Tel Aviv Grand Prix 2020

Tel Aviv Grand Prix hófst í dag og er Sveinbjörn Iura á meðal þátttakenda og er faðir hans Yoshihiko Iura honum til aðstoðar. Sveinbjörn keppir á morgun föstudag og hefst keppnin kl. 10 að morgni í Ísrael sem er þá kl. 8 í fyrramálið hjá okkur. Dregið var í gær dag og eru keppendur í 81 kg flokknum fimmtíu og fjórir. Sveinbjörn sem er í 82. sæti heimslistans mætir Yusup Bekmurzaev frá Hvíta Rússlandi sem er í 113 sæti heimslistans. Ef vel gengur í fyrstu umferð þá mætir Sveinbjörn líkast til Vladimir Zoloev frá Kyrgystan sem er í 35. sæti (WRL) og verður róðurinn þar örugglega erfiður. Þátttakendur eru 547 frá 5 heimsálfum og 83 þjóðum. Karlarnir eru 315 og konurnar eru 232. Hér er keppnisröðin og á Sveinbjörn 5 viðureign á velli 2 og hér er hægt að horfa á beina útsendingu.

Dómaranámskeið JSÍ

Dómaranefnd JSÍ hélt kynningu á dómarareglum IJF í gær og farið var yfir það nýjasta í reglunum, helstu áherslur og vafaatriði útskýrð. Var kynningin vel sótt og mættu tæplega þrjátíu manns.

Kepptu á Opna Skoska um helgina

Júdomenn frá Selfossi þeir Breki Bernhardsson, Hrafn Arnarsson og Jakub Tomczyk kepptu á Opns Skoska s.l helgi og þeim til aðstoðar var Egill Blöndal en hann keppti ekki að þessu sinni þar sem hann er að jafna sig eftir aðgerð. Keppt var í aldursflokkki U21 kvenna og karla og einnig í seniora flokkum karla og kvenna og voru þátttakendur alls tæplega þrjúhundruð. Hrafn komst lengst af þeim félögum en hann keppti bæði í U21 -90 kg og karlaflokki -90 kg. Í U21 árs voru þrettán keppendur og vann Hrafn tvær viðureignir af fjórum og keppti um bronsverðlaunin en tapaði þeirri viðureign og endaði í fimmta sæti. Í karlaflokki voru sextán keppendur og vann hann þar einnig tvær viðureignir og tapaði tveimur og varð í sjöunda sæti. Breki sem keppti í -73 kg flokki karla sat hjá í fyrstu viðureign og vann næstu en tapaði síðan tveimur viðureignum og endar í níunda sæti. Jakub keppti bæði í U21 árs -66 kg og í karlaflokki -66 kg og fékk hann tvær viðureignir í hvorum flokki en því miður tapaði hann þeim. Hér má sjá öll úrslitin.

Danielė með brons í Póllandi

Danielė Kucyte varð í þriðja sæti á International Judo Tournament for Children and the Youth í Bielsko-Biala í dag en hún keppti í aldursflokknum U16. Til hamingju með bronsið Danielé. Aðrir keppendur frá okkur komust ekki á pall að þessu sinni en glímdu vel og unnu nokkrar viðureignir. Romans Psenicnijs vann fyrstu tvær viðureignirnar sínar en tapar þeirri þriðju, fær uppreisn en tapar henni. Helena Bjarnadóttir vann fyrstu, tapar næstu, fékk uppreisn en tapar henni og það sama gerði Weronika Komendera, vinnur fyrstu, tapar næstu fær uppreisn en tapar henni. Elías Funi Þormóðsson vann fyrstu en tapar næstu en engin uppreisn, Jónas Björn Guðmundsson tapar fyrstu fær uppreisn en tapar henni, Matas Naudziunas tapaði fyrstu viðureign en fékk ekki uppreisnarglímu. Að sögn þjálfarar okkar þeirra Bjarna Skúlasonar og Janusz Komendera var mótið gríðasterkt, um tuttugu keppendur í flestum flokkum og heildarfjöldi keppenda um tólfhundruð og keppt á tíu völlum. Fyrir utan gestgjafana Pólverja voru keppendur meðal annars frá Tékklandi, Hollandi, Slóvakíu, Úkraníu, Ungverjalandi og Íslandi. Hér neðar eru nokkrar myndir frá ferðinni.

Emma og Orri komin með gulabeltið

Emma Tekla Thueringer og Orri Snær Helgason tóku próf fyrir gulabeltið á fimmtudaginn og stóðu sig með sóma enda búin að æfa í mörg ár en Emma byrjaði sjö ára gömul í JR og Orri níu ára. Til hamingju með áfangann.

Orri Snær og Emma Tekla að loknu prófi

Keppa í Póllandi næstu helgi.

