Ari og Þorgrímur komnir með 2. dan

Félagarnir Ari Sigfússon og Þorgrímur Hallsteinsson þreyttu 2. dan gráðupróf laugardaginn 11. mars og stóðust það með glæsibrag. Alllangur tími er liðinn síðan þeir fóru síðast í gráðupróf en Ari tók 1. dan 2017 eða fyrir sex árum og liðin eru tíu ár frá því að Þorgrímur tók 1. dan en það gerði hann 2013. Eins og flestir vita eða hafa tekið eftir þá er nánast ekkert judomót haldið hér á landi án þess að þeir félagar komi ekki að því en þeir hafa alla jafnan séð um mótsstjórn og eða komið að undirbúningi móta með einhverjum hætti og hafa gert um árabil. Tækniráð sér um allar dan gráðanir og voru prófdómarar hjá þeim þeir Björn Halldórsson 5. dan og Garðar Skaftason 4. dan. Til hamingju með áfangann.

Vormót yngri 2023 á Akureyri

Vormót JSÍ 2023 í yngri aldursflokkum verður haldið á Akureyri 18. mars í KA heimilinu. Keppt verður í aldursflokkunum U13, U15, U18 og U21 og er áætlað að mótið hefjist kl. 12 og ljúki um kl. 16:00 en nánari tímasetningar að loknum skráningarfresti sem 13. mars. Þeir JR- ingar sem áhuga hafa á því að keppa láti þjálfara vita um það í síðasta lagi föstudaginn 10. mars. Gert er ráð fyrir að fara í lítilli rútu frá JR föstudaginn 17. mars kl. 14 og koma til baka daginn eftir líklega um kl. 21. en nánari tímasetning síðar. Kostnaður, rúta og gisting (hótel/uppábúin rúm) um 17.000 kr. fer þó eftir fjölda þátttakenda og gæti því hækkað eða lækkað eitthvað. JR greiðir keppnisgjöldin fyrir alla. Með hópnum fara tveir til fjórir þjálfarar frá JR. Myndin hér ofar er af JR-ingum í KA heimilinu á vormótinu 2022.

Góumót JR 2023 – Úrslit

Góumót JR var haldið laugardagin 25. febrúar og er það æfingamót fyrir yngstu iðkendurna (7-10 ára) þar sem allir fá þátttökuverðlaun. Keppnin hófst kl. 13 en á æfingu barna 5-6 ára fyrr um morguninn var haldið lítið æfingamót fyrir þau og er mynd af þeim hér neðar á verðlaunapalli með þáttttökuverðlaunin sín. Keppendur voru fjörtíu og fimm frá fimm klúbbum og voru það JR, Judodeild Grindavíkur, Judodeild Ármanns, Judofélag Reykjanesbæjar (JRB) og Judodeild Selfoss sem öttu kappi saman. Flestir þátttakendanna voru að taka þátt í sínu fyrsta móti og stóðu þau sig alveg frábærlega og höfðu þjálfarar þeirra í nógu að snúast við að undirbúa þau og leiðbeina. Börnunum er raðað saman eftir aldri og þyngd eins og venja er og keppa stúlkur og drengir stundum saman í flokkum ef þannig stendur á. Einnig þarf stundum að færa keppendur á milli aldursflokka til að þyngd keppenda sé sem jöfnust. Dómgæslan var í höndum okkar bestu yngri keppnismanna og leystu þeir verkið vel af hendi en það voru þeir Aðalsteinn Björnsson, Jónas Guðmundsson og Kjartan Hreiðarsson sem sáu um dómgæsluna og svo var það Ari Sigfússon og Skarphéðinn Hjaltason sáu um góða og örugga mótsstjórn. Mótið var frábær skemmtun og ótrúlega flott judo sem þessir ungu iðkendur sýndu. Hér er stutt videoklippa frá mótinu og hér eru úrslitin .

Kepptu um bronsverðlaun á Matsumae Cup

Þá er Matsumae Cup lokið að þessu sinni en mótið var vel sótt en um 700 keppendur frá tæplega 20 þjóðum sóttu mótið. Það voru átta þátttakendur frá Íslandi og stóðu þeir sig býsna vel og unnu samtals 23 viðureignir og þrjú þeirra kepptu um bronsverðlaun en það voru þau Helena Bjarnadóttir í U18-70kg, Romans Psenicnijs U18 -66 kg og Aðalsteinn Björnsson U18 -73kg. Það var ekki auðvelt að komast á pall því þrátt fyrir að hafa unnið fjórar viðureignir í flokknum eins og Aðalsteinn gerði í U18-73 kg eða fimm viðureignir eins og Romans gerði í U18 -66 þá dugði það ótrúlegt en satt ekki til verðlauna. Kjartan komst lengst seinni daginn, hann tapaði tveimur viðureignum en vann þrjár og þar af eina afar glædilega með vel útfærðum armlás þegar aðeins um 20 sek voru eftir af viðureigninni og hann var þá undir að stigum. Daron byrjaði líka vel seinni daginn í U21 -73 kg en hann mætti sigurvegaranum í U18 -73 kg frá fyrri keppnisdegi og sigraði hann örugglega en tapaði því miður næstu. Á heimasíðu JSÍ er nánari umfjöllun um keppnina en hér eru úrslitin og hér er streymið frá útsendingunni báða dagana. Áður en lagt verður af stað heim tekur hópurinn okkar þátt í tveggja daga æfingabúðum í Vejle ásamt allflestum keppendum mótsins.

