólfur Orri Sverrisson voru báðir gráðaðir í gær af Guðmundi Birni Jónassyni og stóðu þeir sig með sóma. Ævar hóf að stunda judo um áramótin en hann fékk áhugann og vildi prófa þegar hann fylgdist með syni sínum Andra og dóttur sinni Soffíu Huld sem hann keyrði reglulega á æfingar í JR og nú fimm mánuðum síðar tók hann sína fyrstu gráðu 5. kyu. Þess má geta að faðir hanns Jóhann æfði einnig judo á sínum yngri árum svo judoið er vel kynnt innan fjölskyldunnar. Eyjólfur Orri æfði judo fyrir rúmum tveimur áratugum en tók sér svo langt frí og byrjaði aftur á síðasta ári en var þá búinn að taka einhverjar gráður. Judoið blundaði alltaf í honum og ákvað hann að endurnýja kynnin af því en vildi byrja uppá nýtt þar sem svo langt var um liðið og tók því gula og appelsínu gula beltið aftur. Á myndinni sem fylgir með eru tveir af bestu keppendum JR í dag í unglingaflokki þeir Andri Fannar sonur Ævars og Kjartan Logi Hreiðarsson langa afabarn Svavars Carlsen fyrsta Íslandsmeistarans í judo en það var árið 1970 svo íþróttin gengur víða í ættir.

F.v. Eyjólfur Orri, Guðmundur Björn, Andri Fannar, Ævar Smári og Kjartan Logi

Úrslit EM lögreglumanna 2019

Bjarni Skúlason hefði getað verið heppnari með dráttinn en hann mætti Boris Georgiev frá Búlgaríu í fyrstu viðureign og varð að játa sig sigraðan þegar 26 sekúndur voru eftir af viðureigninni en Boris vann flokkinn síðar um daginn. Boris þessi er jafnframt Búlgaríumeistari síðastliðin tvö ár í -100 kg flokki. Bjarni mætti næst Urii Panasenkov frá Rússlandi og tapaði á refsistigum gegn honum þegar 24 sekúndur voru eftir af viðureignini en Urii keppti síðar um bronsverðlaunin. Bjarni stóð sig með sóma eins og hans var von og vísa og sýndi að það gengur enginn í gegnum hann þótt tuttugu ár skilji á milli. Hér eru úrslitin en myndband frá mótinu verður birt hér þegar það berst.

Arnar Marteinsson og Bjarni Skúlason á EM lögreglumanna 2019

Bjarni Skúla keppir á EM á morgun

Bjarni Skúlason keppir á morgun á Evrópumeistaramóti lögreglumanna í Györ í Ungverjalandi. Mótið er haldið fjórða hvert ár og árið 2015 varð Bjarni í sjöunda sæti í -100 kg flokki. Mótið hófst í dag og á morgun keppir Bjarni í -100 kg flokki. Honum til aðstoðar er hinn öflugi judomaður og vinur okkar Arnar Marteinsson. Því miður er ekki mikið um upplýsingar um mótið en hér má sjá öll úrslitin. Hér er myndband frá 2015 og þar má sjá Bjarna (5:40 mín) taka glæsilegt Tai otoshi kast og í þjálfaraboxinu má sjá Gísla Þorsteinsson margfaldan íslandsmeistara og fyrsta Norðurlandameistara Íslendinga. Ef það verður bein útsending frá mótinu verður linkur settur inn hér. Gangi ykkur félögum vel í Györ.

Bjarni á síðustu æfingu (8. maí) fyrir EM í Gyor

Páskamót JR og Góu – úrslit

Páskamótið sem hefur verið eitt vinsælasta mót ársins hjá yngri júdó iðkendunum og jafnframt eitt fjölmennasta mót ársins var haldið laugardaginn 4. maí. Keppendur voru sextíu frá fimm klúbum og fór mótið vel fram og voru keppendur virkilega góðir og sýndu oft á tíðum hrein og flott judo brögð. JR þakkar dómurum, þjálfurum og þátttakendum fyrir daginn sem og öllum öðrum sem veittu aðstoð við framkvæmd mótsins. Hér eru úrslitin 2019.

Páskamót JR og Góu 2019

Páskamót JR verður haldið 4. maí að þessu sinni en það hefur venjulega verið haldið fyrstu helgi eftir Páska en þar sem Íslandsmót seniora var um þá helgi urðum við að færa það aftur um eina viku. Páskamótið sem verið hefur eitt vinsælasta mót ársins hjá yngri judo iðkendunum og jafnframt eitt fjölmennasta mót hvers árs hefst kl. 10 hjá aldurshópnum 8-10 ára og stendur til kl. 12 og þá hefst keppni í aldursflokknum 11-14 ára sem ætti að ljúka um kl. 14.  Vigtun er á keppnisstað frá 9-9:30 fyrir alla aldurshópa. Keppendur í aldursflokknum 11-14 ára geta líka mætt í vigtun frá 11-11:30.  Þeir sem mæta ekki í vigtun á réttum tíma verða afskráðir svo keppnin geti hafist á réttum tíma. Nánari upplýsingar hér.