Gleðileg Jól

Judofélag Reykjavíkur óskar öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Æfingar hefjast aftur samkvæmt stundaskrá 8. janúar, sjáumst þá.

Judomenn JR 2023 og sjálfboðaliði ársins

Tilkynnt var um val á Judomanni ársins 2023 mánudaginn 18. desember. Judomaður JR var valinn í fyrsta skipti árið 2019  og er verður sá fyrir valinu sem bestum árangri hefur náð á árinu í senioraflokki. Þá er einnig valinn judomaður ársins í U21 árs aldursflokki og sá efnilegasti í U18/21 en hann getur aðeins verið valinn einu sinni. Við valið er ekki einungis tekið mið af árangri heldur einnig ástundun, framkomu og virðingu fyrir íþróttinni. Aðeins er valinn einn judomaður ársins hverju sinni, kona eða karl og það sama á við í U21 og þann efnilegasta. Sjálfboðaliði ársins var fyrst valinn 2022 en þeir eru ákaflega mikilvægir fyrir starfsemi félagsins og er hann heiðraður samhliða judomönnum ársins.

Aðalsteinn Karl Björnsson er Judomaður JR 2023 og er það í fyrsta sinn sem hann hlýtur þann heiður. Aðalsteinn sem er 17 ára og keppir jafnan í -81 kg flokki stóð sig vel á árinu og er hér hans helsti árangur. Gullverðlaun á Íslandsmeistaramótinu í -73 kg flokki, gull á Haustmóti JSÍ -81 kg flokki og gull á Reykjavíkurmeistaramótinu -90 kg flokki. Bronsverðlaun á Baltic Sea Championship -81 kg flokki og í 5. sæti á RIG. Auk þess vann hann til fernra gullverðlauna í U21 og U18 aldursflokkum og varð í 5.sæti á Matsumae cup í U18.

Romans Psenicnijs sem er 16 ára var valinn Judomaður JR 2023 í U21 árs aldursflokki og er það í fyrsta sinn sem hann hlýtur þann titil. Helsti árangur Romans á árinu í U21 árs aldursflokki er gull á Íslandsmeistaramótinu í -66 kg flokki, gull á Haustmóti JSÍ -73 kg flokki og gullverðlaun á Reykjavíkurmeistaramótinu í -73 kg flokki. Einnig vann hann gull með sveit JR á Íslandsmeistaramóti í liðakeppninni JSÍ í U21, U18 og karlaflokki. Hann stóð sig einnig frábærlega bæði í U18 sem og karlaflokki en hann var með silfur á RIG, ÍM, VM og Reykjavíkurmeistaramóti í karlaflokkum og tvenn gullverðlaun í U18.

Gunnar Ingi Tryggvason sem er 15 ára var valinn efnilegasti Judomaður JR 2023 í U18/21 árs aldursflokki. Hann stóð sig vel á árinu og vann þrenn gullverðlaun, fimm silfurverðlaun og eitt brons. Gullverðlaun á Afmælismóti JSÍ í U18, gull á Haustmóti JSÍ í U18 og auk þess gull í karlaflokki á Vormóti JSÍ. Silfurverðlaun hlaut hann í U18 ára aldursflokki á Íslandsmeistaramótinu og Reykjavíkurmeistaramótinu og einnig silfur á Haustmóti JSÍ í U21 árs aldursflokki og silfur í karlaflokki á Íslandsmeistaramótinu og Haustmóti JSÍ og að lokum bronsverðlaun á Reykjavíkurmeistaramótinu í karlaflokki. Hann varð einnig Íslandsmeistari með með sveit JR í liðakeppninni JSÍ í karlaflokki og U18 ára aldursflokki.

Þorgrímur Hallsteinsson var valinn sjálfboðaliði ársins 2023. Eins og oft vill verða eru margir tilnefndir en aðeins einn útnefndur og valið því erfitt því allir voru vel að heiðrinum komnir. Fyrir utan að mæta reglulega á æfingar þá hefur Þorgrímur eða Doddi eins og hann er jafnan kallaður komið að starfsemi JR með ýmsum hætti. Hann er svona maðurinn á bak við tjöldin sem kippir hlutunum í lag þegar á þarf að halda. Fyrir utan það að hann er allltaf reiðubúinn að hjálpa til við mótahald þá hefur hann komið að viðhaldi og passað uppá ljósin í salnum og skipt þeim út sem ónýt eru og sett ný upp í staðin. Hann hefur einnig sett upp rafmagnsbúnað eins og hreyfiskynjara og loftræsti viftur svo eitthvað sé nefnt og ekki er mjög langt síðan að hann færði félaginu hátalara/magnara sem notaður er við mótahald. Svona menn eru ómissandi.

