Sveinbjörn hefur lokið keppni í Budapest

Þá eru tveir af þremur keppnisdögum lokið á GRAND SLAM HUNGARY 2020. Í 81 kg flokknum drógst Sveinbjörn Iura á móti Damian Szwarnowiecki frá Póllandi. Eins og við var búist þá var þetta hörku viðureign og jöfn og var Sveinbjörn síst lakari aðilinn þó svo að Damian hafi staðið uppi sem sigurvegari að loknum fullum glímutíma. Hér má sjá viðureignina og öll úrslit og neðar er umfjöllun sem tekin er af heimasíðu JSÍ af viðureign Sveinbjörns og Damian.

Sveinbjörn Iura og Damian Szwarnowiecki – Grand Slam Hungary 2020

Af heimasíðu JSÍ.

Budapest Grand Slam fór fram um helgina. Gert var hlé á mótaseríu Alþjóða Judosambandsins (IJF) vegna Covid-19 veirufaraldarins og var þetta fyrsta mótið í tæpa átta mánuði. Mótið var gríðar sterkt eins og venja er þegar um er að ræða Grand Slam mót. Keppendur voru 407 talsins frá 61 löndum. Karlar voru 256 og konur 151.

Sveinbjörn Jun Iura var eini fulltrúi Íslands og kepptí -81kg flokki. -81 kg flokkurinn var gríðar sterkur. 43 keppendur voru skráðir til leiks og er vert að taka fram að ellefu af tuttugu stigahæstu mönnum heimslista IJF voru meðal þátttakenda flokksins.

Sveinbjörn raðaðist upp á móti Damian Szwarnowiecki frá Póllandi í fyrstu umferð. Áttust þarna við tveir örvhentir Judomenn og einkenndist viðureign þeirra af mjög jafnri gripabaráttu. Hvorugur náði sterkum gripum en Szwarnowiecki sótti samt sem áður í veikar vinstri seonage sóknir sem skiluðu ekki skori, með þessu móti náði hann samt sem áður að draga Sveinbjörn í gólfglímu. Swarnowieck er gríðarlega góður gólfglímumaður og er aðallega þekktur fyrir sérstaka útfærslu af sangaku hengingartaki. Swarnowiecki gerði harða atlögu að Sveinbirni í gólfinu og var búinn að ná fastataki á einum tímapunkti en Sveinbjörn varðist vel og náði að losa sig. Glíman fór að miklu leiti fram í gólfglímu og átti Sveinbjörn tækifæri að snúa glímunni í gólfinu sér í vil. Þegar um tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma náði Swarnowiecki að skora wasaari með vinstra osoto-makikomi. Ekki var meira skorað í viðureigninni og dugaði því þetta Swarnowiecki til sigurs og var Sveinbjörn þar með úr leik. Hér má sjá glímu Sveinbjarnar og Swarnowiecki.

Búið að draga á Grand Slam Hungary

Þá er búið að draga á GRAND SLAM HUNGARY 2020. Í 81 kg flokknum eru 43 keppendur og drógst Sveinbjörn Iura á móti keppanda frá Póllandi, Damian Szwarnowiecki sem er í 42. sæti heimslistans. Þetta verður töff glíma og erfið því Damian er sterkur andstæðingur. Svo eitthvað sé tiltekið úr afrekaskrá hans þá varð hann Evrópumeistari árið 2012 í -73 kg flokki og bæði í U21 árs og U23 ára, hann varð í fimmta sæti á heimsmeistaramóti seniora í Baku 2018 og fékk bronsverðlaun á Marrakech Grand prix 2019.

Fyrsti keppnisdagurinn er á morgun föstudag og hefst keppnin kl. 8 að morgni á okkar tíma en á laugardaginn þegar Sveinbjörn keppir þá hefst það aðeins seinna eða kl. 9 og á hann fimmtu glímu. Hér er drátturinn og keppnisröðin og hér er hægt að fylgjast með í beinni útsendingu. Til að fylgjast með í beinni þarf að hafa IJF account hann er frír.

