Vormót JSÍ 2019 – Yngri flokkar

Vormót JSÍ í yngri flokkum verður haldið í KA heimilinu á Akureyri laugardaginn 16. mars. Þáttaka er mjög góð eða um 100 manns en keppt verður í U13, U15, U18 og U21 árs aldursflokkum. Vigtun er föstudsagskvöldið 15. mars í KA heimilinu frá 18-22. Keppni hefst á laugardagsmorgni um kl. 9:30 og mótslok áætluð um kl. 15. Keppendalistinn er hér og hægt verður að fylgjast með mótinu hér í beinni útsendingu. Keppendur úr JR og frá Selfossi fóru saman í rútu og er meðfylgjandi mynd tekin af hluta hópsins ásamt þjálfurum og aðstandendum rétt áður en lagt var af stað.

JR og Selfoss keppendur að leggja af stað á Vormót JSÍ á Akureyri

Ægir með brons á Baltic Sea Championship

Ægir Valsson keppti um helgina í Finnlandi á Baltic Sea Championship. Hann keppti í -90 kg flokknum og hafnaði í þriðja sæti. Hann mætti fyrst Safar Rahmani frá Finlandi og fór sú viðureign í gullskor en Ægir sem var mikið betri aðilinn í glímunni var samt wazaari undir þegar 3 sek eru eftir en hannn jafnar á síðustu sekúndu. Báðir eru komnir með 2 shido og þegar Ægir nær taki á Finnanum fer hann með hausinn undir hendina á Ægi sem er þá skyndilega kominn með gripin sömumegin og í stað þess að gefa Finnanum sitt þriðja shido fyrir þetta þá fær Ægir sitt þriðja shido og þar með var möguleiki á gullli úr sögunni. Ægir mætir næst Kevin Nestor frá Svíþjóð og vinnur hann eftir skamma viðureign á ippon. Í keppninni um bronsið mætir hann Markus Lambacka frá Finnlandi og vinnur hann einnig örugglega eftir stutta viðureign. Hér eru úrslitin.

Egill og Sveinbjörn duttu út í Marrakech

Sveinbjörn Iura og Egill Blöndal komust því miður ekki áfram á 
Marrakech Grand Prix um helgina. Þeir töpuðu báðir sínum viðureignum á fastataki þegar lítið var eftir af glímutímanum. Hér má sjá viðureign Sveinbjörns í 81 kg flokknum gegn Vedat Albayrak frá Tyrklandi sem endaði í öðru sæti og hér er viðureign Egils í -90 kg flokknum en hann mætti Faruch Bulekulov frá Kyrgyzstan.

Ægir Valsson keppir í Finnlandi á morgun

Ægir Valsson fór í morgun til Finnlands og mun keppa á Baltic Sea Championship á morgun, laugardaginn 9. mars. Baltic Sea Championship er keppni fyrir seniora, U18 og U21 árs og eru keppendur alls um 300 manns. Keppni seniora hefst um kl. 16 á morgun eða strax að lokinni keppni yngri flokka og ætti Ægir því að keppa um það leyti en hann keppir í -90 kg flokknum. Keppt er á þremur völlum og hægt að fylgjast með í beinni útsendingu en Ægir keppir á velli 1. og hér munu úrslitin birtast.

Ægir að lokinni síðustu æfingu í JR áður en hann hélt af stað til Finnlands.

Egill og Sveinbjörn keppa í Marrakech

Marrakech Grand Prix hófst í dag og stendur í þrjá daga. Á morgun, laugardaginn 9. mars mun Sveinbjörn Jun Iura keppa í 81 kg flokknum og á sunnudaginn keppir Egill Blöndal í -90 kg flokknum. Með þeim í för er Yoshihiko Iura. Keppendur eru frá 67 þjóðum, 259 karlar og 184 konur eða alls 443 keppendur. Búið er að draga og mætir Sveinbjörn gríða sterkum keppanda frá Tyrklandi, Vedat Albayrak en Egill situr hjá og mætir svo annaðhvort keppanda frá Kyrgyzstan eða Ghana. Keppnin verður í beinni útsendingu og hefst kl. 9:00 að morgni að Íslenskum tíma.

