Weronika 11 ára

Weronika Komendera varð 11 ára 2. október og bauð til afmæliskaffis að lokinni æfingu. Til hamingju með daginn Weronika.

Uppfærð dagskrá Haustmóts JSÍ

Haustmót JSÍ verður haldið á morgun í Íþróttahúsi Grindavíkur og hefst það kl. 10. (Sjá nánar hér neðar). Vigtun fyrir U13/U15/U18/U21 er frá 9-9:30 svo mæta tímanlega svo enginn missi af mótinu. Keppni karla og kvenna hefst kl. 13 og vigtun hjá þeim frá 11-12.

Júdosamband Íslands vill vekja athygli á dagskrá Haustmóts 2019 hefur verið hefur verið uppfærð.

Helstu breytingar:

Leyfilegt er í öllum aldursflokkum að vera 1. kg yfir flokksmörkum.

Vigtun U13/U15/U18/U21 fer fram frá 9:00-9:30

Vigtun Seniora fer fram frá kl. 11-12, en leyfilegt er einnig að vigta kl 9:00-9:30.

Keppni hefst kl. 10 hjá U13/U15/U18

Keppni hefst kl. 11:15 hjá U21

Keppni hefst kl. 13 hjá Seniorum

Úrslit frá EO Luxembourg

Það var ekki góður dagur í dag sem þeir félagar Árni Pétur Lund og Ægir Valsson áttu á European Open í Luxembourg. Báðir töpuðu þeir því miður sinni fyrstu viðureign og voru þar með úr leik. Ægir átti fyrstu viðureign mótsins og mætti hann Leso Kvirikashvili frá Azerbaijan. Ægir er vanur því hér heima að geta tekið þau tök sem hann vill gegn mótherjum sínum og hefur oftast lítið fyrir því og hann stjórnar glímunum meira og minna jafnvel þó mótherjinn hafi náð tökum. Á móti sem European Open má ekki leyfa sér neitt kæruleysi og gegn svona sterkum andstæðingi verður hann að vera þolinmóður og halda fjarlægð þar til tækifæri gefst á því að sækja. Ægir gerði þau regin mistök að hleypa Leso alltof nálægt sér og leyfði honum nánast að taka sín bestu handtök og því fór sem fór og tapaði hann viðureigninni eftir umþað bil eina og hálfa mínútu. Ekki gekk Árna betur en hann mætti Ibrahim Keitafrá Frakklandi og tapaði viðureigninni á þremur refsistigum á rúmri mínútu. Hann virtist ekki átta sig á því fyrir hvað hann fékk fyrstu tvö refsistigin en hann hélt að dómarinnn væri að dæma á handtökin hans með hægri hendi en hann hélt fremst í ermina hjá FRA sem má gera og skildi ekkert í þessum dómum. Það var ekki fyrr en hann horfði á myndbandið af viðureign lokinni að hann áttaði sig á því fyrir hvað hann fékk þessi refsistig en það var vegna þess að hann hafði ómeðvitað tekið utan um (krumla) fingur Frakkans með vinstri hendi en það er óleyfilegt. Þriðja refsistigið fékk hann svo þegar hann fór út fyrir keppnissvæðið og þar með tapaði hann viðureigninni. Hér eru öll úrslitin.

Það er ekki hægt að kenna því um að strákarnir séu ekki í æfingu því þeir hafa sjaldan ef nokkru sinni verið í betra formi. Þessi “árangur” skrifast fyrst og fremst á keppnisreynsluleysi en þeir kepptu síðast fyrir um þremur mánuðum á Smáþjóðaleikunum og eru ekki í neinni keppnisrútínu og úr því verður að bæta ef árangur á að nást. Nú taka við hjá strákunum tveggja daga æfingabúðir í Luxembourg og verð þeir mættir á æfingu hjá JR á miðvikudaginn.

Árni og Ægir keppa í Luxembourg

European Judo Open í Luxembourg hófst í dag og eru þátttakendur 430 frá 50 þjóðum víðsvegar úr heiminum. Þeir Árni Pétur Lund -81 kg og Ægir Valsson -90 kg eru á meðal þátttakenda en þeir keppa á morgun sunnudaginn 29. sept. Keppnin hefst kl. 9 að morgni á okkar tíma og á Ægir fyrstu glímu og mætir Leso Kvirikashvili frá Azerbaijan (áður GEO) en Árni keppir eitthvað seinna og mætir hann Ibrahim Keita frá Frakklandi sem var Franskur meistari seniora 2017 og í 7. sæti á GS Paris og GP Tbilisi 2018. Keppnisröðina verður hægt að sjá hér. Hér er drátturinn og hægt að fylgjast með með keppninni í beinni útsendingu á fjórum völlum. 

