Gísli hefur lokið keppni í Riga

Gísli Egilson hefur lokið keppni á RIGA SENIOR EUROPEAN CUP sem haldið er dagana 18. og 19. mars 2023. Gísli keppti í morgun í 81 kg flokki  og mætti þar Damian Szwarnowiecki keppanda frá Póllandi. Eins og venjulega þá er það keppnisreynslan og barátta um tökin sem skipta höfuðmáli en sá sem er sterkari þar stjórnar glímunni og var Damian öllu sterkari. Snemma í viðureigninni skorar hann wazaari þegar hann komst inn í seoinage kast og skömmu seinna í gólfglímu komst hann í armlás sem Gísli gat ekki losað sig úr og varð að gefast upp. Pólverjinn var þar með kominn í 16 manna úrslit og með sigri í næstu viðureign hefði Gísli fengið uppreisnarglímu en því miður tapaði hann og þar með var keppninni lokið hjá Gísla og hjá Íslandi því hann var eini keppandinnn okkar á mótinu. Það er nokkuð síðan að Gísli tók þátt í svona sterku móti og er hann kanski ekki í sínu besta keppnisformi en það var afar ánægjulegt að sjá hann aftur á þessum slóðum og vonandi mun hann láta meira að sér kveða á næstu mánuðum því hann á mikið inni. Hér má finna viðureign Gísla og Damians og öll úrslit á mótsins.

Gísli Egilson keppir á RIGA SENIOR EUROPEAN CUP

RIGA SENIOR EUROPEAN CUP hófst í dag 18. mars og stendur í tvo daga. Þátttakendur eru 190 frá 4 heimsálfum og 24 þjóðum, 131 karlar og 59 konur. Gísli Egilson er á meðal þátttakenda og keppir hann á morgun í 81 kg flokki og eru keppendur þar tuttugu og tveir. Keppnin hefst kl. 7 í fyrramálið að Íslenskum tíma og á Gísli tíundu viðureign á velli 2. svo hún væri þá um kl. 7:45-8:00. Gísli situr hjá í fyrstu umferð og mætir Damian Szwarnowiecki keppanda frá Póllandi sem er í 167. sæti heimslistans (Wrl). Ef að vel gengur og hann vinnur POL þá er hann kominn í 16 manna úrslit. Mótið er í beinni útsendingu og til að horfa á þarf að hafa (IJF account) og er hann frír og notast aftur og aftur. Hér er keppnisröðin og drátturinn í öllum flokkum og linkur á mótið og frekari upplýsingar.

Níu gullverðlaun á Vormóti JSÍ yngri 2023

Vormót JSÍ í yngri aldursflokkum (U15, U18, U21 árs) var haldið í KA heimilinu á Akureyri í dag, laugardaginn 18. mars og var það í umsjón Judodeildar KA og voru það þeir Hans Rúnar Snorrason, Hermann Torfi Björgólfsson og Sigmundur Magnússon sem að stýrðu því. Dómarar voru þeir Jón Kristinn Sigurðsson og Jakob Burgel Ingvarsson. Hér eru úrslitin og hér er hægt að horfa á allt mótið sem var í beinni útsendingu og hér er stutt videoklippa frá því. Til Akureyrar var farið í lítilli rútu og voru keppendur frá JR þrettán og fjórir þeirra kepptu í tveimur aldursflokkum. Með þeim voru þjálfararnir Guðmundur Björn Jónasson, Zaza Simonishvili og Þormóður Jónsson og sjálfboðaliði ársins 2022 hjá JR Helgi Einarsson sá um aksturinn. JR- ingar áttu frábæran dag og unnu samtals til níu gullverðlauna, fernra silfurverðlauna og þriggja bronsverðlauna. Til hamingju með árangurinn.

Keppa á Vormóti JSÍ

Vormót JSÍ 2023 yngri. Í gær lögðu fjórtán keppendur úr JR af stað ásamt þremur þjálfurum og fararstjóra til að taka þátt í Vormóti JSÍ í aldursflokkum U13, U15, U18 og U21 árs sem haldið verður í dag á Akureyri. Þátttakendur eru um fjörtíu frá sex judoklúbbun. Mótið fer fram í KA heimilinu og hefst kl. 12 og mótslok áætluð um kl. 15. Hér er linkur á beina útsendingu frá mótinu og eru úrslitin.

