Dómaranámskeið JSÍ 19. janúar

Dómaranefnd JSÍ stóð fyrir dómaranámskeiði 19. janúar síðastliðinn og var það ætlað fyrir dómara, tilvonandi dómara, þjálfara, keppendur 15 ára og eldri og þeim sem stefna á dan gráðun á árinu. Farið var yfir það nýjasta í reglunum og helstu áherslur og vafaatriði útskýrð. Námskeiðið var vel sótt en þátttakendur voru nítján auk fjögurra leiðbeinenda frá dómaranefnd.

Vorfjarnám ÍSÍ – þjálfaramenntun

Vorfjarnám 1. 2. og 3. stigs ÍSÍ hefst mánudaginn 1. feb. nk. og tekur það átta vikur á 1. stigi en fimm vikur á 2. og 3. stigi. Námið er almennur hluti menntakerfisins og gildir jafnt fyrir allar íþróttagreinar. Sérgreinaþátt þjálfaramenntunarinnar sækja þjálfarar hjá viðkomandi
sérsambandi ÍSÍ hverju sinni. Nám allra stiga er allt í fjarnámi, engar staðbundnar lotur. Námið hefur verið afar vinsælt til fjölda ára og þátttakendur komið frá mörgum íþróttagreinum. Námið veitir réttindi til íþróttaþjálfunar og jafnframt rétt til áframhaldandi náms til frekari réttinda.

Þátttökugjald á 1. stig er kr. 34.000.- og öll námskeiðsgögn eru innifalin í því verði.
Þátttökugjald á 2. stig er kr. 28.000.- og öll námskeiðsgögn eru innifalin. Gjaldið á 3. stig
er kr. 40.000.- Athugið að þeir nemendur/þjálfarar sem koma frá fyrirmyndarfélögum/-deildum ÍSÍ fá 20% afslátt af námskeiðsgjaldi.

Skráning er rafræn og þarf henni að vera lokið fyrir mánudaginn 1. feb. Rétt til þátttöku á 1.
stigi hafa allir sem lokið hafa grunnskólaprófi.

Slóð á skráningu á öll stig í sumarfjarnámi þjálfaramenntunar ÍSÍ 2020:
http://isi.is/fraedsla/thjalfaramenntun-isi/skraning-i-thjalfaramenntun/

Allar nánari upplýsingar um fjarnámið og þjálfaramenntun ÍSÍ gefur Viðar Sigurjónsson í síma 460- 1467 & 863-1399 eða á vidar@isi.is

Æfingabanni aflétt í bili

Tilslakanir boðaðar á takmörkunum á samkomum frá 13. janúar til og með 17. febrúar 2021. Heilbrigðisráðneytið hefur nú birt frétt og reglugerð um tilskakanir á takmörkunum á samkomum, frá og með 13. janúar nk.  Sá fyrirvari er þó á tilslökunum að þróun faraldursins verði ekki á verri veg. Helstu breytingar varðandi íþróttastarfið eru eftirfarandi:

  • Íþróttaæfingar: Íþróttaæfingar barna og fullorðinna verða heimilar með og án snertingar innan- og utandyra. Ekki mega vera fleiri en 50 manns í rými. 
  • Íþróttakeppnir: Íþróttakeppnir barna og fullorðinna verða heimilar en án áhorfenda.

Fréttina í heild sinni er að finna hér.

Reglugerð heilbrigðisráðuneytisins hefur verið birt, finna má hana hér.

Fréttinni fylgdi minnisblað sóttvarnarlæknis, dags. 7. janúar 2021

Æfingar hefjast því á ný miðvikudaginn (13. jan.) samkvæmt stundaskrá.