Bannað af stjórnvöldum í Íran að halda áfram keppni

Saeid Mollaei einum besta júdomanni heims og ríkjandi heimsmeistara frá 2018 var bannað af stjórnvöldum í Íran að halda áfram keppni á heimsmeistaramótinu í Tokyo. Það gerðist þegar hann var kominn vel á veg í keppninni en hann fékk símtal frá íþróttamálaráðherra Írans þar sem honum var bannað að halda áfram keppni en líklegast var talið að hann myndi mæta Saki Muki frá Ísrael í úrslitum.

Egill og Sveinbjörn hafa lokið keppni á HM

Egill BlöndalSveinbjörn Iura hafa lokið keppni á heimsmeistaramótinu í Tókýó. Hér er drátturinn en þeir sátu báðir hjá í fyrstu umferð og hófu keppni í annarri. Sveinbjörn mætti Jack Hatton (USA) sem hafði sigrað Marco Tumampad (PHI). Sveinbjörn virkaði sigurstranglegri framan af og komst nálægt því að skora með Osoto gari í byrjun glímunar. Þróaðist viðureignin á þann veg að hvorugur hafði skorað eftir venjulegan glímutíma. Tók þá við bráðabani (golden score) og fór hann á þá leið að Hatton var virkari og Sveinbjörn tapar á refsistigum og þar með úr leik.  Egill mætti Peter Zilka frá Slóvakíu sem áður hafði sigrað  Nantenaina Finesse (SEY). Zilka virtis vera mjög sterkur stöðugur og stýrði baráttunni um handtökin og glímunni. Samt sem áður gerði Egill vel og var hreyfanlegur og náði að koma að sóknum. Egill komst nálægt því að skora snemma í viðureigninni með Soto Tsurikomi goshi. Eftir um það bil tveggja mínútna viðureign sótti Zilka inn í Uchi mata og skoraði ippon og þar með var Egill einnig leik. Hér má sjá viðureignir þeirra Egils og Sveinbjörns

Byrjenda og framhaldsnámskeið

Starfssemin hefst á ný 2. september samkvæmt stundaskrá. Byrjenda og framhaldsnámskeið eru að hefjast. Aldursflokkar 8-10 ára, 11-14 ára og 15 ára og eldri fyrir konur og karla. Helstu upplýsingar og skráningarform má finna hér. Myndirnar hér neðar eru frá starfinu og JR-ingum á æfingu og í keppni hér heima og erlendis. Myndband á facebook.

Egill og Sveinbjörn keppa á HM í Tokyo

Egill BlöndalSveinbjörn Iura og Jón Þór Þórarinsson landsliðsþjálfari eru komnir til Tokyo til að taka þátt í heimsmeistaramótinu sem hefst þar á morgun (25. ágúst) og stendur yfir í sjö daga. Keppt verður í einum flokki karla og kvenna hvern dag og byrjað í léttustu flokkunum og keppir Sveinbjörn því miðvikudaginn 28. ágúst í 81 kg flokknum og Egill í -90 kg flokknum daginn eftir. Bæði Sveinbjörn og Egill sitja hjá í fyrstu umferð og því er ekki ljóst hverjum þeir mæta fyrr en að þeirri umferð lokinni. Miðað við styrkleika á heimslista má teljast líklegt að mótherji Sveinbjörns verði Jack Hatton (USA) þó ekkert sé öruggt í þeim efnum og Egill fái Peter Zilka frá Slóvakíu. Keppendur eru 839 frá 148 þjóðum, 509 karlar og 330 konur. Keppnin verður í beinni útsendingu og hefst -81 kg flokkurinn kl. 2 eftir miðnætti að íslenskum tíma en -90 kg flokkurinn hefst hins vegar kl. 3 eftir miðnætti daginn eftir og má búast við að strákarnir keppi tæpum klukkutíma síðar. Hér er drátturinn

Alexander keppti á EC juniora í Póllandi

Junior European Judo Cup í Poznan í Póllandi hófst í dag og er Alexander Heiðarsson -66 kg á meðal þátttakenda. Keppendur karla eru 113 og 66 konur eða alls 179 keppendur frá 25 þjóðum. Alexander keppti í morgun og fékk mjög öflugan mótherja Abrek Naguchev frá Rússlandi. Abrek vann þá glímu eftir snarpa viðureign í vel útfærðri gólfglímu. Þar sem Abrek komst í undanúrslit (vann svo flokkinn síðar um daginn) þá dróg hann upp þá sem höfðu tapað fyrir honum þannig að Alexander fékk uppreisnarglímu og mætti aftur mjög öflugum keppenda, Yhonice Goueffon frá Frakklandi en sá fékk bronsverðlaunin síðar um daginn. Viðureignin var einnig í styttra lagi þar sem Yhonice náði tveimur wazaari köstum með stuttu millibili og gerði þar með út um glímuna. Hér er drátturinn og hér er hægt að fylgjast með með keppninni á þremur völlum í beinni útsendingu  en Alexander keppti á velli 2. Aðstoðarmaður Alexanders á þessu móti var var faðir hans Heiðar Jónsson.

Alexander og Yhonice