Góumót JR – úrslit

Góumót JR var haldið um helgina og var það næst fjölmennasta Góumótið sem haldið hefur verið síðan 2013. Keppendur núna voru skráðir rúmlega sjötíu en eins og vanalega verða alltaf einhver forföll og urðu keppendur því sextíu og einn en flestir voru þeir 2013 eða sextíu og sex. Það er mjög mikil gróska í barna og unglingastarfi flestra klúbba eins og þessi þátttaka staðfestir en hér má sjá yfirlit yfir þátttökuna frá 2012. Selfyssingar voru fjölmennastir með 24 keppendur og hafði Einar Otto í nógu að snúast við það að sinna sínum þátttakendum og gerði það vel. Það sama má segja um aðra þjálfara en þeir stóðu sig allir frábærlega við það undirbúa sína keppendur og hafa tilbúna fyrir keppni. Ekki má gleyma dómurunum en ungir og óreyndir dómarar þeir Andri Ævarsson, Hákon Garðarsson og Kjartan Hreiðarsson ásamt Ástu Lovísu Arnórsdóttur sem er ekki alveg óvön dæmdu allt mótið og gerðu það mjög vel en þau nutu leiðbeiningar frá reyndum dómurum þeim Birni Sigurðarsyni og Mariju Skulason sem heldu utan um dómgæsluna og viljum við þakka þeim sérstaklega fyrir það sem og Ara Sigfússyni fyrir góða og örugga mótsstjórn. Eins og áður sagði voru keppendur sextíu og einn og komu frá eftirfarandi judoklúbbum, Ármann, Grindavík, ÍR, JR, Selfossi og Þrótti. Góumótið er keppni yngstu iðkendanna (8-10 ára) en í ár var einnig keppt í U13 og U15 og allir keppendur fá verðlaun fyrir þátttökuna. Börnunum er raðað saman eftir aldri og þyngd eins og venja er og keppa stúlkur og drengir stundum saman í flokkum. Mótið í dag var frábær skemmtun og börnin sýndu ótrúlega flott judo miðað við unga aldur. Hér eru úrslitin og nokkrar myndir frá mótinu.

Sveinbjörn komst ekki áfram í Dusseldorf

Sveinbjörn Iura komst því miður ekki áfram á Dusseldorf Grand Slam um helgina en hann tapaði viðureign sinni gegn Adrian Gandia frá Puerto Rico. Eins og áður kom fram þá hafa þeir æft saman og þekkja til hvors annars og sýndi það sig í glímunni en hvorugur náði að skora en Adrian var virkari og Sveinbjörn tapar á refsistigum og þar með úr leik. Hér má sjá viðureign þeirra. Sveinbjörn verður áfram í Þýskalandi út vikuna og tekur þar þátt í alþjóðlegum æfingabúðum.

Sveinbjörn á Dusseldorf Grand Slam 2019

Dusseldorf Grand Slam hefst á morgun og stendur í þrjá daga. Næsta laugardag þ.e. 23. febrúar mun Sveinbjörn Jun Iura  sem er í Þýskalandi ásamt föður sínum Yoshihiko Iura, keppa í -81 kg flokknum. Keppendur eru frá 93 þjóðum, 362 karlar og 244 konur eða alls 606 keppendur. Búið er að draga og mætir Sveinbjörn keppanda frá Puerto Rico, Adrian Gandia. Þeir þekkja til hvor annars þar sem þeir hafa verið í sömu æfingabúðum og glímt þar. Þetta er þó þokkalegur dráttur fyrir Sveinbjörn og á hann ágætis möguleika á að komast áfram þó svo að að ekkert sé öruggt í þeim efnum. Keppnin verður í beinni útsendingu og hefst kl. 9:00 að morgni að Íslenskum tíma.

