Heimsmeistaramótið OPINN flokkur

Eitt mest spennandi mót ársins verður haldið um helgina en heimsmeistaramót karla og kvenna í OPNUM flokki verður haldið í Marrakesh í Marokkó. Keppni karla verður á morgun laugardaginn 11. nóv. og konurnar keppa svo á sunnudaginn og hefst keppni báða dagana kl. 10:00.  Allir bestu judomenn og konur heimsins eru á meðal þátttakenda. Þar sem ekki var forraðað gátu þeir bestu lent strax saman og það var einmitt það sem gerðist eins og sjá má hér því Teddy Riner og Guram Tushishvili mætast að öllum líkindum í annari umferð en Guram var “næstum” búinn að sigra Teddy á HM í Budapest í september. Hér er umfjöllun um mótið en það má fylgjast með því  í beinni útsendingu.

Allskonar upplýsingar

Hef tekið saman mér til gamans ýmiskonar upplýsingar um judo á Íslandi. Þessar upplýsingar hafa fæstar verið til í tölvutæku formi og hef ég fundið þær í árskýrslum JSÍ, dagblöðum og tímaritum og fleiri stöðum og sett í aðgengilegt form þar sem hægt er að leita t.d. eftir nöfnum, þyngdarflokkum, árum eða gráðum.  Þarna er listi yfir alla Íslandsmeistara karla og kvenna frá upphafi, allar dan gráður og formenn JSÍ  svo eitthvað sé nefnt og ætlunin að bæta einhverju við. Þetta eru ekki tæmandi listar og á eftir að uppfæra  nokkra þeirra en það er allt í vinnslu. JSÍ er að láta útbúa fyrir sig forrit/gagnabanka þar sem allar þessar og fleiri upplýsingar munu verða aðgengilegar á heimasíðu JSÍ  og standa vonir til þess að það verði komið í gagnið fyrir næstu áramót en fram að því má notast við þetta.

Hér fyrir ofan undir Ýmis gögn og JSÍ gögn má finna ofangreint.

Grindavíkurferðin 2017

Laugardaginn 28. okt. fóru þjálfarar barna 6-10 ára þeir Guðmundur Björn Jónasson og Emil Þór Emilsson í hina árlegu heimsókn til Grindavíkur. Þar hittast judo krakkar UMFG og JR og er haldin keppni fyrir þau og mini æfingabúðir að keppni lokinni. Þar koma reyndir keppnismenn og miðla af reynslu sinni til barnanna. Þeir félagar Arnar Már Jónsson þjálfari UMFG og Guðmundur og Emil hafa staðið fyrir þessum viðburði í nokkur ár fyrir þennan aldursflokk. Þetta er frábært framtak þeirra félaga til að byggja upp starfsemi og hlúa að þessum aldursflokki því þau eru framtíðin. Judodeild Tindastóls hefur verið með árlegan viðburð að vori og æskilegt væri ef fleiri klúbbar gerðu slíkt hið sama þannig að meira væri um að vera hjá börnunum og meiri líkur að þau endist lengur í íþróttinni.  Þetta er mjög þarft verk og til fyrirmyndar hvernig staðið er að þessum viðburði og á gestgjafinn UMFG hrós skilið fyrir framkvæmdina.

Hér er pistill Guðmundar Björns Jónassonar þjálfarar barna 6-10 ára hjá JR.
Laugardaginn síðastliðinn (28.10) fóru 9 framtíðar júdógoðsagnir í hina árlegu heimsókn til Grindavíkur. Markmið ferðarinar er ávalt fyrst og fremst að hafa gaman, kynnast hvort öðru, iðkendum og aðstandenda annara júdódeilda. Ég og hinn mikli hugsuður Emil sem að þjálfar þessa dáðadrengi og stúlkur trúum á það að ef þú hefur gaman og líður vel hjá okkur þá hefurðu meiri löngun að mæta og taka þátt. Þá gerist það sjálfkrafa að þú bætir þig í júdó og það er einmitt það sem þessir krakkar eru sífellt að gera. Við höfum fengið frábær viðbrögð hjá foreldrum og Bjarna Friðriksyni til að koma alls konar hugmyndum í gegn eins og t.d að bæta við fleiri æfingum og fara að minnsta kosti einu sinni á önn í ferðalög með hópinn. Þessir krakkar sem við erum að þjálfa hafa æft sum þeirra saman í nokkur ár og ávalt komið með í þessi ævintýra ferðalög þó var einn nýr iðkandi með í fyrsta sinn núna og smellpassaði í hópinn. Ekkert þeirra eru saman í skóla og teljum við því að þetta tengi þau betur saman og virki sem gulrót. 

