Sveinbjörn keppir á Paris Grand Slam

Paris Grand Slam 2020 hefst á morgun og er Sveinbjörn Iura á meðal þátttakenda og er Þormóður Jónsson honum til aðstoðar. Sveinbjörn keppir á sunnudaginn og hefst keppnin kl. 7:30 að íslenskum tíma. Dregið var í dag og situr Sveinbjörn sem er í 81. sæti heimslistans hjá í fyrstu umferð en mætir þá Michael Aristos frá Cyprus sem er í 182 sæti heimslistans og má segja að það hafi verið góður dráttur fyrir Sveinbjörn á þessu gríðasterka og fjölmenna móti sem GS Paris er en Michael er þó sýnd veiði en ekki gefin. Ef vel gengur í fyrstu umferð þá mætir Sveinbjörn að öllum líkindum Frank De Wit frá Hollandi sem er í 10. sæti (WRL) og verður það ekki auðveld viðureign. Þátttakendur eru 688 frá 5 heimsálfum og 117 þjóðum. Karlarnir eru 411 og konurnar eru 277. Hér er keppnisröðin og á Sveinbjörn líklega 23 viðureign á velli 1. Hér er bein útsending frá mótinu.

Keppa á Danish Open 2020

Danish Open 2020 verður haldið næstu helgi þ.e dagana 8. og 9. febrúar í Vejle í Danmörku. JSÍ hefur valið keppendur til að keppa í seniora, u21 og u18 aldursflokkum og koma þeir frá KA, Selfossi, UMFN og JR. Auk þess sendir JR og Júdodeild Selfoss keppendur í ofangreinda aldursflokka og einnig í u15 svo alls eru keppendur frá Íslandi tuttugu og tveir. Þeir sem keppa frá JR í senioraflokki eru Ásta Arnórsdóttir -57 kg, Ingunn Sigurðardóttir -70 kg, Logi Haraldsson -81 kg, Oddur Kjartansson -81 kg og Ægir Valsson -90 kg. Í u18 og u21 keppa þeir Kjartan Hreiðarsson -73 kg og Skarphéðinn Hjaltason -81 kg. Í U15 keppa þeir Aðalsteinn Björnson og Romans Psenicnijs í – 46 kg flokki og Daron Hancock og Mikael Ísaksson í -50 kg flokki. Keppni seniora og u18 verður á laugardaginn og u21 og u15 á sunnudaginn. Með JR hópnum fara þeir Guðmundur Jónasson, Hreiðar Oddsson og Ísak Jónsson. Íslenski hópurinn / allur keppendalistinn og linkur á beina útsendingu og hefst keppnin kl. 6:30 að íslenskum tíma á laugardaginn.

Tvö gull til JR á Reykjavík Judo Open 2020

Ingunn Rut Sigurðardóttir og Zaza Simonishvili sigruðu örugglega á Reykjavík Judo Open sem haldið var á laugardaginn. Ingunn sigraði alla sína andstæðinga í -78 kg flokknum á ippon og það gerði Zaza einnig í -73 kg flokki og Ásta Lovísa Arnórsdóttir tók bronsið í -57 kg flokki. Líklega var einna mest spennandi að fylgjast með úrslitaviðureigninni hjá Zaza gegn Yoan Tutunarov frá Noregi en Yoan komst yfir þegar um tvær mínútur voru liðnar og glímutíminn hálfnaður. Viðureignin hafði verið mjög jöfn og nú var að duga eða drepast fyrir Zaza og yrði hann að taka áhættu því nú gæti Yoan farið í passlega vörn til að halda sínu. Þegar ein mínúta var eftir bar sókn Zaza árangur og skoraði hann ippon með glæsilegu kasti við mikinn fögnuð áhorfenda. Hér neðar eru myndir af verðlaunahöfum, öll úrslitin og hér er linkur á video af öllum brons og úrslitaglímum.

Þetta var í áttunda skiptið sem JSÍ heldur Reykjavík Judo Open í samstarfi við ÍBR. Mótið gekk vel í alla staði, umgjörðin flott og vel haldið á öllum málum. Fjöldi sjálfboðaliða mætti og stóð vaktina og allar stöður voru vel mannaðar hvort heldur það voru dómarar, mótsstjórn, tíma og stigaverðir eða önnur þau störf sem sinna þurfti. Vel gert JSÍ.

Result/úrslit: 2013201420152016201720182019, 2020

Ingunn og Zaza júdomenn RIG 2020

Þau Ingunn Rut Sigurðardóttir og Zaza Simonis­hvili úr JR voru valin júdomenn Reykjavík Judo Open 2020 og eru þau bæði vel að því kominn en þau sigruðu flokka sína -73 kg og -78 kg með glæsibrag. Í veislu sem haldin var í Laugardalshöll í gærkveldi var þeim ásamt keppendum úr öðrum íþróttagreinum RIG veitt viðurkenning fyrir árangurinn. Til hamingju.