Judomenn JR 2019202020212022, 2023

Jólamót JR 2023 Úrslit

Jólamót JR 2023 var haldið mánudaginn 18. desember en það er innanfélagsmót sem fyrst var haldið 2006. Keppnin hófst kl. 17 í aldursflokki U15 þar sem keppt var í -66 kg flokki. Að lokinni keppni í U15 hófst svo keppni í senioraflokkum og keppt -66 kg flokki karla og -90 kg flokki karla og nú einnig í fyrsta skipti var keppt í gólfglímu í aldursflokki 30 ára og eldri. Keppt er um farandbikara sem orðnir eru sögulegir en þeir eru áletraðir með nöfnum fyrrum sigurvegara, okkar bestu judomanna hér áður fyrr. Á mótinu var tilkynnt um val á Judomanni JR 2023. Hér eru myndir frá mótinu, videoklippa og úrslitin 20232022,  2021 og 2019.

Judomaður JR verður valinn í kvöld

Judomaður JR 2023 verður valinn í fimmta skiptið í kvöld en það var fyrst gert 2019 og verður valið tilkynnt á Afmælismóti/Jólamóti JR seniora sem hefst um kl. 18 að loknu Jólamóti aldursflokks U15 sem hefst kl. 17. Ekki er aðeins valinn judomaður ársins heldur einnig judomaður ársins í U21 árs aldursflokki og sá efnilegasti í aldursflokki U18/U21 árs. Við valið er ekki einungis tekið mið af árangri heldur einnig ástundun, framkomu og virðingu fyrir íþróttinni. Einungis er valinn einn judomaður ársins og er það annaðhvort kona eða karl hverju sinni og það sama á við í U21 og þann efnilegasta

Helena og Karl judomenn ársins hjá JSÍ

Á uppskeruhátíð Judosambands Íslands í dag var tilkynnt um val á judomönnum ársins 2023 og voru þau Helena Bjarnadóttir (JR) og Karl Stefánsson (Ármanni) kjörin. Einnig var tilkynnt um val á efnilegastu judomönnum ársins og voru að þessu sinni hlutskörpust þau Weronika Komendera (JR) og Romans Psenicnijs (JR). Þá voru afhent Diploma fyrir dan gráðanir á árinu sem voru allnokkrar, dómari ársins var Gunnar Jóhannesson (UMFG) og gullmerki JSÍ fengur þeir Gunnar Jóhannesson (UMFG) og Þormóður Jónsson (JR). Nánar á heimasíðu JSÍ.

Jólaæfing barna 5-10 ára

Í dag var haldin sameiginleg æfing barna 5-6 og 7-10 ára og var það síðasta æfing haustannarinnar hjá þeim. Síðasta æfingin er að venju aðallega í formi leikja en þó með smá upphitun áður en hafist er handa við leikina. Að leikjum loknum fengu börnin afhent viðurkenningarskjal fyrir haustönnina og gráðuprófið sem þau tóku nú nýverið og svo var farið í setustofuna þar sem í boði voru drykkir, kökur, ávextir og ýmslegt fleira og kaffi fyrir þá fullorðnu. Vel var mætt á æfinguna sem heppnaðist með ágætum en þó vantaði um tíu börn sem fá sínar viðurkenningar afhentar næst þegar þau mæta.

Ásta Lovísa komin með 2. dan

Ásta Lovísa Arnórsdóttir tók gráðuna 2. dan í gær og stóðst prófið með glæsibrag. Uke hjá henni var Orri Helgason einn okkar efnilegasti judomaður í yngri flokkum og stóð hann sig vel í sínu hlutverki. Ásta sem hóf að æfa judo hjá JR sem barn hefur verið ein okkar öflugasta judokona í gegnum árin og á árunum frá 2011-2019 varð hún Íslandsmeistari sex sinnum. Hún tók svartabeltið, 1. dan fyrir tólf árum þá tvítug og var löngu búin að uppfylla skilyrði fyrir próftöku í 2. dan en lét ekki verða af því fyrr en nú. Til hamingju með gráðuna.