Sveinbjörn Iura -2018

Sveinbjörn keppir á Grand Slam í Budapest

GRAND SLAM HUNGARY 2020 hefst föstudaginn 23. október og stendur í þrjá daga. Þetta er fyrsta mót Alþjóða Judosambandsins (IJF) síðan í febrúar eða frá því að Coronuveirufaraldurinn reið yfir heimsbyggðina. Það eru miklar kröfur gerðar til þátttakenda hvað varðar smitvarnir og umgengni á mótsstað og hóteli. Meðal annars þurfa allir að framvísa vottorði um að hafa farið í tvær skimanair með 48 tíma millibili og hafa reynst neikvæðir og má vottorðið ekki vera eldra en fimm daga gamalt. Einnig er ekki heimilt að ferðast neitt nema á milli hótels og keppnisstaðar sem er við hlið hótelsins svo í raun eru allir þátttakendur í hálfgerðri sóttkví. Þátttakendur eru 408 allt heimsklassa keppendur sem koma frá 4 heimsálfum og 61 þjóðum, 256 karlar og 152 konur. Á meðal þátttakenda verður okkar maður Sveinbjörn Iura og mun Þormóður Árni Jónsson verða honum til aðstoðar. Sveinbjörn keppir á laugardaginn og hefst keppnin þá kl. 9 að morgni á okkar tíma. Dregið verður á fimmtudaginn en í 81 kg flokknum eru skráðir fjörtíu og níu keppendur. Dráttinn má sjá hér og keppnisröðina hér. Mótið verður í beinni útsendingu og fyrsti keppnisdagur er á föstudaginn og hefst kl. 8 að morgni á okkar tíma. Til að fylgjast með í beinni þarf að hafa (IJF account) hann er frír. Góða skemmtun.

Framlenging æfingahlés í JR

Í tilkynningu frá Almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins í gær segir meðal annars að sóttvarnaryfirvöld og almannavarnir hafa hvatt alla og höfuðborgarsvæðið sérstaklega til að halda áfram að koma í veg fyrir hópamyndun, nánd og blöndun aðila úr ólíkum áttum næstu vikur. Markmiðið er að draga úr dreifingu og vexti veirunnar og vinna gegn auknu álagi á heilbrigðiskerfið. Judofélag Reykjavíkur mun fara að þessum tilmælum og verður því áframhald á æfingahléi hjá félaginu. Til stendur að þessi ákvörðun verður endurskoðuð að viku liðinni, í takt við álit sóttvarnalæknis. Tilkynninguna má lesa hér.

Æfingahlé að beiðni yfirvalda

Vegna mikillar aukningar á Covid-19 smitum síðustu daga hafa Íþrótta­fé­lög verið hvött af yfirvöldum til að gera hlé á ­starfi sínu næstu tvær vik­urn­ar og mun Judofélag Reykjavíkur að sjálfsögðu fara að þeim tilmælum. Það verða því engar æfingar í JR í öllum flokkum fyrr en mánudaginn 19. október nema annað verði ákveðið í millitíðinni og verður það þá tilkynnt hér.

Keppnisíþróttir með snertingu áfram leyfðar

Judoæfingar eru áfram leyfðar með sama hætti og verið hefur. Það verða því æfingar á morgun og næstu daga samkvæmt stundaskrá þar til annað verður ákveðið.

Heil­brigðisráðherra hef­ur nú staðfest nýj­ar reglu­gerðir um tak­mark­an­ir á sam­komu­haldi og skóla­starfi sem kveða á um hert­ar aðgerðir til að sporna við út­breiðslu COVID-19. Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu en reglu­gerðirn­ar taka gildi á miðnætti.

Há­marks­fjöldi þeirra sem mega koma sam­an verður 20 manns, með nokkr­um und­an­tekn­ing­um þó.

Und­an­tekn­ing­ar frá 20 manna há­marki

Keppnisíþrótt­ir með snert­ingu verða leyfðar með há­marks­fjölda 50 ein­stak­linga að upp­fyllt­um til­tekn­um skil­yrðum.