Sveinbjörn hefur lokið keppni í Ísrael

Sveinbjörn Iura keppti í dag á Tel Aviv Grand Prix og mætti þar Yusup Bekmurzaev frá Hvíta Rússlandi (BLR). Þetta var hörku viðureign sem því miður lauk með sigri Yusup eftir fullan glímutíma og þar með var keppni lokið hjá Sveinbirni. Yusup skoraði wazaari eftir rúma mínútu og vinnur á því kasti. Hann hinsvegar fékk á sig tvö shido fyrir óhóflega varnartilburði og það seinna þegar um tvær mínútur voru eftir og mátti því ekki við því að fá eitt í viðbót því þá hefði hann tapað glímunni. Glíman var samt frekar jöfn og áttu báðir ágætis tækifæri og var Sveinbjörn hársbreidd frá því að skora þegar um tíu sekúndur voru eftir en Yusup náði að bjarga sér og glímutíminn rann út. Hér má sjá öll úrslitin og hér er glíman hans Sveinbjörns. Næsta mót hjá Sveinbirni verður 8. febrúar í Frakklandi á Paris Grand Slam. Það er áhugavert að skoða skráða þátttakendur á GS París en Japanir mæta með algjört super lið karla og kvenna og tvo í hverjum þyngdarflokki eins og sjá má hér.

Dagskrá Reykjavík Judo Open 2020 og keppendalisti

Program/dagskrá laugardaginn 25. janúar 2020.
09:00 -12:00    Preliminary/Forkeppni

Mat 1.
09:00 -12:00    M-60, M-81, M+100, W-57, W-78

Mat 2.
09:00 -12:00    M-66, M-73, M-90, W -63, W-70

12:00 -14:00    Break/Hlé

14:00 -15:00    Bronze match/Brons viðureignir
W-57, W-63, W-70, W-78, M-60, M-66, M-73, M-81, M-90, M+100

15:00 -15:30    Final match/Úrslita viðureignir
W-57, W-63, W-70, W-78, M-60, M-66, M-73, M-81, M-90, M+100 

15:30 -16:00    Awards and closing ceremony
                        Verðlaunaafhending og mótslok.

Competitors/keppendur 2020

Hér eru eldri úrslit: 2013201420152016201720182019

Tel Aviv Grand Prix 2020

Tel Aviv Grand Prix hófst í dag og er Sveinbjörn Iura á meðal þátttakenda og er faðir hans Yoshihiko Iura honum til aðstoðar. Sveinbjörn keppir á morgun föstudag og hefst keppnin kl. 10 að morgni í Ísrael sem er þá kl. 8 í fyrramálið hjá okkur. Dregið var í gær dag og eru keppendur í 81 kg flokknum fimmtíu og fjórir. Sveinbjörn sem er í 82. sæti heimslistans mætir Yusup Bekmurzaev frá Hvíta Rússlandi sem er í 113 sæti heimslistans. Ef vel gengur í fyrstu umferð þá mætir Sveinbjörn líkast til Vladimir Zoloev frá Kyrgystan sem er í 35. sæti (WRL) og verður róðurinn þar örugglega erfiður. Þátttakendur eru 547 frá 5 heimsálfum og 83 þjóðum. Karlarnir eru 315 og konurnar eru 232. Hér er keppnisröðin og á Sveinbjörn 5 viðureign á velli 2 og hér er hægt að horfa á beina útsendingu.

Dómaranámskeið JSÍ

Dómaranefnd JSÍ hélt kynningu á dómarareglum IJF í gær og farið var yfir það nýjasta í reglunum, helstu áherslur og vafaatriði útskýrð. Var kynningin vel sótt og mættu tæplega þrjátíu manns.

Kepptu á Opna Skoska um helgina

Júdomenn frá Selfossi þeir Breki Bernhardsson, Hrafn Arnarsson og Jakub Tomczyk kepptu á Opns Skoska s.l helgi og þeim til aðstoðar var Egill Blöndal en hann keppti ekki að þessu sinni þar sem hann er að jafna sig eftir aðgerð. Keppt var í aldursflokkki U21 kvenna og karla og einnig í seniora flokkum karla og kvenna og voru þátttakendur alls tæplega þrjúhundruð. Hrafn komst lengst af þeim félögum en hann keppti bæði í U21 -90 kg og karlaflokki -90 kg. Í U21 árs voru þrettán keppendur og vann Hrafn tvær viðureignir af fjórum og keppti um bronsverðlaunin en tapaði þeirri viðureign og endaði í fimmta sæti. Í karlaflokki voru sextán keppendur og vann hann þar einnig tvær viðureignir og tapaði tveimur og varð í sjöunda sæti. Breki sem keppti í -73 kg flokki karla sat hjá í fyrstu viðureign og vann næstu en tapaði síðan tveimur viðureignum og endar í níunda sæti. Jakub keppti bæði í U21 árs -66 kg og í karlaflokki -66 kg og fékk hann tvær viðureignir í hvorum flokki en því miður tapaði hann þeim. Hér má sjá öll úrslitin.