Í kvöld lagði af stað til Póllands hópur keppenda úr JR í aldursflokkum U12/U14/U16 og munu þau keppa næsta laugardag á International Judo Tournament For Children and the Youth í Bielsko-Biala og sunnudaginn eftir mót taka þau þátt í eins dags æfingabúðum en fram að móti munu þau æfa í júdoklúbbi með Pólskum börnum. Þau sem fóru í þessa ferð eru Danielė Kucyte, Elías Funi Þormóðsson, Helena Bjarnadóttir, Jónas Björn Guðmundsson, Matas Naudziunas, Romans Psenicnijs og Weronika Komendera. Þjálfarar og farastjórar eru þeir Bjarni Skúlason og Janusz Komendera.

Byrjenda og framhaldsnámskeið 2020

Starfssemin hefst á ný á morgun 7. janúar samkvæmt stundaskrá. Ný byrjenda og framhaldsnámskeið hefjast 13. jan. Námskeiðin eru fyrir konur og karla og í aldursflokkum 8-10 ára, 11-14 ára og 15 ára og eldri. Helstu upplýsingar og skráningarform má finna hér.

Logi, Ægir og Sveinbjörn á OTC í Mittersill

Þeir félagar Logi Haraldsson, Ægir Valsson og Sveinbjörn Iura fóru í morgun til Austurríkis en þar munu þeir taka þátt í OTC æfingabúðunum í Mittersill og verða þar út vikuna og er þetta er liður í undirbúningi þeirra fyrir Reykjavík Judo Open sem verður haldið 25. janúar og norðurlandamótið sem verður í Reykjavík 25 og 26 apríl. Í Mittersill eru þeir í góðum félagsskap en á þessar æfingabúðir mæta flestir af bestu júdomönnum og konum heims. Þeir Árni Lund og Egill Blöndal hefðu einnig átt að vera í Mittersill en eru að jafna sig eftir smá meiðsli og voru því ekki tilbúnir í verkefnið að þessu sinni. Hér neðar eru nokkra myndir af strákunum og fleirum við ýmis tækifæri.

Árni Pétur Lund Júdomaður JR 2019

Þrátt fyrir að Júdofélag Reykjavíkur sé meira en 50 ára gamalt félag en það var stofnað 1965, þá hefur einhverrahluta vegna ekki verið komið á þeirri hefð að velja júdomann ársins hjá félaginu en nú hefur orðið breyting á því. Ákveðið var að velja ekki einungis júdomann ársins heldur einnig júdomann ársins í U21 árs og þann efnilegasta. Við valið er ekki einungis tekið mið af árangri heldur einnig ástundun, framkomu og virðingu fyrir íþróttinni. Einungis er valinn einn júdomaður ársins og er það annaðhvort kvenmaður eða karlmaður hverju sinni og það sama á við í U21 og þann efnilegasta.

Árni Pétur Lund sem keppir í -81 kg flokki var valinn júdomaður JR 2019. Hann tók þátt í fjórum alþjóðlegum mótum á árinu og vann þrettán viðureignir af tuttugu. Hann varð Norðurlandameistari og sigraði þar fjóra andstæðinga með yfirburðum. Varð í þriðja sæti á Smáþjóðaleikunum í Monmtenegro og á Matsumae Cup í U21 árs varð hann þriði eftir að hafa lagt sex andstæðinga af velli. Hann varð í þriðja sæti á Reykjavík Intl. games, Íslandsmeistari í 81 kg flokki karla og í þriðja sæti í Opnum flokki. Íslandsmeistari í -90 kg flokki U21 árs og Íslandsmeistari með félagi sínu JR í liðakeppni karla og U21 árs og auk þess vann hann Haustmót karla -81 kg og Afmælismót JSÍ -90 kg í U21.

Árni Pétur Lund

Kjartan Hreiðarsson sem er 16 ára og keppir í -73 kg flokki var valinn júdomaður JR 2019 í U21 árs aldursflokki. Hann vann nánast öll þau mót sem hann tók þátt í á árinu, Íslandsmeistari bæði í U18 og U21 árs og liðakeppni, varð þriðji á Íslandsmeistaramóti karla og silfur á Opna Finnska svo eitthvað sé tiltekið. Kjartan hefur tekið mjög miklum framförum og verður spennandi að fylgjast með honum á júdovellinum á komandi árum.

Kjartan Hreiðarsson

Skarphéðinn Hjaltason sem er 15 ára og keppir í -81 kg flokki var valinn Efnilegasti Júdomaður JR 2019 í aldursflokki U18/U21 árs. Skarphéðinn hefur tekið miklum framförum á árinu og er öðrum til fyrirmyndar hversu vel hann sækir æfingar og leggur sig fram á þeim. Hann er alveg óhræddur við að glíma við sér eldri og reyndari júdomenn og þyngri ef því er að skipta og eftir því tekið að hann tekur alltaf þátt í stuttri auka æfingu með félögum sínum að lokinni venjulegri æfingu.

Skarphéðinn Hjaltason
F.v. Skarphéðinn Hjaltason, Kjartann Logi Hreiðarsson og Árni Pétur Lund