Judomenn JR 2020

Judomaður ársins hjá Judofélagi Reykjavíkur var valinn í fyrsta skipti árið 2019  og er sá valinn sem best hefur staðið sig á árinu í senioraflokki. Þá var einnig ákveðið að velja judomann ársins í U21 árs og þann efnilegasta í U18/21. Við valið er ekki einungis tekið mið af árangri heldur einnig ástundun, framkomu og virðingu fyrir íþróttinni. Aðeins er valinn einn júdomaður ársins og er það annaðhvort kvenmaður eða karlmaður hverju sinni og það sama á við í U21 og þann efnilegasta. Covid-19 setti stórt strik í reikninginn árið 2020. Aðeins var keppt á einu senioramóti (RIG) og tveimur U21 og tveimur U18 mótum á árinu og þátttaka erlendis var nánast engin og var því val á judomanni JR 2020 einungis miðuð við þessi þrjú mót. Á RIG voru tveir aðilar jafnir en þeir voru með sama árangur, jafnir að  stigum og önnur viðmið við valið sambærileg. Því ákveðið að gera undantekningu við valið að þessu sinni þannig að tveir aðilar skildu hljóta titilinn Judomaður JR 2020. Aðeins auðveldara var að velja í U21 árs og þann efnilegasta í U18/21 þar sem mótin voru fleiri.

Judomenn JR 2020 frá v-h. Kjartan Logi Hreiðarsson, Ingunn Rut Sigurðardótir og Andri Fannar Ævarsson

Ingunn Rut Sigurðardóttir og Zaza Simonis­hvili voru valin Judomenn JR 2020. Á Reykjavík Judo Open 2020 (RIG) sem er opið alþjóðlegt mót unnu þau bæði til gullverðlauna er þau sigruðu andstæðinga sína örugglega. Ingunn sem alla jafnan keppir í -70 kg keppti nú í -78 kg flokki og vann allar sínar glímur á ippon. Á uppskeruhátið JSÍ fyrir skemmstu var Ingunn kjörin Judokona ársins 2020 og er það í annað skiptið sem hún hlýtur þann titil.  Á RIG vann Zaza einnig allar sínar glímur á ippon í -73 kg flokki en úrslitaglíma hans var líklega einna mest spennandi að fylgjast með en hún hafði verið mjög jöfn en Zaza var þó undir þegar lítið var eftir af glímutímanum. Það var ekki fyrr en á síðustu mínútu að Zaza sigraði er hann náði glæsilegu kasti og skoraði ippon við mikinn fögnuð áhorfenda. Í veislu sem haldin var í Laugardalshöll að loknu móti voru þau Ingunn Rut og Zaza valin judomenn RIG og fengu viðurkenningu fyrir árangurinn. Því miður er Zaza ekki á landinu sem stendur og er því notuð hér mynd af honum þegar hann og Ingunn voru valin judomenn RIG 2020.

Ingunn Rut og Zaza – judomenn RIG 2020
Ingunn Rut Sigurðardóttir Judomaður JR 2020

Kjartan Hreiðarsson sem er 17 ára var valinn Judomaður JR 2020 í U21 árs aldursflokki og er það í annað sinn sem hann hlýtur þann titil. Hann vann Afmælismót JSÍ í U18 og U21 árs í 81 kg þyngdarflokki og það sama gerði hann á Haustmóti JSÍ í sömu aldurs og þyngdarflokkum. Á Reykjavík Judo Open 2020 (RIG) keppti hann í -73 kg flokki karla og mætti fyrst keppanda frá Danmörku sem hann tapaði fyrir á refsistigum eftir fimm mínútna glímu en Daninn endaði í þriðja sæti. Kjartan fékk uppreinarglímu og tapaði henni einnig á refsistigum eftir rúmlega níu mínútna glímu og komst ekki lengra að þessu sinni. Því miður voru mótin ekki fleiri á árinu vegna Covid-19 en án efa hefði þá bæst eitthvað við verðlaunin hans því fyrir utan verðlaun á erlendis þá vann hann Íslandsmeistaratitil í U18 og U21 árs í fyrra og var þriðji á Íslandsmeistaramóti karla. 

Kjartan Logi Hreiðarsson Judomaður JR U21 árs 2020

Andri Fannar Ævarsson sem er 18 ára og keppir að öllu jöfnu í  -90 kg flokki var valinn efnilegasti Judomaður JR  2020. Hann sleit krossbönd um mitt ár í fyrra og missti því af fjölda móta það árið. Hann var sérlega duglegur að vinna í sinni endurhæfingu og fór í sjúkraþjálfun, tók lyftingaæfingar og æfði þrek og tækni eins og honum var fært og um leið og hann mátti var hann mættur á judo æfingu. Hann var ótrúlega fljótur að ná sér og var mættur til keppni í byrjun árs 2020. Hann sigraði örugglega á Afmælismóti JSÍ í febrúar 2020 í U21 í -90 kg flokki. Á Haustmóti JSÍ þurfti hann að keppa flokk uppfyrir sig og keppti því í -100 kg flokki en meiddist í fyrstu glímu og varð að hætta keppni en það voru þó ekki alvarleg meiðsli og er hann aftur mætur til leiks. Hann hefur verið einkar duglegur að mæta á aukaæfingar hvort heldur það eru lyftingaæfingar, þrek eða tækniæfingar og er hann öðrum til fyrirmyndar.

Andri Fannar Ævarsson – Efnilegasti Judomaður JR 2020