Áhorf­end­ur á íþrótta­leikj­um: Óheim­ilt er að hafa áhorf­end­ur á íþróttaviðburðum inn­an­dyra. Ut­an­dyra er heim­ilt að hafa áhorf­end­ur, allt að 100 í hverju rými, að því gefnu að gest­ir sitji í núm­eruðum sæti sem skráð eru á nafn og noti and­lits­grímu.

Aðgerðir hertar vegna Covid-19 – Af heimasíðu UMFÍ

Reglur Judosambands Íslands um sóttvarnir vegna COVID-19 gildistími frá og með 28. september 2020 kl 09:00 til 18. október 2020 kl 23:59.

JSÍ reglur um sóttvarnir við Judoæfingar og keppni

Frá æfingu aldursflokks 11-14 ára í síðustu viku hjá Judofélagi Reykjavíkur
Mikael Ísaksson og Aðalsteinn Björnsson á Haustmóti JSÍ um helgina og Anna Zoé Thueringer í bakgrunni

JR með 10 gull á Haustmóti yngri 2020

Haustmóti JSÍ í yngri aldursflokkum (U13/U15/U18/U21 árs) fór fram í gær laugardaginn 3. október. Þátttakendur voru þrjátíu og fjórir frá fjórum klúbbum auk þess sem einn keppti undir merkjum JSÍ. Judofélag Reykjavíkur sendi tuttugu og tvo keppendur sem stóðu sig vel og uppskáru tíu gullverðlaun, átta silfur og tvenn bronsverðlaun. Margir okkar keppenda voru að keppa í fyrsta skipti og stóðu sig frábærlega en aðrir komnir með töluverða keppnisreynslu. Sjá mátti margar flottar viðureignir, sumar jafnar og spennandi en aðrar enduðu með öruggum sigri og jafnvel óvæntum. Sem betur fer er slysatíðni lág í judo en það kemur þó fyrir að einhver meiðist en Andri Fannar sem keppti í sameinuðum flokki -90/-100 kg lenti illa á öxl snemma í fyrstu viðureign og varð að hætta keppni en hann verður vonandi mættur aftur til leiks fljótlega.

Vegna Covid takmarkana voru engir áhorfendur leyfðir og voru skilaboðum um það komið á framfæri til iðkenda og í gegnum facebook og heimasíðu félagsins en auðvitað eins og gengur komust þau ekki til skila til allra. JSÍ ætlaði að að streyma beint frá mótinu þar sem áhorfendur voru ekki leyfðir en því miður gekk það ekki eftir vegna netvandamála. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður og skilyrða vegna covid reglna tókst mótið með ágætum.

Hér  eru úrslitin og myndir af verðlaunahöfum. Fleiri myndir og einnig video munu birtast á judo.is og facebook næstu daga.

Daron Hancock skorar ippon með flottu Osoto-gari í U15-66 kg flokki

Haustmót yngri – Mikilvægar upplýsingar

Vegna Covid-19 reglna þá verða áhorfendur því miður ekki leyfðir á mótinu á morgun. Til stendur að streyma beint frá mótinu sem hefst kl. 13:00 á YouTube ef hægt er og er þá tengillinn hér ef það gengur.

Allir keppendur og þjálfarar eiga að koma inn um inngang D sjá mynd hér að ofan. Girt verður fyrir alla umferð niður og upp úr keppnissalnum.

Eitt klósett er fyrir keppendur, bæði karla og konur og er það staðsett í búningsklefa karla.

Ekki er ætlast til að iðkendur noti búningsklefa. Heldur er mælt með að keppendur mæti klæddir í judogalla en einnig verður hægt að skipta um fatnað bakvið þar til gerð skilrúm í keppnissal.

Keppendur skulu halda sig á upphitunarsvæði á meðan mótið fer fram og fara þaðan á keppnisvöll þegar þeir eru kallaðir upp. Upphitunarsvæði mun skiptast í tvo hluta (U13 og U15) annarsvegar og (U18 og U21) hinsvegar.

Vigtun mun fara fram á upphitunarsvæðum og skulu keppendur halda sig á sínum upphitunarsvæðum á meðan vigtun stendur yfir.

Einnig er minnt á grímunotkun allra sem starfa við mótið. 

Sjá heimasíðu JSÍ