Breki komst í 16 manna úrslit í Hong Kong
Síðasta mót ársins erlendis hjá okkar keppendum var þátttaka þeirra Breka Bernhardssonar (-73 kg) og Sveinbjörns Iura (-81 kg) á Asian Judo Open Hong Kong 2018. Breki sem keppti á laugardeginum var þarna líklegast að keppa á sínu sterkasta móti til þessa og byrjaði mjög vel en hann mætti heimamanninum Ho Ting Lee (HKG) sem hann sigraði örugglega á ippon. Næst mætti hann Keise Nakano (PHI) en varð að lúta í lægra haldi fyrir honum og féll úr keppni í sextán manna úrslitum. Þetta var vel gert hjá Breka og fékk hann sextán punkta og er kominn á heimslistann í -73 kg flokknum. Sveinbjörn keppti á sunnudaginn og mætti Gwanghui Lee (KOR). Sveinbjörn tapaði þeirri viðureign og var þar með fallinn úr keppni en
Gwanghui fór alla leið og stóð uppi sem sigurvegari í flokknum í lok dags. Það er ótrúlegt en satt en þetta var í þriðja sinn í röð að Sveinbjörn fellur úr keppni fyrir þeim sem sigrar flokkinn síðar um daginn, það skeði á HM í Baku í sept, á Grand Slam Osaka fyrir tveimur vikum og svo núna. Það fer væntanlega að verða áhugavert fyrir einhverja að fá að glíma við Sveinbjörn á komandi mótum og vonast eftir sigri því þá er gullið nánast öruggt fyrir viðkomandi. Nú er komið keppnishlé fram í janúar en þá hefst mikil törn sem lýkur ekki fyrr en í maí 2020 en þá er öllum mótum lokið sem gefa punkta á heimslistann sem ákvarðar hvort keppandi náði að skora nógu hátt til að öðlast þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Japan 2020.
ASIAN JUDO OPEN HONG KONG 2018
Þá er komið að síðasta móti ársins erlendis hjá okkar keppendum en það verða þeir Breki Bernhardsson (-73 kg) og Sveinbjörn Iura (-81 kg) sem munu keppa á laugardaginn á Asian Judo Open Hong Kong 2018. Það verður dregið á morgun í öllum flokkum og keppir Breki á laugardaginn en Sveinbjörn á sunnudaginn og er tímamismunur 8 tímar þannig að kl. 2 eftir miðnætti á morgun föstudaginn 30. nóv. er klukkan 10 að morgni á laugardegi í Hong Kong og kominn 1. des. en þá hefst keppni hjá Breka og alveg eins hjá Sveinbirni þ.e. kl. 2 eftir miðnætti á laugardaginn. Eins og áður hefur komið fram keppir Egill ekki í Hong Kong eins og til stóð þar sem hann er enn að jafna sig á meiðslunum sem hann varð fyrir í nóvember og Ægir keppir ekki heldur en það stóð reyndar ekki til. Hér verða settir inn linkar um beina útsendingu ef hún verður.
Aðalfundur Júdofélags Reykjavíkur 2018
Aðalfundur JR verður haldinn í húsnæði okkar að Ármúla 17a Miðvikudaginn 19. desember 2018 og hefst hann kl. 20:30
Sveinbjörn á meðal 100 efstu
Sveinbjörn Iura er kominn í 86 sæti heimslistans. Sveinbjörn komst í þriðju umferð á heimsmeistaramótinu í september og skaust upp um mörg sæti á heimslistanum við það og um helgina náðist mikilvægur árangur hjá honum því Sveinbjörn komst aftur í þriðju umferð og nú á Osaka Grand Slam og því bættust við 160 punktar á heimslistann og við það færist Sveinbjörn í 86 listans sem eykur enn líkurnar á Ólympíuþátttöku í Tokyo 2020.
Sameiginleg æfing að lokinni sveitakeppni
Að lokinni Sveitakeppni á laugardaginn var haldin sameiginleg æfing sem að Jón Þór Þórarinsson sá um og var þátttakan um tuttugu manns en hér ofar eru nokkrar myndir frá henni.
