Judomenn JR 2023 og sjálfboðaliði ársins

Tilkynnt var um val á Judomanni ársins 2023 mánudaginn 18. desember. Judomaður JR var valinn í fyrsta skipti árið 2019  og er verður sá fyrir valinu sem bestum árangri hefur náð á árinu í senioraflokki. Þá er einnig valinn judomaður ársins í U21 árs aldursflokki og sá efnilegasti í U18/21 en hann getur aðeins verið valinn einu sinni. Við valið er ekki einungis tekið mið af árangri heldur einnig ástundun, framkomu og virðingu fyrir íþróttinni. Aðeins er valinn einn judomaður ársins hverju sinni, kona eða karl og það sama á við í U21 og þann efnilegasta. Sjálfboðaliði ársins var fyrst valinn 2022 en þeir eru ákaflega mikilvægir fyrir starfsemi félagsins og er hann heiðraður samhliða judomönnum ársins.

Aðalsteinn Karl Björnsson er Judomaður JR 2023 og er það í fyrsta sinn sem hann hlýtur þann heiður. Aðalsteinn sem er 17 ára og keppir jafnan í -81 kg flokki stóð sig vel á árinu og er hér hans helsti árangur. Gullverðlaun á Íslandsmeistaramótinu í -73 kg flokki, gull á Haustmóti JSÍ -81 kg flokki og gull á Reykjavíkurmeistaramótinu -90 kg flokki. Bronsverðlaun á Baltic Sea Championship -81 kg flokki og í 5. sæti á RIG. Auk þess vann hann til fernra gullverðlauna í U21 og U18 aldursflokkum og varð í 5.sæti á Matsumae cup í U18.

Romans Psenicnijs sem er 16 ára var valinn Judomaður JR 2023 í U21 árs aldursflokki og er það í fyrsta sinn sem hann hlýtur þann titil. Helsti árangur Romans á árinu í U21 árs aldursflokki er gull á Íslandsmeistaramótinu í -66 kg flokki, gull á Haustmóti JSÍ -73 kg flokki og gullverðlaun á Reykjavíkurmeistaramótinu í -73 kg flokki. Einnig vann hann gull með sveit JR á Íslandsmeistaramóti í liðakeppninni JSÍ í U21, U18 og karlaflokki. Hann stóð sig einnig frábærlega bæði í U18 sem og karlaflokki en hann var með silfur á RIG, ÍM, VM og Reykjavíkurmeistaramóti í karlaflokkum og tvenn gullverðlaun í U18.

Gunnar Ingi Tryggvason sem er 15 ára var valinn efnilegasti Judomaður JR 2023 í U18/21 árs aldursflokki. Hann stóð sig vel á árinu og vann þrenn gullverðlaun, fimm silfurverðlaun og eitt brons. Gullverðlaun á Afmælismóti JSÍ í U18, gull á Haustmóti JSÍ í U18 og auk þess gull í karlaflokki á Vormóti JSÍ. Silfurverðlaun hlaut hann í U18 ára aldursflokki á Íslandsmeistaramótinu og Reykjavíkurmeistaramótinu og einnig silfur á Haustmóti JSÍ í U21 árs aldursflokki og silfur í karlaflokki á Íslandsmeistaramótinu og Haustmóti JSÍ og að lokum bronsverðlaun á Reykjavíkurmeistaramótinu í karlaflokki. Hann varð einnig Íslandsmeistari með með sveit JR í liðakeppninni JSÍ í karlaflokki og U18 ára aldursflokki.

Þorgrímur Hallsteinsson var valinn sjálfboðaliði ársins 2023. Eins og oft vill verða eru margir tilnefndir en aðeins einn útnefndur og valið því erfitt því allir voru vel að heiðrinum komnir. Fyrir utan að mæta reglulega á æfingar þá hefur Þorgrímur eða Doddi eins og hann er jafnan kallaður komið að starfsemi JR með ýmsum hætti. Hann er svona maðurinn á bak við tjöldin sem kippir hlutunum í lag þegar á þarf að halda. Fyrir utan það að hann er allltaf reiðubúinn að hjálpa til við mótahald þá hefur hann komið að viðhaldi og passað uppá ljósin í salnum og skipt þeim út sem ónýt eru og sett ný upp í staðin. Hann hefur einnig sett upp rafmagnsbúnað eins og hreyfiskynjara og loftræsti viftur svo eitthvað sé nefnt og ekki er mjög langt síðan að hann færði félaginu hátalara/magnara sem notaður er við mótahald. Svona menn eru ómissandi.

Judomenn JR 2019202020212022, 2023