Silfur á Baltic Sea Championships

Baltic Sea Championships fór fram dagana 4-5 desember og var það haldið í Orimatilla í Finnlandi. Mótið er eitt það sterkasta sem er haldið á Norðurlöndum og voru skráðir keppendur um fimm hundruð frá þrettán þjóðum. Frá Íslandi voru þátttakendur sex og kepptu tveir þeirra í U18 en hinir fjórir bæði í U21 árs og karlaflokki.

Matthías Stefánsson náði bestum árangri okkar keppenda en hann varð í öðru sæti í U21 árs aldursflokki í -90 kg. Hann keppti í fjögurra manna riðli og sigraði fyrstu tvo andstæðinga sína frá Finnlandi og Svíþjóð örugglega en tapaði gegn þeim þriðja, Karl Baathe frá Svíþjóð sem vann flokkinn. Til hamingju með árangurinn Matti.

Ingólfur Rögnvaldsson var ekki langt frá því að komast á verðlaunapall í U21 árs aldursflokki. Hann keppti í -66 kg þar sem keppendur voru nítján og því keppt með útsláttar fyrirkomulagi. Hann sigraði Pierre Vuillier frá Frakklandi í fyrstu viðureign en tapaði þeirri næstu gegn Olle Hermodsson frá Svíþjóð sem að sigraði flokkinn síðar um daginn. Ingólfur fékk því uppreisnarglímu og sigraði þar Rom Hovav keppanda frá Ísrael en tapaði svo fjórðu viðureign gegn Carl Kont frá Eistlandi sem glímdi því um bronsverðlaunin og vann en Ingólfur varð í sjöunda sæti.

Daníel Árnason keppti seinni keppnisdaginn í U21 árs aldursflokki í -60 kg og í þeim flokki voru tíu keppendur og því keppt með útsláttarfyrirkomulagi. Daníel sigraði fyrstu viðureign örugglega gegn keppanda frá Noregi, Mats Gerhardsen. Í næstu viðureign mætti hann frakkanum David Laborne sem sigraði en Daníel fékk uppreisnarglímu og mætti þar öðrum norðmanni Dennis Bjertnes en varð að játa sig sigraðan og endaði því í sjöunda sæti.

Þrátt fyrir að aðeins ofangreindir hafi unnið viðureignir á mótinu þá stóðu hinir íslensku keppendurnir sig vel gegn sínum andstæðingum og mátti litlu muna hvoru megin sigurinn lenti. Viðureignir voru hnífjafnar og töpuðust á síðustu sekúndum eða í gullskori eftir hörguglímu. Keppendur okkar að þessu sinni eru flestir að stíga sín fyrstu skref í mótum erlendis og hafa því litla keppnisreynslu enda meðalaldurinn aðeins 17 ár en þeir eiga svo sannarlega framtíðina fyrir sér. Hér er linkur á allra glímur okkar manna dagur 1 og dagur 2 og hér eru úrslit mótsins.

Matthías Stefánsson lengst til vinstri með silfur á Baltic Sea Championships 2021