Vormót JSÍ yngri aldursflokkar á Akureyri

Vormót JSÍ 2023 í yngri aldursflokkum verður haldið á Akureyri 18. mars í KA heimilinu. Keppt verður í aldursflokkunum U13, U15, U18 og U21 og er áætlað að mótið hefjist kl. 12 og ljúki um kl. 16:00. Vigtun í KA heimilinu föstudagskvöldið 17.mars frá kl.19-21:00 en einnig verður hægt að vigta sig á mótsdegi frá kl. 11:00-11:30. Farið verður með rútu frá JR föstudaginn 17. mars kl. 14 og komið til baka daginn eftir um kl. 21. Kostnaður, rúta og gisting (hótel/uppábúin rúm með morgunmat) um 12.000 k. Með hópnum fara þrír þjálfarar frá JR. Myndin hér ofar er af nokkrum JR-ingum í KA heimilinu á vormótinu 2022.

Taka þátt í OTC í Nymburk í Tékklandi

Frétt af heimasíðu JSÍ. Fjórir landsliðsmenn í U18 og U21 landsliðum taka þátt í sterkum alþjóðlegum æfingabúðum sem haldnar eru í Nymburk í Tékklandi dagana 13-18 mars. Það eru þeir Aðalsteinn Björnsson og Romans Psenicnijs í U18 ára aldursflokki og Kjartan Hreiðarsson og Skarphéðinn Hjaltason í U21 árs aldursflokki og með þeim í för er Zaza Simonishvili landsliðsþjálfari. Æfingabúðir þessar eru haldnar árlega og eru liður í röð æfingabúða sem nefnast einu nafni Olympic Training Centre (OTC). Þær eru haldnar af Evrópska Judosambandinu (EJU) í samvinnu viðkomandi landssamband. Um 500 þátttakendur frá 43 þjóðum taka þátt í æfingabúðunum að þessu sinni.

Kyu gráðanir í JR

Farist hefur fyrir að setja inn fréttir á heimasíðuna af allmörgum kyu gráðunum hjá JR ingum sem teknar hafa verið um og eftir áramót og er bætt úr því hér. Eftirtaldir aðila tóku brúnt belti (1. kyu) Kolmar Jónsson, Jónas Guðmundsson, Elías Þormóðsson, Gunnar Ingi Tryggvason, Helena Bjarnadóttir, Nökkvi Viðarsson, Aleksander Perkovski og Rúbar Hamou. Blátt belti (2. kyu) tóku Tristan Sverrisson, Helgi Hrafnsson, Vilmar Vilmarsson, Vésteinn Gunnarsson, Emma Thueringer og Orri Helgason. Grænt belti (3.kyu) tóku Benas Paskevicius og Ívar Kolbeinsson. Appelsínugult belti (4.kyu) tóku Jóhann Jónsson og Kristján Stefánsson og gula beltið (5.kyu) þeir Daníel Hákonarson, Gabríel Jóhannesson og Sigurður Sigurgeirsson. Til hamingju með gráðurnar.

Ari og Þorgrímur komnir með 2. dan

Félagarnir Ari Sigfússon og Þorgrímur Hallsteinsson þreyttu 2. dan gráðupróf laugardaginn 11. mars og stóðust það með glæsibrag. Alllangur tími er liðinn síðan þeir fóru síðast í gráðupróf en Ari tók 1. dan 2017 eða fyrir sex árum og liðin eru tíu ár frá því að Þorgrímur tók 1. dan en það gerði hann 2013. Eins og flestir vita eða hafa tekið eftir þá er nánast ekkert judomót haldið hér á landi án þess að þeir félagar komi ekki að því en þeir hafa alla jafnan séð um mótsstjórn og eða komið að undirbúningi móta með einhverjum hætti og hafa gert um árabil. Tækniráð sér um allar dan gráðanir og voru prófdómarar hjá þeim þeir Björn Halldórsson 5. dan og Garðar Skaftason 4. dan. Til hamingju með áfangann.

Vormót yngri 2023 á Akureyri

Vormót JSÍ 2023 í yngri aldursflokkum verður haldið á Akureyri 18. mars í KA heimilinu. Keppt verður í aldursflokkunum U13, U15, U18 og U21 og er áætlað að mótið hefjist kl. 12 og ljúki um kl. 16:00 en nánari tímasetningar að loknum skráningarfresti sem 13. mars. Þeir JR- ingar sem áhuga hafa á því að keppa láti þjálfara vita um það í síðasta lagi föstudaginn 10. mars. Gert er ráð fyrir að fara í lítilli rútu frá JR föstudaginn 17. mars kl. 14 og koma til baka daginn eftir líklega um kl. 21. en nánari tímasetning síðar. Kostnaður, rúta og gisting (hótel/uppábúin rúm) um 17.000 kr. fer þó eftir fjölda þátttakenda og gæti því hækkað eða lækkað eitthvað. JR greiðir keppnisgjöldin fyrir alla. Með hópnum fara tveir til fjórir þjálfarar frá JR. Myndin hér ofar er af JR-ingum í KA heimilinu á vormótinu 2022.