Æfingar 4-6 ára barna hefjast á morgun

Æfingar barna 4-6 ára hefjast á morgun. Æfingar eru einu sinni í viku á laugardögum frá kl. 10-11 og eru þær fyrst og fremst í formi ýmiskonar leikja, jafnvægisæfinga og samhæfing handa og fóta og börnin læra að detta án þess að meiða sig svo eitthvað sé nefnt og þannig er lagður grunnur að framhaldsæfingum í judo. Þjálfarar eru Ingunn Rut Sigurðardóttir, og Bjarni Á. Friðriksson. Allir byrjendur 4-6 ára fá júdobúning frá JR. Nánari upplýsingar, gjaldskrá og skráning.

Æfingar hafnar í yngri flokkum

Æfingar hófust í gær í aldursflokkum U13 (11- 12 ára) og U15 (13-14 ára) og kl. 17:30 í dag er svo æfing hjá U11 (7-10ára) og kl. 18:30 hjá U18 (15, 16, og 17 ára) Vegna Covid-19 takmarkana geta eingöngu þeir sem fæddir eru 2005 og síðar tekið þátt í U18 æfingunni. Hér er stundaskrá JR.

Judonámskeiðin að hefjast – Frír prufutími

Vorönn 2021 hefst 4. janúar og er skráning hafin.

Byrjenda og framhaldsnámskeið 11-14 ára hefst mánudaginn 4. janúar.

Byrjenda og framhaldsnámskeið 7-10 ára hefst þriðjudaginn 5. janúar.

Námskeið barna 4-6 ára hefst laugardaginn 9. janúar.
(Allir byrjendur 4-6 ára fá judobúning frá JR)

Æfingar hjá meistaraflokki áttu að hefjast 4. janúar og hjá U18/U21 árs og framhaldi 15 ára og eldri 5. janúar en vegna Covid samkomubanns þá hefjast æfingar hjá þessum flokkum líkast til ekki fyrr en 12. janúar)

Hér er skráningarform en einning er hægt að hafa samband í síma 588-3200 eða senda tölvupóst á netfangið jr@judo.is
Helstu upplýsingar eins og æfingatími, gjöld, þjálfarar og fleira má finna undir Námskeið

Allir fá fría prufutíma fyrstu vikuna. Það er í góðu lagi að mæta í prufutíma með síðar íþróttabuxur og bol ef þú átt ekki judobúning eða eitthvað svipað en judobúninga er hægt að fá hjá JR.

Judomenn JR 2020

Judomaður ársins hjá Judofélagi Reykjavíkur var valinn í fyrsta skipti árið 2019  og er sá valinn sem best hefur staðið sig á árinu í senioraflokki. Þá var einnig ákveðið að velja judomann ársins í U21 árs og þann efnilegasta í U18/21. Við valið er ekki einungis tekið mið af árangri heldur einnig ástundun, framkomu og virðingu fyrir íþróttinni. Aðeins er valinn einn júdomaður ársins og er það annaðhvort kvenmaður eða karlmaður hverju sinni og það sama á við í U21 og þann efnilegasta. Covid-19 setti stórt strik í reikninginn árið 2020. Aðeins var keppt á einu senioramóti (RIG) og tveimur U21 og tveimur U18 mótum á árinu og þátttaka erlendis var nánast engin og var því val á judomanni JR 2020 einungis miðuð við þessi þrjú mót. Á RIG voru tveir aðilar jafnir en þeir voru með sama árangur, jafnir að  stigum og önnur viðmið við valið sambærileg. Því ákveðið að gera undantekningu við valið að þessu sinni þannig að tveir aðilar skildu hljóta titilinn Judomaður JR 2020. Aðeins auðveldara var að velja í U21 árs og þann efnilegasta í U18/21 þar sem mótin voru fleiri.