Góumót JR 2019

Góumót JR verður haldið laugardaginn 23. febrúar 2019.
Keppt er í aldursflokkar U9, U10 og U11 (8,9 og 10 ára og núna einnig U13 og U15 og engin lágmarksgráða. Skráning til miðnættis 21. febrúar í skráningarkerfi JSÍ. Húsið opnar kl. 09:00 á laugardaginn og verða krakkarnir þá vigtaðir á milli kl. 09:00 til 09:30. Muna að mæta tímanlega í vigtunina.

Árni Lund með brons á Matsumae Cup

Það gekk ekki nógu vel hjá okkur fyrri dagin á Matsumae Cup en við unnum aðeins fjórar viðureignir af nítján. Í senioraflokki í -60 kg kepptu þeir Alexander Heiðarsson og Dofri Bragason og var keppt í tveimur fjögurra manna riðlum. Hvorugur komst upp úr riðli en Alexander (5-6 sæti) vann eina viðureign á ippon með fallegu uchimata kasti og hafði ekki verið langt frá því að sigra fyrstu viðureign sem hann hafði leitt megnið af glímutímanum þegar hann tapaði. Breki Bernhardsson -73 kg byrjaði vel og sigraði á ippon fyrstu viðureign með glæsilegu sópi. Hann tapar næstu en fær uppreisn og tapar henni líka og er þar með úr leik. Árni Lund og Hrafn Arnarsson kepptu í -81 kg flokki seniora. Árni tapaði fyrstu en fékk uppreisn og tapaði henni líka og þar með fallin úr keppni. Hrafn (13-16 sæti) tapaði einnig fyrstu viðureign en í uppreisnarglímu vinnur hann öflugan Svía á á ippon með sínu sterkasta bragði kouchi gari en því miður tapar hann næstu og féll einnig úr keppni. Það var svipað hjá þeim Kjartani Hreiðarsyni og Hákoni Garðarssyni sem kepptu í U18 -73 kg. Kjartan tapaði fyrstu og síðan uppreisnarglímunni og féll úr keppni en Hákon (9-12 sæti) tapar fyrstu, vinnur uppreisnarglímu með shimewaza og tapar þeirri þriðju og féll þá einnig fallin úr keppni. Það gekk mun betur seinni daginn þegar keppt var í U21 árs aldursflokki en þá urðu viðureignirnar átján og sigrar og töp 50/50. Alexander Heiðarsson -60 kg tapar fyrstu, vinnur næstu og tapar þeirri þriðju. Það hefur örugglega haft áhrif á Alexander (9-16 sæti) að hann var ekki alveg heill heisu því hann var með hita. Hákon Garðarsson -73 kg tapaði báðum sínum viðureignum og dagurinn hjá Hrafni Arnarssyni (17-24 sæti) var eins og fyrri dagurinn en hann tapar fyrstu, vinnur uppreisnarglimu og tapar þeirri þriðju. Kjartan Hreiðarsson -73 kg vinnur tvær og tapar tveimur. Var það vel gert hjá Kjartani (17-24 sæti) sem glímdi þarna mjög vel en bæði hann og Hákon eru aðeins fimmtán ára gamlir og voru því á yngsta ári í aldursflokknum U21 árs. Árni Lund -81 kg vinnur sex viðureignir af sjö. Hann vinnur fyrstu, tapar næstu en vinnur svo síðan næstu fimm viðureignir nokkuð örugglega sem voru allar með stuttu millibili og tók bronsverðlaunin. Þetta er skrýtið kerfi þetta Danska keppniskerfi. Það fá allir minnst tvær glímur sem er fínt en stundum þurfa menn að glíma aftur við sama andstæðing sem er ekki fínt. Einnig þarf að vinna fleiri viðureignir til að vinna til bronsverðlauna heldur en til gullverðlauna eins og t.d. í -81 kg flokknum en þar þurfti 5 glímur í gull en 7 í brons. En hvað um það þetta var glæsilegur árangur hjá Árna og vel gert hjá honum að sigra í sex viðureignum af sjö á þessu móti sem er alltaf að verða sterkara en til samanburðar voru 587 keppendur núna frá 17 þjóðum á móti 311 keppendum frá 11 þjóðum á síðasta Matsumae Cup. Hér eru úrslitin og hér er hægt að skoða flestar viðureignirnar.