Keppa á Matsumae Cup 2023

Um helgina verða átta Íslenskir þátttakendur á meðal keppenda á Matsumae Cup í Vejle í Danmörku. Það eru þau Helena Bjarnadóttir U18/U21-70 kg, Weronika Komendera U18/U21-57 kg, Romans Psenicnijs U18/U21 -66 kg, Daron Hancock U18/U21 -73 kg, Mikael Ísaksson U18/U21 -73 kg, Aðalsteinn Björnsson U18/U21 -73 kg, Kjartan Hreiðarsson U21/seniors -73 kg og Skarphéðinn Hjaltason U21/seniors -90 kg. Með þeim í för er Zaza Simonishvili landsliðsþjálfari og Þormóður Jónsson fararstjóri. Keppendur koma víða að og er stór hópur að venju frá Japan en auk þeirra og keppenda frá Íslandi og Danmörku eru keppendur frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Eistlandi, Frakklandi, Hollandi, Írlandi, Kanada, Lettlandi, Noregi, Spáni, Svíðþjóð, Tékklandi, Tyrklandi og Þýskalandi. Mótið hefst kl. 8 að Íslenskum tíma og verður í beinni útsendingu á sex keppnisvöllum og hér er drátturinn. Á morgun laugardag verður keppt í U18 og senioraflokkum og á sunnudaginn í U21 árs aldursflokki. Myndirnar sem fylgja eru af hluta hópsins á síðustu æfingu áður en lagt var af stað og þegar hópurinn var samankominn á Keflavíkurflugvelli.

Góumót JR 2023 – börn 7, 8, 9 og 10 ára

Góumót JR 2023 sem er opið öllum klúbbum verður haldið laugardaginn 25. febrúar næstkomandi. Mótið sem fyrst var haldið árið 2009 hefur jafnan verið fjölmennt en það er hugsað sem æfingamót fyrir aldursflokka U8, U9, U10 og U11 (7, 8,9 og 10 ára) og fá allir þátttakendur verðlaun. Skráning er til miðnættis 20. febrúar í skráningarkerfi JSÍ og sjá forsvarsmenn klúbba um allar skráningar. Húsið opnar kl. 12:00 á laugardaginn og verða krakkarnir vigtaðir á milli kl. 12:00 og 12:30 og mótið hefst svo kl. 13:00 og áætluð mótslok kl. 15:00. Nánari tímasetning að lokinni skráningu. Muna að mæta með börnin á tilgreindum tíma í vigtunina svo enginn missi af þátttöku og mótið geti hafist samkvæmt áætlun. Hér er umfjöllun og myndir frá Góumótinu 2022.

Úrslit Afmælismóts JSÍ 2023

Afmælismót JSÍ 2023 í aldursflokkum U13, U15, U18 og U21 árs var haldið í æfingasal Judofélags Reykjavíkur laugardaginn 11. febrúar. Keppendur voru aðeins tuttugu frá fimm klúbbum en þeim fækkaði töluvert frá skráningu þar sem mikið var um forföll sem stafaði af veikindum og leiðinda veðri en skráðir keppendur voru um fjörtíu. Mótið var skemmtilegt og fullt af flottum viðureignum. Keppendum okkar gekk vel og unnu þeir sjö gullverðlaun, fjögur silfur og ein bronsverðlaun. Dómgæslan var vel mönnuð en dómarar voru þeir Yoshihiko Iura, Sævar Sigursteinsson, Daníel Ólason, Gunnar Jóhannesson og Ármann Sveinsson og leystu þeir verkefnið vel af hendi og það gerðu einnig þeir Ari Sigfússon og Skarphéðinn Hjaltason sem sáu um mótsstjórn og stiga og tímagæslu. Hér eru úrslit mótsins, myndir af verðlaunahöfum og myndir frá keppninni og hér er svo stutt videoklippa.

Reykjavík Judo Open 2023-Úrslit

Reykjavík Judo Open 2023 var haldið 28. janúar 2023 á 50 ára afmælisdegi JSÍ. Þátttakendur voru tæplega sextíu frá tólf þjóðum en vegna óveðurs og niðurfellingar á flugi til Íslands komust ekki allir erlendu þátttakendurnir sem skráðir voru. JR ingar sem voru fjölmennir á mótinu unnu tvenn gullverðlaun, ein silfurverðlaun og þrenn bronsverðlaun og auk þess voru nokkrir sem kepptu um bronsverðlaun en urðu að játa sig sigaða. Þeir JR ingar sem unnu til verðlauna voru, Zaza Simonishvili sem sigraði í -73 kg flokki og varð einnig í þriðja sæti í opnum flokki. Ingunn Sigurðardóttir sigraði í -78 kg flokki og varð í fimmta sæti í opnum flokki. Romans Psenicnijs vann silfurverðlaunin í -66 kg flokki, Helena Bjarnadóttir varð í þriðja sæti í -63 kg flokki og í fimmta sæti í opnum flokki og Árni Lund varð í þriðja sæti í -90 kg flokki.
Hér eru úrslitin / results og tengill á útsendingu RÚV frá mótinu og streymi JSÍ.

Úrslit:
20132014201520162017201820192020202120222023