Sveinbjörn hefur lokið keppni í Ísrael

Sveinbjörn Iura keppti í dag á Tel Aviv Grand Prix og mætti þar Yusup Bekmurzaev frá Hvíta Rússlandi (BLR). Þetta var hörku viðureign sem því miður lauk með sigri Yusup eftir fullan glímutíma og þar með var keppni lokið hjá Sveinbirni. Yusup skoraði wazaari eftir rúma mínútu og vinnur á því kasti. Hann hinsvegar fékk á sig tvö shido fyrir óhóflega varnartilburði og það seinna þegar um tvær mínútur voru eftir og mátti því ekki við því að fá eitt í viðbót því þá hefði hann tapað glímunni. Glíman var samt frekar jöfn og áttu báðir ágætis tækifæri og var Sveinbjörn hársbreidd frá því að skora þegar um tíu sekúndur voru eftir en Yusup náði að bjarga sér og glímutíminn rann út. Hér má sjá öll úrslitin og hér er glíman hans Sveinbjörns. Næsta mót hjá Sveinbirni verður 8. febrúar í Frakklandi á Paris Grand Slam. Það er áhugavert að skoða skráða þátttakendur á GS París en Japanir mæta með algjört super lið karla og kvenna og tvo í hverjum þyngdarflokki eins og sjá má hér.