En nóg með mikilvægi þess að fara í ferðalög er sennilega búinn að selja flestum þá hugmynd. Viðtökurnar hjá Arnari þjálfara Grindavíkur og Voga ásamt aðstandendum iðkenda þar á bæ hefði passað hvaða aðalsborna eða hreinlega konungsborna einstakling sem er, það vantaði bara rauðan dregil fyrir utan íþróttahúsið. Mótið hófst klukkan 12.00 og mætti Daníel í jakkafötunum og dæmdi eins og herforingi. Glímurnar voru mun flottari en maður hefur átt að venjast og ég hélt mig betur á mottunni á hliðarlínunni. Krakkarnir héldu hópinn saman í upphituninni og á meðan mótinu stóð og voru lítið að hlaupa til foreldra. Sem er frábært því það er það sem við Emil ætlumst til, hvort þau vinni eða tapi skiptir minna máli sem ég er alltaf að átta mig betur á. Eftir mótið fórum við svo í sund  með hinum liðunum og þar sannaðist sú kenning að júdó sameinar. Þess má geta að upplifun mín sé reyndar sú að þessi hópur hjá JR sé tengdur einstökum böndum og allir virðast vera með hlutverk. T.d þá hafa þeir Jónas og Elías æft saman síðan á leikskóla aldri og eru miklir vinir. Elías tekur það altaf að sér óumbeðinn að passa upp á Jónas, að hann geri hlutina rétt, gangi vel frá eftir sig og svo framvegis og hefur meira lag á því en nokkur annar. Að sundinu loknu voru foreldrar iðkanda frá Grindavík búin að baka serbneskar pönnukökur sem brögðuðust ansi vel og réðust krakkarnir á þær eins og Packman á punktana. Eftir pönnuköku átið var komið sér fyrir upp í skóla þar sem við gistum. Í kvöldmat var pítsuhlaðborð og bíó eftir það. Að lokum eftir smá tuð og þras tókst öllum að sofna.

Næsti dagur var ekki af verra taginu heldur. Hafragrautur og ávextir voru á morgunnverðar matseðlinum og til allra lukku fyrir hinn langþreytta þjálfara JR afa Guðmund rjúkandi kaffi líka sem virkaði eins og lífs elixír á hann. Svo var farið í galla og sameiginleg æfing haldin. Á þeirri æfingu mættu hinir reynslu miklu júdómenn Þormóður Árni Jónsson og Bjarni Skúlason sem gestaþjálfarar og sýndu tækni.  Að fá þessa tvo virkaði vel á stemninguna og var en einn liður í að fá sem flottasta umgjörð. Eftir æfinguna var haldið heim á leið og allir kvöddust með gleði í hjarta. Það fréttist svo að þjálfari JR hafi verið svo þreyttur að hann svaf fram eftir hádegi næsta dag en um leið og hann vaknaði fór hann víst að spá í næstu ferð sem hann gæti skipulagt. 

Það sem stendur upp frá mínum bæjardyrum séð er að við Emil erum með frábæran hóp af iðkendum og foreldrum sem gera svona lagað mögulegt. Við viljum þakka Bjarna sérstaklega fyrir að treysta okkur að fara okkar leiðir en vera ávalt til í að leiðbeina okkur ef þarf (og það þarf). Svo erum við með fleiri ansi góða hauka í horni sem við getum leitað til varðandi þjálfunar ráð Þormóð, Bjarna Skúla, Jón Þór og fleiri. Takk fyrir mig!

Úrslit Reykjavíkurmótsins

Reykjavíkurmótið var haldið í gær Laugardaginn 4. nóv. í húsakynnum JR í Ármúla17. Keppendur voru frá Reykjavíkurfélögunum þremur þ.e. Judodeild Ármanns, Judodeild ÍR  og Judofélagi Reykjavíkur. Keppt var í aldursflokkum U13 og U15 og svo í kvenna og karlaflokkum. Í barna og unglingaflokkum var hart barist og ekkert gefið eftir og réðust úrslit of ekki fyrr en í gullskori svo jafnar voru sumar viðureignirnar. Ingunn Sigurðardóttir úr JR vann -70 kg flokk kvenna eftir hörku viðureign gegn hinnni ungu og efnilegu Aleksöndru Lis frá Judodeild ÍR. Logi Haraldsson var öruggur sigurvegari í 81 kg flokki karla en Gísli Vilborgarson varð í öðru sæti en hann keppti flokk upp fyrir sig eins og reyndar Oddur Kjartansson sem varð þriðji og ekki langt frá því að sigra Gísla því hann var þremur wazaari yfir og aðeins um mínúta eftir þegar Gísli náði góðum tökum á Oddi og skorði ippon með seoinage kasti. Hugo Lorain vann -100 kg flokkinn en Ægir Valsson varð í öðru sæti eftir hörkuviðureign þeirra tveggja en allt var í járnum þar til um tvær mínútur voru eftir en þá komst Hugo inn í osotogari og náði góðu kasti og skoraði ippon. Hér eru úrslitin og nokkrar myndir frá mótinu.