Judomenn JR 2020 frá v-h. Kjartan Logi Hreiðarsson, Ingunn Rut Sigurðardótir og Andri Fannar Ævarsson

Ingunn Rut Sigurðardóttir og Zaza Simonis­hvili voru valin Judomenn JR 2020. Á Reykjavík Judo Open 2020 (RIG) sem er opið alþjóðlegt mót unnu þau bæði til gullverðlauna er þau sigruðu andstæðinga sína örugglega. Ingunn sem alla jafnan keppir í -70 kg keppti nú í -78 kg flokki og vann allar sínar glímur á ippon. Á uppskeruhátið JSÍ fyrir skemmstu var Ingunn kjörin Judokona ársins 2020 og er það í annað skiptið sem hún hlýtur þann titil.  Á RIG vann Zaza einnig allar sínar glímur á ippon í -73 kg flokki en úrslitaglíma hans var líklega einna mest spennandi að fylgjast með en hún hafði verið mjög jöfn en Zaza var þó undir þegar lítið var eftir af glímutímanum. Það var ekki fyrr en á síðustu mínútu að Zaza sigraði er hann náði glæsilegu kasti og skoraði ippon við mikinn fögnuð áhorfenda. Í veislu sem haldin var í Laugardalshöll að loknu móti voru þau Ingunn Rut og Zaza valin judomenn RIG og fengu viðurkenningu fyrir árangurinn. Því miður er Zaza ekki á landinu sem stendur og er því notuð hér mynd af honum þegar hann og Ingunn voru valin judomenn RIG 2020.

Ingunn Rut og Zaza – judomenn RIG 2020
Ingunn Rut Sigurðardóttir Judomaður JR 2020

Kjartan Hreiðarsson sem er 17 ára var valinn Judomaður JR 2020 í U21 árs aldursflokki og er það í annað sinn sem hann hlýtur þann titil. Hann vann Afmælismót JSÍ í U18 og U21 árs í 81 kg þyngdarflokki og það sama gerði hann á Haustmóti JSÍ í sömu aldurs og þyngdarflokkum. Á Reykjavík Judo Open 2020 (RIG) keppti hann í -73 kg flokki karla og mætti fyrst keppanda frá Danmörku sem hann tapaði fyrir á refsistigum eftir fimm mínútna glímu en Daninn endaði í þriðja sæti. Kjartan fékk uppreinarglímu og tapaði henni einnig á refsistigum eftir rúmlega níu mínútna glímu og komst ekki lengra að þessu sinni. Því miður voru mótin ekki fleiri á árinu vegna Covid-19 en án efa hefði þá bæst eitthvað við verðlaunin hans því fyrir utan verðlaun á erlendis þá vann hann Íslandsmeistaratitil í U18 og U21 árs í fyrra og var þriðji á Íslandsmeistaramóti karla. 

Kjartan Logi Hreiðarsson Judomaður JR U21 árs 2020

Andri Fannar Ævarsson sem er 18 ára og keppir að öllu jöfnu í  -90 kg flokki var valinn efnilegasti Judomaður JR  2020. Hann sleit krossbönd um mitt ár í fyrra og missti því af fjölda móta það árið. Hann var sérlega duglegur að vinna í sinni endurhæfingu og fór í sjúkraþjálfun, tók lyftingaæfingar og æfði þrek og tækni eins og honum var fært og um leið og hann mátti var hann mættur á judo æfingu. Hann var ótrúlega fljótur að ná sér og var mættur til keppni í byrjun árs 2020. Hann sigraði örugglega á Afmælismóti JSÍ í febrúar 2020 í U21 í -90 kg flokki. Á Haustmóti JSÍ þurfti hann að keppa flokk uppfyrir sig og keppti því í -100 kg flokki en meiddist í fyrstu glímu og varð að hætta keppni en það voru þó ekki alvarleg meiðsli og er hann aftur mætur til leiks. Hann hefur verið einkar duglegur að mæta á aukaæfingar hvort heldur það eru lyftingaæfingar, þrek eða tækniæfingar og er hann öðrum til fyrirmyndar.

Andri Fannar Ævarsson – Efnilegasti Judomaður JR 2020

Gleðileg Jól

Það verður ein aukaæfing haldin milli jóla og nýárs hjá 11-15 ára og verður hún mánudaginn 28. desember frá kl. 17 til 18:30. Vonast til að sjá sem flesta. Gleðileg Jól.