Síðustu æfingar fyrir Jól

Síðasta æfing hjá börnum 5-6 ára og 7-10 ára verður á fimmtudaginn 14. des. en þá verður sameiginleg æfing með þessum aldursflokkum og hefst hún kl. 17 og verður hún að mestu í leikjaformi. Æfingin hjá börnum 5-6 ára sem hefði átt að vera laugardaginn 16. des. fellur því niður. Að lokinni æfingu verður farið í setustofuna þar sem í boðið verða drykkir , kökur, ávextir og ýmslegt fleira og kaffi fyrir þá fullorðnu.


Síðasta æfing hjá 11-14 ára verður mánudaginn 18. des. Að lokinni æfingu kl. 18 verður boðið í jólakaffi/drykki og veitingar í setustofunni og þau sem ekki eru að flýta sér geta þá horft á Jólamót/Afmælismót JR í karla og kvennaflokkum sem hefst um kl. 18:15.

Síðasta æfing fyrir áramót hjá 15 ára og eldri verður föstudaginn 22. des. Hugsanlega verða haldnar aukaæfingar fyrir þennan aldurshóp á milli Jóla og nýárs og verður það þá auglýst hér síðar.

Æfingar hefjast svo aftur á nýju ári sem hér segir. Byrjenda og framhaldsnámskeið 11-14 ára og 15 ára og eldri hefjast mánudaginn 8. janúar. Gólfglíma, byrjendur/framhald 30 ára og eldri og æfingar barna 7-10 ára hefjast þriðjudaginn 9. janúar og æfingar barna 5-6 ára hefjast laugardaginn 13. janúar.

Jóla og Afmælismót JR 2023

Jólamót/Afmælismót JR 2023 verður haldið mánudaginn 18. desember og hefst það kl. 17 í aldursflokki U15 þar sem keppt verður í einum opnum flokki. Um kl. 18:15 hefst svo keppni í senioraflokkum en þar er keppt í nokkrum þyngdarflokkum og einnig nú í fyrsta skiptið verður gólfglímu keppni 30 ára og eldri. Þetta er innanfélagsmót sem fyrst var haldið 2006 og er það nú haldið í sautjánda skipti en það féll niður 2020 vegna covid. Ekki þarf að skrá sig fyrirfram því allir sem mæta á æfingu á mánudaginn geta keppt og verður keppendum raðað í flokka að lokinni vigtun. Í kvennaflokkum hefur verið keppt í -57 kg og +57 kg en í karlaflokkum -66, -73, -81, -90 og +90 kg en hugsanlega verða flokkar sameinaðir en það fer eftir þátttöku. Keppt er um farandbikara sem orðnir eru sögulegir en þeir eru áletraðir nöfnum fyrrum sigurvegara sem flestir eru hættir keppni en voru okkar bestu judomenn þess tíma. Hér eru úrslitin 2022, 2021 og 2019. Á mótinu verður einnig tilkynnt um val á Judomanni JR 2023.

Beltapróf hjá 5-6 ára á haustönn

Í dag tóku fjórtán börn í aldursflokknum 5-6 ára beltapróf í JR og stóðu þau sig öll alveg frábærlega og fengu fjólubláa strípu í beltið sitt en liturinn fer eftir aldri barns og er hann fjólublár hjá börnum 6 ára og yngri. Þau börn sem byrjuð í haust voru að fá sína fyrstu strípu en þau sem hafa verið lengur fengu sína aðra og þriðju strípu og ein stúlkan hún Ea Kjærnested fékk sína sjöttu strípu sem þýðir að hún hefur æft judo í þrjú ár en það er gefin ein strípa á önn eða tvær á ári. Verkefni barnanna er aðallega að sýna hvernig á að detta, bæði afturá bak og fram fyrir sig og passa höfuðið, fara í kollhnís og sýna eitt kastbragð. Ekki voru allir iðkendur í þessum aldursflokki mættir í dag svo að þau sem ekki komust, taka sitt beltapróf næst þegar þau mæta svo það mun enginn að missa af því. Hér má sjá litakerfi belta fyrir 10 ára og yngri og hér fyrir 11 ára og eldri