Sveit JR Íslandsmeistarar 2018
Íslandsmót 2018 í sveitakeppni karla fór fram í gær og var það haldið hjá Júdofélagi Reykjavíkur að þessu sinni. Keppnin var fyrst haldin árið 1974 og var þetta í 43 skiptið sem keppt var en hún féll niður 1993 og 2002. Því miður sendu ekki öll félög sveitir í þessa sögulegu og mest spennandi keppni hvers árs sem sveitakeppnin jafnan er og skipar einn stærstan sess í sögu hvers félags og er það áhyggjuefni. Það voru aðeins fjórar sveitir skráðar til leiks en á síðustu stundu forfallaðist einn keppandinn hjá KA og ekki náðist í varamann og KA varð að hætta við þátttöku svo sveitirnar sem kepptu voru JR-A og JR -B og sveit Selfoss. Hvorugt félagið gat stillt upp sýnu sterkasta liði að þessu sinni þar sem nokkrir keppendur þeirra (Breki Bernhardsson, Egill Blöndal og Ægir Valsson) eru í Japan við æfingar og keppni og eins er Logi Haraldsson ekki búinn að ná sér að fullu af meiðslum frá því í haust. Keppnin var engu að síður ákaflega skemmtileg eins og jafnan er í sveitakeppni og margar skemmtilegar viðureignir sem gjarnan enduðu á ippon kasti. Leikar fóru þannig þegar upp var staðið að sveit JR-A sigraði og er Íslandsmeistari 2018 í sjötta skipti í röð og í 18 skipti alls. Í öðru sæti varð sveit Selfoss og í því þriðja sveit JR-B. Hér neðar eru úrslitin og nokkarar myndir frá mótinu.
Osaka Grand Slam 2018 lokið
Það var frábær árangur hjá Sveinbirni Iura (-81 kg) er hann komst í þriðju umferð á Osaka Grand Slam í nótt. Hann byrjaði á því að leggja Turciosel frá El Salvador í hörku glímu og sigraði hann þegar um ein mínúta var eftir en var þá komin með Turciosel í fastatak sem gafst hann upp. Sveinbjörn mætti næst Baker frá Jórdaníu og sigraði hann einnig örugglega og var þar með kominn í 16 manna úrslit. Þar mætti Sveinbjörn ofjarli sínum Takeshi Sasaki frá Japan sem er í 28 sæti heimslistans og varð að játa sig sigraðann eftir stutta viðureign en Takeshi stóð uppi sem sigurvegari í flokknum síðar um daginn. Þetta var flottur og mikilvægur árangur hjá Sveinbirni og fullt af punktum sem hann ávann sér sem fleytir honum ofar á heimslistann og eykur enn líkurnar á Ólympíuþátttöku í Tokyo 2020. Til hamingju með árangurinn Sveinbjörn. Hér má sjá glímurnar hans.
Ægir Valsson (-90 kg) átti fyrstu viðureign í nótt á Grand Slam Osaka og þar mætti hann Hatem Abd El Akher frá Egyptalandi sem er í 61 sæti heimslistans í flokknum. Viðureignin byrjaði vel og var Ægir síst lakari aðilinn og virkaði sterkari ef eitthvað var. Hann átti ágætis sókn þegar um ein og hálf mínúta var liðinn er hann sótti eldsnöggt í Harai goshi sem tóks ekki alveg en hann náði samt kasti og Hatem virðist lenda á lenti á hliðinni en Ægi fékk ekkert fyrir kastið. Viðureignin var jöfn en Ægir var þó kominn með eitt shido fyrir varnartilburði. Þegar tæpar tvær mínútur voru eftir komst Hatem í góð grip sem hann náði að halda og Ægir gætti ekki að sér og var kastað á fallegu Harai goshi og þar með var keppni hans lokið á Grand Slam að þessu sinni. Ægir hefur litla reynslu af þátttöku í sterkustu mótum heims eins og Grand Slam er svo ef hún hefði verið til staðar þá er ekki ólíklegt að hann hefði hann borið sigur úr býtum því ekki vantar styrk, úthald og kunnáttu, það sem hann skortir er fyrst og fremst keppnisreynslan. Hér má sjá glímuna hans.
Keppa á Grand Slam í kvöld og á morgun
Sveinbjörn Iura (-81 kg) keppir í kvöld á Grand Slam Osaka um kl. 1:15 í nótt að Ísl. tíma og á hann fjórðu viðureign á velli 1 og mætir Juan Diego Turcios frá El Salvador. Hér er tengill á beina útsendingu og aðrar upplýsingar. Ægir Valsson (-90 kg) keppir aðra nótt, um kl. 1 eftir miðnætti á laugardaginn og mætir hann Hatem Abd El Akher frá Egyptalandi. Ekki er enn vitað númer hvað viðureign hans er en upplýsingar um það verða settar hér inn á morgun. Egill Blöndal keppir ekki eins og til stóð þar sem hann varð fyrir þvó óláni að úlnliðsbrotna og verður því frá keppni í um fjórar vikur og Breki keppir einungis í Hong Kong ásamt Sveinbirni næstu helgi
Sveitakeppni karla og kvenna 2018 og sameiginleg æfing
Íslandsmót í Sveitakeppni karla og kvenna verður haldið í JR laugardaginn 24. nóv og hefst kl. 11. og lýkur um kl. 12:30. Að keppni lokinni verður Jón Þór með sameiginlega æfingu sem hefst kl. 13 og lýkur kl. 14:30 og eru allir 15 ára og eldri júdomenn og konur eru velkomin.