 

Reykjavíkurmótið 2017

-81kg Breki / Logi á Haustmóti JSÍ

Reykjavíkurmótið verður haldið á morgun, Laugardaginn 4. nóv. og er það í umsjón JR þetta árið. Keppendur eru frá Ármanni, ÍR og JR og keppt er í öllum aldursflokkum frá 11-14 ára og síðan 15 ára og eldri. Keppni í aldursflokkum U13 og U15 hefst kl. 11 og er mæting ekki seinna en 10:30. Keppni í öðrum aldursflokkum hefst kl. 12. og mæting 11:30.

Silfur og brons í Cardiff

Þeir Jón Þór Þórarinsson og Hermann Unnarsson fóru með sjö manna hóp á Welsh Open Junior & Senior Championships 2017 sem fram fór í gær í Cardiff. Þar unnu til verðlauna þeir Alexander Heiðarsson og Egill Blöndal en Alexander varð í öðru sæti í U21 árs í -55 kg flokki og Egill í þriðja sæti í -90 kg flokki seniora. Þeir Árni Lund U21 -81 kg, Logi Haraldsson -81 kg seniora og Ægir Valsson í -90 kg flokki seniora kepptu allir um bronsverðlaun en urðu að lúta í lægra haldi en þeir Oddur Kjartansson í U21 -73 kg flokki og Dofri Bragason í -60 kg flokki seniora komust ekki eins langt. Fyrir hádegi var keppt í aldursflokki U21 árs. Í flokknum hans Alexanders voru þrír keppendur og vann hann fyrri viðureign sína en tapar þeirri síðari. Oddur  tapar fyrstu viðureign en fær uppreisnar glímu og vinnur hana en tapar svo þeirri þriðju og er þar með úr leik. Í flokknum hans Árna voru sextán keppendur og tapaði hann fyrstu viðureign en vann næstu þrjár og fimmtu viðureign, bronsviðureigninni tapaði hann eins og áður sagði en þá var hún komin í gullskor. Seniorar kepptu eftir hádegið, Dofri Bragason fékk tvær viðureignir og tapaði þeim báðum. Í flokknum hans Loga voru sextán keppendur og komst hann í undanúrslit með því að vinna fyrstu tvær en í undanúrslitum tapar hann og keppti því um bronsverðlaunin. Í 90 kg flokknum voru sextán keppendur og tapaði Ægir fyrstu viðureign en vinnur næstu og einnig þá þriðju þar sem mótherji hans mætti ekki og tapar svo bronsglímunni. Það sama gerði Egill í 90 kg flokknum  hann tapar fyrstu, vinnur næstu og þriðju þar sem eins og hjá Ægi mótherji Egils mætti ekki og þar með var Egill kominn í bronsviðureignina sem hann vann örugglega. Til hamingu Alexander og Egill, þetta var vel gert. Að sjálfsögðu óskum við öðrum keppendum einnig til hamingju með árangurinn og þjálfurum með vel heppnaða ferð þvi það vantaði bara herslumuninn að bronsin hefðu orðið þrjú í viðbót.

Úrslit Haustmóts yngri 2017

Haustmóti JSÍ í yngri aldursflokkum (U21/U18/U15/U13) var haldið í Grindavík laugardaginn 21. okt. sl. Keppendur okkar JR inga núna voru mun færri en í fyrra eða aðeins þrír og voru það þeir Hákon, Kjartan og Skarphéðinn sem kepptu í ár og stóðu sig frábærlega og unnu allir gullverðlaun. Þeir Árni Lund og Oddur Kjartans voru fjarri góðu gamni því þeir tóku þátt í öðru móti í Cardiff sama dag og aðrir sem ætluðu að keppa forfölluðust á síðustu stundu. Þátttakendur núna voru fleiri en í fyrra eða fimmtíu og einn sem er ánægjulegt og mótið var vel skipulagt hjá UMFG en það hófst kl. 11 og því lauk kl. 14:30. Af sextíu og sjö glímum unnust fimmtíu og fjórar þeirra á ippon.  Að þessu sinni var það Judodeild Selfoss sem flest gullin vann og óskum við þeim til hamingju með það en hér eru úrslitin og nokkrar myndir frá mótinu.